18.11.2010

Utanríkis­ráðuneyti fast í eigin lygavef

Evrópuvaktin 18. nóvember 2010 - leiðari



Björn Bjarnason
18. nóvember 2010 klukkan 10:08

Á ensku eru orðin „cover up“ notuð um það þegar opinberir aðilar grípa vísvitandi til þess ráðs að reyna að villa um fyrir almenningi í því skyni að fegra hlut sinn eða bæta stöðu sína í umræðum. Eitt frægasta dæmi um „cover up“ í stjórnmálasögu síðari tíma var tilraun Richards Nixons, forseta Bandaríkjanna, til að breiða yfir hlut sinn í Watergate-málinu. Blaðamenn létu sér ekki segjast og héldu áfram athugunum sínum, þar til þeir fengu heimildarmann sem dugði þeim til að brjótast í gegnum lygavefinn. Nixon hrökklaðist frá völdum.

Þetta heimssögulega dæmi er nefnt hér í sömu andrá og enn er fjallað um þá yfirlýsingu íslenska utanríkisráðuneytisins, að Ísland sé ekki bundið að viðræðuramma Evrópusambandsins; hann sé í raun einhliða yfirlýsing af hálfu Evrópusambandsins

Utanríkisráðuneytið lýsti yfir þessu við Evrópuvaktina hinn 10. nóvember og sagði ráðuneytið „leggja upp sína afstöðu“ í samræmi við álit meirihluta utanríkismálanefndar alþingis. Sendinefnd ESB á Íslandi svaraði síðan fyrirspurn Evrópuvaktarinnar um málið á þann veg, að hún gerði ekki athugasemd við afstöðu utanríkisráðuneytisins.

Hér er um dæmigert „cover up“ að ræða eða opinberan lygavef til að komast hjá erfiðum umræðum á íslenskum stjórnmálavettvangi. Talsmenn aðlögunarviðræðna ESB og Íslands vita að hið rétta eðli viðræðnanna gengur þvert á pólitískar yfirlýsingar sem gefnar voru til að fá meirihluta þingmanna til að samþykkja að til viðræðnanna yrði gengið. Þá var sagt að aðeins ætti að kanna, hvað Íslendingum stæði til boða, síðan yrði það borið undir þjóðina. Allt annað hékk og hangir á spýtunni, einmitt þess vegna var lagt til að greitt yrði þjóðaraykvæði um hvort til viðræðnanna yrði gengið.

Ögmundur Jónasson virðist hafa greitt atkvæði með ESB-aðildarumsókn í góðri trú um að unnt yrði að komast til botns í málinu á skömmum tíma. Hann vaknar nú upp við þann vonda draum að um áralanga og dýra aðlögun verður að ræða, áður en niðurstaða fæst og unnt verður að bera niðurstöðuna undir þjóðina. Ögmundur rýkur upp til handa og fóta og krefst niðurstöðu á tveimur mánuðum. Skyldi hann trúa því sem utanríkisráðuneyti Íslands segir, að viðræður þess við ESB séu á íslenskum forsendum?

Vefsíðan EUobserver hefur leitað álits Angelu Filota, talsmann stækkunarskrifstofu ESB. Hún blæs einfaldlega á sjónarmið Ögmundar. Gefur til kynna að hann hafi ekkert vit á því, sem um sé að ræða, allt aðrar aðlögunarreglur gildi nú en 1994 þegar Norðmenn ræddu síðast um aðild að ESB. 2006 hafi verið settar nýjar reglur sem gildi um alla umsækjendur um aðild, það yrði mjög erfitt að hverfa frá þessum reglum, sem samþykktar hefðu verið af öllum ESB-ríkjum.

Þá sagði Angela Filota að viðræður hefðu þegar hafist við Ísland á grundvelli ESB-viðræðurammans, Íslendingar hefðu samþykkt þennan ramma. Þeir gætu ekki hlaupist undan honum núna.

Samkvæmt þessum orðum yfirvaldsins í Brussel fer íslenska utanríkisráðuneytið með rangt mál, þegar það segir Ísland óbundið af viðræðuramma ESB. Þá er augljóst að sendinefnd ESB á Íslandi vill ekki rjúfa lygavef utanríkisráðuneytisins með því að gera athugasemd við hann, enda eigi yfirvöldin í Brussel síðasta orðið eins og í ljós hefur komið.

Hlutverk sendinefndar ESB á Íslandi er að miðla upplýsingum til Íslendinga um eðli ESB og tengsl Íslands og ESB. Sendinefndin hefur fallið á fyrsta prófinu með því að snúast ekki gegn rangfærslum utanríkisráðuneytis Íslands um eðli viðræðna Íslands og ESB.

Utanríkisráðuneyti Íslands hefur enn sannað að ekki er unnt að trúa yfirlýsingum þess um samskiptin við ESB. Það er orðið fast í eigin lygavef eins og Richard Nixon forðum.