2.12.1999

Agi og skólareglur - málþing

Agi og skólareglur
Málþing 2. desember 1999.

Ég býð ykkur velkomin til þessa málþings um aga og skólareglur. Vil ég þakka öllum, sem hafa komið að því að undirbúa málþingið. Er það von okkar í menntamálaráðuneytinu, að það verði til þess að glöggva skilning allra á viðfangsefninu og auðvelda okkur í sameiningu að móta hugmyndir og tillögur til úrbóta. Lýsi ég einlægum vilja ráðuneytisins til að vinna að þessu verkefni innan þess ramma, sem því er skapaður með lögum og reglum. Ætla ég að nota tíma minn hér í upphafi málþingsins til að ræða þennan ramma, því að öll þurfum við að vita, hvar við stöndum við úrlausn viðfangsefna á þessu sviði eins og öðrum.

Til að árétta vilja minn til að ná árangri á þessu sviði, má minna á, að fyrirsögn á einu fyrsta blaðaviðtali, sem tekið var, eftir að ég varð menntamálaráðherra vorið 1995, var þess efnis, að ég teldi meðal brýnustu verkefna í menntamálum að auka aga í skólum. Hef ég ekki skipt um skoðun síðan.

Fréttir hvaðanæva úr heiminum minna okkur á að innan skóla geta gerst hroðalegir atburðir, ef ekki er gætt aga. Við búum sem betur fer enn í svo einsleitu þjóðfélagi, að hér verður ekki vart við þann ríg og tortryggni milli manna, sem spillir friði víða og kallar oft á mikið ofbeldi, jafnt meðal barna og unglinga og hinna sem eldri eru. Sumir telja þó, að íslenska þjóðfélagið sé einnig að breytast að þessu leyti. Leyfi ég mér þó að fullyrða, að meiri jöfnuður sé milli barna nú á tímum en til dæmis, þegar ég var að alast upp í Hliðunum og sótti Austurbæjarskólann, þar sem voru nemendur úr mjög ólíkum hverfum.

Leiðir til að sporna við ofbeldi og agaleysi eru oft vandrataðar. Mikið regluveldi, sem í raun er aldrei framfylgt, kann frekar að skapa almennt virðingarleysi fyrir reglum en trú á gildi þeirra. Lærdómsríkt er að lesa um aðferðir, sem beitt hefur verið í New York-borg á síðustu árum og skilað hafa mjög góðum árangri við að draga úr afbrotum. Þar beitti borgarstjórinn sér fyrir því, að tekið var á öllum brotum með skipulegum hætti. Menn komust ekki upp með veggjakrot, sóðaskap eða virðingarleysi gagnvart eignum annarra. Á öllum málum var tekið með skipulegum hætti. Smátt og smátt jókst virðingin fyrir hinum almennu samskiptareglum manna og þar með dró úr glæpum og afbrotum.

Ég hef heimsótt marga skóla og þess vegna séð mismunandi skólabrag. Stundum verð ég undrandi á því, þegar ég kem inn í skólastofur, einkum unglingabekkja, hvað nemendum líðst að hafa með sér í tíma og hvernig þeir bera sig að í kennslustundum. Held ég, að margt megi læra af borgarstjóranum í New York með því að byrja á að taka á litlu atriðum til að ná miklum árangri. Stundvísi, snyrtimennska, hirðusemi og hreinlæti eru orð, sem koma í hugann. Ég er einnig eindregið þeirrar skoðunar, að ungt fólk kjósi að agi ríki í kringum það, þegar það er við vinnu sína í skólum. Ekkert okkar nýtur sín á vinnustað, þar sem allt er í uppnámi og hver er að trufla annan.

Mikilvægt er einnig, að skólabragur sé með þeim hætti, að nemendur átti sig fljótt á gildi þess að hafa röð og reglu á hlutunum og menn sýni hver öðrum vinsemd og háttvísi. Þess vegna hefur það almennt gildi fyrir aga í skólum, að umræður um skólastarf í þjóðfélaginu séu jákvæðar en einkennist ekki af spennu og upphlaupsfréttum. Þá ber að umgangast allar reglur í skólastarfi af virðingu, ekki aðeins þær, sem lúta að kröfum um aga. Það stuðlar til dæmis ekki að aga, ef nemendur verða varir við, að kennarar mismuna nemendum eða láta suma sitja heima á samræmdum könnunarprófum til að tryggja skóla sínum betra meðaltal í samanburði milli skóla.

Það er þannig í mörg horn að líta. Við getum aldrei litið á skólana sem eyland innan þjóðfélagsins. Þeir endurspegla straumana í því. Öldin sem er að hverfa er ekki aðeins fyrsta öld Íslandssögunnar, þar sem öllum hefur verið skylt að sækja skóla, heldur hafa þjóðfélagsbreytingar orðið meiri og örari en nokkru sinni fyrr. Fólk hefur flust úr sveitum í þéttbýli. Báðir foreldrar eru virkir þáttakendur á vinnumarkaði. Kröfur til skóla hafa breyst. Uppeldisþátturinn í skólastarfi er meiri en áður. Þykir sumum nágrönnum okkar nóg komið í því efni, því að fréttir herma, að í Danmörku til dæmis vilji menn staldra við og skilgreina betur mörkin á milli þess, sem unnt er að krefjast af skólum, og hverjar eru skyldur heimilanna.

Foreldrar bera vitaskuld höfuðábyrgð á uppeldi barna. Innan heimilinna á að kenna þeim heilbrigði í umgengni við aðra, kurteisi, háttvísi í framkomu, tillitssemi, umburðarlyndi, virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum og ekki síst sjálfsaga. Einnig þurfa foreldrar að leggja rækt við siðferðisuppeldi, miðla viðteknum siðferðisgildum og kenna börnum sínum mun á réttu og röngu. Ef ekkert af þessu fylgir börnum úr foreldrahúsum, er erfitt að fylla það skarð í leikskólum eða grunnskólum, því að lengi býr að fyrstu gerð.

Ef litið er á þær reglur, sem settar hafa verið um skólastarf, má skipta þeim annars vegar í almennar lagareglur, sem setja öllum stjórnvöldum starfsramma, og hins vegar reglur, sem gilda um nám og innra starf skólanna. Alþingi setur hinar almennu reglur, ráðuneyti setur námskrár og reglugerðir og skólarnir móta sínar innri reglur á þessum forsendum. Síðan ber kennurum, skólastjórnendum, sveitarstjórnum og ráðuneyti að fara að ákveðnum leikreglum, ef út af bregður, til dæmis vegna þess að nemandi virðir ekki settar agareglur.

Skipulag skólastarfs hefur breyst mikið hér á landi undanfarin ár. Ber þar hæst flutning grunnskólans til sveitarfélaganna 1. ágúst 1996. Sveitarfélög bera nú ábyrgð á öllum rekstri grunnskóla og sérskóla svo og skipulagi sérfræðiþjónustu. Undir menntamálaráðuneytið fellur almenn stefnumótun, setning reglugerða, námskrárgerð, eftirlit með framkvæmd skólastarfs, menntun og endurmenntun kennara og námsgagnagerð.

Með flutningi grunnskólans var komið á hreinum skilum milli ríkis og sveitarfélaga á þessu mikilvæga sviði. Í umræðum um flutninginn komst ég oft þannig að orði, að hann væri fyrsta skrefið til að koma stjórn skólanna í hendur foreldra. Tel ég það æskilegt markmið að auka svo sem verða má hlut foreldra í starfi skóla. Skilin á milli heimila og skóla hafa breyst á þann veg, að samstarf þessara aðila verður að aukast til að sá árangur náist, sem að er stefnt.

Skólakerfið stendur nú enn á tímamótum þegar nýjar aðalnámskrár fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla eru komnar til sögunnar, allar á sama tíma í fyrsta sinn í íslenskri skólasögu og samdar með það að leiðarljósi að tryggja samfellu og stígandi í skólagöngu nemandans. Það eitt að hafa nóg að gera í skólanum, finna þar verkefni við hæfi og stefna að skýru markmiði, er mjög til þess fallið að auka aga. Í námskránum er fylgt þeirri stefnu að allir nemendur skuli njóta kennslu við hæfi í heimaskóla sínum sé þess nokkur kostur. Í skólum þarf jafnt að taka vel á þeim, sem ná miklum árangri á skömmum tíma og hinum, sem eru seinir til náms. Afbruðanemendur þurfa ekki síður umhyggju en hinir, sem standa höllum fæti, þótt úrræðin séu ólík. Ef veikindi og fötlun er þess eðlis að ekki sé unnt að sinna barni í heimaskóla kann skólavist í sérskóla að vera besta úrræðið. Sveitarfélögum er skylt að hafa slík úrræði til reiðu með því að reka sérdeildir og sérskóla.

Aðalnámskrá grunnskóla gerir ráð fyrir því, að þorri nemenda geti náð flestum markmiðum námskrárinnar á sama tíma. Markmið aðalnámskrár eiga þó hvorki að skoðast sem hámark né lágmark. Það er skylda hvers skóla að laga námið sem best að nemendum hverju sinni. Nemendur eiga rétt á viðfangsefnum sem henta námsgetu þeirra og hæfni.

Grunnskólar eiga að taka við öllum börnum hvernig sem á stendur um atgervi þeirra til líkama og sálar, félagslegt og tilfinningalegt ásigkomulag eða málþroska. Þetta á við um fötluð börn og ófötluð, afburðagreind og greindarskert og allt þar á milli, börn úr afskekktum byggðarlögum, börn úr minnihlutahópum sem skera sig úr hvað varðar mál, þjóðerni eða menningu. Grunnskólum er skylt að mennta öll börn á árangursríkan hátt. Segja má, að til mikils sé ætlast þegar slíkur texti er lesinn, hins vegar væri ekki unnt að ná sátt í þjóðfélaginu um neitt annað markmið í þessu efni. Á skólann eru því lagðar miklar skyldur.

Til að þessi markmið náist þarf að vera gagnkvæm og virk upplýsingagjöf milli foreldra og starfsfólks skóla svo og gagnkvæmt traust. Þetta á ekki síst við þar sem nemendur hafa einhverjar sérþarfir. Fjölskylda, skóli og nánasta umhverfi eru sterkustu áhrifavaldar í mótun einstaklingsins, þar vegur ábyrgð foreldranna þyngst. Mikilvægt er að foreldrar fylgist vel með skólagöngu barna sinna og stuðli þannig að jákvæðri afstöðu til menntunar. Kynna þarf foreldrum rétt þeirra og skyldur gagnvart skólagöngu barna sinna. Foreldrar þurfa í auknum mæli að taka virkan þátt í námi barna sinna, bæði í nánum tengslum við kennara um eigið barn og starfið almennt í bekknum svo og skólastarfið í heild.

Sérstaklega þarf að huga að tengslum foreldra og skóla við upphaf framhaldsskóla með hliðsjón af því að sjálfræðisaldur ungmenna hefur hækkað í 18 ár. Menntamálaráðuneytið hefur nú gert sérstakan samning við Barnaverndarstofu vegna unglinga á aldrinum 16 til 18 ára, sem ekki eru í framhaldsskóla en eru á heimilum á vegum stofunnar og fá aðgang að kennslu þar.

Ef eitthvað fer úrskeiðis í skólagöngu nemanda er meginstefna grunnskólalaga sú, að grafist skuli fyrir um orsakir hegðunarvandamála hjá nemandanum. Reynt skal að ráða bót á þeim með samvinnu skólayfirvalda, nemandans sjálfs, forráðamanna hans og sérfróðra ráðgjafa. Er gert ráð fyrir því, að tilraunir séu gerðar til þess að leysa agavandamál innan skólans og að slíkt geti tekið allt að einni viku, áður en gripið er til annarra aðgerða, en þá skal málinu vísað til meðferðar skólanefndar. Brottvísun úr skóla jafnvel tímabundið er neyðarúrræði, sem heimilt er að beita en ekki skylt að mati skólastjóra. Líta menntamálaráðuneytið og umboðsmaður alþingis þannig á, að ákvörðun um brottvísun úr skóla verði að byggjast á sjálfstæðu mati í hverju tilviki en ekki á einhvers konar punktakerfi eða öðrum næsta sjálfvirkum verklagsreglum.

Í aðalnámskrá grunnskólans er að finna skilgreiningu og útlistun á ýmsum þeim atriðum, sem hér hafa verið rakin. Þar segir meðal annars:

"Skólinn aðstoðar foreldra í uppeldishlutverkinu og býður fram menntunartækifæri. Menntun og velferð nemenda er sameiginlegt verkefni heimila og skóla og samstarfið þarf að byggjast á gagnkvæmri virðingu, gagnkvæmu trausti, samábyrgð og gagnkvæmri upplýsingamiðlun."

Ennfremur er komist svo að orði: "Mesta áherslu ber að leggja á samstarf heimila og skóla um hvern einstakling, nám hans og velferð og heimili og skóla sem vettvang menntunar. ...Gert er ráð fyrir að foreldrar taki þátt í mótun skólasamfélagsins og vinni að því með kennurum og öðrum starfsmönnum skóla að koma markmiðum skólastarfs í framkvæmd. Einnig að foreldrar taki í auknum mæli höndum saman til að tryggja börnum sem best uppeldisskilyrði og almenna velferð."

Loks er vísað í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og sagt: "Börn eiga rétt á að láta skoðanir sínar frjálslega í ljós í öllum málum sem þau varða og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska. Því þarf að leita allra leiða í skólum til að treysta almenna velferð nemenda í samvinnu við foreldra og tryggja að nemendur hafi tækifæri til að tjá sig um mál sem þá varðar og taka þátt í mótun skólasamfélagsins í samræmi við aldur og þroska. Þó verður ætíð að hafa hugfast að grunnskólanemendur eru ósjálfráða og lúta forsjá fullorðinna."

Skólareglur, sem settar eru að frumkvæði skólastjóra, skulu ná til alls skólasamfélagsins, þ.e. starfsfólks skólans og stjórnar hans, nemenda og foreldra. Því er afar mikilvægt að sjónarmið foreldra fái notið sín við setningu þeirra og að foreldrar séu sáttir við reglurnar. Á sama hátt er nauðsynlegt að fulltrúar nemenda eða nemendaráðs komi að gerð skólareglna og geti túlkað reglurnar fyrir skólafélögum og beri þannig nokkra ábyrgð á þeim. Samfara skólareglunum ber að birta viðurlög við brotum á þeim þannig að öllum aðilum sé ljóst hvaða reglur gildi í skólanum og hvaða viðurlög séu við brotum á þeim.

Góðir áheyrendur!

Eins og heyra má af því, sem hér hefur verið sagt, er alls ekki litið þannig á af neinum, sem að starfi skóla kemur, að skólastarf sé einangrað frá foreldrum og heimilum nemenda. Skólarnir starfa ekki heldur einangraðir innan stjórnkerfisins. Málþing okkar hér í dag má meðal annars rekja til ákvarðana, sem teknar voru í samráðsnefnd menntamálaráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og samtaka kennara og skólastjóra um fagleg málefni grunnskóla. Nefndin fjallar um mál, sem snerta innra starf grunnskóla og leitast við að finna á þeim farsæla lausn. Fyrir rúmu ári beitti samráðsnefndin sér fyrir því að koma á laggirnar starfshópi til að fjalla um "skólareglur og aga í grunnskólum." Var hópnum falið að endurskoða gildandi reglugerð nr. 385/1996 um skólareglur og aga í grunnskólum og taka saman leiðbeinandi vinnureglur um meðferð agabrota í grunnskólum, m.a. með tilliti til stjórnsýslulaga. Þá hefur hópurinn undirbúið málþingið hér í dag og skýrsla hans er hér til umræðu.

Í starfshópnum hafa setið Guðmundur Sighvatsson frá Skólastjórafélagi Íslands, Guðni Olgeirsson frá menntamálaráðuneytinu, Jón Hjartarson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Jónína Bjartmarz frá Landssamtökunum Heimili og skóla, Svandís Ingimundardóttir frá Kennarasambandi Íslands og Þórhildur Líndal, umboðsmaður barna. Sigrún Ágústsdóttir hefur í haust verið fulltrúi Kennarasambands Íslands. Í starfshópnum sitja fulltrúar helstu aðila skólasamfélagsins, yfirstjórnar skólamála og sérstakur gæslumaður hagsmuna barna. Þess vegna er í senn athyglisvert og gleðilegt, að hópurinn hefur náð að móta skýrar og afdráttarlausar tillögur varðandi skólareglur og aga í grunnskólum í nýju og breyttu starfsumhverfi. Færi ég þessu ágæta fólki einlægar þakkir fyrir vel unnin störf. Vona ég að svipað samstarf megi takast um þróun fleiri þátta skólastarfs.

Mér er kunnugt um að góður samstarfsandi ríkti í hópnum, þótt vitaskuld hafi verið tekist á um ýmis mál eins og vera ber í opnum umræðum. Vona ég, að málþingið verði til þess að enn fleiri sjónarmið komi fram. Agamál í skólum er eitt af þeim feimnismálum, sem nauðsynlegt er að ræða. Raunar hefur umræðan ein gildi í sjálfu sér, eins og til dæmis kom fram, þegar umboðsmaður barna kallaði saman málþing um einelti í skólum.

Í upphafi máls míns sagðist ég stundum verða undrandi, þegar ég kæmi í skóla vegna þess anda, sem ríkti. Nær alltaf fyllist ég hins vegar stolti, þegar gengið er um skóla og farið í bekki eða fylgst með nemendum við annað skapandi starf. Íslenska skólakerfið er gott og markmið okkar með þessu málþingi er það eitt að gera það enn betra.