31.5.1997

Íslenska söguþingið - þingslitaræða

Íslenska söguþingið - þingslitaræða
31. maí 1997

Nokkur vandi fylgir þeirri vegsemd að flytja lokaræðu á fyrsta íslenska söguþinginu. Á undanförnum fjórum þingdögum hefur líklega meira spaklegt verið sagt um íslenska sagnfræði og einstakar hliðar íslenskra rannsókna í sagnfræði en nokkru sinni fyrr á jafnfáum dögum í allri Íslandssögunni.

Er ég viss um, að talsverðan tíma tekur að melta hinn mikla fróðleik. Mér þótti til dæmis mjög forvitnilegt að hlusta á Arthur Marwick prófessor á setningarhátíð þingsins. Hef ég velt fyrir mér síðan, hvort ég geti leitt post-módernismann hjá mér eins og marxismann á sínum tíma.

Ég vil færa þeim einlægar þakkir, sem höfðu frumkvæði að því, að til söguþingsins var efnt. Framlag fræðimanna og áhugi á því, sem í boði hefur verið, sýnir, að hér hefur verið vel að verki staðið. Allur undirbúningur var til mikillar fyrirmyndar eins og best sést af hinu glæsilega dagskrárriti og af hvílíkri alúð var að því staðið að skipuleggja dagskrána. Vafalaust hafa ýmsir talið sig þurfa lengri tíma til að koma fróðleik sínum og þekkingu á framfæri, en markmiðið var, að á þinginu finndu flestir eitthvað við sitt hæfi og þykist ég viss um að sú hafi orðið raunin.

Á tímum örra breytinga eins og við lifum er brýnna en ella að staldra öðru hverju við og skoða öll leiðarmerki. Staðreynd er sú, að við metum ekki samtíðina rétt án þekkingar á fortíðinni. Við sjáum ekki til fyrr en rykið er sest á vígvellinum og óskýr sýn á samtíðina getur hæglega beint okkur inn á rangar framtíðarbrautir.

Raunar deila menn oft um, hvað sé rétt og rangt, þegar fullyrðingum sem þessum er slegið fram. Með sagnfræðilegum rannsóknum og kenningum ætti að vera unnt að minnka slík óvissuatriði, þótt áfram verði deilt um túlkanir. Við vitum þó úr eigin sögu, að bækur eða ritgerðir um sagnfræðileg efni geta hæglega orðið til þess að vekja upp gamlar deilur, gera þau að nýju viðfangsefni í dægur- eða þjóðmálaumræðu og leiða til uppgjöra ‹ ýmist við menn eða málefni.

Sum sagnfræðileg viðfangsefni eru raunar þess eðlis, að svo virðist sem hver kynslóð þurfi að taka þau til umræðu og grandskoða á eigin forsendum, þótt fyrir liggi rökstuddar eldri niðurstöður og viðtekin viðhorf um sama mál. Nefni ég þar sem dæmi úr Íslandssögunni spurninguna um, hvort hér á landi hafi verið kjarnorkuvopn. Henni hefur oft verið svarað og jafnan á þann veg, að Bandaríkjastjórn hafi virt þá stefnu íslenskra stjórnvalda, að samþykki þeirra þyrfti til að flytja slík vopn hingað, að minnsta kosti á friðartímum, og aldrei hafi verið leitað eftir slíku samþykki. Dönsk stjórnvöld urðu fyrir skemmstu vís að því að hafa á sínum tíma leyft geymslu kjarnavopna á Grænlandi án vitundar heimamanna en það mál rennir raunar á sinn sérstaka hátt stoðum undir það sjónarmið, að Bandaríkjamenn hefðu ekki geymt gjöreyðingarvopn í löndum bandamanna sinna án samþykkis viðkomandi stjórnvalda.

Öldin, sem nú er senn á enda, öld ótrúlegra framfara og jafnframt gífurlegra hörmunga, er og verður spennandi viðfangsefni sagnfræðinga. Á það alls ekki síður við um rannsóknir á sögu Íslendinga en annarra þjóða. Rannsóknarefnin eru mörg og sem stjórnmálamaður minni ég á, að hatrammlega hefur verið deilt um stjórnmál og einkum um sess Íslendinga í samfélagi þjóðanna. Þær deilur endurspegla hagsmuni og viðhorf, sem mótuðust á sama tíma og þjóðfélagið tók gagngerum breytingum. Jafnt öll verktækni sem hugarfar landsmanna. Sjálfstraust Íslendinga hefur aukist við nánari alþjóðleg samskipti á þessari öld og hrakspár um, að íslensk menning mundi ekki lifa af nábýlið við Bandaríkjamenn í Keflavíkurstöðinni eða aðra menningarheima eru léttvægar fundnar. Ef til vill má segja að menning okkar og þjóðarvitund hafi einmitt styrkst og skerpst við kynni Íslendinga af öðrum menningarstraumum en um leið aðlagast nýrri heimsmynd og auknum alþjóðasamskiptum.

Eftir áralanga þátttöku í deilum og umræðum um stöðu Íslands á alþjóðavettvangi, þar sem menn skiptust í fylkingar gráir fyrir járnum, má segja, að undarlegt sé nú að heyra menn úr öllum stjórnmálaflokkum ræða um sem víðtækasta aðild Íslands að alþjóðasamstarfi, sem er nánara og umfangsmeira en nokkru sinni fyrr. Deilur um aðild að Atlantshafsbandalaginu, dvöl bandaríska varnarliðsins eða viðskipti við Vesturlönd eru ekki lengur á dagskrá Alþingis. Nú velta menn því fyrir sér, hvers vegna svonefndir valdahópar þjóðarinnar vilji ekki, að hún sigli hraðbyri inn í yfirþjóðlegt Evrópusamband og telja það til marks um dæmalausan heimóttarskap að gera það ekki.

Hvað sem líður störfum og stefnu stjórnmálamanna í því efni, er vert að velta fyrir sér, hvort í þjóðarsál Íslendinga blundi enn sú þrá forfeðra okkar í árdaga, að halda frekar í vestur en snúa aftur í austur til meginlands Evrópu. Á mörgum sviðum höfum við tileinkað okkur annað og haldið í aðra átt en nánustu samstarfsþjóðir okkar í Evrópu annars staðar á Norðurlöndunum. Margt bendir raunar til þess að viðleitnin til að fella stjórnmál, efnahagsmál og öryggismál Evrópuríkja utan Rússlands í einn farveg hafi náð hápunkti sínum og kólfurinn stefni nú í hina áttina.

Um leið og þetta er sagt, skal þess minnst, að í skólum landsins eru kenndar sögubækur, sem taka mið af allt öðru hugarfari en nú ríkir að því er alla þessa þætti varðar. Þar má einnig lesa skoðanir, sem bera þess merki, að menn töldu, að spennan milli austurs og vesturs kynni að leiða til heimsslita vegna átaka með gjöreyðingarvopnum. Ekki eru mörg ár liðin síðan nemendur hér í Háskóla Íslands lýstu yfir því í Stúdentablaðinu, að þeir sæju lítinn ef nokkurn tilgang með langskólanámi, af því að heimurinn myndi hvort sem er farast vegna kjarnorkuhugarfars vestrænna ráðamanna. Hverjum dytti í hug að tefla slíkum kenningum fram nú ?

Hvort heldur um er að ræða kennslubækur um sagnfræði eða íslenskar bókmenntir er mikils virði, að þær veki ekki þá ímynd, að jafnvel nánasta fortíð sé eins og fornöld vegna þess, að hún er kynnt með skírskotun til skoðana, sem fallið hafa um sjálfar sig eða eiga heima í geymslum minjasafna til marks um tímabundinn útúrdúr.

Um þessar mundir er unnið að því að semja nýjar aðalnámskrár fyrir grunnskóla og framhaldsskóla. Er það í fyrsta sinn, sem ráðist er í að semja slíkar námskrár í nánu samhengi hvora við aðra í því augnarmiði að byggja hér upp heildstætt nám á öllum skólastigum og á milli þeirra. Ástæða er til að binda miklar vonir við þetta starf. Í stefnumótun menntamálaráðuneytisins vegna námskrárgerðarinnar er þetta fyrsta áhersluatriðið:

“Þjóðlegir námsþættir eins og móðurmálið, þjóðmenning og saga lands og þjóðar eiga að skipa veglegan sess í námskránni. Forsenda þess að þjóðmenning nái að dafna í straumi sífellt sterkari erlendra áhrifa er lifandi samband þjóðar við tungu sína, menningu og sögu. Ráðuneytið leggur áherslu á að mörkuð verði skýr stefna í kennslu á þessum sviðum og að þessi viðfangsefni fái aukið rými í námskrám bæði á grunn- og framhaldsskólastigi. Jafnframt leggur ráðuneytið á það áherslu að samhliða kennslu um þessi mál verði börnum og unglingum skapaðar forsendur til að njóta lista í tengslum við nám sitt."

Er sérstakur forvinnuhópur að störfum til að móta meginstefnuna varðandi samfélagsfræði og þar á meðal kennslu í sögu. Hefur Íslenska söguþingið orðið til að efla vissu mína, um að í hópnum sé vel að verki staðið, því að Anna Agnarsdóttir, sem er einn af helstu hvatamönnum þingsins og í stjórn þess er formaður hópsins. Sé starfinu þar sinnt af jafnmikilli alúð og undirbúningi þingsins verður skipulag námskrárinnar gott.

Í framhaldi af því, sem unnið er við gerð aðalnámskráa er eðlilegt að huga að kennsluefni á grunn- og framhaldsskólastigi og er sagnfræðin mér þar einkar hugleikin. Með öllum tiltækum ráðum á að tryggja, að nemendur hafi aðgang að efni við sitt hæfi, byggðu á bestu fræðilegu vitneskju á hverjum tíma og einnig ber að setja það markmið, að enginn fari í gegnum íslenska skólakerfið án þess að hafa átt þess kost að kynnast sögu þjóðar sinnar í heild og tengsla okkar sögu við sögu alls mannkyns.

Er rétt að minnast þess, að engir aðrir en Íslendingar hafa áhuga á eða hag af því að saga þeirra gleymist ekki. Með aukinni alþjóðavæðingu á öllum sviðum ber að leggja aukna rækt við það sem íslenskt er í sögu og menningu, því að það er vísasti vegurinn til að áfram höfum við það sjálfstraust, sem best dugar að lokum til alþjóðlegra átaka. Nýleg sigurganga á tind Everest-fjalls er aðeins eitt dæmi af mörgum, um að fámennið setur okkur ekki skorður eða hnattstaðan á mörkum hins byggilega heims. Við afsökum okkur sem betur fer mun sjaldnar en áður með hnattstöðunni, enda ástæðulaust miðað við það, hvernig okkur hefur vegnað á þessari öld.

Vegna nýrrar tækni í upplýsingamiðlun er nauðsynlegt að tileinka sér algjörlega nýjar hugmyndir og aðferðir við að varðveita það, sem gamalt er, og miðla því til annarra. Einnig þarf að skilgreina hlutverk skóla og önnur opinber afskipti með nýjum hætti. Mikilvægt er, að sá hugarheimur, sem mótar íslenska þjóðernisvitund, hverfi ekki, og enn sjái menn sér hag af því að halda því á loft, sem skapað er í þeim heimi. Leiðir til að koma því á framfæri við aðra eru fleiri og greiðfærari en nokkru sinni fyrr.

Íslenska söguþingið hefur snúist um tvö aðalefni, sögu heimilis á miðöldum og Ísland og umheiminn á 19. og 20. öld. Þegar betur er að gáð, sjáum við fljótt, að efnin eru nátengd, eins og íslensku orðin “heimili" og “heimur". Án traustra róta heima fyrir mega menn sín lítils í umheiminum.

Vaclav Havel, forseti Tékklands, vék að þessu fyrir skömmu með skemmtilegum hætti , þegar hann ávarpaði þýska sambandsþingið. Hann skilgreindi þar, hvað býr að baki þýska orðinu “Heimat" með því að vísa til germönsku og forníslensku. Þar tengdu menn saman heimilið og alheiminn með sama orðstofni og heimspeki snerist ekki aðeins um hið nálæga og skiljanlega heldur einnig hitt, sem er fjarlægt og aldrei verður skilið til fulls.

Okkur Íslendingum hlýnar ávallt um hjartarætur, þegar við verðum þess vör, að erlendir mennta- og menningarmenn þekkja til tungu okkar og menningar. Viljum við líta þannig á, að það sé til marks um sanna menntamenn, að þeir hafi þessa kunnáttu og í ræðu sinni lagði Havel áherslu á, að samrunaþróunin í Evrópu yrði að byggjast á leit að sameiginlegum markmiðum, sem hafa tilfinningalegt og andlegt gildi. Ekki nægði að einblína á stofnanir, efnahagsmál, lagasetningu og stjórnmál. Í Evrópu ættu menn að leggja ríkari áherslu á, að álfan yrði heimili hinna sameiginlegu gilda, sem eru sprottin úr því besta í andlegri og sögulegri reynslu kynslóðanna. Þar bæri hæst mannréttindi, réttarríkið, lýðræði, borgaralegt samfélag, markaðshagfræði, skilning á félagslegu réttlæti, virðingu fyrir náttúru og umhverfi.

Þegar við Íslendingar fjöllum um stöðu okkar í umheiminum megum við aldrei gleyma því, að sögulega og menningarlega er þjóðfélag okkar sprottið úr þessari andlegu reynslu kynslóðanna.

Góðir áheyrendur!

Íslenskt máltæki segir: “Heimskt er heima alið barn". Öllum er nauðsynlegt að öðlast víðsýni til að njóta sín. Íslensku þjóðinni hefur vegna verst, þegar einangrun hennar hefur verið mest.

Þekking er besta leiðin til að efla sjálfstraust og stuðla að heilbrigðu og skynsamlegu mati á mönnum og málefnum. Við Íslendingar þörfnumst meiri þekkingar og aukins skilnings á eigin sögu. Með því treystum við stöðu okkar í umheiminum.

Fyrsta íslenska söguþingið sýnir mikinn og lofsverðan áhuga á því, að þessarar þekkingar sé aflað og henni miðlað til alls almennings. Ég færi þeim heillaóskir, sem stóðu einstaklega vel að skipulagi þingsins, flyt þakkir þeim, sem miðluðu fróðleik. Áhugi þinggesta sýnir, að framtakið var vel metið.

Fyrsta íslenska söguþinginu er slitið.