7.2.1997

Ávarp við upphaf vöru- og listmunasýningar frá Kína

Ávarp við upphaf vöru- og listmunasýningar frá Kína
í Perlunni, 7. febrúar 1997.

Við komum hér saman í dag í tvennum tilgangi annars vegar til að minnast þess, að 25 ár eru liðin frá því, að til stjórnmálasambands var stofnað milli Kína og Íslands og hins vegar til að fagna nýju ári að kínversku tímatali.

Er vel við hæfi að efna til vöru- og listmunasýningar vegna þessara tímamóta. Þróunin í samskiptum Kínverja og Íslendinga hefur einmitt hin síðari ár einkennst æ meira af verslunarviðskiptum og öll höfum við af vaxandi undrun fylgst með þeim skrefum, sem Kínverjar hafa stigið frá miðstýrðu hagkerfi til markaðsbúskapar. Þá hefur einnig verið gerður samningur um menningarstarf milli Kína og Íslands, sem á eftir að efla gagnkvæm samskipti á sínu mikilvæga sviði.

Ég hef lesið þá lýsingu á vexti kínversks efnahagslífs, að bera megi hann saman við hjólreiðamann, sem eigi á hættu að detta um koll minnki hraði hans. Hljótum við öll að vona, að þessi lýsing eigi ekki við rök að styðjast heldur takist meðal annars með auknum alþjóðaviðskiptum að opna hagkerfið svo, að settar séu traustar stoðir til að skapa varanlegan stöðugleika.

Þegar við vestrænir menn skoðum kínverska listmuni og veltum uppruna þeirra og sögu fyrir okkur fyllumst við á stundum vanmetakennd, þegar við sjáum á hvaða stigi við vorum í handverki, þegar í Kína voru handunnir fíngerðir dýrgripir, sem enn í dag þykja meðal helstu djásna mannkyns.

Samanburður milli þjóða er meiri nú en áður, þegar upplýsingar berast með leifturhraða um allan heim. Hér á landi mætti til dæmis halda, að við værum í sérstakri samkeppni við Singapore og fleiri þjóðir í Austur-Asíu í fræðslumálum.

Þessi keppni lýsir sér einnig í mismunandi viðhorfi til manngildis og mannréttinda - leiða til að virkja sköpunarþrá og til að auka framtak og frumkvæði einstaklinga án ofurafskipta stjórnvalda og forsjár.

Megi viðskipti og listsköpun blómstra í samskiptum Íslands og Kína.

Ég óska þeim, sem að þessari sýningu standa til hamingju með hana og lýsi hana opna.