2.6.2000

Árátta - samtímalistaverkasýning Gerðarsafni

Árátta
Gerðarsafn
2. júní, 2000.


Nýlega sá ég skopmynd í blaði, sem sýndi tvo karlmenn, líklega á mínum aldri, á sýningu á samtímalist. Stóðu þeir undrandi á svip fyrir framan vegg en á honum hékk herðatré, sagði annar við hinn: Já, alveg rétt, þetta eru nýju fötin keisarans!

Skopmyndina má skoða sem sönnun á algengu viðhorfi gagnvart samtímalist, að þar sé oft verið að halda að okkur hversdagslegum hlutum í því skyni að telja okkur trú um, að þeir séu listaverk. Kannski sé stundum beinlínis verið að plata okkur frekar en snerta listræna strengi. Hér nefna menn til dæmis í slíku tali sýningu á Skólavörðuholti, þar sem voru heysátur og ýmislegt fleira úr náttúrunni, og þótti mörgum það ekki mjög frumlegt. Hvort það þyrfti nú listamenn til að láta sér detta svona vitleysu í hug?

Sýningin á Skólavörðuholti situr þó sterkt eftir í minningunni og myndin í blaðinu er kannski ekki skopleg, þegar á allt er litið, heldur þörf og tímabær áminning til okkar áhorfenda, um að hlutur okkar gagnvart listaverkinu er ekki síður mikilvægur en skapanda þess. Við þurfum sjálf að hafa hugmyndaflug og vilja til að skynja hvaða áhrif verkið hefur á okkur, hvernig við tengjum það inn í hinn hversdagslega veruleika okkar. Þá fyrst nær listamaðurinn tilgangi sínum, að verk hans skapi hughrif hjá öðrum, setji hann þau á sýningu.

Þau Ragna Róbertsdóttir og Pétur Arason hafa í áratugi leitast við að auðvelda okkur Íslendingum að kynnast og skilja samtímalist. Heiti þessarar sýningar er Árátta og vísar til þess, að þau hjón hafi sinnt söfnun listaverka sinna með því hugarfari. Þetta orð hefur almennt neikvæða merkingu í máli okkar, þótt hér hafi áráttan vissulega getið gott af sér. Vafalaust hefur komið til álita að nota jákvæðari orð eins og hugrekki eða þrautseigja til að lýsa hinu lofsverða framtaki Rögnu og Péturs. Eitt er að hafa ríka innri þörf til að kynnast samtímalistaverkum og eignast þau, annað að hafa hugrekki til að kynna þau öðrum og kalla á marga listamenn hingað til lands í því skyni og loks að búa yfir þeirri þrautseigju að gefast ekki upp, þótt skilningurinn sé minni og viðtökurnar dræmari en maður jafnvel vænti.

Pétur hikar ekki við að lýsa þeirri skoðun sinni, að listaverkin, sem þau hjón hafa safnað síðustu áratugi, séu ekki fyrir alla. Enginn hlaupi inn á þetta svið og segist ætla að skilja samtímalist, vegna þess eins að hann hafi einlægan áhuga á henni. Menn þurfi að tileinka sér vissan þekkingargrunn og líklega einnig að vera haldnir þessari áráttu.

Við skulum hafa þetta hugfast, þegar við göngum hér um sali og skiljum ekki allt, sem fyrir augu ber. Við eigum ekki aðeins stefnumót við listamennina og verk þeirra heldur einnig okkur sjálf, hæfni okkar hvers og eins til að meta það, sem fyrir augu ber.

Hitt er brýnt og almennt umhugsunarefni, ef umræður um myndlist meðal okkar og menntun hafa sniðgengið þann þátt samtímalistar, sem hér er kynntur. Hér séu í raun engar forsendur til að halda þessari list á loft og umræður um hana séu aðeins í þröngum hópi áhugafólks. Hlýtur áminning Péturs um þetta að raska þeirri sjálfumglöðu skoðun, að hér sé gróskan í listum svo mikil, að ekkert fari fram hjá okkur.

Ég tek undir með Pétri, þegar hann segir í viðtali við Morgunblaðið, að í listum kemur ekki maður í manns stað og í því sambandi nefnir hann gamlan vin minn, Paul Zukofsky, fiðluleikara og stjórnanda, til sögunnar, en ég kynntist því vel á sínum tíma, þegar Paul var í raun hrakinn héðan af landi, því að ég tók þátt í árangurslausum tilraunum til að sporna gegn því. Veit ég einnig, hvaða ógróin sár mynduðust vegna þessa og hvers íslenskt tónlistarlíf hefur farið á mis eftir brotthvarf hans héðan. Skarðið hefur ekki verið fyllt. Okkar litla samfélag getur hæglega lokað dyrum sínum fyrir því, sem er krefjandi og líklega of ögrandi fyrir einhverja, sem óttast breytingar eða nýja mælikvarða . Nýsköpun er áhætta í listum eins og á öðrum sviðum.

Þau Ragna og Pétur hafa þorað að taka áhættu og opnað dyr sínar í orðsins fyllstu merkingu fyrir því, sem er nýtt og ögrandi. Fyrir það hugrekki eiga þau heiður og þakkir skildar. Við þökkum þeim einnig af heilum huga fyrir að gefa okkur tækifæri til að kynnast listaverkaeign sinni á þessari einstæðu heildarsýníngu, sem gæti verið stolt margra erlendra stórsafna.

Nú er krafist af okkur, að við greinum á milli þess sem er ekta og nýju fata keisarans, að við skellum ekki í lás heldur höfum ímyndunarafl og þekkingu til að skilja listamennina og látum ekki glepjast af því, sem er gervi og sýndarmennska.

Um leið og þeim hjónum er óskað heilla og þakkað ómetanlegt framlag til íslenskrar menninga eru Listasafni Kópavogs - Gerðarsafni færðar hamingjuóskir vegna sýningarinnar. Megi hún verða til þess að opna augu sem flestra fyrir gildi samtímalistar og gildi þess að láta óttalausa drauma sína um fjölbreytt og ögrandi menningarlíf á Íslandi rætast.