31.1.1998

R-listinn og Listaháskóli í Reykjavík - Morgunblaðið

R-listinn og Listaháskóli í Reykjavík.
Grein í Morgunblaðinu 31. janúar 1998

Frambjóðendur í prófkjöri R-listans hafa meðal annars lýst áhuga á stuðningi við háskóla í Reykjavík segir Björn Bjarnason en telur þann stuðning ekki ná til Listaháskóla í Reykjavík.

Prófkjör R-listans fer fram í dag. Undanfarna daga hafa frambjóðendur í því vakið athygli á sér á ýmsum forsendum. Þetta á þó ekki við um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarstjóra, enda er hún ekki í framboði í prófkjörinu, því að sæti hennar er fyrirfram ákveðið og hún stendur utan og ofan við prófkjörið.

Athygli mín hefur sértsaklega beinst að því sem frambjóðendur hafa að segja um mennta- og skólamál, enda tel ég, að þau setji æ meiri svip sinn á sveitarstjórnarmál, eftir að grunnskólinn fór frá ríkinu til sveitarfélaga. Framhaldsskólinn og háskólinn eru hins vegar áfram í höndum ríkisins.

Framhaldsskólar

Alls staðar utan Reykjavíkur leggja sveitarfélög verulega mikið af mörkum til framhaldsskóla. Á síðasta kjörtímabili fyrir valdatöku R-listans í Reykjavík og vinstri manna í Mosfellsbæ, sömdu ríki, Reykjavíkurborg og Mosfellsbær um að reisa Borgarholtsskóla. Hefur það gengið eftir og starfar skólinn nú með miklum ágætum í Grafarvogi. Á hinn bóginn hefur Reykjavíkurborg undir stjórn R-listans verið ófáanleg til að taka þátt í framkvæmdum eða endurnýjun húsnæðis við Menntaskólann í Reykjavík og Menntaskólann við Hamrahlíð, tvo elstu framhaldsskólana í höfuðborginni. Þrátt fyrir afstöðu R-listans gagnvart þessum skólum hefur Alþingi ákveðið að verja um 80 milljónum króna úr ríkissjóði í ár til endurnýjunar á húsakosti MR og 15 milljónum króna til þess að reisa íþróttahús við MH.

Háskólar

Á síðasta kjörtímabili í Reykjavík, fyrir valdatöku R-listans, varð að samkomulagi að stofna Listaháskóla í Reykjavík með þátttöku Reykjavíkurborgar. Síðan gerist það eftir að R-listinn nær völdum, að borgarstjóri og embættismenn hennar lýsa Listaháskóla alfarið verkefni ríkisins, sem komi Reykjavíkurborg ekki við. Öll viðleitni meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur hefur miðast við að losna undan afskiptum af hinum nýja skóla.

Eins og áður sagði fer nú fram prófkjör R-listans og biðla frambjóðendur til kjósenda á ýmsum forsendum.

Í Morgunblaðinu 27. janúar sl. birtist grein eftir Árna Þór Sigurðsson, borgarfulltrúa R-listans úr Alþýðubandalaginu, undir fyrirsögninni Háskólinn og Reykjavík. Þar segir meðal annars: "Núverandi meirihluti Reykjavíkurlistans hefur í verki sýnt jákvæðan hug sinn til Háskólans og viðurkennt mikilvægi menntunar fyrir borgina og mættu margir opinberir aðilar taka Reykjavík sér til fyrirmyndar í þessu efni.³

Því miður blasir þessi mynd ekki við þeim, sem unnið hafa að málefnum framhaldsskólannna og að því að stofna Listaháskóla í Reykjavík undanfarin ár. Þar hefur Reykjavík síður en svo verið til fyrirmyndar heldur dregið lappirnar og beint umræðum inn á þá braut, að hún hafi engum skyldum að gegna vegna háskóla auk þess séu henni settir ósanngjarnir kostir með því að standa að Myndlistar- og handíðaskólanum og Tónlistarskólanum í Reykjavík. Hefur borgin einhliða dregið úr fjárveitingum til Tónlistarskólans, stjórnendum hans til mikilla vandræða.

Í nýútkomnu Stúdentablaði ræða Hrannar B. Arnarson, Guðjón Ólafur Jónsson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Sigrún Elsa Smáradóttir, Magnea Marinósdóttir og Helgi Hjörvar frambjóðendur í prófkjöri R-listans fjálglega um Reykjavík sem háskólaborg. Hinn síðastnefndi segir: "Reykjavíkurlistinn hefur á skömmum tíma sýnt skilning á mikilvægi háskólaborgarinnar.³

Æskilegt væri að þessir nýju frambjóðendur kynntu sér viðhorf R-listans til Listaháskóla í Reykjavík, þar sem gert var ráð fyrir virkri þátttöku Reykjavíkurborgar fyrir valdatöku listans. Síðan R-listinn fékk meirihluta í borgarstjórn hefur Reykjavík lagt höfuðkapp á að þurfa ekki að koma nærri þeim háskóla.

Höfundur er menntamálaráðherra.