31.1.1998

STEF 50 ára

Stef 50 ára - hátíð í Þjóðleikhúsinu
31. janúar 1998

Sagan segir, að Stef hafi orðið til út í París, þar sem nokkrir höfundar sátu við mat og drykk í veitingahúsi en gátu ekki borgað, þegar til kom. Þá sagði einn höfundanna við veitingaþjóninn: "Ja, hvað eigum við að vera borga? Þið spilið okkar lög og syngið okkar vísur án endurgjalds," og svo fóru þeir allir út. Gestgjafinn stefndi þeim, en tapaði málinu.

Þessi sögulegi atburður gerðist um miðja síðustu öld. Söguna, í þessum búningi, hef ég úr viðtali Matthíasar Johannessens skálds og ritstjóra við Jón Leifs. Rakti Jón það meðal annars til þessa atburðar, að alltaf var töluð franska á alþjóðlegum Stef-fundum og sjálfur lagði hann á sig að læra frönsku til að geta sinnt störfum fyrir Stef. Raunar taldi Matthías að á þessum tíma, árið 1959, væri Jón sennilega þekktari meðal Íslendinga sem fjármálamaður en tónskáld og rakti það til starfa Jóns fyrir Stef.

Um leið og þetta er rifjað upp, skal jafnframt vitnað til Sigurðar Reynis Péturssonar hæstaréttarlögmanns, sem var um árabil framkvæmdastjóri Stefs. Hann telur óhætt að fullyrða, að án höfundarréttarsamtaka væri höfundaréttur bæði hér og erlendis býsna magur og lítt arðgefandi fyrir höfunda. Segir Sigurður, að höfundalög til verndar tónhöfundum, sem sett voru hér fyrst árið 1905, hafi verið dauður bókstafur, þar til Stef var stofnað fyrir 50 árum. Hafi Stef þegar í upphafi orðið mjög óvinsælt af öllum almenningi og ekki hafi fengist greidd nein höfundalaun nema með málaferlum. Jón Leifs hafði á orði við Matthías, að málareksturinn vegna Stefs kæmi í veg fyrir, "að maður geti sofið eins og séntilmaður".

Þessi brautryðjendatími Stefs er liðinn fyrir löngu. Minnumst þess að þau meginsjónarmið liggja höfundarétti til grundvallar, að efla menningarlíf þjóða með því að gera höfundum kleift að njóta fjárhagslegs ábata af listsköpun sinni. Síðan vegast á hagsmunir höfunda og almennings að fá notið hugverkanna. Eru í senn gerðar kröfur til framkvæmdavalds og dómsvalds að finna meðalveginn.

Vegna nýlegra dóma um Stefgjöld vegna tónlistar, sem er flutt í útvarpi hjá bílasölum eða hárgreiðslumeisturum, hefur til dæmis verið skorað á menntamálaráðherra að beita sér fyrir endurskoðun laga og reglna á þessu sviði. Er mikilvægt, að samtök, sem starfa í skjóli laga beiti rétti sínum af hófsemd og sáttfýsi. Kröfur um þetta efni eru sífellt að aukast. Helsta gagnrýnisefni á stjórnmálamenn er, að þeir séu of hallir undir sérhagsmuni.

Strax á fyrsta ári heimastjórnar á Íslandi, eftir að íslenskur ráðherra tók til starfa í landinu sjálfu árið 1904, var gengið til þess verks að undirbúa frumvarp til laga um réttindi höfunda og listamanna. Við höfum því langa hefð fyrir því í stjórnsýslu okkar, að stjórnarráðið og Alþingi beiti sér fyrir aðgerðum til verndar höfundarétti. Því má raunar halda fram að lög um höfundarétt sé elsta og jafnframt ein merkasta löggjöf á sviði íslenskra menningarmála og mikilvægur stuðningur ríkisvaldsins við listir í landinu.

Það verður æ flóknara að gæta höfundaréttar eftir því sem miðlum fjölgar og tækifærum til að breiða út eigin verk og annarra. Tækniþróunin hefur samhliða samtakamætti höfundanna sjálfra, knúið á um þessa gæslu allt frá dögum fyrstu prentsmiðju Gutenbergs.

Tæknin til að koma höfundaverkum á framfæri verður sífellt fullkomnari. Tónlist, kvikmyndir og prentað mál verður tiltækt við fingurgóma þess, sem slær á tölvuna og kallar það fram, sem hugurinn girnist. Höfundaverkin taka einnig á sig nýjar myndir með hugbúnaði og forritum.

Við nútíma aðstæður hlýtur löggjöf einstakra landa að mótast æ meira af alþjóðlegum reglum. Þróunin er einnig í þessa átt og ríki eru tilbúin til að grípa til róttækra ráðstafana í samskiptum sínum til að tryggja höfundarétt borgara sinna. Er skemmst að minnast yfirlýsinga um viðskiptastríð Bandaríkjamanna og Kínverja, ef hinir síðarnefndu virtu ekki höfundarétt bandarískra borgara í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.

Íslensk höfundalöggjöf er í stöðugri endurskoðun og það hefur verið lögð áhersla á að hún sé í samræmi við mikilvæga alþjóðlega sáttmála. Við erum aðilar að helstu sáttmálum á þessu sviði. Ég hef í samráði við ríkisstjórnina óskað eftir því við utanríkisráðherra að gengið verði formlega frá aðild Íslands að nýjustu gerð Bernarsáttmálans, en hann er elsti alþjóðasamningurinn um höfundarétt frá árinu 1886.

Góðir áheyrendur.

Enn skiptir jafnmiklu og áður, að í hópi höfunda séu framsýnir og stefnufastir menn, sem hafi forystu um sanngjarna gæslu hins lögverndaða réttar.

Geri menn sér þá mynd af Stefi að það hafi hangið í pilsfaldi stjórnvalda eða skotið sér á bakvið þau í hita leiksins, er það mikill misskilningur. Forráðamenn Stefs hafa staðið fast á rétti sínum og sinna manna.

Barátta Stefs hefur skilað glæsilegum árangri. Stef hefur ekki heldur látið við það eitt sitja að afla tekna fyrir félagsmenn sína. Sambandið hefur hlúð að íslenskri tónmenningu á ýmsa lund, meðal annars með því að veita frábærum íslenskum og erlendum listamönnum viðurkenningu.

Fyrir allt þetta er þakkað með innilegum hamingjuóskum á þessum merku tímamótum.