28.8.1996

10 ára afmæli Íslenska útvarpsfélagsins hf

Ávarp á 10 ára afmæli Íslenska útvarpsfélagsins hf.
í Perlunni 28. ágúst 1996.

Fullt tilefni er til að koma saman og fagna því, að Íslenska útvarpsfélagið hf. hefur náð tíu ára aldri og starfar með blóma. Of snemmt er að segja, að félagið hafi slitið barnsskónum, þótt það hafi áunnið sér sess meðal þjóðarinnar og sé meðal stórveldanna á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Þessi markaður er sífellt að breytast og þar þrífst enginn til lengdar nema með dugnaði og útsjónarsemi.

Ég segi, að félagið hafi ekki alveg slitið barnsskónum ennþá vegna þess, að mér finnst innlend dagskrárgerð á þess vegum enn næsta ungæðingsleg miðað við þann blæ, sem er til dæmis yfir Ríkisútvarpinu.

Orð mín má ekki misskilja á þann veg, að allar sjónvarps- og útvarpsstöðvar séu steyptar í sama móti. Raunar hefur Ríkisútvarpið tekið miklum breytingum, eftir að það hlaut nauðsynlega samkeppni. Á hinn bóginn hlýt ég sem mennta- og menningarmálaráðherra á Íslandi að hvetja til þess, að hinir öflugu ljósvakamiðlar flytji efni á íslensku og haldi íslenskri menningu á loft. Til þess að tyggja að það sé gert, tel ég enn nauðsynlegt að ríkið komi að hljóðvarps- og sjónvarpsrekstri.

Í tilefni afmælisins nú minnist ég aðdraganda þess, að einokun ríkisins á útvarpsrekstri var afnumin. Tíminn líður fljótt og menn gleyma í öllu óðagotinu ýmsu, sem gott er, að haldið sé til haga, þegar rætt er um atburði líðandi stundar eða litið til framtíðar. Það var síður en svo að allra mati æskilegt, að ríkið hætti að einoka ljósvakann.

Haustið 1984 var verkfall bæði á dagblöðum og hjá Ríkisútvarpinu. Lá ríkisrekstur í fjölmiðlun niðri og öll hefðbundin miðlun á fréttum vegna blaðaverkfallsins. Ég starfaði þá á Morgunblaðinu og í aðgerðarleysinu þar tók ég höndum saman við nokkra framtaksama menn utan blaðsins um að hleypa Frjálsu útvarpi af stokkunum. Kom það í minn hlut að hafa nokkra forgöngu um miðlun frétta í þeirri ágætu stöð og var Elín Hirst, núverandi fréttastjóri, meðal þeirra, sem þar stigu sín fyrstu spor í meðferð hljóðvarpsfrétta. Í hópi fréttahauka Frjáls útvarps var Hannes Hólmsteinn Gissurarson og fræg er ljósmyndin af honum undir vegg Dómirkjunnar, þegar hann var að afla frétta af verkfallsfundi opinberra starfsmanna, sem haldinn var á Austurvelli.

Þetta voru spennandi tímar og fljótt urðum við þess vör, að starfsemi frjálsa útvarpsins mæltist vel fyrir meðal almennings. Hún var þó talin brjóta í bága við landslög og voru gerðir út bílar á vegum Landssímans til að leita að sendum stöðvarinnar. Man ég eftir því, að við eltum þessa bíla laumulega um bæinn og meðal annars hingað upp á Öskjuhlíð til að hafa augu með ferðum þeirra. Fór svo að stöð okkar var lokað með lögregluvaldi og ábyrgðarmenn hennar hlutu dóm, meðal annars Kjartan Gunnarsson, núverandi formaður útvarpsréttarnefndar, sem hefur það hlutverk að úthluta útvarpsleyfum.

Það eru sem sagt ekki nema rúm tíu ár síðan við vorum hundelt af lögreglunni, sem vildum ekki sætta okkur við, að ríkið sæti eitt að útvarps- og sjónvarpsrekstri. Nú er öldin sem betur fer önnur og samkvæmt tölum, sem ég hef úr menntamálaráðuneytinu, voru í júní síðastliðnum starfandi 15 hljóðvarpsstöðvar með svokallað langtímaleyfi og átta sjónvarpsstöðvar.

Þessar stöðvar standa vissulega mismunandi vel að vígi og menn geta haft ýmsar skoðanir á efninu, sem þær flytja. Fagnaðarefnið er hins vegar, að nú situr ríkið ekki eitt að þessum rekstri og engum dettur líklega í hug lengur að afnema frelsið og taka upp ríkiseinokun að nýju.

Reynslan af verkfallinu 1984 réð að mínu mati úrslitum um, að samkomulag tókst á Alþingi um að afnema ríkiseinokunina. Ég ætla ekki að rifja það upp hér, hverjir lögðust helst gegn því, að einokunin hyrfi og vildu að ríkið héldi henni áfram. Fróðlegt væri hins vegar fyrir einhvern góðan rannsóknarblaðamann að gera það, því að nú má segja, að allir vildu þá Lilju kveðið hafa.

Úvarpslögin eru frá 1985, og þau eru að sjálfsögðu barns síns tíma, mótast af því að menn vildu fara hægt af stað. Síðan hafa verið gerðar margar tilraunir til að breyta þeim. Smálagfæringar hafa fengist eins og til dæmis í fyrra, þegar tryggð var vernd gagnvart misnotkun á myndlyklum. Á hinn bóginn hefur ekki tekist að ná samkomulagi um heildarendurskoðun laganna, sem að mínu mati á að stefna að því að skilgreina hlut ríkisins betur og jafna aðstöðumun milli ríkisstöðva annars vegar og einkastöðva hins vegar.

Hugmyndir starfshóps, sem ég skipaði, liggja fyrir um það, hvernig breyta megi útvarpslögunum á þann veg, sem ég nefndi. Þegar þær voru kynntar síðastliðið vor ráku margir upp ramakvein og töldu um aðför að ríkisfyrirtækinu að ræða. Vonandi þurfum við ekki annað verkfall til að opna augu fleiri um nauðsyn frekari breytinga á þessum þætti ríkisrekstrar eins og ýmsum öðrum. Víst er þó, að á Alþingi er þungt undir fæti, þegar að því kemur að rétta hlut einkastöðva gagnvart ríkisstöðvunum.

Á tíu ára afmæli Íslenska útvarpsfélagsins hf. er því alls ekki unnt að fagna fullum sigri í baráttunni fyrir frjálsræði í útvarps- og sjónvarpsrekstri á Íslandi. Félagið hefur hins vegar sýnt og sannað með glæsilegum hætti, hvers einstaklingar eru megnugir í þessu efni. Ég viðurkenni fúslega, að ég taldi djarft leikið hjá þeim Jóni Óttari og Hans Kristjáni, þegar þeir hófu að kynna hugmyndir sínar um nýja, öfluga sjónvarpsstöð. Að félagið skuli hafa náð 10 ára aldri og hafi þá stöðu, sem við þekkjum, segir sitt um framsýni þeirra.

Það segir einnig sína sögu um starfslið og eigendur fyrirtækisins á síðustu árum. Ég óska öllum, sem standa að Íslenska útvarpsfélaginu innilega til hamingju með tímamótin. Baráttu fyrir tilvist fyrirtækisins lýkur ekki á meðan það starfar í hörðum samkeppnisheimi. Megi því vegna vel áfram og sýna þannig enn betur fram á óhjákvæmilegt hlutverk einkaaðila á þessu sviði þjóðlífsins, sem setur æ meiri svip á daglegt líf okkar.