18.11.1995

Haustþing kennara í Reykjavík og á Reykjanesi

Ræða á fundi svæðafélaga kennarafélaga í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi
Háskólabíó 18. nóv. 1995.

Góðir áheyrendur!

Frumkvæði kennarafélaganna í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi að þessum fundi er lofsvert og tímabært.

Meiri breytingar eru að verða á íslensku þjóðfélagi en við skynjum í daglegu amstri okkar. Við þurfum meiri fjarlægð til að átta okkur nákvæmlega á því í hverju breytingarnar eru fólgnar, hvað það er, sem lifir, og hvað hverfur af því, sem okkur þykir merkilegast í samtímanum. Við stöndum í raun frammi fyrir svo miklum andstæðum að einsdæmi er fyrir Íslendinga, ekki síst vegna þeirrar staðreyndar, að fjarlægðir eru hættar að hafa sömu áhrif á líf okkar og búsetu og áður. Þetta skapar okkur í senn ný tækifæri og gerir nýjar kröfur. Við getum betur haldið á loft sérkennum okkar gagnvart öðrum en þurfum jafnframt að verjast nýrri áreitni. Þótt við deilum um margt erum við þó sammála, um að varðveita og styrkja það, sem íslenskt er. Í því efni gegna góðir kennarar og skólar lykilhlutverki.

Um þessar mundir eru að vera miklar breytingar á tveimur skólastigum og á háskólastiginu er nýr uppeldisháskóli í mótun. Á kjörtímabilinu verður einnig að ráðast í að semja nýjar námskrár, þar sem þess er talin þörf, fyrir grunnskóla- og framhaldsskólastigið.

Fyrir utan þessar beytingar, sem snerta umgjörð skólastarfsins er einnig hugað að innviðunum með öðrum hætti en áður. Nýjar hugmyndir um stjórnun, svonefnda gæðastjórnun, eru að ryðja sér rúms innan skóla. Til að þær nái að þróast þurfa markmiðin að vera skýr. Þau er að finna í nýrri menntastefnu, lögum og lagafrumvörpum og verkefnaáætlun, sem menntamálaráðuneytið er að móta.

Sinna verður óskum um meiri upplýsingar um skólastarf. Áherslan eykst á samræmd próf og framkvæmd þeirra verður breytt í samræmi við óskir umboðsmanns barna.

Innan menntamálaráðuneytisins er verið að móta stefnu um notkun upplýsingatækni í skólastarfi. Þar stöndum við Íslendingar tiltölulega vel að vígi vegna frumkvæðis og hæfni kennara til að nýta þessa nýju tækni.

Af þessu stutta yfirliti má sjá, að síður en svo ríkir kyrrstaða í íslensku menntakerfi. Raunar væri nær að segja, að þar sé allt á fleygiferð. Um leið og viðurkennt er, að við slíkar aðstæður beri að fara með gát, svo að engin slys verði, er ástæða til að vara við því, að menn láti stjórnast af tregðulögmálinu einu saman. Að mínu mati er töluverð hætta á, að það lögmál vegi þyngra en djarfhuga ákvarðanir, þegar leitast er við að ná víðtæku samkomulagi.

Allt frá því að ný lög um grunnskóla voru samþykkt á Alþingi í febrúar á þessu ári hefur verið unnið markvisst að því að fylgja þeim eftir og koma í framkvæmd. Kjarni hinna nýju grunnskólalaga er sú ákvörðun, að sveitarfélög taki alfarið við ráðningu kennara og skólastjórnenda og launagreiðslum til þeirra svo og að sérfræðiþjónusta, sem hefur verið í verkahring fræðsluskrifstofa, færist yfir til sveitarfélaga.

Fyrsta stóra verkefnið eftir samþykkt laganna var að gefa út reglugerð samkvæmt ákvæði í 57. grein þeirra. Reglugerðin kom út í júní-mánuði og segir til um það hvaða greinar laganna komu til framkvæmda þá þegar og hvaða greinar koma til framkvæmda síðar og í síðasta lagi 1. ágúst 1996.

Um svipað leyti skipaði ég sérstaka verkefnisstjórn til að hafa yfirumsjón með flutningi grunnskólans til sveitarfélaga, fylgja áætlunum eftir og samræma aðgerðir. Samtímis voru skipaðar þrjár sérnefndir til að fjalla um og gera tillögur um ákveðna málaflokka. Ein nefndin fjallar um breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga, önnur um réttindamál kennara og skólastjórnenda og sú þriðja um fyrirkomulag sérfræðiþjónustu á vegum sveitarfélaga.

Nefndirnar þrjár hafa unnið ötullega að sínum málaflokkum og hinn 9. október skiluðu þær áfangaskýrslum til verkefnisstjórnar og formenn nefndanna gerðu grein fyrir stöðu mála. Nefndin sem fjallar um fyrirkomulag sérfræðiþjónustu skilaði tillögum sínum í lokaskýrslu 24. október. Nefndin mun þó starfa áfram og vera Sambandi íslenskra sveitarfélaga og verkefnisstjórn til ráðuneytis og aðstoðar um skipan þeirra mála sem hafa verið á verksviði fræðsluskrifstofa. Nefndin sem fjallar um kostnað og tekjustofna getur eðli málsins samkvæmt ekki lokið störfum fyrr en hinar nefndirnar hafa skilað af sér, enda kunna tillögur þeirra að fela í sér nýjar forsendur fyrir útreikningum. Nefndin sem fjallar um réttindamál kennara og skólastjórnenda er vafalaust að glíma við erfiðasta og flóknasta verkefnið.

Ég hef ekki orðið var við annað en einlægur áhugi sé hjá öllum, sem að þessu máli vinna, á því að takmarkið náist, grunnskólinn flytjist til sveitarfélaganna 1. ágúst 1996. Starfi menn áfram með því hugarfari tekst að ná þessu mikilvæga markmiði.

Á þessari stundu er ekki við hæfi, að ég fjalli um einstök úrlausnarefni, sem snerta samskipti þeirra þriggja aðila, sem einkum koma að lokaákvörðunum vegna flutnings grunnskólans. Fulltrúar kennara, sveitarfélaga og ríkisins sitja enn á rökstólum og að lokum þarf að komast að samkomulagi. Kröfur eru og verða gerðar á hendur ríkinu. Við þeim verður brugðist, þótt ég geri það ekki hér og nú, enda er málið ekki komið á það stig, að ljóst sé, hvað út af stendur og kemur til kasta okkar stjórnmálamannanna.

Ég vil ekki leyna þeirri skoðun minni, að þunginn að því er varðar ákvarðanir um framtíð grunnskólans hefur nú þegar að nokkru leyti flust og er markvisst að flytjast frá ríkinu til sveitarfélaganna. Þetta á til dæmis við um launamál ykkar kennara. Þið hugið nú að því, hvernig sveitarfélögin ætla að taka á kröfum ykkar. Allt er þetta til marks, um að vilji þeirra, sem að flutningi grunnskólans koma, stendur til þess að verkefnið takist innan samþykktra tímamarka.

Frumvarp til nýrra framhaldsskólalaga er nú hjá menntamálanefnd Alþingis. Það hefur raunar verið þar síðan 2. nóvember síðastliðinn. Nefndin leitar nú umsagna og frumvarpið kann að taka einhverjum breytingum í meðferð hennar.

Að mínu áliti er orðið tímabært að samþykkja framhaldsskólafrumvarpið. Dráttur á því yrði til þess eins að skapa óvissu á þessu mikilvæga skólastigi, þar sem unga fólkið er að leggja grunn að starfsferli sínum. Eftir að það var fyrst lagt fram vorið 1994 hefur það tekið nokkrum breytingum.

Ég hef átt þess kost að ræða frumvarpið ítarlega á fundi með fulltrúum framhaldsskólanemenda af öllu landinu á Akureyri um síðustu helgi. Í þeim umræðum kom ekkert fram, sem mér finnst mæla gegn samþykkt frumvarpsins. Hið sama er mat mitt eftir fund með skólameisturum um málið í gær.

Mér hafa ekki verið kynntar samþykktir aðalfundar Hins íslenska kennarafélags í síðustu viku um framhaldsskólafrumvarpið. Af fréttum í fjölmiðlum ræð ég, að þar sé ekki heldur um neinar málsástæður að ræða, sem ættu að verða frumvarpinu að aldurtila. Að því er snertir starfsréttindi kennara ber að hafa í huga, að endurskoðun á þessum réttindum nær til allra ríkisstarfsmanna. Má ég loks minna á, að í kjarasamingum á almennum markaði á síðastliðnum vetri varð það sameiginleg niðurstaða aðila vinnumarkaðarins að hvetja til þess, að framhaldsskólafrumvarpið næði fram að ganga.

Framhaldsskólafrumvarpið gerir ráð fyrir svonefndum kjarnaskólum, sem veita skulu grunnmenntun til undirbúnings starfa í viðkomandi starfsgrein og hafa með höndum endurmenntun í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Kjarnaskóli þarf að uppfylla tiltekin skilyrði að því er varðar húsnæði og búnað og þar þurfa að starfa vel menntaðir stjórnendur, kennarar og aðrir starfsmenn. Skólinn þarf að vera það vel búinn, að hann geti að öllu leyti séð um menntun á sínu sviði og brautskráð nemendur með fyllstu réttindi, sem unnt er að fá í skóla. Þessum áformum verður ekki komið í framkvæmd, án þess að menntamálaráðuneytið taki af skarið. Til að undirbúa þá ákvörðun hefur ráðuneytið nú sent hugmyndir sínar til skólanna.

Framhaldsskólastigið hefur þróast í ýmsar áttir. Margt er þar óljóst og meðal annars til að auka gegnsæi hefur menntamálaráðuneytið sent frá sér til umræðu skýrslu um verkaskiptingu milli framhaldsskólanna. Er skýrslan nú til umræðu í skólunum og hefur vakið athygli utan þeirra. Finnst mér, að tilgangurinn með dreifingu skýrslunnar hafi náðst.

Síðan bíður það okkar að taka ákvarðanir í ljósi þeirra viðbragða, sem skýrslan fær, og með hliðsjón af þeim kröfum, sem eðlilegt er að gera, þegar nýting opinberra fjármuna frá skattgreiðendum er höfð í huga.

Í menntamálaráðuneytinu er hafin vinna við að endurskoða "lög um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra" frá 1986. Í bráðbirgðarákvæði þessara laga er ákvæði um að þau skuli endurskoðuð innan fjögurra ára frá gildistöku þeirra. Það var í sjálfu sér gert 1990 og var þá lagt fram frumvarp til nýrra laga sem ekki náði fram að ganga. Það er því fyrir löngu tímabært, að þessi lög verði endurskoðuð, ekki síst með tilliti til þess, að fram hafa komið ýmsir vankantar við framkvæmd þeirra.

Að ósk fulltrúa kennarafélaganna og fjármála-ráðuneytis í samstarfsnefnd þessara aðila um kjaramál hefur menntamálaráðuneytið samþykkt breytingar á námsmatsnefnd. Hún verður framvegis skipuð einum fulltrúa tilnefndum af kennarafélögunum, öðrum af fjármálaráðuneyti og formanni tilefndum af menntamálaráðuneyti. Þarf þá ekki tvær nefndir eins og nú er samkvæmt kjarasamningum. Með þessari breytingu er stefnt að því að auðvelda samræmt námsmat, sem er mikilvægt eftir að grunnskólinn flyst til sveitarfélaganna.

Mér finnst oft skorta á sanngirni og umburðarlyndi í opinberum umræðum um skólamál. Skiljanlegt er, að menn skipi sér í fylkingar, þegar tekist er á um ágreiningsmál. Undan því verður aldrei vikist og átök eru oft nauðsynleg til að ná markmiði sínu. Þess á milli eiga menn hins vegar að vera til þess búnir að taka höndum saman um það, sem til framfara horfir.

Skólarnir eru fjölmennustu vinnustaðir þjóðarinnar. Þið ágætu kennarar haldið uppi virðingu þeirra, eruð þar verkstjórar og til ykkar er litið, þegar hugað er að framförum þeirra, sem þið kennið. Mikið er í húfi, þegar litið er til árangurs af starfi ykkar. Ekkert er neinni þjóð dýrmætara en æska hennar og að hún komist til nokkurs þroska.

Góðir áheyrendur!

Á þeim skamma tíma, sem ég hef starfað sem menntamálaráðherra, hefur mér gefist kostur á að heimsækja nokkra skóla bæði hér á þessu svæði og landsbyggðinni. Ég hef alltaf komið bjartsýnni úr slíkum heimsóknum, af því að ég hef sannfærst um hinn mikla metnað, sem skólastjórnendur og kennarar leggja í að ná árangri í starfi sínu. Umbúnaður skólastarfsins er vissulega mismunandi og víða er búið við of þröngan kost. Umgengni er hins vegar að jafnaði til fyrirmyndar og viljinn til að sækja fram. Einnig verður vart við heilbrigðan keppnisanda og umhyggju fyrir skólanum og nemendunum. Að mínu mati skiptir þetta ekki minnstu máli, því að með þessum hætti er lagður grunnur að hinum rétta skólabrag eða skólaanda. Á miklum breytingatímum finnst mér því ástæða til að lýsa yfir trausti á kennara og íslenska skólakerfið. Markmiðið hlýtur að vera, að áfram geti það staðið með reisn undir þeim miklu kröfum, sem til þess eru gerðar.