11.5.2005

Engin heimavinna við Nauthólsvík.

Morgunblaðsgrein, 11. maí, 2005.

 

 

Háskólanum í Reykjavík hefur verið boðin lóð án endurgjalds á milli Öskjuhlíðar og Nauthólsvíkur. Stjórnendur skólans taka áhættu með því að þiggja boð um fara á þennan viðkvæma stað.

 

Í bókun okkar borgarfulltrúa sjálfstæðismanna á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur hinn 3. maí sl. fögnum við því, að Háskólinn í Reykjavík skuli velja sér framtíðarsvæði í höfuðborginni. Við áteljum hins vegar jafnframt harðlega vinnubrögð meirihlutans í Reykjavík vegna málsins. Enn liggi ekkert fyrir um skipulag svæðisins eða hvað borgin nákvæmlega hyggist bjóða skólanum. Þrátt fyrir óskir fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í nefndum og ráðum borgarinnar, hafi enn ekki farið fram nein heildstæð kynning á því með hvaða hætti eigi að vinna þetta stóra mál. Tillaga að breytingu á svæðisskipulagi, aðalskipulagi eða deiliskipulagi liggi ekki fyrir og enn hafi íbúar Reykjavíkur ekki með nokkrum hætti fengið að tjá sig um þessa ráðstöfun á þessu landi. Á meðan svo sé, hljóti málið að vera á algjörum byrjunarreit.

 

Við lögðum til, að fyrirhuguð uppbygging á þessu svæði yrði send í umhverfismat. R-listinn vísaði þeirri tillögu frá í atkvæðagreiðslu.

 

Í tíð minni sem menntamálaráðherra beitti ég mér fyrir lagasetningu um háskólastigið, sem gerði kleift að stofna Háskólann í Reykjavík. Á sínum tíma naut ég þess heiðurs að taka fyrstu skóflustungu að húsi skólans í Kringlunni. Ég beitti mér fyrir því sem dómsmálaráðherra, að nemendur í lagadeild Háskólans í Reykjavík gætu öðlast réttindi sem héraðsdómslögmenn. Ég hef með öðrum orðum leitast við að greiða götu skólans. Ég hef fullan hug á að gera það áfram, en ábyrgir borgarfulltrúar geta ekki lofað Háskólanum í Reykjavík lóð á milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar. Þeir verða fyrst að ljúka heimavinnunni.

 

Í afkima.

 

Svæðið milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar er afkimi, nema breyting þess í háskólasvæði kalli á veg yfir Öskjuhlíð eða með ströndinni fyrir neðan Fossvogskirkjugarð. Líklegt er, að fimm til tíu þúsund manna vinnustaður í þessu horni muni krefjast fleiri aðkomuleiða en einnar.  Til frambúðar verði því ekki unað, að aðeins verði unnt að aka að svæðinu úr einni átt, það er um Hlíðarenda frá Bústaðavegi.

 

Háskóli Íslands á landsvæði í Vatnsmýrinni vestan n/s brautar flugvallarins og hefur hug á að reisa þar vísindagarða eða þekkingarþorp. Háskóli Íslands ber svip af reisn gömlu háskólabyggingarinnar, sem dregur athygli að öllu svæðinu. Úti í Vatnsmýrarhorni milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar getur Háskólinn í Reykjavík aldrei hlotið sambærilegan svip.

 

Við miðborgina?

 

Látið er í veðri vaka, að verið sé að styrkja miðborg Reykjavíkur með því að flytja Háskólann í Reykjavík út að Nauthólsvík. Háskólinn sé að verða hluti af miðborginni.

 

Hvernig er unnt að komast að þeirri niðurstöðu, að flutningur skóla úr Kringlunni út að Nauthólsvík jafngildi því, að hann færist nær miðborginni?

 

Háskóli Íslands er nær miðborginni en Nauthólsvíkin. Í þeim háskóla er nú verið að hanna og reisa sérstakt háskólatorg til að skapa miðbæ innan háskólasvæðisins.

 

Umhverfisráð hundsað.

 

Hinn 2.  maí féllst umhverfisráð Reykjavíkurborgar samhljóða á eftirfarandi tillögu sjálfstæðismanna:

 

„Umhverfisráð telur að rétt hefði verið að hafa samráð við ráðið þegar Háskólanum í Reykjavík var úthlutað lóð í Vatnsmýrinni. Lóðin er á svæði sem hefur að hluta verið skipulagt sem útivistar- og grænt svæði. Þar að auki er fyrirhugað byggingarland alveg ofan í vinsælum útivistarsvæðum - Öskjuhlíðinni, göngustíg með ströndinni og ylströndinni í Nauthólsvík - og því enn meiri ástæða fyrir Umhverfisráð að taka málið til umfjöllunar. Það sætir því furðu að það ráð sem helst á að sinna grænum svæðum og umhverfismálum í borginni skuli aldrei hafa tekið málið til umfjöllunar og einsetur ráðið sér að láta slíka handvömm ekki henda aftur. Ráðið fagnar því hins vegar að Háskólinn í Reykjavík hefur fengið lóð í Reykjavík.“

 

Umhverfisráð undir formennsku Katrínar Jakobsdóttur, varaformanns vinstri/grænna, vissi ekkert um þessa ráðstöfun á þessu svæði! Ráðið fer bæði með umhverfismál og samgöngumál á vettvangi borgarstjórnar.

 

 

Fátækleg gögn.

 

Vegna umræðna um þetta mál á fundi borgarstjórnar 3. maí síðastliðinn bað ég um öll skjöl um það úr skjalasafni Reykjavíkurborgar. Þau komust fyrir í einu, venjulegu A-4 umslagi. Fyrir utan kynningarbæklinga til að ganga í augun á Háskólanum í Reykjavík var undir þessu málsnúmeri í skjalasafninu að finna nokkrar bókanir úr borgarráði og borgarstjórn og gögn um Vatnsmýrina frá Samtökum um betri byggð.

 

„Einstök náttúrufegurð“

 

Í kynningarriti Reykjavíkurborgar: Staðarval Háskólans í Reykjavík, samningsgrundvöllur, sem dagsett er í mars 2005 og ég fékk frá skjalasafni Reykjavíkurborgar segir meðal annars: „Öskjuhlíð og Nauthólsvík eru ótvíræð tákn um það besta sem Reykjavíkurborg hefur upp á að bjóða, einstök náttúrufegurð og aðstaða til útivistar í nánum tengslum við iðandi mannlíf borgarumhverfisins.“

 

Ég spyr: Hvers vegna tekur Katrín Jakobsdóttir, formaður umhverfisráðs Reykjavíkurborgar og varaformaður vinstri/grænna, ekki undir ósk okkar sjálfstæðismanna, að framkvæmdir milli Öskuhlíðar og Nauthólsvíkur fari í umhverfismat? Hvar á slíkt mat að fara fram í Reykjavík, ef ekki þarna? Hver vill bera ábyrgð á því fordæmi að hafna umhverfismati á stað, þar sem að mati borgaryfirvalda er að finna „ótvíræð tákn um það besta sem Reykjavíkurborg hefur upp á að bjóða“ ?

 

Í aðalskipulagi Reykjavíkur er ekki gert ráð fyrir háskóla milli Nauthólsvíkur og Öskjuhliðar. Umhverfismat vegna bygginga skólans og bílastæða hefur því ekki verið unnið við gerð aðalskipulagsins – ekkert slíkt umhverfismat hefur nokkru sinni verið gert.

 

Án einkabíls?

 

Í vefblaði vinstri/grænna hinn 7. maí mátti lesa grein eftir Sigurbjörn Árna Arngrímsson um fyrirhugaðar endurbætur á hinu náttúrulega gufubaði að Laugarvatni. Gufubaðið við vatnsbakkann minnir að sumu leyti á Nauthólsvíkina í Reykjavík.  Sigurbjörn Árni harmar, að lóðin við gufubaðið eigi samkvæmt deiluskipulagi að verða afgirt og ekkert megi hindra bílaaðgengi að henni. Megnið af grænum svæðum í kringum lóðina eigi að setja undir bílastæði. Hið sama mun einnig gerast milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar.

 

Sigurbjörn Árni segir síðan orðrétt á vefsíðu vinstri/grænna:


„Alls staðar erlendis er verið að endurheimta græn svæði t.d. í háskólum þar sem bílastæði eru rifin og bílastæðahús byggð í útjaðri

háskólasvæðanna. Fólk leggur svo þar og hjólar eða gengur í skólann.“

 

Katrín Jakobsdóttir, varafomaður vinstri/grænna og formaður umhverfisráðs Reykjavíkurborgar, hefur sagt, að Háskólinn í Reykjavík sé umhverfisvænn. Af því tilefni hef ég spurt, hvort við Nauthólsvík verði fyrsti háskóli heims án einkabíls. Það er ólíklegt. Hverjum bletti, sem ekki verður nýttur undir byggingar milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar, verður örugglega breytt í bílastæði.

 

Engin heimavinna.

 

Í skólum skilar heimavinna góðum árangri – hið sama á við um skipulagákvarðanir. Heimavinna í skipulagsmálum vegna Háskólans í Reykjavík hefur einfaldlega ekki verið unnin.

Tillögu okkar sjálfstæðismanna um að ráðast í þessa heimavinnu með mati á umhverfisáhrifum var vísað frá borgarstjórn Reykjavíkur. Í frávísuninni felst hættulegt fordæmi. Hún stenst ekki hlutlæga skoðun, heldur einkennist af þeirri hentistefnu, sem R-listinn tileinkar sér alltof oft í skipulagsmálum.

 

Þegar þannig er að verki staðið, er hætta á vandræðum. Sporin hræða - af þessu kjörtímabili má nefna þrjú dæmi um marklausar ákvarðanir: Innantómar yfirlýsingar um bílastæði undir Tjörninni, heitstrengingar um niðurrif Austurbæjarbíós og fullyrðingar um sátt vegna grisjunar gamalla húsa við Laugaveg.

 

Allar eru þessar ákvarðanir til marks um ótrúlegan hringlandahátt án niðurstöðu. Við velunnarar Háskólans í Reykjavík hljótum að hafa uppi varnaðarorð, þegar skólinn er dreginn út í kviksyndi R-listans í Vatnsmýrinni.

 

Höfundur er borgarfulltrúi og ráðherra.