25.11.2010

Krafan um þjóðar­atkvæða­greiðslu jafngildir uppgjöf gagnvart ESB

Evrópuvaktin 25. nóvember 2010 - leiðari


Í því felst flótti frá umræðum um efnistariði ESB-aðildar og aðildarviðræðnanna við ESB og hagsmuni þjóðarinnar að hamra á því að þjóðin eigi að fá að greiða atkvæði um niðurstöðu viðræðnanna. Réttur þjóðarinnar til að greiða atkvæði um einhverja niðurstöðu ráði í raun ferðinni en ekki hvað gerist í ferlinu. Sé þessi réttur ekki settur í fyrirrúm sé voðinn vís.

Þetta tal um umbúnaðinn er stundað til að draga athygli frá því sem við blasir nú þegar varðandi form og efnisþætti. Þrennt má nefna í því sambandi:

  • Kröfuna um að Ísland taki mið af viðræðuramma ESB og fullnægi kröfum hans. Aðlögun stjórnkerfisins að kröfum ESB hefjist nú þegar.
  • Afleiðingar þess að Ísland hættir að verða strandríki í skilningi hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna og felur Evrópusambandinu þann rétt fyrir sína hönd.
  • Á evru-svæðinu glíma menn við skulda- og fjárhagsvanda sem eykst en minnkar ekki.

Viðræðurnar við ESB eru allt annars eðlis en sagt var áður en ýtt var úr vör. Þá var rætt um könnunarviðræður um kosti Íslendinga. Þeir mundu síðan gera upp hug sinn um þá í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Utanríkisráðuneyti Íslands hefur í svari til Evrópuvaktarinnar lýst viðræðuramma ESB sem einhliða yfirlýsingu sem bindi ekki Ísland. Utanríkisráðuneytið hefur síðan hnýtt við þessa skýringu sína að það hafi samþykkt að „take note of“ þessari einhliða yfirlýsingu, það er að taka mið af henni eða hafa til hliðsjónar.

Vðræðuramminn er einhliða yfirlýsing ESB um, hvernig ESB vill haga viðræðunum við Ísland. Ísland verður að koma til móts við öll atriði í rammanum, svo að ESB veiti að lokum samþykki sitt við aðild Íslands. Íslendingum er frjálst að hreyfa öðrum málum en íslenska viðræðunefndin kemst ekki hjá því að taka á öllum atriðum í ramma ESB.

Að utanríkisráðuneytið skuli leyfa sér að lýsa stöðu viðræðurammans á þann veg í svari til Evrópuvaktarinnar að hann skipti í raun engu fyrir Ísland er í anda þeirrar blekkingar, að nú fari fram könnunarviðræður milli Íslands og ESB.

Þegar rætt er um sjávarútvegshagsmuni Íslands og ESB er talinu helst beint að eignarhaldi í útgerðarfyrirtækjum eða „hlutfallslegum stöðugleika“, óljósu og ólögbundnu hugtaki, sem túlkað er hér á þann veg að unnt sé að halda erlendum veiðiskipum frá Íslands miðum. Hitt er vísvitandi eða af vanþekkingu látið liggja á milli hluta að með aðild fær ESB rétt strandríkis samkvæmt hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna í stað Íslands. Gildi þess réttar fyrir okkur Íslendinga er ómetanlegt eins og sannast hefur í makríldeilunni á liðnu sumri. Utanríkisráðuneytið þegir þunnu hljóði um þessa staðreynd, enda verður henni ekki haggað.

Ísland sem strandríki hefur réttarstöðu samkvæmt hafréttarsáttmála SÞ gagnvart ESB. Ísland í ESB nýtur ekki lengur þessarar réttarstöðu og er háð ESB-lögum um stöðu sína og túlkun ESB-dómstólsins á þeim. Hann er andvígur öllu sem leiðir til misræmis innan ESB.

Gulrót ESB-aðildar var og hefur verið evran. Íslenskum heimilum og atvinnulífi verður þá fyrst borgið að mati ESB-aðildarsinna fái Íslendingar heimild til að taka upp evruna. Hafi verið innistæða fyrir þessari skoðun sumarið 2009 hvarf hún sumarið 2010.

Þegar hugað er að þessum þremur atriðum: Eðli aðlögunarviðræðnanna, gildi strandríkisréttarins og stöðu evrunnar sem gulrótar þarf engan að undra að ESB-aðildarsinnar vilji beina talinu að öðru en efnisatriðum málsins. Gæti menn réttar Íslands á þessum sviðum verður aldrei til nein niðurstaða sem unnt verður að bera undir þjóðina. Þeir sem vilja ljúka viðræðunum núna taka mið af hagsmunum Íslands. Hinir sem vilja halda áfram eru fúsir til að gefa nógu mikið eftir gagnvart ESB til að unnt sé að leggja einhverja niðurstöðu undir þjóðaratkvæðagreiðslu.Krafan um að fá að kjósa um ESB er krafa um að slegið sé kröfum Íslands gagnvart ESB.