4.6.2011

Össur ætlar ekki að víkja „of langt“ frá vilja alþingis í ESB-málum - hætta á ferðum

Evrópuvaktin leiðari 4. júní 2011




Togstreitan innan ríkisstjórnarinnar og stjórnarráðsins vegna umsóknarinnar um aðild að Evrópusambandinu birtist í ýmsum myndum. Á Stöð 2 hefur tveimur þeirra verið lýst. Í fyrsta lagi ágreiningi um samningsmarkmið á sviði landbúnaðarmála og í öðru lagi deilum um uppsetningu á tölvukerfi fyrir nýtt tollkerfi. Sagði fréttamaður Stöðvar 2 að þetta nýja tölvukerfi væri ófrávíkjanlegt skilyrði aðildar að Evrópusambandinu.

Að því er landbúnaðarmálin varðar snýst ágreiningurinn um stefnuna sjálfa. Það liggja með öðrum orðum ekki fyrir nein sameiginleg markmið af hálfu íslenskra stjórnvalda í landbúnaðarmálum. Markmið Samfylkingarinnar hefur verið að ýta Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, til hliðar í von um að þá náist sátt um málið í ríkisstjórn. Á meðan þau áform ná ekki fram að ganga hefur utanríkisráðuneytið einfaldlega tekið að sér að reka erindi Evrópusambandsins innan stjórnarráðsins.

Til að setja þennan erindrekstur í lögmætan búning segir Össur Skarphéðinsson í samtali við Stöð 2 að hann sé að gæta sjónarmiða alþingis. Þingmönnum hafi verið kunnugt um andstöðu bænda við aðild að ESB og þeir hafi rætt leiðir til „bæta stöðu bænda“. Össur segist vinna í samræmi við þessa afstöðu þingmanna og það sé „ekkert erfitt“ þegar hann hafi „svona skýran leiðarvísi“. Hér er ástæða til að staldra við og spyrja: Hvaða leiðarvísi? Bændur hafa sett fram skýrar kröfur. Búnaðarþing samþykkti varnarlínur á þingi sínu í mars. Er Össur Skarphéðinsson að vísa til þeirra? Um hvaða leiðarvísi er hann að ræða?

Í samtali Össurar við Stöð 2 vegna landbúnaðarmálanna og ESB kemur meira fram. Hann segir:

„Það sem ég þarf hins vegar að gæta að er að fara ekki of langt gegn vilja þingsins í einstökum m„álum þannig að ég missi trúnað þess. Í þessu tilviki er því ekki til að dreifa vegna þess að álit þingsins í þessu tiltekna máli liggur alveg skýrt fyrir.“

Hér er ástæða til að vekja athygli á orðunum um að Össur segist verða að gæta að því „að fara ekki of langt frá vilja þingsins“. Þetta eru einkennileg ummæli í ljósi þess sem Össur segir þegar hann lýsir sér sem þjóni þingsins í ESB-málum. Þarna talar hann um að hann megi víkja frá vilja þingsins en þó ekki „of langt“ vilji hann halda trúnaði þess. Trúnaði Árna Þórs Sigurðssonar, formanns utanríkismálanefnda alþingis, sem hefur svikið stefnumál eigin flokks, vinstri grænna, í ESB-málum?

Lokasetningin um hina skýru stefnu alþingis í landbúnaðarmálum og þess vegna sé engin hætta á ferðum við málsmeðferð Össurar er dæmigerð fyrir blekkingarvaðalinn í ESB-málum undir merkjum utanríkisráðherra. Hver er hin skýra stefna alþingis? Hvers vegna telja embættismenn ESB að íslenskir viðmælendur þeirra hafi samþykkt að leggja ESB-löggjöfina til grundvallar í frekari viðræðum? Hefur alþingi samþykkt það?

Frétt Stöðvar 2 um stöðu íslenskra landbúnaðarmála gagnvart ESB afhjúpar hefðbundna tvöfeldni Össurar Skarphéðinssonar þegar að honum er saumað. Í minni málum geta menn blásið á slíka pólitíska framgöngu. Þegar um er að ræða framtíð íslensks landbúnaðar er annað og meira í húfi en svo að við þessa stjórnarhætti verði unað. Bændur hafa lýst skoðun sinni. Hún er skýr og afdráttarlaus. Undir forystu Árna Þórs Sigurðssonar er taumhaldið við stefnumótunina þannig að Össur Skarphéðinsson fer aldrei „of langt“ þegar hann gengur erinda Evrópusambandsins.