16.3.2010

Knútur Hallsson – minning.

Knútur Hallsson átti ríkan þátt í því, að Samtök um vestræna samvinnu (SVS) voru stofnuð 19. apríl 1958. Hann kynntist samtökunum Atlantic Treaty Association (ATA) snemma árs 1958 á fundi í París en þau störfuðu sem samtök almennra borgara til stuðnings Atlantshafsbandalaginu, sem stofnað hafði verið árið 1949. Stóð hann að því ásamt fleirum að fá Pétur Benediktsson, sendiherra, bankastjóra og alþingismann, til að taka að sér formennsku í SVS sem gerðist aðili að ATA. Samskipti við ATA og ýmis dagleg störf hvíldu á Knúti og árið 1963 var hann kjörinn formaður SVS og gegndi hann formennsku til ársins 1973. Þá hafði hann með öðrum átt hlut að því, að hér var opnuð upplýsingaskrifstofa NATO árið 1961. Þegar andlátsfregn Knúts berst, er unnið að því að loka skrifstofunni í núverandi mynd. Samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál starfa hins vegar áfram á þeim grunni, sem lagður var á árum þeirra Péturs og Knúts í forystu fyrir félaginu.

Ævistarf Knúts var í menntamálaráðuneytinu og lauk hann ferli sínum þar sem ráðuneytisstjóri. Hann lét öll mál ráðuneytisins sig skipta en ekki síst menningarmál og nefni ég þar sérstaklega höfundarréttarmál og kvikmyndamál. Á viðreisnarárunum starfaði Knútur oft náið með forsætisráðherra. Hann vann störf sín af hógværð, alúð og samviskusemi.

Ég kynntist Knúti í störfum hans á vettvangi SVS. Hann sótti fundi félagsins og hafði einlægan áhuga á velgengni þess allt til hinsta dags. Nú síðast á þessum vetri höfum við skipst á bréfum um málefni þess. Á kveðjustundu færi ég Knúti Hallssyni þakkir fyrir mikil og óeigingjörn störf hans í þágu SVS og aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu.

Árið 1994 fórum við Rut í eftirminnilega ferð með þeim Ernu og Knúti til Asíulanda og minnumst við þeirrar samveru með gleði og þökk, þegar við færum Ernu, Jónasi, syni þeirra, og ástvinum öllum innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Knúts Hallssonar.