29.3.2009

Ingibjörg Sólrún sendir Sjálfstæðisflokknum kaldar kveðjur

Birt á www.amx.is 28. mars 2009.

 

Einkennilegt er að verða vitni að því, hvernig ráðherrar Samfylkingarinnar í ríkisstjórn Geirs H. Haarde vilja láta eins og allt það, sem þar fór á annan veg en ætlað var, hafi verið okkur sjálfstæðismönnum að kenna.

Í ræðu, sem ég flutti á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um Evrópumál 27. mars, vék ég að því mati mínu, að af hálfu utanríkisráðuneytisins hefði ekki verið nóg að gert til að gæta sóma Íslands eftir bankahrunið. Það hefði ekki verið brugðist við af nægri hörku gegn ákvörðun bresku ríkisstjórnarinnar um að setja okkur á bekk með hryðjuverkamönnum en til þess hefði hún notið stuðning Evrópusambandsins. Vegna aðildardekurs utanríkisráðherra Samfylkingarinnar hefði ekkert verið gert, sem talið var að kynni að styggja ESB eða draga úr áhuga okkar Íslendinga á aðild að ESB. Auk þess væri þess að minnast, að samfylkingarfólk liti á ráðherra í bresku ríkisstjórninni sem flokksystkin og ræddi við ráðherrana á þessum grundvelli.

Í þessu ljósi vil ég víkja að setningarávarpi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur á landsfundi Samfylkingarinnar 27. mars. Þar sendi hún Sjálfstæðisflokknum kaldar kveðjur í því skyni að upphefja sjálfa sig og Samfylkinguna.  Ingibjörg Sólrún sagði til dæmis:

„Það sem hélt okkur í samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn fram yfir áramót var aðallega þrennt. Í fyrsta lagi mikilvægi þess að halda líflínunni við útlönd opinni m.a. í gegnum alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Í öðru lagi nauðsyn þess að afgreiða fjárlög fyrir árið 2009. Í þriðja lagi vilyrði um stefnubreytingu hjá Sjálfstæðisflokknum varðandi stjórnkerfi Seðlabankans og Evrópusambandið.“

Þegar rýnt er í þessi orð er þrennt, sem vekur athygli. Í fyrsta lagi má af textanum auðveldlega draga þá ályktun, að það hafi staðið á Sjálfstæðisflokknum að eiga samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS). Þessi ályktun er hins vegar alröng. Geir H. Haarde greip til þess ráðs til að fá samþykki  ráðherra Samfylkingarinnar, einkum Jóhönnu Sigurðardóttur og Össurar Skarphéðinssonar, fyrir samvinnu við AGS að kalla Ingimund Friðriksson, þáverandi seðlabankastjóra, á fund ríkisstjórnarinnar til að milda ásýnd AGS í augum ráðherra Samfylkingarinnar .

Enginn ágreiningur var í ríkisstjórn Geirs H. Haarde  um að vinna markvisst að samþykkt fjárlaga fyrir árið 2009, enda lauk afgreiðslu laganna í tæka fyrir áramót.

Ég átta mig ekki á því, hvað felst í orðinu „vilyrði“  um  stefnubreytingu sjálfstæðismanna varðandi stjórnkerfi seðlabankans og Evrópusambandið. Hver gaf slíkt „vilyrði“ og hvers efnis var það?

14. nóvember var Evrópunefnd Sjálfstæðisflokksins skipuð til fara yfir stefnu flokksins í Evrópumálum í ljósi hagsmuna lands og þjóðar. Það var ekki vitað fyrr en 27. mars, hver yrði niðurstaða hennar, þegar landsfundur samþykkti hana og komst að því, að ástæðulaust væri fyrir flokkinn að breyta stefnu sinni. Ég hef aldrei heyrt minnst á neitt „vilyrði“ Sjálfstæðisflokksins í Evrópumálum við afgreiðslu þessa máls meðal sjálfstæðismanna.

Í ræðunni 27.  mars sagði Ingibjörg Sólrún orðrétt

„Þann 23. október sl. [2008] afgreiddi ríkisstjórn Íslands efnahagsáætlun sína og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins sem var forsenda lánveitinga annarra ríkja og viðskipta Íslands við umheiminn. En við tók biðin langa og óvissan mikla. Það dróst í fimm vikur að málið kæmist í höfn vegna tortryggni annarra ríkja og markviss andróðurs Breta. Við höfðum heiminn einfaldlega á móti okkur. Samfylkingin hafði þá forgöngu um að hafa samband við þessi ríki, leita pólitískra lausna á deilumálum og lenda umsókninni. Í þessu sambandi skulum við hafa í huga að forsprakkar úr öllum öðrum flokkum virtust reiðubúnir til að rjúfa tengsl landsins við aðrar þjóðir. Þessi trippi varð Samfylkingin að reka.“

Það er merkilegt, að í þessum orðum víkur Ingibjörg Sólrún ekki einu gagnrýnisorði á Breta og hrottalega framkomu þeirra í okkar garð. Staðreynd er, að af hennar hálfu og utanríkisráðuneytisins var þeirri stefnu fylgt á alþjóðavettvangi, að íslenskir stjórnarerindrekar skyldu láta lítið fyrir sér fara og sýna auðmýkt í von um samúð.

Hver man eftir því, að utanríkisráðherra Íslands hafi lamið í borðið og sagt hingað og ekki lengra við Breta? Eða reynt að afla þeirri skoðun fylgis á vettvangi EES, að það bryti í bága við EES-samninginn, hvernig Bretar komu fram við okkur Íslendinga? Eða almennt haldið lögfræðilegum sjónarmiðum til haga til að hafa uppi í erminni gagnvart Bretum og Evrópusambandinu? Það var jú hið evrópska kerfi, sem þoldi ekki bankahrunið og allri skuldinni var skellt á Íslendinga í orðsins fyllstu merkingu.

Hin pólitíska lausn, sem Ingibjörg Sólrún nefnir, fólst einfaldlega í auðmýkt og að láta valta yfir okkur til að komast inn í lánaröð AGS. 

Samkvæmt samþykktum sínum bar AGS skylda til að lána okkur Íslendingum við þær aðstæður, sem hér höfðu skapast. Vandinn var sá, að Bretar og Hollendingar kröfðust þess af Evrópusambandinu og ríkjum þess, að standa gegn fyrirgreiðslu til Íslands, þar til bresk og hollensk stjórnvöld teldu sig hafa náð þeim tökum á Íslendingum í viðræðum vegna Icesave, sem féllu að hagsmunum þessara stjórnvalda.

Þá sagði Ingibjörg Sólrún:

„Af þessari reynslu segi ég við ykkur íslenskir jafnaðarmenn: Virk utanríkisstefna lands sem talar eigin röddu, tekur þátt af fullri ábyrgð og kýs að sitja við borðið þar sem hagsmunamálum okkar er ráðið, er forsenda þess að unnt sé að reisa landið við.

Það er hlutverk Samfylkingarinnar að byggja upp slíka utanríkisstefnu og tryggja þannig hagsmuni þjóðarinnar og orðspor landsins. Lokað Ísland má ekki verða.“

Eftir þá reynslu að hafa verið sett í skammarkrókinn af ESB vegna kröfu Breta, telur Ingibjörg Sólrún Íslandi fyrir bestu að ganga í ESB. Hún fylgir þar stefnu, sem byggist á orðtakinu, þangað fer klárinn, þar sem hann er kvaldastur. Þegar hún metur hins vegar ríkisstjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn segir hún: Brennt barn forðast eldinn.

Ég var aldrei talsmaður samstarfs Sjálfstæðisflokks við Samfylkinguna, enda hafði ég ímugust á stefnu og starfsaðferðum Ingibjargar Sólrúnar, eftir að hafa kynnst tillitslausri framgöngu hennar í borgarstjórn Reykjavíkur og hvernig hún sagði skilið við samstarfsfólk sitt í R-listanum um áramótin 2002/2003 eða hvernig hún kvaddi Kvennalistann á sínum tíma. R-listinn bar ekki sitt barr eftir Ingibjörgu Sólrúnu og Kvennalistinn ekki heldur. Nú ræðst hún af sambærilegri  heift gegn Sjálfstæðisflokknum og segir:

„Nýir og geðþekkari einstaklingar höfðu tekið við stjórninni [í Sjálfstæðisflokknum] og við bundum vonir við þá. Við horfðum framhjá því við stjórnarmyndunina [vorið 2007] að vandamálið er ekki fólkið heldur flokkurinn.“

Ingibjörg Sólrún grefur að sjálfsögðu ekki undan Sjálfstæðisflokknum á sama hátt og undan R-listanum eða Kvennalistanum. Markmið hennar virðist þó það eitt að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn og upphefja sig á hans kostnað.

Er fróðlegt að bera illan hug Ingibjargar Sólrúnar í garð Sjálfstæðisflokksins saman við orð Geirs H. Haarde, formanns Sjálfstæðisflokksins, í setningarræðu hans á landsfundi flokksins 26. mars. Geir sagði meðal annars:

„Þegar horft er til baka [til hinnar pólitísku stöðu við bankahrunið í október 2008] er mín niðurstaða sú að hyggilegast hefði verið að freista þess strax í haust að mynda þjóðstjórn allra flokka. Hún hefði hugsanlega getað setið út veturinn, gert nauðsynlegar ráðstafanir í efnahags- og atvinnumálum og undirbúið kosningar. Vandinn var sá að vinstri grænir, sem vildu komast í þjóðstjórn, vildu láta kjósa strax í nóvember og voru algjörlega á móti samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Samfylkingin var hins vegar á móti þjóðstjórn af ýmsum ástæðum og ég gaf þennan kost frá mér að vandlega athuguðu máli. Þegar áramótin nálguðust áttum við formenn stjórnarflokkanna ítarlegar viðræður um möguleika á margs konar breytingum, m.a. á ríkisstjórninni. Var mín hugmynd sú að formaður Samfylkingarinnar yrði fjármálaráðherra samhliða annarri uppstokkun í stjórninni. Ein af hugmyndunum sem voru ræddar af minni hálfu á þessum tíma var hugsanleg sameining eða aukið samstarf Seðlabanka og Fjármálaeftirlits.“

Síðar sagði Geir, að sjálfstæðismenn hefðu staðið undir álaginu vegna bankahrunsins en á meðan þeir hefðu unnið að uppbyggingu hefði þá hefði stór hluti Samfylkingarinnar beint „kröftum sínum í innbyrðis  sundrungu og taugaveiklun.“  Á endanum hefði Samfylkingin reynst „vera sú kvísl sem fyrst
brotnaði undan storminum.“

Hjá Geir er ekki að finna sama óvildar- og heiftartón og skín í gegnum orð Ingibjargar Sólrúnar, þegar hún leitast við að gera Sjálfstæðisflokkinn að hluta af  fjármálakrísunni eins og hér má lesa úr ræðu hennar:

„Í Sjálfstæðisflokknum fer auðvald og ríkisvald hönd í hönd. Hér ríkir kunningjakapítalismi. Sjálfstæðismenn eru ráðandi jafnt í fyrirtækjum sem stjórnkerfi og sú samtrygging sem þannig hefur komist á leiðir til aga- og aðhaldsleysis.“

Kveðjuræðu Ingibjargar Sólrúnar við upphaf  landsfundar Samfylkingarinnar munu sjálfstæðismenn minnast sem kaldrar og óvinsamlegrar kveðju í sinn garð. Málsvarar samstarfs um landsstjórnina við Ingibjörgu Sólrúnu á vettvangi Sjálfstæðisflokksins skulda samflokksmönnum í raun afsökun á því, að hafa valið þennan kost. Geir gaf þessa skýringu í ræðu sinni 26. mars:

„Samstarf við Vinstri græna var einnig kostur sem ég íhugaði mjög vel [eftir kosningar 2007], enda hafði ég reynt forystumenn þeirra að orðheldni og heilindum í löngu samstarfi á Alþingi. Það var hins vegar of breitt málefnalegt bil milli flokkanna, ekki síst í orkumálum og afstöðu til auðlindanýtingar. Þótt slík ríkisstjórn hefði á margan hátt verið spennandi kostur þá hefði hún aldrei haft burði til að ráðast í þau verkefni sem við sjálfstæðismenn vildum leggja áherslu á. Það voru því fyrst og fremst málefnin sem réðu því að við ákváðum að ganga til samstarfs við Samfylkinguna, auk þess sem það var mikill kostur að geta treyst á stóran þingmeirihluta í þeim þrengingum sem við sáum þá fram á, þótt engan hafi grunað að þær yrðu að þeim hamförum sem síðar varð raunin.“