16.2.1996

Ávarp á árshátíð Orator

Ávarp á árshátíð Orators í Skíðaskálanum, Hveradölum
16. febrúar 1996.

Góðir áheyrendur!

Ég þakka Orator fyrir að bjóða mér og Rut konu minni að vera hér heiðursgestir í kvöld. Því fylgdu að vísu ýmis skilyrði, sem ég tel mig hafa uppfyllt hvert af öðru og nú er komið að því síðasta, að ávarpa ykkur nokkrum orðum. Verðið þið að lúta þeirri kvöð næstu mínúturnar.

Ég fagna því, að umræðuefni dagsins tengdist skólastarfi og framtíð Háskóla Íslands. Okkur lögfræðingum er skylt að leggja okkar skerf af mörkum til umræðna um menntamál. Í Háskólanum ber okkur að huga sérstaklega að stöðu greinar okkar. Almennt er síðan nauðsynlegt, að sjónarmið lögfræðinnar komi til álita við skipulag skólakerfisins. Það tryggir betri umbúnað um skólana og traustari stöðu þeirra í stjórnkerfinu.

Fyrir nokkrum vikum vorum við Rut á ferð í Ísrael, þar sem ég sat ráðstefnu um menntamál. Beindist athyglin þar sérstaklega að fræðslu um tækni og vísindi, sem talið er, að eigi nú sama erindi til skólabarna og kennsla í lestri, skrift og reikningi. Enginn komist klakklaust í gegnum lífið, ef hann óttist tæknilega hluti eða hafi ekki einhverja innsýn í vísindi.

Starfsbróðir minn í Ísrael Amnon Rubinstein er lagaprófessor og hafði orð á því við mig einn daginn, hvort ég vissi nokkuð hvar væri hægt að ná í íslensku laganemana, sem væru þessa sömu daga á ferð um Ísrael undir fararstjórn Stefáns Más Stefánssonar prófessors. Var greinilegt, að hann hafði haft fullan hug á að hitta hópinn, en að lokum leyfði tími hans það ekki. Er ljóst, að það fer ekki fram hjá stjórnarherrum, þegar félagar í Orator ferðast erlendis. Mér gafst kostur á að hitta ferðalangana í stutta stund og þakka þeim nú fyrir síðast.

Í Ísrael hefur markvisst verið gengið fram á vísinda- og tæknimenntunarbraut. Þróunin er hins vegar sú, að laganemum fjölgar jafnt og þétt. Er ljóst, að í Ísrael telja menn það til marks um, að stúdentar hneigist til annars en tækni og vísinda. Var helst að skilja, að það væru sjónvarpsþættir á borð við Matlock eða L.A. Law, sem beindu fólki í laganám.

Sagt er, að við stjórnmálamenn séum þeim helst til sjónvarpsskemmtunar, sem eru gamlir eða einmana. Þurfum við því varla að óttast aukna ásókn í stéttina vegna sjónvarpsins. Njóta þessar útsendingar líklega nokkurra vinsælda hjá fyrrgreindum markhópi. Til marks um það er meðal annars, að áhorfendur hringdu á sínum tíma og kvörtuðu undan bilun, þegar þeim fannst sami þingmaðurinn fastur á skjánum. Spurt var, hvort hann væri hluti af stillimyndinni.

Fyrsta árið mitt á þingi gegndi ég embætti varaforseta. Lék þá allt á reiðiskjálfi milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Sat ég nokkrar næturnar og hlustaði á stjórnarandstæðinga teygja lopann og beita þeim brögðum, sem þeir hafa til að tefja fyrir þingstörfum.

Saknaði ég þá þess valds, sem fundarstjóra á aðalfundum Orators var veitt á þeim tíma, þegar ég var oftar en einu sinni valinn til að gegna þeirri trúnaðarskyldu. Skapaðist þá stundum sú aðstaða, að biðröð myndaðist við ræðustólinn og tillögugleði manna var meiri en góðu hófi gegndi. Þurfti fundarstjóri oft að beita bæði hörku og lagni til að halda uppi reglu. Bar hann löngum víkingahjálm á höfði til virðingarauka, en sá síður var aflagður í minni tíð.

Í fundargerð frá 1969 kemst Gunnlaugur Claessen, núverandi hæstaréttardómari, þannig að orði, þegar sagt er frá umræðum undir liðnum önnur mál: "Þegar hér var komið sögu, var fundurinn orðinn allróstusamur og menn orðnir djarfmæltir í meira lagi."

Tillögurnar snerust um margt. Ég var til dæmis fundarritari fyrir 30 árum, þegar tókst að fá mikið baráttumál samþykkt. Tillagan var um, að karlkyns laganemar skyldu framvegis mæta í reykingarklæðum á aðalfundi Orators og votta með því Grágás sjálfsagða virðingu sína. Skyldu kvenkyns laganemar klæðast í samræmi við þetta. Fyrsti flutningsmaður tillögunnar var Jakob Þ. Möller, sem starfar nú að mannréttindamálum undir merkjum Sameinuðu þjóðanna í Genf. Sjá menn, að snemma hefur hann fengið áhuga á réttindabaráttu og í þessu tilviki, réttindum Grágásar.

Því miður voru ekki allar tillögur samþykktar. Hinn 5. nóvember 1968 kaus hinn þögli meirihluti Richard Nixon til að verða forseti Bandaríkjanna. Þremur dögum síðar komu íslenskir laganemar saman á aðalfundi Orators og þar var Haraldur Blöndal fyrsti flutningsmaður tillögu um, að Nixon yrði sent þetta skeyti í nafni félagsins: Beneferre magnam disce fortunam, sem útleggst: Ber með prýði þá upphefð, sem þér er valin. Tillagan var ekki borin undir atkvæði og get ég ásakað sjálfan mig sem fundarstjóra fyrir það. Við getum gert okkur í hugarlund þau áhrif, sem samþykkt hennar hefði haft og ef hún hefði orðið leiðarljós Nixons. Hann hefði þá ekki hrökklast frá völdum vegna Watergate-hneykslisins.

Það hneykslismál minnti okkur lýðfrjálsa menn hins vegar á styrk réttarríkisins. Þar reyndi á innviði bandaríska stjórnkerfisins og þeir brustu ekki.

Í störfum mínum sem alþingismaður hef ég haft hvað mesta ánægju af því að fjalla um grundvallaratriði, eins og þau, sem komu til umræðu við setningu stjórnsýslulaga og lögfestingu mannréttindasáttmála Evrópu. Mál af þessu tagi eru yfirleitt ekki mikið rædd í sölum Alþingis eða fjölmiðlum en þau eru grandskoðuð af þingmönnum í nefnd.

Held ég, að engir, nema þeir, sem reynt hafa, geri sér grein fyrir mikilvægi nefndastarfsins á Alþingi. Er það rétt, að ekki er allt sem sýnist í störfum þingmanna en fráleitt að láta í veðri vaka, að þeir séu aðgerðalausir, þótt ekki séu þeir öllum stundum í þingsalnum.

Góðir laganemar!

Ég held, að það hljóti að ýmsu leyti að vera skemmtilegra að vera laganemi núna en fyrir 30 árum, þótt tíminn í lagadeildinni hafi verið mjög ánægjulegur og ég eigi ekki annað en góðar minningar þaðan. Réttarþróunin hefur verið ákaflega ör á undanförnum árum. Hinn alþjóðlegi þáttur lögfræðinnar hefur stóraukist. Borgararnir treysta mun meira á réttarreglur en áður og gera strangari kröfur.

Að mínu áliti flykkjast menn ekki í laganám vegna þess að þeir horfa á Matlock og L.A. Law. Heldur af því, að þeir hafa áhuga á að takast á við verkefni samtímans með lögin sem verkfæri.

Ég óska ykkur góðrar skemmtunar þessa kvöldstund og velfarnaðar í námi og starfi.