11.11.2010

Íslenska utanríkis­ráðuneytið heimtar sérlausn í ESB-aðildarviðræðum

Evrópuvaktin 11. nóvember 2010 - leiðari




Utanríkisráðuneytið hefur svarað fyrirspurnum Evrópuvaktarinnar. Ráðuneytið tók sér tvær vikur til að svara spurningunum sem snerust um þætti í þeim ramma sem framkvæmdastjórn ESB hefur mótað um viðræður sínar við Ísland. Sendi ráðuneytið Evrópuvaktinni ekki svör sín fyrr en eftir að framkvæmdastjórn ESB hafði birt áfangaskýrslu um framvindu viðræðna hennar við einstök umsóknarríki.

Að utanríkisráðuneytið hafi kosið að draga svör sín fram yfir útgáfu á skýrslu ESB kemur ekki á óvart þegar svörin eru lesin, því að í raun segist utanríkisráðuneytið óbundið af þeim ramma sem ESB hefur sett viðræðunum. Ramminn byggist á einhliða ákvörðun ESB og hafi ekki verið samþykktur af íslenskum stjórnvöldum.

Miðað við efni viðræðurammans og þær kröfur sem leiðtogaráð ESB gerir í þessu efni um jafnræði milli umsóknarríkja verður ekki annað séð en íslenska utanríkisráðuneytið segi sig úr viðræðuleik við ESB, þar til skýrt liggi fyrir af hálfu ESB, að framkvæmdastjórn þess og eftir atvikum ráðherraráðið fallist á þessa túlkun ráðuneytisins. Er það svo í raun, að framkvæmdastjórn ESB líti á viðræðurnar við Ísland sem einskonar óskalista af sinni hálfu gagnvart íslenskum stjórnvöldum eða matseðil sem lagður sé fyrir embættismenn íslenska utanríkisráðuneytisins? Það sé þeirra að velja rétti af honum en ekki gleypa allt, sem á listanum stendur?

Ástæðu þess að Evrópuvaktin lagði spurningar sínar fyrir utanríkisráðuneytið má rekja til misvísandi fullyrðinga um efni og eðli ESB-viðræðnanna. Af hálfu ESB liggur fyrir að um aðlögunarviðræður er að ræða. Ísland hefur sótt um aðild að ESB, Ísland fær ekki aðild nema að laga sig að kröfum ESB. Þetta er einfalt. Telji Ísland sér ekki fært að laga sig að þessum kröfum verður kannað, hve langan frest á að gefa Íslandi til að fullnægja kröfunum. Þetta er skýrt. Af Íslands hálfu er talað um sérlausnir. Þær hafa til þessa snúið að sjávarútvegi og landbúnaði. Eftir svar utanríkisráðuneytisins til Evrópuvaktarinnar um viðræðurammann vill íslenska utanríkisráðuneytið einnig sérlausn vegna viðræðurammans.

Svar utanríkisráðuneytisins hlýtur að koma viðmælendum þess innan ESB í opna skjöldu við upphaf svonefndrar rýnivinnu sem byggist á því að ESB setur kvarða sinn á íslenska löggjöf og krefst breytinga á henni falli hún ekki innan kvarðans. Lítur íslenska utanríkisráðuneytið á þetta sem einhliða kröfu af hálfu ESB sem Ísland hafi ekki samþykkt?

Svar utanríkisráðuneytisins vekur minni undrun innan lands en í Brussel. Ástæðan er sú, að öllum er ljóst að utanríkisráðuneytið er á hröðu undanhaldi undan almenningsálitinu. Ráðuneytið bognar undan gagnrýni á málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í viðræðuramma ESB og ákveður einfaldlega að hlaupast undan ESB-merkjunum. Í því birtist hins vegar tvískinnungur af hálfu ráðuneytisins, því að fram undir þetta hefur það látið inn á við og út á við sem unnið sé eftir viðræðuramma ESB.

Ekkert liggur fyrir um hvort framkvæmdastjórn ESB fallist á þá túlkun íslenska utanríkisráðuneytisins, að viðræðurammi hennar sé einhliða yfirlýsing og hún bindi ekki Ísland. Hér skal dregið í efa að framkvæmdastjórnin hafi samþykkt eða muni samþykkja þessa túlkun. Í Brussel telja menn hana kannski réttilega til heimabrúks fyrir íslenska embættismenn. Hún hafi hvort sem er ekkert gildi Brussel.

Hvað sem líður afstöðu manna í Brussel er ljóst að íslenska utanríkisráðuneytið verður að fylgja því eftir gagnvart ESB, að viðræðuramminn gildi ekki gagnvart Íslandi. Viðræður við Íslendinga lúti öðrum lögmálum en við allar aðrar þjóðir.