2.6.2005

Lögregla og lof um varaþingmann

Grein í Vikudegi á Akureyri, byrjun júní 2005.

Eitt sinn bar svo við, að maður kom að máli við Ólaf Thors forsætisráðherra og sagðist endilega vilja gefa honum steinvölu nokkra. Steinn sá væri í þeim punkti frábrugðinn öðrum að honum fylgdi lækningamáttur og þyrfti Ólafur ekki annað að gera en að bera steininn á sér til að njóta ríkulegra ávaxta.

Nokkru síðar hittust þeir að nýju og maðurinn spurði Ólaf hvort steinninn hefði ekki reynst vel. Ólafur hélt það nú; frá því hann hefði tekið að bera steininn í vasanum hefði hann ekki fundið fyrir nokkrum verk í vinstri fætinum. Gefandinn ljómaði allur af stolti yfir steini sínum, þar til Ólafur bætti við að ekki væri nóg með þetta, heldur væri þessi undrasteinn greinilega afturvirkur, því áður hefði hann ekki heldur haft nokkurn verk í fætinum. Lengi hef ég álitið að þessi afturvirki steinn hlyti að vera einstakur í sinni röð, en nú hefur verið bent á annað kraftaverk og litlu síðra. Ef marka má Vikudags-grein eftir Jón Inga Cæsarsson, formann Samfylkingarinnar á Akureyri, þá varð ein fyrirspurn á alþingi, útbýtt 7.

apríl síðastliðinn, til þess að ráðist varð í eflingu sérsveitar lögreglunnar í landinu; ferli sem hófst í Reykjavík hinn 1. mars 2004 og heldur nú áfram á Akureyri. Jón Ingi virðist halda, eða langa til að halda, að gangur málsins sé sá að nýleg fyrirspurn Láru Stefánsdóttur varaþingmanns Samfylkingarinnar, um fjárframlög til lögreglunnar á Akureyri, hafi "gefið dómsmálaráðherra spark", ráðherrann hafi "hrokkið við" og "allt í einu" sé lögreglumönnum á Akureyri fjölgað.

Fyrirspurnin hafði engin áhrif

Þegar fyrirhuguð efling sérsveitar lögreglunnar var kynnt í Reykjavík hinn 1. mars 2004 var tekið fram að með þeirri eflingu væri aðeins stigið fyrsta skref, því einnig þyrfti að efla sveitina sérstaklega á Akureyri og á Keflavíkurflugvelli. Að þessum málum hefur síðan verið unnið í dómsmálaráðuneytinu, en reynslan af breytingunum í Reykjavík hefur þótt vera svo góð að ástæða sé til að stíga næsta skref og um það tilkynnti ég á Akureyri á dögunum. Leyfi ég mér að nefna, að í fréttatilkynningu dómsmálaráðuneytisins, hinn 1. mars 2004, segir meðal annars: "Þegar á næsta ári verður sérsveitarmönnum fjölgað enn frekar og er unnið að undirbúningi málsins í tengslum við fjárlagagerð. Er fyrirhugað að sú fjölgun sérsveitarmanna verði ekki einungis á höfuðborgarsvæðinu heldur einnig á Keflavíkurflugvelli og Akureyri." Formaður Samfylkingarinnar á Akureyri, sem eins og aðrir í þeim flokki vill auðvitað fremur hafa það er sannara reynist, hefði ekki þurft að leita lengi eftir upplýsingum til þess að komast að því hversu fráleit sú hugmynd er, að fyrirspurn varaþingmanns Samfylkingarinnar hafi haft nokkur áhrif á það ferli sem hafið var af krafti meira en ári áður en hún var borin upp. Raunar má geta þess að þó að lögreglumenn hafi frá upphafi fagnað eflingu sérsveitarinnar þá hafa ekki allir deilt þeim fögnuði. Einkum minnist ég þess, að í umræðum um á alþingi tók þingmaður Samfylkingarinnar eflingu sérsveitarinnar illa og kallaði hana "gæluverkefni og bernskudraum" minn. Þegar eflingin er nú komin vel á veg og við almenna ánægju, les ég það svo í Vikudegi að sú efling, sem Samfylkingin kallaði fyrir ári "bernskudraum" minn, er í raun afleiðing af fyrirspurn sem varaþingmaður Samfylkingarinnar lagði fram í apríl síðastliðnum!

Upplýsingarnar lágu fyrir

Það er svo ekki einungis að fyrirspurn hins ágæta varaþingmanns hafi ekki sett nokkurn hlut á stað. Fyrirspurnin leiddi ekki heldur fram nýjar upplýsingar, heldur hafa þær legið fyrir í afbrotatölfræði ríkislögreglustjóra sem gefin er út á hverju ári. Þá er í skýrslu dómsmálaráðherra, um stöðu og þróun löggæslu frá árinu 2002, gerð grein fyrir þróun afbrota og fjölda lögreglumanna á Akureyri og annars staðar á landinu. Þessar upplýsingar lágu því allar á lausu með einum eða öðrum hætti. Þegar tölur eru svo skoðaðar vel sést, að afbrotum virðist ekki vera að fjölga á Akureyri; út úr tölunum verður lesið að lögreglumenn á Akureyri hafa verið að sinna starfi sínu afar vel. Í grein sinni segir Jón Ingi Cæsarsson að í svörum við fyrirspurn Láru hafi mátt sjá þá "sláandi"

niðurstöðu að fíkniefnamálum hefði fjölgað mjög milli áranna 2003 og 2004, og væri það "ógnvænlegt". Ég vona að það rói Jón Inga svolítið að fá að vita að sú fjölgun skýrist einkum af því, að um síðustu verslunarmannahelgi var gert sérstakt átak í fíkniefnalöggæslu og meðal annars fengnir sérþjálfaðir leitarhundar til aðstoðar. Akureyringar mega treysta því að lögregla þeirra sinnir sínum störfum vel og samviskusamlega. Eftir þær breytingar sem ég kynnti á dögunum hefur lögreglan á Akureyri enn betri stöðu en áður til þess að sinna sínum mikilvægu verkefnum.

Dómsmálaráðuneytið stendur heilshugar á bak við lögregluna á Akureyri.