20.4.2009

Sendiherra ESB gerist virkur í kosningabaráttunni - gengur í lið með Samfylkingunni

Pistill á amx.is 20.04.09

Í grein, sem ég ritaði í tímaritið Þjóðmál, 4. hefti 2008, segir:

„Percy Westerlund, sendiherra ESB á Íslandi með búsetu í Ósló, hefur verið fremstur í flokki þeirra, sem virðast jafnvel líta á það sem móðgun við ESB, að Íslendingum detti í hug að taka upp evru, án þess að vera í ESB. Honum hefur gengið það helst til að knýja Íslendinga til að sækja um ESB-aðild. Eftir bankahrunið á Íslandi flutti hann fyrirlestur í háskólanum í Ósló og taldi ekki óhugsandi, að Íslendingar sæktu um aðild að ESB fyrir jól 2008 og yrðu komnir inn árið 2010. Ísland þyrfti að ná efnahagslegum stöðugleika, hann fengist með evrunni að mati sendiherrans, og evran krefðist ESB-aðildar.

Þessi lýsing á afstöðu ESB-sendiherrans birtist hinn 20. nóvember, 2008, í norska blaðinu Aftenposten grein eftir Janne Haaland Matlary, prófessor í stjórnmálafræði við háskólann í Ósló, undir fyrirsögninni: Hvað þýðir það fyrir Noreg ef Ísland gengur í ESB? Prófessorinn segir, að mótmælt sé í þágu ESB-aðildar í Reykjavík, 70% þjóðarinnar vilji í ESB, Geir H. Haarde forsætisráðherra hafi skipað nefnd, sem ljúka eigi störfum á skömmum tíma, svo að stjórnmálamenn geti fótað sig á nýrri stefnu, ríkisstjórnin sé svo óvinsæl, að hún eigi sér fátt til bjargar, og ESB sé neyðarhöfn í ofviðrinu.“

Sjálfstæðismenn hafa kynnt þá stefnu, að skynsamlegt sé að leita samstarfs við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS) um gjaldmiðilsskipti með augastað á evru. Percy Westerlund hefur af því tilefni beina þátttöku í íslenskum stjórnmálum með stuðningi við Samfylkinguna , viku fyrir kjördag. Slíkt er einsdæmi hér á landi og þótt víðar væri leitað. Hann ræðst á stefnumið Sjálfstæðisflokksins með orðalagi, sem alls ekki hæfir sendiherra, og aðferð, sem er langt fyrir utan eðlileg afskipti sendiherra af innanríkismálum viðkomandi lands.

Að mínu áliti eru þessi afskipti sendiherrans af íslenskum stjórnmálum þess eðlis, að full ástæða er til formlegrar kvörtunar af hálfu utanríkisráðuneytisins. Íhlutun í kosningabaráttu er svo langt utan við starfsvettvang sendiherra, að bregðist ekki utanríkisráðuneytið við á þann hátt sem eðlilegt er, má ætla að kosningaeftirlitsmenn á vegum Öyggis- og samvinnustofnunar Evrópu geri það.

Líklega er engin tilviljun, að Percy Westerlund talar á þennan hátt sama dag og Eiríkur Bergmann Einarsson, Evrópufræðingur á Bifröst, bloggar um það, að líklegt sé, að Íslendingar verði reknir út af evrópska efnahagssvæðinu (EES) vegna gjaldeyrishaftanna, sem norski seðlabankastjórinn ætlar nú að fylgja eftir með því, sem nefnt er „eftirlitseining“ á máli fagmanna, en er nýtt gjaldeyriseftirlit.

Percy Westerlund lítur ekki á það, sem sitt hlutverk að standa vörð um EES-samninginn. Hann notar hvert tækifæri sem gefst til að gera sem minnst úr gildi hans, en það er einmitt með vísan til samningsins um EES og stofnsáttmála ESB, sem íslensk stjónvöld geta sótt gjaldmiðilsmálið á hendur framkvæmdastjórn ESB. Fyrir því eru skýr málefnaleg rök, hvað sem Percy Westerlund hefur til málanna að leggja.

Neikvæð afstaða Westerlunds til EES og allra þeirra á Íslandi, sem hafa efasemdir um réttmæti þess að Ísland gangi í ESB, hefur stórlega spillt áliti mínu á ESB og á ríkan þátt í því, hve sannfærður ég er um, að við Íslendingar eigum ekki erindi inn undir stjórnarhætti, sem endurspeglast í viðhorfi Westerlunds og allri óvild valdamanna í Brussel gagnvart sjálfstæðum vilja einstakra ríkja. Best sést þessi andúð á ótta þeirra við þjóðaratkvæðagreiðslur.

Hitt er síðan sorgleg staðreynd hér heima fyrir, hve margir eru fljótir að beygja sig í duftið fyrir þessum erindreka Brusselvaldsins og gleðjast yfir því, þegar hann talar eins og sá, sem valdið hefur gagnvart íslenskum stjórnmálamönnum.

Þýlyndi gagnvart sjónarmiðum þeirra, sem tala í nafni ESB, hefur því miður fengið að festa um of rætur innan utanríkisráðuneytisins á undanförnum árum í ráðherratíð þeirra Jóns Baldvins Hannibalssonar, Halldórs Ásgrímssonar, Valgerðar Sverrisdóttur, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Össurar Skarphéðinssonar, en þau hafa öll viljað Ísland inn í ESB og þess vegna lagst gegn allri gagnrýni á málflutning á borð við hann sem Westerlund hefur í frammi.

Samfylkingin lítur einfaldlega á Percy Westerlund sem nýjan liðsmann í kosningabaráttunni. Hann er hins vegar sendiherra gagnvart Íslandi, sem ber að gæta hlutleysis og halda sig frá afskiptum af innanríkismálum, svo að ekki sé minnst á kosningabaráttu. Hafi einhver hagða sér bjálfalega í þessu máli er það Percy Westerlund, sendiherra Evrópusambandsins gagnvart Íslandi og Noregi.