8.8.2005

Störf Þingvallanefndar.

JÓN Otti Jónsson, prentari og sumarbústaðareigandi í Miðdal í Bláskógabyggð, sendir okkur þremur, sem sitjum í Þingvallanefnd, tóninn í bréfi til Morgunblaðsins 7. ágúst. Tilefnið er, að ég svaraði umhverfisráðuneytinu í byrjun júní vegna umhverfismats við lagningu Gjábakkavegar og endurtók viðhorf, sem þjóðgarðsvörður hafði kynnt skipulagsstofnun 14. september 2004 um afstöðu nefndarinnar til nýs Gjábakkavegar.

Um stæði hins nýja vegar tók Þingvallanefnd þá lokaákvörðun um miðjan apríl 2004, að hann yrði utan þjóðgarðsins, úr því að vegagerðin teldi ekki unnt að breyta gamla Gjábakkaveginum, svo að hann annaði umferð með 90 km hámarkshraða. Með hinum fyrirhugaða vegi er með samþykki Þingvallanefndar komið til móts við sjónarmið Jóns Otta um vegagerð og þess vegna er gagnrýni hans á nefndina um þetta efni úr lausu lofti gripin.

Þingvallanefnd sinnir störfum í samræmi við lög um þjóðgarðinn á Þingvöllum en þau voru fyrst sett árið 1928 og samkvæmt þeim sitja þrír alþingismenn í nefndinni, kjörnir af alþingi. Kjörtímabili núverandi nefndar lýkur við næstu þingkosningar. Samkvæmt ákvörðun alþingis við samþykkt nýrra laga um þjóðgarðinn á Þingvöllum frá 1. júní 2004 kýs alþingi næst sjö alþingismenn í Þingvallanefnd.

Samkvæmt lögum getur Þingvallanefnd sett reglur um meðferð spilliefna, frárennslis og annars sem hætta er á að mengi jarðveg og/eða vatn innan þjóðgarðsins, þ.m.t. Þingvallavatn, og flutning hættulegra efna og mengandi efna innan þjóðgarðsins. Engin ákvæði eru um reglur um bann við akstri langferðabifreiða innan þjóðgarðsins, eins og Jón Otti virðist álíta. Innan þjóðgarðsins er 50 km hámarkshraði.

Ég hef setið tæp 14 ár í Þingvallanefnd og er stoltur af þeim árangri, sem áunnist hefur á þeim tíma. Mér þótti ekki síst ánægjulegt að taka þátt í því á síðasta ári að tryggja Þingvöllum sess á heimsminjaskrá UNESCO. Ákvörðun Þingvallanefndar um nýjan Gjábakkaveg utan þjóðgarðsins tengdist þeirri skráningu. Þá hefur nefndin samþykkt stefnu um varðveislu þjóðgarðsins til ársins 2024, sem hefur hlotið viðurkenningu sérfræðinga UNESCO og þar með staðist ströngustu kröfur á heimsvísu.

Þjóðgarðsvörður, samstarfsfólk hans og Þingvallanefnd sinna störfum í samræmi við lög og reglur og virðingu okkar allra fyrir Þingvöllum, friðlýstum helgistað Íslendinga. Jón Otti Jónsson lítur fram hjá öllu hinu góða starfi innan þjóðgarðsins vegna misskilnings hans um vegarspotta utan garðsins, sem mun stytta honum leið í sumarbústað hans og er ekki lagður í óþökk Þingvallanefndar.