17.12.2004

Gildi lögreglumenntunar.

Brautskráning úr Lögregluskóla ríkisins, Bústaðakirkju 17. desember, 2004.

 

 

 

 

Það er ánægjulegt á aðventunni að fá tækifæri til að taka þátt í þessari góðu athöfn hér í Bústaðakirkju og samfagna með nemendum Lögregluskóla ríkisins við brautskráningu þeirra.

 

Þegar ég var menntamálaráðherra, gerðist það ekki, að til mín leituðu nemendur eða forráðamenn þeirra til að ræða við mig um inngöngu á þessa námsbraut eða hina.

 

Eftir að ég varð dómsmálaráðherra hefur það hins vegar gerst oftar en ég hef talið, að komið er á minn fund og lýst vonbrigðum yfir því, að ekki hafi tekist að fá skólavist í Lögregluskóla ríkisins – eða kvíða yfir því, að skilyrði til inngögu í skólann séu of ströng.

 

Ég hef sagt sem er, að ég geti ekki annað en samsinnt því, að greinilega sé slæmt að missa af góðu tækifæri til náms í lögregluskólanum. Ég geti hins vegar hvorki breytt inntökuskilyrðum né gripið fram fyrir hendur valnefndar við skólann og verði að treysta því eins og aðrir, að kröfurnar séu sanngjarnar og taki aðeins mið af því, sem sé skynsamlegt miðað við ábyrgðarmikil störf lögreglumanna.

 

Þótt ávallt sé leiðinlegt að geta ekki greitt götu þess, sem leitar eftir aðstoð, er hitt fagnaðarefni fyrir okkur, sem eigum öryggi okkar undir því, að lögreglan sé vel mönnuð, að margir eru um hvert sæti í lögregluskólanum. Það sýnir okkur að minnsta kosti tvennt, að skólinn nýtur vinsælda og það þykir eftirsóknarvert að komast til starfa í lögreglunni.

 

Við fögnum hinum glæsilega hópi, sem er brautskráður úr skólanum í dag og  óskum ykkur innilega til hamingju með að hafa lokið náminu.

 

Samkvæmt könnun á starfsumhverfi lögreglumanna, sem gerð var meðal þeirra í upphafi þessa árs, telja 77% þeirra að lögreglunámið hafi búið þá vel undir starf hjá lögreglunni. Þið farið því með gott veganesti til fjölbreyttra ábyrgðarstarfa.

 

Þegar ég stóð hér við þessa athöfn fyrir ári, skýrði ég frá því, að til að bregðast við vaxandi hörku í afbrotum hefði ég þá þann sama dag fengið heimild formanna ríkisstjórnarflokkanna og fjármálaráðherra til að efla styrk lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Tillögur um það væru í smíðum og liti ég þar sérstaklega til sérsveitar lögreglunnar.

 

Þessar tillögur komu til framkvæmda hinn 1. mars síðastliðinn, þegar ákveðið var að færa sérsveitina undir ríkislögreglustjóra, fjölga í sveitinni og jafnframt fjölga í lögreglunni í Reykjavík til að fylla upp í skarð sérsveitarmannanna. Í fjárlögum ársins 2005 eru nýjar fjárveitingar, sem gera kleift að fjölga í sérsveitinni frá og með 1. janúar en þá taka sex nýir sérsveitarmenn til starfa í Reykjavík en jafnframt er unnið að fjölgun á Keflavíkurflugvelli og Akureyri.

 

Næsta nýliðanámskeið sérsveitarinnar hefur verið auglýst og hafa 32 umsóknir þegar borist. Ég get fullyrt, að hafi ykkur, ágætu nemar, þótt hart lagt að ykkur í lögregluskólanum, er það aðeins barnaleikur miðað við það, sem af ykkur verður krafist, ef þið viljið komast í sérsveitina.

 

Ástæða er raunar til að leggja áherslu á nauðsyn þess, að allir lögreglumenn séu vel þjálfaðir og búnir til að takast á við meiri hörku í afbrotum. Gott líkamlegt atgervi og snarræði í viðbrögðum auk viðunandi búnaðar skiptir lögreglumenn miklu.

 

Ég er þeirrar skoðunar, að lögreglustjórar eigi að leitast við að veita lögreglumönnum, sem vilja leggja stund á meira nám eða sérhæfingu, svigrúm til þess. Í því sambandi er meðal annars nauðsynlegt að leggja rækt við alþjóðlegt samstarf og skapa tengsl við lögreglusveitir í öðrum löndum. Alþjóðleg, skipulögð glæpastarfsemi teygir anga sína hingað, traust milli lögregluliða í ólíkum löndum er öflugur þáttur í baráttu við slíka glæpahringi.

 

Lögreglustjórinn í Reykjavík auglýsti í nóvember eftir lögreglumönnum í 25 störf.  Er einsdæmi að óskað sé eftir svo fjölmennum hópi lögreglumanna og staðfestir auglýsingin enn, að áformin um að styrkja almennt lögreglustarf samhliða eflingu sérsveitarinnar eru komin til framkvæmda.

 

Hinn glæsilegi nemendahópur þarf því ekki að óttast verkefnaskort. 

 

Að því er stefnt, að í upphafi næsta árs verði starfshópur skipaður til að leggja lokahönd á nýskipan lögreglunámsins. Markmið breytinga á skólanum hafa verið kynntar dómsmálaráðuneytinu – eitt þeirra er, að styrkja það viðhorf innan lögreglunnar, að lögreglunámi sé aldrei lokið heldur verði lögreglumenn ávallt, að eigin frumkvæði, að hafa metnað til að endurskoða þekkingu sína og bæta við hana.

 

Hinir metnaðarfullu stjórnendur lögregluskólans hafa lagt sig fram um að auðvelda lögreglumönnum að sækja endurmenntun og framhaldsmenntun. Jákvæðra áhrifa stjórnendanámskeiða á vegum skólans gætir víða við lögreglustjórn og hefur verið ánægjulegt að kynnast þakklæti þeirra, sem hafa fengið tækifæri til framhaldsnáms.

 

Góðir áheyrendur!


Ég þakka skólastjóra, skólanefnd, kennurum og öllu starfsliði lögregluskólans vel unnin störf. Skipulag og starf skólans þarf sífellt að taka mið af öllu starfsumhverfi hans. Ég ítreka heillaóskir til ykkar, sem hafið lokið námi og prófum. Megi gæfa fylgja ykkur í mikilvægum störfum. Gangið fram af stolti og virðingu fyrir starfsheiðri lögreglunnar.