22.4.2006

Já, Össur, þetta er boðlegt!

Blaðið laugardagur 22. apríl, 2006.

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, ritar grein í Blaðið 19. apríl undir fyrirsögninni: Er þetta boðlegt, ráðherrar góðir?

Össur rökstyður spurninguna í fyrirsögn greinar sinnar með vísan til þess, að Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, hafi í nóvember sl. flutt erindi á fundi Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs, um framtíðarverkefni gæslunnar og þar með hlutverk hennar, ef starfsemi bandaríska varnarliðsins breyttist. Ríkisstjórnin með utanríksiráðherra í broddi fylkingar hafi brugðist af fyrirhyggjuleysi við þessari ræðu forstjórans og staðreyndin sé „sú, að ríkisstjórnin var algerlega óviðbúin í öryggismálum þegar tilkynnt var um endanlegt brotthvarf þyrluliðsins.“

Efling landhelgisgæslunnar.

Þegar Georg Lárusson flutti erindi sitt, hafði ríkisstjórnin ákveðið að þremur milljörðum af svokölluðu símafé skyldi varið til að efla landhelgisgæsluna. Þá var undirbúningur að útboði vegna nýs varðskips og nýrrar eftirlitsflugvélar hafinn auk vinnu við að skapa gæslunni betri starfsumgjörð með nýjum lögum.

Var það samdóma álit allra,  að þetta væru skynsamleg fyrstu skref og síðar yrði litið til þess að efla þyrlukost gæslunnar og við þær ákvarðanir yrði meðal annars tekið mið af umsvifum þyrlusveitar varnarliðsins. 

Forstjóri landhelgisgæslunnar áréttaði þessa stefnu stjórnvalda í erindi sínu og lýsti, hvernig unnt væri að útfæra hana tæknilega.

Þyrlusveitin.

Fyrir viðræður íslenskra og bandarískra embættismanna um varnarmálin í Washington fyrstu dagana í febrúar á þessu ári ákvað ríkisstjórnin, að Íslendingar skyldu bjóða að taka að sér björgunar- og leitarstörf þyrlusveitar varnarliðsins. Ég taldi einsýnt, að landhelgisgæslan gæti sinnt þessu verkefni, enda yrði veitt til þess fé og ráðrúm gæfist til að afla nauðsynlegra tækja og þjálfa starfslið.

Hinn 15. mars 2006 tilkynnti Bandaríkjastjórn einhliða, að fyrir lok september á þessu ári yrði þyrlusveitin kölluð af landi brott. Hinn 20. mars sagði ég á fundi Félags stjórnmálafræðinga um varnarmálin, að brýnasta verkefni, sem sneri að íslenskum stjórnvöldum vegna þessarar tilkynningar Bandaríkjastjórnar væri að fylla skarðið eftir þyrlubjörgunarsveitina.

Hinn 24. mars féllst ríkisstjórnin á tillögu mína um, hvernig staðið yrði að undirbúningi við að efla þyrlusveit gæslunnar. Það yrði gert í tveimur áföngum; til bráðabirgða á meðan unnið yrði að frambúðarlausn. Tillaga að bráðabirgðalausn yrði kynnt innan þriggja vikna. Gekk það eftir og á fundi hinn 18. apríl samþykkti ríkisstjórnin tillögu mína um bráðabirgðalausn, það er að leigðar verði tvær þyrlur af sambærilegri gerð og landhelgisgæslan rekur. Tillögur um varanlega lausn verða kynntar í lok maí eða byrjun júní.

Ástæðan fyrir þessari tveggja þrepa lausn er einföld: Þyrlur standa ekki í vöruhúsum og bíða kaupanda. Það tekur tíma að ráða og þjálfa nýtt starfsfólk landhelgisgæslunnar.

Ný lög.

Aðfaranótt 11. apríl sl. flutti ég framsöguræðu á alþingi fyrir frumvarpi til laga um Landhelgisgæslu Íslands og er það nú til meðferðar hjá allsherjarnefnd þingsins. Samþykki alþingi frumvarpið er starfsumgjörð gæslunnar löguð að nýjum kröfum en við lokagerð frumvarpsins var tekið mið af því, sem síðast hefur gerst í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna.

Frá því að núgildandi lög um landhelgisgæsluna voru til umræðu á alþingi fyrir um það bil 40 árum, hafa atrennur verið gerðar að því að setja ný lög um hið mikilvæga starf, sem gæslunni er ætlað að sinna og skipulag þess.

Spurningu svarað.

Svarið við spurningunni, sem Össur Skarphéðinsson beindi til okkar ráðherranna er einfalt og skýrt, þegar litið er til málefna Landhelgisgæslu Íslands og viðbúnaðar af hennar hálfu undir forystu ríkisstjórnarinnar: Já, Össur, þetta er boðlegt!

Í málefnum Landhelgisgæslu Íslands hefur ríkisstjórnin alls ekki sýnt fyrirhyggjuleysi – hvorki þegar litið er til endurnýjunar tækja né laga um starfsemi hennar.

Nú reynir á hvort Össur og félagar hans í Samfylkingunni leggja því lið á alþingi, að ný lög verði sett um Landhelgisgæslu Íslands og greiði á annan hátt fyrir afgreiðslu málefna, sem tengjast alhliða eflingu hennar.

Ég hef í mörg ár verið málsvari þess, að við Íslendingar öxluðum meiri ábyrgð á eigin vörnum og gerðum ráðstafanir í því skyni. Oft hef ég talað um þessi mál fyrir daufum eyrum á alþingi og utan þess.

Fyrir rúmum tveimur árum sætti ég gagnrýni flokksbræðra Össurar á þingi fyrir að efla sérsveit lögreglunnar. Þeir ávíttu mig fyrir að vera að búa í haginn fyrir brottför varnarliðsins! Í vetur hafa samfylkingarmenn ráðist að mér fyrir að leggja áherslu á nauðsyn þess, að lögregla sé betur í stakk búin til að greina og leggja mat á áhættu. Verður fróðlegt að sjá, hvort afstaða þeirra til frumvarps um það efni, sem nú er á lokastigi í allsherjarnefnd, einkennist af fyrirhyggju eða fyrirhyggjuleysi.

Eitt er víst: Vindhanastefna í öryggismálum er ekki boðleg.