2.2.2009

Sjálfstæðisflokkuirnn í stjórnarandstöðu

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í ríkisstjórn í tæp 18 ár. Það eru því söguleg þáttaskil fyrir flokkinn, þegar hann stendur utan stjórnar. Hvað sem öllu öðru líður er einstakt í íslenskri stjórnmálasögu, að flokkur eigi svo langa samfellda stjórnartíð. Hitt hefur ekki heldur gerst á þeim 105 árum, sem liðin eru, frá því að ráðherra varð íslenskur og stjórnarráðið kom til sögunnar, að staðið hafi verið að stjórnarmyndun á þann veg, sem gert var dagana 26. janúar til 1. febrúar.

Brottför Sjálfstæðisflokksins úr ríkisstjórn markar ekki aðeins spor í sögu flokksins heldur einnig þingræðis í landinu. Aðferðin við að koma flokknum úr stjórn og mynda nýja stjórn var óvenjuleg eins og hér verður rakið.

Þingræðisreglan.

Þingræðisreglan, grunnregla íslenskrar stjórnskipunar, gerir ráð fyrir því, að ríkisstjórn styðjist við meirihluta á alþingi. Þess vegna hefur þeirri reglu jafnan verið fylgt við stjórnarmyndanir, að fyrst sé leitað allra leiða til að mynda stjórn, sem nýtur stuðnings meirihluta þingmanna. Þegar Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt mánudaginn 26. janúar, lýsti hann þeirri skoðun við Ólaf Ragnar Grímsson á Bessastöðum, að mynda ætti þjóðstjórn og tryggja þannig þingræðislega stjórn landsins.

Ólafur Ragnar hafði þessa tillögu að engu og fól fyrir hádegi þriðjudags 27. janúar Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar, umboð til að hafa forystu í viðræðum við vinstri-græna um myndun minnihlutastjórnar „í ljósi yfirlýsinga“ Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, og með „tilliti til þeirrra sjónarmiða“, sem Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður frjálslyndra, hafði kynnt í samtali við Ólaf Ragnar. Jafnframt sagði Ólafur Ragnar við þetta tækifæri, að fram hefði komið „það sjónarmið að taka til skoðunar að einn eða fleiri virtir einstaklingar, sérfræðingar utan þings, tækju kannski sæti í slíkri ríkisstjórn.“ Gaf Ólafur Ragnar til kynna, að þar sem slík ríkisstjórn „nyti stuðnings eða samvinnu við a. m. k. fjóra flokka á alþingi og hefði slíka tilvísun út í samfélagið væri kannski á vissan hátt í anda þeirrar þjóðstjórnarhugmyndar sem að margir hafa sett fram að undanförnu.“

Hin tilvitnuðu orð eru af blaðamannafundi, sem Ólafur Ragnar hélt með þeim Ingibjörgu Sólrúnu og Steingrími J. Sigfússyni, formanni vinstri-grænna, á Bessastöðum rétt fyrir hádegi þriðjudaginn 27. janúar. Engin þeirra röksemda, sem Ólafur Ragnar nefnir leysti hann undan þingræðisreglunni og þeirri skyldu að veita stjórnmálamanni fyrst umboð til að reyna myndun ríkisstjórnar, sem nyti óskoraðs stuðnings meirihluta á alþingi.

Einstök vinnubrögð.

Ingibjörg Sólrún hafði ekki styrk vegna alvarlegra veikinda til að leiða þær viðræður, sem efnt var til um myndun ríkisstjórnar, og kom Jóhanna Sigurðardóttir í hennar stað. Það var þó ekki fyrr en um hádegisbil sunnudaginn 1. febrúar, að Ingibjörg Sólrún gekk á fund Ólafs Ragnars og afhenti honum umboðið og hann fól það Jóhönnu Sigurðardóttur, sem síðan kynnti nýja ríkisstjórn á blaðamannafundi á hótel Borg klukkan 16.00 sunnudaginn 1. febrúar.

Samfylking og vinstri-grænir eiga hvor um sig fjóra ráðherra í ríkisstjórninni en auk þeirra sitja þar tveir „virtir einstaklingar“ – seta þeirra breytir engu um eðli ríkisstjórnarinnar. Hún er minnihlutastjórn í skjóli þess, að framsóknarmenn hafa lofað að verja hana vantrausti en hafa frjálsar hendur um stuðning við einstök mál.

Þessi vinnubrögð við stjórnarmyndun eru einstök og renna stoðum undir þá kenningu, að það hafi um nokkurt skeið verið samantekin ráð vinstri flokkanna að koma Sjálfstæðisflokknum út úr ríkisstjórn, hvað sem það kostaði. Mætti ætla af aðferð og framvindu viðræðna um vinstri minnihlutastjórnina, að þetta hafi verið gert í samráði við Ólaf Ragnar Grímsson.

Evrópumálin.

Fleira er til marks um að brottvísun Sjálfstæðisflokksins hafi verið nokkurn tíma í bígerð. Má þar til dæmis nefna yfirlýsingu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í útvarpi 13. desember 2008 um, að stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn yrði slitið, tækju sjálfstæðismenn ekki upp stefnu Samfylkingarinnar í Evrópumálum á landsfundi sínum í lok janúar 2009 – en fundinum hafði verið flýtt og skyldi hann hafa Evrópumál að höfuðþema, meðal annars til að þóknast Samfylkingunni.

Í verkefnaáætlun stjórnarinnar frá 1. febrúar 2009 er það eitt sagt um Evrópumál, að fyrir 15. apríl sé vænst skýrslu Evrópunefndar undir formennsku þingmannanna Illuga Gunnarssonar og Ágústs Ólafs Ágústssonar.

Þegar á reyndi og Evrópumálin höfðu verið rædd, kom í ljós, að stuðningur við aðild að Evrópusambandinu minnkaði jafnt og þétt, eins og við var að búast. Og þá var einnig við því að búast, að Samfylkingin mundi heykjast á málinu, enda var það ætlað henni til vinsælda á kostnað Sjálfstæðisflokksins. Hið gagnstæða gerðist, fylgi Samfylkingar minnkaði samkvæmt skoðanakönnunum en fylgi Sjálfstæðisflokksins styrktist.

Lokakrafan.

Að lokum átti Samfylking einn kost eftir til að ögra sjálfstæðismönnum á þann veg, að þeir gætu ekki starfað áfram í stjórn með Samfylkingunni – það er að krefjast þess að sjálfstæðismenn afsöluðu sér embætti forsætisráðherra og þetta gerðu þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össur Skarphéðinsson á heimili Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, sunnudaginn 25. janúar. Þingflokkur sjálfstæðismanna hafnaði þessari kröfu mánudaginn 26. janúar og veitti Geir umboð til að gera tillögu um þjóðstjórn við Ólaf Ragnar, ef Ingibjörg Sólrún héldi fast í það, að Geir viki úr embætti forsætisráðherra.

Framtíðarverkefni.

Þegar litið er til framtíðarverkefna á vettvangi íslenskra stjórnmála verður að hafa þessa atburðarás, sem hér hefur verið lýst í huga. Hvað sem líður óvenjulegum aðstæðum í efnahagsmálum og atvinnumálum þjóðarinnar, ber að standa vörð um ákveðin grunngildi stjórnskipunarinnar. Að kenna það við einhverja lýðræðisbyltingu að hafa staðið að málum eins og að ofan er lýst, er hreint öfugmæli. Stjórnarfar á Íslandi verður hvorki gagnsærra né betra með valdabrölti af þessu tagi. Embætti forseta Íslands hefur sett niður í tíð Ólafs Ragnars Grímssonar og ekki vex vegur þess við þetta eða traust í þess garð.

Hvað er næst á dagskrá hjá Sjálfstæðisflokknum?

Flokkurinn þarf að skipa á framboðslista vegna kosninga, sem verða 25. apríl.

Flokkurinn kýs nýjan formann á landsfundi, sem nú er boðaður 26. til 29. mars.

Þetta tvennt snýr að innra starfi flokksins. Hann þarf jafnframt að sækja fram út á við. Endurnýja traust í sinn garð bæði með nýju fólki og skýrri stefnu. Ég hef lagt til, að mótuð verði 18 mánaða áætlun til að endurreisa hag heimila og fyrirtækja. Í því sambandi tel ég, að leita eigi allra leiða til að taka upp aðra mynt, án þess að fara í Evrópusambandið. Kynnt verði, hvernig heimili og fyrirtæki geti endurfjármagnað sig. Boðuð verði úrræði, sem duga til að lækka vexti og verðbólgu á þessum mánuðum. Ráðist verði gegn atvinnuleysi á skýran og markvissan hátt.

Ég hef einnig lagt til, að ný kynslóð taki við forystu í Sjálfstæðisflokknum. Þar verði bæði karlar og konur og leitast við að endurspegla breiddina í flokknum. Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að fara sömu leið og bankarnir og skipta aðeins um toppana heldur líta lengra inn í raðir sínar. Hin nýja forysta á að verða mynduð undir hinu gamla en sígilda kjörorði flokksins: Stétt með stétt. Hvort þetta tekst mun ráðast af vali á fólki á framboðslista á næstunni.

Sjálfsstæðisstefnan stenst tímans tönn, enda sé þess gætt að ekki sé horfið frá grunngildum hennar um frelsi einstaklingsins. Við sjálfstæðismenn eigum að stefna að því, að tími okkar utan ríkisstjórnar verði sem stystur. Sagan segir okkur, að þjóðinni vegnar best undir stjórn sjálfstæðismanna og þeir séu best til þess fallnir að leiða Íslendinga út úr erfiðleikum. Á þeim 105 árum, sem liðin eru, frá því að stjórn Íslands fluttist inn í landið hafa þessir erfiðleikar sjaldan verið meiri en núna, þess vegna er brýnna en ella, að sjálfstæðismenn láti að sér kveða og sýni, hvað í þeim býr.