11.5.1996

Ársþing ITC - ávarp

Ávarp á landsþingi ITC, á Grand Hóteli Reykjavík
11. maí 1996

Góðir áheyrendur!

Ég þakka fyrir að fá tækifæri til að ávarpa ykkur nokkrum orðum við upphaf landsþings ykkar.

Stefna samtaka ykkar er að efla frjálsar og opinskáar umræður sem eiga að vera hlutlausar í öllum stjórnmálum, félagsmálum, fjármálum, kynþáttamálum og trúmálum. Frá stofnun fyrir tæpum 60 árum hafa samtökin unnið að þessari í stefnu í fjölmörgum löndum í síbreytilegu umhverfi. Samtökin sjálf hafa einnig tekið miklum breytingum. Í upphafi voru þau til dæmis einungis samtök kvenna. Það hefur nú breyst, þótt enn hafi ekki margir karlar gengið í samtökin hér á landi. Hlýtur það þó að standa til bóta!

Það sem mestum breytingum hefur tekið á þeim áratugum, sem liðið hafa frá stofnun ITC eru samskiptahættir fólks. Í stað þess að fara á fund hjá félagasamtökum setjast menn fyrir framan sjónvarpið eða tölvuna. Í stað þess að líta í heimsókn er hringt. Og í stað þess að skrifa bréf senda menn tölvupóst sem berst á svipstundu hvert á land sem er. Í þessu breytta umhverfi má spyrja hvort þörf sé fyrir samtök til að efla frjálsar og opinskáar umræður. Hvort frekari verði að gert í þeim efnum. Slíkum spurningum er auðvelt að svara þannig, að það hafi jafnvel aldrei verið meiri þörf fyrir þjálfun fólks í að tala saman. Einstaklingar þurfi enn frekar en áður hvatningu til að njóta samskipta hver við annan og taka þátt í gefandi samtölum.

Þegar ég varð ráðherra, fyrir rúmu ári, var ég gagnrýndur fyrir að gefa fólki tækifæri til að hafa við mig tölvusamband. Íslendingar eru netvæddasta þjóð í heimi og hef ég kynnst því vel, að menn kunna að nota þessa tækni. Í gær voru 3533 erindi skráð í tölvupóstskránni hjá mér og hefur þó ekki öllum verið til skila haldið. Í þessu felast mikil samskipti.

Í verkefnaáætlun menntamálaráðuneytisins fyrir kjörtímabilið segir, að efling þekkingar og reynslu við upplýsingaöflun, sjálfsnám og framtakssemi séu lykilatriði til að gera nemendur færa um að nýta sér til fullnustu tækifæri upplýsingabyltingarinnar. Þessar hugmyndir eru í anda þess sem ITC hefur lagt áherslu á, að þjálfa einstaklinga til forystu, byggja upp sjálfstraust þeirra og þroska skipulagshæfileika þeirra.

Aðrar áherslur sem ITC og skólakerfið hafa sameiginlegar er að kenna fólki að hlusta og þaga! Í viðtali, sem ég las á Internetinu,við fyrrverandi forseta alþjóðasamtaka ITC sagði hún, að áherslan í þjálfun samtakanna væri ekki bara á að halda ræður og koma fram opinberlega heldur væri ekki síður mikil áhersla lögð á að þegja og hlusta. Eitt það erfiðasta sem maðurinn gerði væri að hlusta. Þetta eru orð að sönnu. Störf á Alþingi gengju til dæmis greiðlegar, ef sumir menn hlustuðu meira en þeir tala.

Ég rakst á aðra grein á Internetinu, sem einn félagi í ITC birti í Velvakanda seint á síðasta ári. Þar lýsti hún ótta við tölvunotkun og varpaði fram þeirri spurningu, hvort menn þyrftu ekki að óttast um málnotkun og orðaforða barna, sem notuðu tölvur mikið, líkamlega hreyfingu þeirra og mannleg samskipti. Þetta er rétt ábending. Ákveðin hætta er á því, að einstaklingurinn einangrist um of við tölvunotkun. Hún getur orðið að fíkn. Þegar ég tengdist Internetinu var mér sagt, að ég ætti á hættu að verða fíkill við notkun þess. Tæknin gefur þó jafnframt kost á mun fjölbreyttari og umfangsmeiri samskiptum en áður hafa þekkst. Upplýsingatæknin opnar til dæmis fötluðum, sjúkum og öldruðum nýja sýn. Með því að gera þeim kleift að vera í auknum samskiptum við aðra einstaklinga getur hún eflt sjálfstraust þeirra og aukið þeim viðurkenningu í leik og starfi. Þessi markmið falla einnig undir stefnu ITC og því tel ég að samtökin ættu að velta fyrir sér hvernig þau geti notað upplýsingatækni til að gera fleiri einstaklingum kleift að taka þátt í frjálsum og opinskáum umræðum.

Ágætu fundarmenn!

Á nýlegum fundi um menntamál, þar sem ég var meðal framsögumanna, stóð upp ung kona. Hún sagðist hafa farið með glæsibrag í gegnum íslenska skólakerfið og síðan farið í nám við góðan erlendan háskóla. Þar sagðist hún hafa áttað sig á því, að hún var vanbúin eftir ferðina í gegnum íslenska skólakerfið. Hún hafði ekki fengið nægilega þjálfun í að tjá sig, skapa og koma því á framfæri við aðra. Að þessu leyti getur skólakerfið lært af ITC og hugsjónum samtaka ykkar.

ITC hefur starfað ötullega hér á landi í rúmlega tvo áratugi. Metnaðarfull dagskrá landsþingsins ber vott um öflugt starf samtakanna. Ég vona að helgin verði ykkur ánægjuleg og árangursrík.