1.9.2008

Óskar Friðriksson - minning.

Morgunblaðið 1. september, 2008.

Óskar Friðriksson átti einstæðan feril sem atvinnumaður í kosningastarfi. Um langt árabil stjórnaði hann utankjörstaðaskrifstofu Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, skrifstofunni sem heldur um þræði flokksins um allt land og erlendis. Í þessu starfi var hann vakinn og sofinn í nokkra mánuði fyrir hverjar kosningar.

Í aðdraganda kosninga, við röðun manna í lista, sat Óskar ekki auðum höndum. Frambjóðendur slógust um að fá hann til að stjórna prófskjörsbaráttu. Síðasta orrusta hans á þeim vettvangi var í mína þágu haustið 2006.

Þótt ég hefði oft hitt Óskar í flokksstarfi og heimsótt hann og félaga hans á utankjörstaðaskrifstofunni til að fá tilfinningu fyrir gangi mála var það fyrst haustið 2006 sem við höfðum dagleg og daglöng samskipti í harðri baráttu. Þá kynntist ég því best hve mikla alúð hann lagði við kosningastarf sitt og hve víðtæk tengsl hann hafði og þekkingu á fólki hvarvetna í þjóðlífinu. Þar að auki var hann ákaflega næmur á strauma í kosningabaráttu og gat því lagt mikið af mörkum við mat á þeim aðferðum sem beita skyldi.

Hvað sem öðru líður í stjórnmálastarfi skiptir mestu að haft sé samband við sem flesta kjósendur og leitast við að hafa áhrif á þá með persónulegum tengslum á einn eða annan hátt. Í kosningabaráttu, eins og þeirri sem nú er háð í Bandaríkjunum, er gífurleg áhersla lögð á að ná sem mestri athygli í gegnum fjölmiðla. Við nánari kynni verða menn samt mest undrandi á því hve frambjóðendur og flokkar leggja mikið á sig til að rækta persónuleg tengsl við sem flesta.

Hér á landi gegndi Óskar Friðriksson lykilhlutverki í tengslastarfi við kjósendur fyrir frambjóðendur í forsetakosningum, þingkosningum, sveitarstjórnarkosningum og prestkosningum. Vissulega var ekki alltaf teflt til sigurs en að leik loknum gengu menn ávallt frá borði sannfærðir um að þeir hefðu gert hið besta í stöðunni – ekki síst vegna þess að þeir höfðu Óskar í liði með sér.

Á kveðjustundu votta ég eiginkonu hans og fjölskyldu innilega samúð og þakka vináttu hans og stuðning.

Blessuð sé minning Óskars Friðrikssonar.