29.7.2000

Snorrastofa opnuð - Reykholt


Snorrastofa,
Reykholti,
29. júlí, 2000.


Noregskonungur, drottning Noregs, forseti Íslands, virðulegir áheyrendur.

Í Sturlungu segir, að Snorri Sturluson hafi fellt mikinn hug til Reykholts. Síðan hafa nöfn Snorra og Reykholts fylgt hvort öðru í tæp átta hundruð ár. Enn er þessi samfylgd áréttuð í dag, þegar við komum saman í tilefni af því, að Snorrastofa er opnuð með hátíðlegum hætti. Er mikið fagnaðarefni, að norsku konungshjónin skuli sýna minningu Snorra og starfinu, sem hér hefur verið unnið undanfarin ár, þá virðingu að taka þátt í hátíðinni með okkur.

Heimsókn konungshjónanna er enn ein staðfesting á ræktarsemi norsku konungsfjölskyldunnar við Snorra Sturluson. Enn lifir í minningu Íslendinga þegar Ólafur krónprins kom hingað færandi hendi árið 1947 með styttuna af Snorra eftir Gustav Vigeland.

Það eru þó ekki einvörðungu Noregskonungar, sem leggja starfinu hér í Reykholti liðsinni sitt, því að Norðmenn almennt og einkum íbúar Vesturfylkja Noregs hafa löngum borið hlýjan hug til staðarins og sýnt hann margsinnis í verki. Aldrei þó sem nú og má fullyrða, að ekki stæðum við hér í dag af þessu gleðilega tilefni nema vegna rausnarlegs fjárstuðnings og góðvildar frá Norðmönnum. Þar hafa haft forystu byggðalögin á Hörðalandi, Mæri og Romsdal, Rogalandi, Sogni og Fjörðunum og í Vestur-Agder og auk þess hafa fjölmargar merkar stofnanir lagt þessu góða málefni lið. Færum við Íslendingar þeim, sem leitt hafa þetta mál í Noregi innilegar þakkir fyrir framtakið og raunar öllum hinum fjölmörgu, sem eiga nöfn sín í þessari ágætu bók. Kærar þakkir.

Í huga okkar Íslendinga er Snorri Sturluson lifandi veruleiki, þegar við komum hingað eða leiðum hugann að framlagi hans til menningar okkar og sögu. Hann er einn af hornsteinum íslenskrar menningar, sögu og tungu.

Íslendingar átta sig hins vegar líklega ekki til fulls á því, hve Snorri skiptir miklu í þjóðarvitund Norðmanna. Í Noregi er ekki aðeins litið á hann sem skrásetjara sögu Noregskonunga, skáld og mikinn höfðingja, heldur telja Norðmenn, að arfleifðin, sem Snorri færði þeim, hafi skipt sköpum um það, sem gerðist 1814, þegar þeir fengu eigin stjórnarskrá, slitu tengslin við Danmörku og tóku upp konungssamband við Svía. Snorri hafi sýnt, hvers Norðmenn voru megnugir og þannig gefið þeim sjálfstraust og styrk á miklum örlagatímum. Næst Biblíunni hafi engin bók jafnmikið gildi fyrir Norðmenn og Heimskringla.

Um þessar mundir fara fram meiri fornleifarannsóknir í Reykholti en nokkru sinni fyrr. Árangur þeirra er þegar orðinn mikill. Þær eru þó aðeins einn hluti þess rannsókna- og vísindastarfs, sem við Íslendingar viljum efla hér á staðnum. Vilji okkar stendur til þess, að hér verði miðstöð rannsókna í íslenskum og evrópskum miðaldafræðum, þar sem vísindamenn frá Evrópu og öðrum heimsálfum, íslenskar og erlendar rannsóknastofnanir láti að sér kveða. Hefur þegar verið lagður grunnur að þessu starfi með mörkun stefnu og samkomulagi við Snorrastofu.

Snorri Sturluson var ekki einangraður hér í Reykholti heldur var heimurinn allur viðfangsefni hans. Í þeim víðsýna anda hans eigum við að þróa vísindastarfið hér og í alþjóðlegu samstarfi. Ekki síst þess vegna er það sérstakt gleðiefni að veita gjöfum Norðmanna viðtöku á þessari stundu.

Við þökkum einnig fyrir þann mikla áhuga, sem Norðmenn sýna hátíðinni í dag og hve mikið þeir hafa lagt af mörkum til hennar. Hitt er jafnframt gleðiefni að vita, hve margir Norðmenn koma í einskonar pílagrímsför til Reykholts. Öll þessi ræktarsemi við Snorra Sturluson og minningu hans er mikils metin af okkur Íslendingum.

Um leið og ég færi Norðmönnum hugheilar þakkir fyrir ómetanlegan stuðning þeirra, vil ég ítreka þakklæti til Reykholtssafnaðar og heimamanna hér fyrir þeirra óeigingjarna starf í þágu þessa góða málstaðar. Hinn mikli stórhugur þeirra hefur verið aflvaki alls, sem hér hefur verið að gerast undanfarin ár, og á aðeins eftir að dafna og eflast enn frekar á komandi árum.

Innilega til hamingju með daginn!