6.1.2011

Svikadeild Samfylkingar komin af stað gegn vinstri-grænum

Evrópuvaktin 6. janúar 2011


Frásagnir af þingflokksfundi vinstri-grænna 5. janúar sýna að ágreiningsmál eru óleyst. Lægsti samnefnari þingmannanna er að verja ríkisstjórnina falli. Sumir þeirra hafa hins vegar fullan hug á því að stöðva framgang einstakra stefnumála stjórnarinnar. Þar ber hæst andstöðu við aðild að Evrópusambandinu. Samfylkingin býr sig hins vegar undir að láta þá andstöðu ekki trufla sig í ESB-æðinu.

Enn hefur ekki tekist að afla því sjónarmiði nægilegs stuðnings á alþingi að skynsamlegra sé að binda enda á aðildarviðræður við ESB strax en glíma við aðildarvandann síðar. Ákvörðun um að hverfa frá viðræðuborðinu við ESB strax er einfaldari en um að snúast gegn niðurstöðu viðræðna eftir að miklum tíma, kröftum og fjármunum hefur verið varið til þeirra.

Ný könnun sýnir að aðeins að 7,1 prósent landsmanna telur mikilvægt að unnið sé að inngöngu í Evrópusambandið. Þetta er ótrúlega lítill stuðningur við helsta stefnumál Samfylkingarinnar. Þrátt fyrir hann hafa Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson náð slíkum heljartökum á Steingrími J. Sigfússyni og Árna Þór Sigurðssyni í ESB-málinu að þeir þora sig hvergi að hræra.

Megindeilan innan þingflokks vinstri-grænna snýst um ESB-fylgispekt Steingríms J. við Samfylkinguna. Þar hefur hann gengið gegn stefnu flokks síns og eigin yfirlýsingum fyrir kosningar til þess eins að verða ráðherra. Eyðimerkurganga hans í stjórnarandstöðu breyttist í þrautagöngu inn í ESB.

Samfylkingunni er ljóst að hún ræður ekki við ESB-málið með vinstri-grænum og því eru góð ráð dýr. Hér skulu fjögur nefnd:

Í fyrsta lagi er Eiríkur Bergmann Einarsson, spunaliði meðal háskólakennara, sendur fram á völlinn til að predika „þroskaða“ stjórnarhætti undir minnihlutastjórn. Í öðru lagi er Kolbrún Bergþórsdóttir, ESB-liði meðal blaðamanna Morgunblaðsins, virkjuð til að mana Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, til að ganga gegn ESB-ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Í þriðja lagi er biðlað til ESB-aðildarsinna í þingflokki framsóknarmanna með því að hampa Siv Friðleifsdóttur og Guðmundi Steingrímssyni. Í fjórða lagi er Jónína Rós Guðmundsdóttir, varaformaður þingflokks Samfylkingarinnar, send í fréttatíma RÚV með þann boðskap að stjórnarsáttmálinn sé skriflegur samningur sem stjórnarþingmönnum beri að virða.

Þessi fjögur ráð Samfylkingarinnar eru öll sama marki brennd: Á sama tíma og Steingrímur J. leggur höfuð sitt að veði innan eigin flokks til að sitja áfram í ríkisstjórn með Samfylkingunni er svikadeild Samfylkingarinnar önnum kafin við að finna hjáleið inn í ESB fram hjá ESB-andstæðingum meðal vinstri-grænna.

Samfylkingin ætlar að sigla áfram inn í ESB með Steingrím J. í því bandi sem dugar henni hverju sinni.