6.11.1999

Umbætur í leikskólum - Morgunblaðsgrein

grein í Morgunblaðinu 6. nóvember 1999:

Umbætur í leikskólamálum

Vandræði R-listans við rekstur leikskóla í Reykjavík fara ekki fram hjá neinum. Hefur spurningu verið beint til mín af þessu tilefni frá foreldrum leikskólabarna um hlutverk menntamálaráðuneytis.

Rekstur leikskóla er alfarið á verksviði sveitarfélaga. Hlutverk menntamálaráðuneytis er að setja námskrá fyrir leikskólastarf og fylgjast með faglegum þáttum þess. Þá eru leikskólakennarar menntaðir í skólum sem reknir eru á vegum ríkisins.

Á undanförnum árum hefur menntamálaráðuneytið beitt sér fyrir miklum umbótum á þeim sviðum leikskólastarfs, sem undir það heyra.

Nýbreytni og umbætur

Árið 1996 heimilaði ég Háskólanum á Akureyri að bjóða nám fyrir leikskólakennara og þar með var menntun þeirra færð á háskólastig. Síðan náðist það markmið með nýjum lögum, sem tóku gildi 1. janúar 1998, að Fósturskóli Íslands rann inn í nýjan Kennaraháskóla Íslands. Nú ganga allir leikskólakennarar undir háskólapróf.

Á þessu hausti innrituðust færri í leikskólakennaranám en rými er fyrir í skólunum, sem það bjóða. Þannig gat Kennaraháskóli Íslands boðið allt að 90 sætum en einungis 63 innrituðu sig, þar af fæst nýstúdentar, heldur fyrst og fremst fólk með reynslu af störfum innan leikskólans.

Háskólinn á Akureyri gæti auðveldlega tekið við 60-70 nemendum en í haust innrituðust einungis 38 nemendur á fyrsta ár. Í raun er það svo í Háskólanum á Akureyri að allar gildar umsóknir eru samþykktar en aðsóknin er dræm. Því er ljóst að það er ekki sætarýmið sem takmarkar framboð á leikskólakennurum og fjarstæðukennt að reyna að bera af sér gagnrýni með þeim hætti.

Talsmenn metnaðarfulls leikskólastarfs höfðu lengi óskað eftir því, að svonefnd uppeldisáætlun leikskóla yrði endurskoðuð og tæki mið af nýjum kröfum, þar sem leikskólinn yrði viðurkenndur sem fyrsta skólastigið. Ákvað ég, að samin yrði aðalnámskrá leikskóla. Var það gert og tók hún gildi 1. júlí í ár. Var efni hennar kynnt með sérstökum bæklingi sem sendur var til foreldra barna á leikskólaaldi.

Leitað að blóraböggli

Ekki er með neinum rökum unnt að halda því fram, að metnaðarleysi hafi einkennt afstöðu menntamálaráðuneytisins til leikskóla undanfarin ár. Þvert á móti hefur meira verið gert til að efla menntun leikskólakennara og setja innra starfi skólanna skýrari fagleg markmið en nokkru sinni fyrr.

Menntamálaráðuneytið hefur jafnframt viljað stuðla að því að sátt náist um eðlilega verkaskiptingu milli leikskólakennara og annarra starfsmanna á leikskólum. Í því skyni beitti ég mér fyrir því að skipuð væri sérstök samstarfsnefnd um leikskólastigið undir forystu ráðuneytisins þar sem fulltrúar sveitarfélaga og starfsmanna gætu hist á hlutlausum vettvangi, ef svo mætti að orði komast.

Háskólinn á Akureyri og Kennaraháskóli Íslands hafa mótað hugmyndir um endurmenntun starfsmanna leikskóla og unnið að framkvæmd þeirra. Jafnframt hefur starfsgreinaráð um uppeldis- og tómstundagreinar hugað að inntaki á námsbraut, sem veitti réttindi til starfa á leikskólum undir faglegri forystu leikskólakennara.

Menntamálaráðuneytið virðir verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga við rekstur skóla eins og á öðrum sviðum. Ráðuneytið getur ekki leyst úr þeim verkefnum, sem heyra undir sveitarfélögin. Þegar rætt er um leikskólann blasir við, að staðan er mismunandi eftir sveitarfélögum og um þessar mundir beinist athyglin helst að Reykjavík. Stjórnendur borgarinnar geta ekki skotið þeim vanda til menntamálaráðuneytisins.

Höfundur er menntamálaráðherra.