1.1.2011

Pólitísk þolmörk í þágu evru

Evrópuvaktin 1. janúar 2011


Eistlendingar verða í dag 1. janúar 2011 sautjánda þjóðin til að taka upp evru. Hin fyrsta þeirra þriggja þjóða í Evrópusambandinu sem áður voru hluti af Sovétríkjunum. Í pistli um afstöðu Eistlendinga til evrunnar sem Sveinn Eldon, hagfræðingur í Finnlandi, ritaði hér á síðuna á dögunum sagði meðal annars:

„Þrátt fyrir að tæpur helmingur landsmanna [Eistlendinga] vilji halda áfram notkun krooni, hefur enginn stjórnmálaflokkur haft það á stefnuskrá sinni. Þvert á móti hefur mikil samstaða verið meðal stjórnmálamanna um að brjóta alla andstöðu við gjaldmiðlaskiptin á bak aftur. Hafa sumir þeirra janfvel gengið svo langt að ala á þeirri úlfúð sem ríkir á milli eistnesku mælandi íbúa Eistlands og hinna rússnesku mælandi. Þriðjungur Eistlendinga hafa rússnesku að móðurmáli. Fylgismenn evrunar hafa gert því skóna að hinir rússneskumælandi óttist að landið fjarlægist sífellt Rússland og vilji því ekki upptöku á gjaldmiðli ESB. Þetta fólk vilji að Eistland sé leppríki Rússlands og sé þess vegna á móti evrunni.“

Eins og þarna er lýst ríkja sérstakar aðstæður í Eistlandi. Allir stjórnmálaflokkar telja miklu skipta fyrir sjálfstæði sitt gagnvart Rússum að tekin sé upp sam-evrópskur gjaldmiðill í landinu. Með því treysti Eistlendingar enn sjálfstæði sitt í ljósi sögu sinnar sem nágrannar hinna yfirgangssömu Rússa.

Með hliðsjón af þessari staðreynd er ástæða til að óska Eistlendingum til hamingju með hið stóra pólitíska skref, þótt efast megi um efnahagslegan ávinning þeirra af því að afsala sér eigin gjaldmiðli. Upptöku Eistlendinga á evru um þessi áramót verður að skýra út frá öðrum sjónarmiðum en þeim sem byggjast á peningalegum rökum. Þeir taka meiri áhættu og óvæntari en var í huga þeirra þegar upphafsskrefið var stigið.

Um sömu áramót og Eistlendingar slást í evru-hópinn berast fregnir frá Slóvakíu um að ráðamenn þar í landi velti fyrir sér, hvernig þeir geti skotið sér undan evrunni og fengið eigin gjaldmiðil að nýju. Þeim þyki síðfellt þungbærara að leggja auknar álögur á borgara eigin lands til að greiða skuldir óreiðuríkja.

Þegar vitnað til áramótaávarpa pólitískra leiðtoga stærstu evruþjóðanna Þýskalands og Frakklands, þeirra Angelu Merkel og Nicolas Sarkozys, staldra fjölmiðlamenn við heitstrengingar þeirra til stuðnings evrunni. Hvorugt segist ætla að hvika frá varðstöðu um hana. Þau láta þessi orð falla af því að þau vita að evran á undir högg að sækja. Þrátt fyrir margþættar aðgerðir í hennar þágu á árinu 2010 er framtíð hennar alls ekki örugg á árinu 2011.

Öllum er fyrir bestu að evru-þjóðunum takist að leysa alvarlegan gjaldmiðilsvanda sinn á árinu 2011. Pólitískum fórnum í þágu evrunnar eru þó takmörk sett. Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, þykir til dæmis upptaka evru of dýru verði keypt með ESB-aðild.

Sé eitthvað að marka áramótaheit forystumanna íslenskra stjórnmálaflokka um samráð og málamiðlanir til að þoka efnahags- og atvinnulífi til réttrar áttar, ætti fyrsta skrefið að felast í því að ýta umræðum um ESB-aðild og evru til hliðar.