1.12.1999

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn 5 ára

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn 5 ára
1. desember 1999.

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn býður okkur í fimm ára afmælishóf hér í dag. Á þeim árum, sem liðin eru síðan safnið hóf starfsemi í þessu glæsilega húsi, hafa orðið meiri breytingar á starfsumhverfi bókasafna en nokkru sinni á jafnskömmum tíma, frá því að safnastarf hófst á Íslandi. Er þess vegna vel við hæfi að koma hér saman á fullveldisdaginn, staldra við og meta stöðuna.

Samfélagsgerðin breytist óðfluga og hún er nú kennd við upplýsingar og þekkingu. Bókasöfn gegna veigamiklu hlutverki í upplýsingasamfélaginu. Með því að nýta upplýsingatækni geta bókasöfn opnað greiðan aðgang að upplýsingum og þekkingarmiðlum. Þannig stuðla þau að aukinni uppfræðslu og lýðræðislegri þátttöku almennings. Með aukinni fjarvinnslu, fjölgun upplýsingastarfa um land allt og vaxandi fjarkennslu eykst einnig mikilvægi upplýsingamiðlunar bókasafna.

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn hefur forystu um meðal íslenskra bókasafna. Það er í senn safn fyrir allan almenning og fyrir Háskóla Íslands. Á fyrstu starfsárum safnsins hafa stjórnendur þess lagt sig fram um að leysa hið erfiða verkefni að sameina þjónustu á þessum tveimur sviðum. Tel ég, að vel hafi til tekist.

Á vegum menntamálaráðuneytisins hefur verið unnið að ýmsum málefnum, sem snerta framtíðarstarfsemi bókasafna. Ég nefni þrjú:

Í fyrsta lagi hefur verið stefnt að því, að eitt tölvuvætt bókasafnskerfi þjóni landinu öllu og komi í staðinn fyrir Gegni og Feng, þau kerfi, sem nú eru notuð. Þarfagreiningu fyrir nýtt kerfi er lokið og hefur lýsingin verið kynnt hagsmunaðilum að undanförnu. Gert er ráð fyrir að nýtt bókasafnskerfi verði boðið út á Evrópska efnahagssvæðinu fyrir jól og vali á nýju kerfi verði lokið í maí á næsta ári. Má gera ráð fyrir að fyrstu söfnin taki nýtt kerfi í notkun snemma á árinu 2001. Er þess að vænta að eitt sameiginlegt bókasafnskerfi leiði til meiri skilvirkni og bættrar þjónustu við almenning.

Í öðru lagi er unnið að smíði nýrra laga um skilaskyldu til safna. Nýja löggjöfin verður að taka til rafrænna gagna og varðveislu upplýsinga með rafrænum hætti. Er þetta flókið viðfangsefni, sem nauðsynlegt er, að ljúki sem fyrst.

Í þriðja lagi liggur fyrir greining á þörfum íslenskra safna varðandi aðgang að innlendum og erlendum gagnasöfnum og lagður hefur verið grunnur að sameiginlegum samningum fyrir hönd allra safna í landinu.. Segja má að markmiðið sé tvíþætt, annars vegar að tryggja lægri kostnaði við aðgang íslenskra stofnana að gagnasöfnum, hins vegar að veita smærri söfnum aðgang að gagnasöfnum, sem áður voru þeim óaðgengileg. Vegna þess hve rannsóknarsamfélagið hér á landi er smátt í sniðum samanborið við önnur lönd og þjóðin fámenn, eru jafnvel lægstu verð á gagnasöfnum mörgum bókasöfnum ofviða. Er nú unnið að því að koma á laggirnar verkefnisstjórn, sem hefur það verkefni að semja um aðgang að gagnasöfnum. Jafnframt þarf að huga að fjárhagslegri hlið málsins og móta tillögur um fjármörgnun.

Nýtt félag bókavarða og bókasafns- og upplýsingafræðinga, Upplýsing, var stofnað með hátíðlegum hætti fyrir fáeinum dögum. Á stofnfundinum kom glöggt fram, að félagsmenn gera sér góða grein fyrir þeim miklu breytingum, sem eru að verða á starfssviði þeirra. Starf bókasafnsfræðinga mun í enn ríkara mæli beinast að því að kunna skil á upplýsingaveitum á margmiðlunardiskum, gagnabönkum og netinu. Endurmenntu og símenntun starfsmanna bókasafna er mikilvægur þáttur í allri viðleitni, sem miðar að virkri þátttöku allra í upplýsingasamfélaginu.

Góðir áheyrendur!

Eins og áður segir hefur Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn forystu meðal íslenskra bókasafna. Þess vegna er ástæða til að fagna því, að safnið hefur mótað sér metnaðarfulla stefnu undir heitinu: Þekking, vísindi og menning við aldaskil og kynnir hana nú í tilefni af 5 ára afmælinu. Þar er verksvið safnins skilgreint og mótaðar leiðir að skilgreindum markmiðum. Meðal annars er áréttað, að safnið hafi forystu meðal íslenskra bóksafna um notkun upplýsingatækni auk þess sem það hafi forgöngu um þátttöku Íslands í alþjóðavæðingu á sviði upplýsingamiðlunar.

Bygging Þjóðarbókhlöðunnar tók tvo áratugi og jafnvel í enn lengri tíma höfðu menn rætt um nauðsyn þess að búa bókakosti þjóðarinnar viðunandi húsaskjól. Þjóðarbókhlaðan er nú fullnýtt og færri komast hér að en vilja á mestu annatímum. Unnið er að því að búa safninu aðstöðu í Reykholti í Borgarfirði fyrir varaeintök. Með því skapast ný vídd í starfi safnsins. Bæði í Reykholti og hér í Reykjavík þarf að líta til framtíðar með tilliti til húsnæðisþarfa safnsins.

Ég tel tímabært að með formlegum hætti verði gengið til þess að meta, hvernig skynsamlegast sé að nýta lóð safnsins hér á Melunum. Er ég sammála því sem segir í stefnumótun Landsbókasafns Íslands- Háskólabókasafns um að hugað verði að samstarfi Stofnunar Árna Magnússonar, Orðabókar Háskólans og fleiri hugvísindastofnana við skipulag viðbyggingar við bókhlöðuna. Þar ætti að rísa miðstöð stofnana, sem vinna að því að styrkja og efla íslenska tungu. Hef ég í undirbúningi að skipa nefnd til að móta tillögur um þetta efni.

Þjóðarbókhlaðan hefur á síðustu fimm árum áunnið sér góðan sess í íslensku þjóðlífi. Megi starfið hér halda áfram að vaxa og dafna í því skyni að efla þekkingu, vísindi og menningu þjóðarinnar um langan aldur.