9.12.2010

Steingrímur J. nýtur einskis trausts í Icesave-málinu

Evrópuvaktin leiðari 9. desember 2010.


Morgunblaðið birtir frétt 9. desember um að fjármálakreppan árið 2008 hafi afhjúpað alvarlega veikleika í evrópskri innistæðuvernd og grafið undan trú innistæðueigenda á fyrirheitið um ákveðna lágmarkstryggingu innstæðna í fjármálastofnunum. Þetta sé niðurstaða Tobiasar Fuchs, fræðimanns við Evrópska háskólann í Þýskalandi, í grein í desemberhefti lagatímaritsins EWS, Europäisches Wirtschafts- und Steuerrecht.

Greint er frá því, að Fuchs segi, að í regluverki Evrópusambandsins sé ekki kveðið á um að ríkissjóður tiltekins lands beri ábyrgð á því að nægt fé sé fyrir hendi í tryggingasjóðum innstæðna til að greiða lágmarkstryggingu. Tilskipun Evrópusambandsins 19/94/EC skuldbindi því ekki íslenska ríkið til að aðstoða tryggingasjóð innstæðna með því að leggja til fé. Fuchs lýsi jafnframt í greininni tilraunum og hugmyndum um að breyta regluverkinu til að bæta úr þessum galla á Evrópureglunum um innistæðutryggingar. Evrópusambandið hafi reynt að leyna því að innistæðutryggingakerfið væri ekki fullnægjandi. Breytingunum sé ætlað að sverfa af vankanta, sem Bretar og Hollendingar segi að ekki séu fyrir hendi í rökstuðningi sínum fyrir því að Íslendingar hafi brotið gegn reglunum um innistæðutryggingar.

Þessi frétt er enn einn rökstuðningurinn fyrir því að Íslendingum beri engin skylda að leggja á sig auknar skattbyrðar til að verða við kröfum Breta og Hollendinga um þjóðarábyrgð á Icesave-innistæðunum. Ábyrgðin miðist við greiðslugetu tryggingarsjóðsins og á honum sé ekki ríkisábyrgð sem unnt sé að velta yfir á skattgreiðendur.

Undanfarna daga hefur verið sett á svið sjónarspil af Steingrími J. Sigfússyni og RÚV með aðstoð Per Sanderud, forstjóra Eftirlitsstofunar EFTA (ESA) í Brussel vegna Icesave.

ESA sendi íslensku ríkisstjórninni áminningarbréf í 26. maí 2010 með þeirri lögfræðilegu niðurstöðu, að íslensk stjórnvöld hafi gert „greinarmun á innstæðueigendum í íslenskum útibúum og útibúum erlendis þegar gripið var til neyðarráðstafana í kjölfar bankahrunsins í október 2008.“ Var íslenskum yfirvöldum veittur tveggja mánaða frestur til að svara niðurstöðu ESA. Áminningarbréf er fyrsta skref ESA í EES-samningsbrotamálum. Slík mál geta leitt til þess, að höfðað verði mál fyrir EFTA-dómstólnum.

Íslenska ríkisstjórnin hefur ekki enn svarað þessu bréfi ESA. Hver fresturinn hefur verið veittur eftir annan en nú sýnist sá mælir fullur. Af bréfinu mátti ráða, að forráðamenn ESA gerðu sér enn vonir um, að unnt yrði að semja um Icesave-málið. Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, og Gylfi Magnússon, þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, töldu ESA hafa sent sér einskonar áskorun um að semja um Icesave í þriðja sinn.

Per Sanderud kom hingað til lands í júní til að fagna 50 ára afmæli EFTA. Þá reifst hann opinberlega við Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, um skyldur Íslendinga til að borga Icesave-reikningana. ESA-forsetinn fullyrti, að EFTA-dómstóllinn mundi dæma gegn Íslendingum í Icesave-málinu. Var ekki unnt að skilja orð hans á annan hátt en Íslendingar hefðu einfaldlega hlaupið á sig samkvæmt Evrópureglum og yrðu að látnir gjalda þess.

Hér hefur því verið haldið fram að með þessari afstöðu hafi Per Sanderud gert sjálfan sig og jafnvel alla Eftirlitsstofnun EFTA vanhæfa til að fjalla frekar um Icesave-málið. Steingrímur J. Sigfússon hefur hvorki haft þrek til að rísa gegn málflutningi né framgöngu ESA í málinu. Þeir Steingrímur J. og Sanderud hafa þess í stað kosið að skjóta sér á bakvið yfirlýsingar um að samningar séu að nást við Hollendinga og Breta. Steingrímur J. lætur sér það enn lynda að Sanderud sé með óbeinar ef ekki beinar hótanir í garð Íslendinga vegna málsins.

Engar hrakspár Steingríms J. Sigfússonar eða þeirra sem hafa lagt honum lið við hræðsluáróðurinn vegna Icesave hafa ræst. Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, lét í það skína að hann yrði var við einhver vandræði á sínum vettvangi vegna hins óleysta Icesave-máls. Af öllu mátti þó ráða, að þar talaði „his master‘s voice“ í þágu ríkisstjórnar sem er í öngstræti í Icesave-málinu.

Undir það skal tekið með Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, að Samtök atvinnulífsins eða aðilar vinnumarkaðarins eru ekki trúverðugir málsvarar neinnar niðurstöðu Steingríms J. í Icesave-málinu. Afstaða þessara aðila til Icesave-deilunnar hefur mótast af óskiljanlegri undirgefni og undanlátssemi.

Fyrsta Icesave-samning sinn ætluðu þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon að afgreiða umræðulaust í byrjun júní 2009, þegar Svavar Gestsson sagðist ekki nenna að sitja lengur við samningaborðið. Það er enn full ástæða til að sýna öllu sem frá þessu fólki kemur í Icesave-málinu fulla tortryggni, þau eru í raun óhæf til að fjalla um það ekki síður Per Sanderud, forstjóri ESA. Þeim var hafnað á eftirminnilegan hátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni 6. mars 2010.