27.11.2004

Að festa borg í skatta- og skuldafeni

Morgunblaðsgrein, 27. 11. 04.

Í Morgunblaðsgrein, sem birtist mánudaginn 22. nóvember, lýsti ég ólíkum tökum á fjármálum ríkis og borgar og tók mið af reynslu minni sem borgarfulltrúi annars vegar og alþingismaður og ráðherra hins vegar. Benti ég á þá staðreynd, að á vettvangi ríkisstjórnar og alþingis er verið að lækka skatta og skuldir en á vettvangi borgarstjórnar Reykjavíkur eru skattar og skuldir að hækka.

Þórólfur Árnason, fráfarandi borgarstjóri, skrifaði grein í Morgunblaðið þriðjudaginn 23. nóvember, sem mátti skilja eins og svar við því, sem ég hélt fram í grein minni. Grein fráfarandi borgarstjóra laut hins vegar að allt öðru en grein mín, það er orðum ríkisendurskoðanda annars vegar um reksturinn hjá ríkinu og endurskoðanda Reykjavíkurborgar hins vegar um rekstur borgarinnar.

Eitt er að svara mér með útúrsnúningi, hitt er verra að leitast við að nota orð endurskoðenda í blekkingarskyni með því að vitna til þeirra á misvísandi hátt.

Þegar fráfarandi borgarstjóri vitnar í ríkisendurskoðun er um að ræða samanburð á upphaflegri áætlun (fjárlögum) og endanlegri niðurstöðu (ríkisreikningi). Þegar fráfarandi borgarstjóri ræðir fjármál Reykjavíkurborgar miðar hann hins vegar við samanburð á endursaminni fjárhagsáætlun - ekki upphaflegri - og endanlegri útkomu (ársreikningi). Borgarráð tekur hvað eftir annað ákvarðanir um það innan reikningsársins að breyta gildandi fjárhagsáætlun og er í sjálfu sér ekki hrósvert, að með slíkum breytingum sé nokkur samhljómur milli hennar og niðurstöðu ársreiknings.

Í grein sinni getur Þórólfur Árnason að sjálfsögðu ekki hrakið þá staðreynd, að skattar og skuldir ríkissjóðs eru að lækka á sama tíma og R-listinn hækkar skatta og skuldir Reykvíkinga. Hann getur ekki skotið sér undan þessum staðreyndum með því að vitna í endurskoðendur.

Hvað skyldi standa í skýrslu endurskoðenda Reykjavíkurborgar vegna ársreiknings 2003 um skuldasöfnun á vegum borgarinnar? Þar segir á blaðsíðu 31, að hreinar skuldir Reykjavíkurborgar og fyrirtækja hennar hafi verið 8 milljarðar árið 1994 en stefni í 74 milljarða árið 2007. Heildarskuldir Reykjavíkurborgar ásamt lífeyrisskuldbindingum hafi verið 34 milljarðar árið 1994 en stefni í 113 milljarða árið 2007. Þá segir í skýrslu endurskoðendanna:

"Það er því ljóst að skuldir munu aukast. Við teljum mikilvægt að forsvarsmenn Reykjavíkurborgar hugi að þessum staðreyndum þegar horft er fram á veginn."

Við þessum staðreyndum var ég að vara með grein minni í Morgunblaðinu. Fráfarandi borgarstjóri kýs að hafa þau varnaðarorð að engu og velur enn útúrsnúning í stað þess að horfast í augu við staðreyndir.