2.1.1998

Nýr Kennaraháskóli Íslands

Kennaraháskóli Íslands
tekur til starfa samkvæmt nýjum lögum
2. janúar 1998

Nýtt ár er gengið í garð.

Ég flyt ykkur öllum óskir um farsæld á árinu 1998.

Er gleðiefni, að nýtt ár hefjist með nýjum kafla í skólasögu íslensku þjóðarinnar. Þessi kaflaskil minna okkur á þá staðreynd, að endurbótum á skólastarfi lýkur aldrei. Þær skila hins vegar ekki árangri nema menntun kennara sé góð og vel að henni staðið.

Nýr skóli tekur nú til starfa. Langþráðu marki er náð, þegar Alþingi hefur samþykkt ný lög um Kennaraháskóla Íslands. Hafa þau verið gefin út í Stjórnartíðindum, eru númer 137/1997 og tóku gildi 1. janúar 1998, svo að öllu sé til skila haldið.

Samkvæmt lögunum er Kennaraháskóli Íslands miðstöð kennara- og uppeldismenntunar á Íslandi, vísindaleg fræðslu- og rannsóknarstofnun, sem veitir nemendum sínum menntun til þess að gegna störfum á sviði kennslu, þjálfunar, uppeldis og umönnunar og til þess að sinna sjálfstætt fræðilegum rannsóknum á því sviði.

Saga hinna fjögurra skóla, Fósturskóla Íslands, Íþróttakennaraskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla Íslands, sem nú verða að einum, er misjafnlega löng. Innan hvers þeirra um sig hafa þróast hefðir og skólabragur, sem ber að virða eftir því sem kostur er í hinum nýja skóla. Skólaandinn verður þó aðeins til hjá þeim, sem í skólanum starfa. Hann skapar enginn annar en kennarar og nemendur. Skiptir miklu, að eftir því, sem kostur er, verði borin virðing fyrir sérstökum áherslum, sem mótast hafa innan einstakra skóla. Við skipulag innra starfs hins nýja skóla ber að nýta hið besta úr gömlum skólunum og leyfa því að njóta sín áfram.

Við, sem höfum unnið að því að semja lögin, og lagt á ráðin um, hvernig best sé staðið að því stórvirki að gera einn skóla úr fjórum, afhendum nú verkið í hendur stjórnenda hins nýja skóla. Ætlunarverkið hefði aldrei tekist nema vegna eindregins samstarfsvilja allra, sem að því hafa komið. Hann vil ég þakka. Markmiðið hefur verið, að standa þannig að málum, að sem minnst röskun yrði bæði fyrir kennara og nemendur.

Í nýsamþykktum lögum um háskóla, númer 136/1997, sem einnig tóku gildi 1. janúar 1998, segir, að kennarar í háskóla skuli hafa lokið meistaraprófi hið minnsta eða hafa jafngilda þekkingu og reynslu að mati dómnefndar. Kennarar, sem nú færast á háskólastig án þess að uppfylla þessi starfsskilyrði, fá nokkurn tíma til að laga sig að breytingunum. Kennarar, sem fullnægja kröfunum, urðu starfsmenn hins nýja skóla strax í gær. Hann er því frá fyrsta degi vel mannaður.

Með nýju lögunum er tryggt, að nemendur, sem nú eru í skólunum geta lokið prófum samkvæmt gildandi námsskipulagi skólanna. Vilji þessir nemendur hins vegar ljúka háskólaprófi, er háskólaráði heimilt að taka ákvörðun um, hvernig að því verði staðið. Stjórnir nemendafélaga skólanna fjögurra skulu sameiginlega tilnefna tvo fulltrúa af tíu í háskólaráðið.

Í nýju háskólalögunum er að finna ákvæði, sem mælir fyrir um skyldu menntamálaráðherra til að setja reglur um kærur eða málskotsrétt nemenda í málum, þar sem þeir telja brotið á rétti sínum. Er heimild til að hafa í reglunum ákvæði um sérstaka kærunefnd eða áfrýjunarnefnd, sem hefur endanlegt úrskurðarvald í kærumálum nemenda. Þetta er mikilvægt nýmæli í þágu nemenda og verður nú gengið til þess að hrinda því í framkvæmd.

Allt frá því ég kynnti lagafrumvarpið um skólann og leiðina til að hrinda því í framkvæmd á fundi með starfsfólki skólanna fjögurra hinn 9. apríl síðastliðinn hef ég orðið var við, að menn biðu afgreiðslu Alþingis á frumvarpinu með eftirvætingu. Vil ég þakka af hve góðum hug allir hafa gengið til þess að greiða fyrir framgangi málsins.

Tilefni er fyrir mig til að flytja fjölmörgum þakkir fyrir atbeina að þessu máli. Það á langan aðdraganda og þegar ég hóf störf sem menntamálaráðherra hafði nefnd þegar lagt á ráðin um svonefndan uppeldisháskóla. Á fyrstu stigum lagasmíðinnar fékk ég Ólaf H. Jóhannsson, endurmenntunarstjóra Kennaraháskóla Íslands, til að draga saman efni í lagafrumvarp. Síðan taldi ég einsýnt, að ekki yrði skipulega að málum staðið, nema fyrst yrði samin og samþykkt heildarlöggjöf um háskólastigið. Réð ég Gunnar Jóhann Birgisson hæstaréttalögmann til að vinna að því verki með Þórunni J. Hafstein, skrifstofustjóra í menntamálaráðu-neytinu. Mótuðu þau síðan kennaraháskólafrumvarpið í samræmi við heildarlöggjöfina. Voru háskólalögin samþykkt á Alþingi hinn 18. desember síðastliðinn, sama dag og lögin um Kennaraháskóla Íslands. Leiddi Sigríður Anna Þórðardóttir, formaður menntamálanefndar Alþingis, frumvörpin örugglega í gegnum þingið.

Þá vil ég færa þeim Bryndísi Víglundsdóttur, fyrrverandi skólastjóra Þroskaþjálfaskólans, og Árna Guðmundssyni, fyrrverandi skólastjóra Íþróttakennaraskólans, sérstakar þakkir. Þau hafa bæði látið af störfum við skóla sína en sjá nú ávöxt áralangs starfs síns, hugsjóna og baráttu færast á háskólastig. Einnig vil ég nefna frú Valborgu Sigurðardóttur, brautryðjandann í leikskólamenntun hér á landi, og Gyðu Jóhannsdóttur, fráfarandi skólastjóra Fósturskóla Íslands. Þær hafa ótrauðar barist fyrir, að þessu marki væri náð. Er það viðurkenning fyrir metnaðarfullt starf þessara skólastjórnenda og samstarfsmanna þeirra, að við stöndum hér í dag og fögnum nýjum Kennaraháskóla Íslands.

Lögum samkvæmt hvílir á herðum Þóris Ólafssonar rektors að leiða starf hins nýja skóla fyrstu misserin. Sanngirni hans, yfirsýn og mikil reynsla eru trygging fyrir því, að af öryggi verður haldið um stjórnvölinn, þegar ýtt hefur verið úr vör.

Skólanefndir og ráð skólanna fjögurra láta nú af störfum og færi ég þeim, sem þar hafa setið, og sérstaklega formönnum þeirra þakkir fyrir vel unnin störf.

Hinn 1. júní 1908 tóku fyrstu lög um fræðslu barna gildi á Íslandi. Er vel við að hæfi, að minnast 90 ára afmælis þeirrar lagasetningar með því að stofna nýjan Kennaraháskóla Íslands á fyrsta vinnudegi afmælisársins. Minnumst þess einnig, að fyrsta vetrardag árið 1908 vígði og setti séra Magnús Helgason fyrsta sérstaka kennaraskólann á Íslandi. Sagði hann, að jafnan væri gleðiefni, þegar þarflegu fyrirtæki yrði framgengt, og þó jafnvel því fremur sem það hefði verið lengur þráð og lengur beðið eftir. Eiga þessi orð vel við þann skóla, sem við vígjum og setjum hér í dag.

Fræðslulöggjöfin og stofnun sérstaks kennaraskóla í framhaldi af gildistöku hennar eru meðal þeirra ákvarðana Alþingis, sem strax á fyrstu árum heimastjórnar í landinu, mörkuðu þáttaskil í þjóðarsögunni og lögðu grunn að meiri framförum en nokkru sinni fyrr.

Í nýju lögunum um Kennaraháskóla Íslands felst meira en sameining fjögurra skóla í einn. Þau eru einnig fyrstu lög, sem sett eru í samræmi við nýja heildarlöggjöf um háskólastigið.

Sameiginlega mynda þessi tvenn lög starfsramma hins nýja skóla. Sjálfsstjórn hans er meiri en annarra ríkisháskóla. Háskólaráð hans fer með úrskurðarvald í málefnum hans og stofnana, sem tengjast skólanum. Allir starfsmenn hans eru ráðnir af rektor skólans. Ein þriggja manna dómnefnd dæmir um hæfi allra starfsmanna og nýtur hún ráðgjafar sérfræðings, þegar fræðistörf umsækjenda eru metin.

Kennaraháskóli Íslands gegnir ekki aðeins mikilvægu hlutverki sem kennslustofnun. Innan hans ber jafnframt að stunda rannsóknir og í krafti þeirra að vinna að því, sem til framfara horfir í íslenskum menntamálum. Var það eitt af höfuðrökunum fyrir sameiningu skólanna fjögurra, að þar með yrðu allar forsendur til rannsókna styrktar.

Í hinni nýju háskólalöggjöf segir, að tryggja skuli að inntökuskilyrði í háskóla og námskröfur svari til þess, sem krafist er í viðurkenndum háskólum á sambærilegu sviði erlendis. Með þessu staðfestir löggjafinn, að strangar alþjóðlegar kröfur skuli gerðar til háskóla á Íslandi. Þessar kröfur eru óhjákvæmilegar, þegar haft er í huga, að staða íslensku þjóðarinnar í samfélagi þjóðanna ræðst æ meira af menntunarstigi hennar.

Í háskólaráði hins nýja skóla skulu sitja tíu fulltrúar þar af tveir skipaðir af menntamálaráðherra. Hef ég valið þá Ingimund Sigurpálsson, sveitarstjóra í Garðabæ, og Hauk Ingibergsson, forstöðumann Hagsýslu ríkisins, til setu í ráðinu fyrir mína hönd. Ingimundur hefur mikla reynslu sem sveitarstjóri, en sveitarstjórnir eru vinnuveitandi kennara í leikskólum og grunnskólum. Haukur hefur stýrt verkefnisstjórninni, sem unnið hefur að sameiningu skólanna á grundvelli nýju laganna. Hann er því gjörkunnugur öllum úrlausnarefnum, sem tengjast sameiningunni.

Fyrsta háskólaráðsins bíða mörg mikilvæg verkefni og vænti ég góðs af samstarfi við það og rektor um allar ákvarðanir, sem snerta hinn nýja skóla og framkvæmdir í hans þágu.

Við erum að sameina fjóra skóla á þremur ólíkum stöðum í Reykjavík og einn á Laugarvatni. Markmiðið er, að starfsemin í Reykjavík verði sem mest hér á Rauðarárholti. Hugmyndum um aðstöðu fyrir skólann í Sjómannaskólahúsinu hefur ekki beinlínis verið vel tekið. Viðræðum um málið er ekki lokið og hvet ég til þess, að lagt verði á ráðin um framhaldið í samvinnu við stjórnendur hins nýja skóla. Ég hef ákveðið, að skólinn fái full yfirráð yfir eigin húsnæði á Laugarvatni og menntamálaráðuneytið hætti þar afskiptum af húsakosti vegna íþróttakennslu.

Menntamálaráðuneytið stendur nú fyrir mati á kennaramenntun við Kennaraháskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands. Er matinu ætlað að veita skólunum tækifæri til að endurnýja markmið sín og áætlanir í ljósi fyrra starfs. Hafa skólarnir þegar skilað skýrslum um sjálfsmat, sem eru nú til athugunar hjá óháðum sérfræðingum og ætla þeir að heimsækja skólana í þessum mánuði. Stefnt er að því, að niðurstöður matsins og tillögur til úrbóta liggi fyrir um miðjan mars næstkomandi.

Er einsýnt, að þess verði beðið að setja nýjum skóla námskrá, þar til niðurstöður í þessu starfi hafa verið kynntar. Koma þá einnig til álita tillögur um að lengja kennaranámið í fjögur ár. Er mikilvægt, að um öll skref í því máli náist víðtæk samstaða.

Lögum samkvæmt á menntamálaráðherra að gera tillögur um fjárveitingar til Kennaraháskóla Íslands á grundvelli fjárhags- og starfsáætlunar skólans til fimm ára. Er mikilvægt, að strax verði gengið til þess að gera slíka áætlun og leggja þannig grunn að samningi um fjárveitingar til skólans, sem kynntur verði fyrir ríkisstjórn og Alþingi.

Góðir áheyrendur!

Íslenskt skólakerfi hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum. Nýrri menntastefnu hefur verið í hrundið í framkvæmd. Með nýju lögunum um háskóla hefur öllum skólastigum verið settur nýr starfsrammi síðan ný leikskólalög komu til sögunnar árið 1994. Grunnskólinn er nú í umsjá sveitarfélaganna. Með nýjum skólasamningum og annarri nýbreytni tekur framhaldsskólastigið nú miklum breytingum. Kennaramenntunin er einnig að breytast. Við erum vitni að upphafi þess hér í dag.

Á grundvelli hinnar nýju menntastefnu og í samræmi við ný lög hefur menntamálaráðuneytið undanfarið unnið að því að semja nýja skólastefnu fyrir grunn- og framhaldsskóla. Með hugtakinu skólastefna er vísað til innra starfs í skólum, hins mikilvæga þáttar, sem snýr að hlutverki kennara og verkefnum nemenda. Skólastefnan er skilgreind og útfærð í námskrám. Ætlunin er, að nýjar aðalnámskrár grunn- og framhaldsskóla sjái dagsins ljós næsta haust. Þá er einnig unnið að því að endurskoða uppeldisáætlun leikskólans.

Ný skólastefna verður marklítil nema kennsluhættir séu góðir. Störf og áhrif kennara verða aldrei metin til fulls. Um leið og sett eru ný skilyrði um inntak kennslunnar er einnig verið að tæknivæða skólastarfið æ meira í samræmi við kröfur þekkingar- og upplýsingasamfélagsins, sem sækir styrk sinn að verulegu leyti til nýrrar tölvu- og upplýsingatækni.

Kennarinn þarf ekki einvörðungu að hafa fræði sín og kennslutækni á valdi sínu. Í huga margra er kennarastarfið köllun. Hvað sem því líður verður kennarinn að hafa þekkingu á börnunum sjálfum. Stuðla að sem bestum þroska þeirra, opna hug þeirra og hjarta fyrir öllum góðum áhrifum, vekja áhuga til náms, sem endist þeim alla lífsleiðina. Nám er ekki bundið við hin formlegu skólaár, heldur er það æviverk að viðhalda menntun sinni.

Í upphafi máls míns minnti ég á mikilvægi skólaandans og að hann yrði aðeins til meðal þeirra, sem starfa í skólanum, kennara og nemenda.

Magnús Helgason sagði, þegar hann setti kennaraskólann í fyrsta sinn, að heill og blessun hvers skóla væri mjög undir því komin, hver andi þar réði, og sá andi, sem einu sinni hefði sest að völdum, væri sjaldan fljótur til að sleppa þeim aftur. Lét hann í ljós þá ósk, að innan kennaraskólans settist þegar í öndvegi andi iðjusemi og skylduræktar, siðprýði og góðgirni. Þessi ósk á við enn í dag, þegar nýr Kennaraháskóli Íslands tekur til starfa.

Guð gefi, að hér takist samvinna í góðum anda íslensku þjóðinni til heilla.