17.10.2004

Fornir staðir og framtíðin.

Kirkjuþing, Grensáskirkju, 17. október, 2004.

 

Þegar ég er hér í annað sinn á kirkjuþingi sem dóms- og kirkjumálaráðherra, vil ég þakka gott samstarf við biskup Íslands, vígslubiskupa og aðra þjóna kirkjunnar á liðnu ári. Sérstaklega er mér minnisstæð för okkar Rutar heim að Hólum síðsumars, þar sem við tókum þátt í Hólahátíð.

Ég vil þakka góðar móttökur á Hólum en það var ánægjulegt að kynnast því, hve mikill hugur er í vígslubiskupi, rektor og öðrum á staðnum að efla þar andlegt og veraldlegt starf. Auðunnarstofa og nú Guðbrandsstofnun sýna, hvernig hinn forni grunnur er nýttur til að efla framtíðarstarf á Hólum.

 

Þá er ekki nokkur vafi á því, að hin mikla fornleifarannsókn á Hólum og við Kolkuós mun styrkja mikilvægi staðarins enn frekar í huga okkar Íslendinga og bera gildi hans langt út fyrir landsteinana, því að þarna er alþjóðlegur hópur vísindamanna að störfum við víðtækar rannsóknir, sem vafalaust munu auka þekkingu okkar og varpa nýju ljósi á margt.

Víða á kirkjulegum sögustöðum er nú unnið að fornleifarannsóknum fyrir tilstyrk Kristnihátíðarsjóðs, sem alþingi stofnaði í tilefni af 1000 ára afmæli kristnitökunnar. Hvarvetna þar sem vísindamenn ber niður við rannsóknir sínar finnst eitthvað, sem varpar ljósi á fortíðina og ætti að ýta undir ræktarsemi við hinn kristna menningararf okkar.

Ekki er síður mikilvægt, að búa þannig að sögufrægum stöðum í samtíðinni, að þeim sé sýnd sú virðing sem ber. Mikið hefur áunnist í því efni síðustu áratugi. Er í því efni nærtækt að nefna Viðey, sem gengið hefur í endurnýjun lífdaga, endurreisnina í Reykholti í Borgarfirði og menningarsetrið, sem nú er starfrækt á Skriðuklaustri í nafni Gunnars Gunnarssonar skálds. Endurreisn þessara staða er ekki aðeins til þess fallin að gera þeim sjálfum til hæfis heldur kallar hún einnig á margvíslegt menningarstarf og sköpun á mörgum nýjum sviðum.

Reynslan af þessu er góð úr Skálholti, þar sem þess var minnst á liðnu sumri, að 30 ár voru liðin frá því að saga sumartónleika í Skálholti hófst undir listrænni stjórn Helgu Ingólfsdóttur, semballeikara. Fróðlegt þótti mér erindi hennar  þar í sumar, þegar hún rakti sögu tónleikanna og hvernig þeim hefur jafnt og þétt vaxið ásmegin í góðu samstarfi listamanna og forráðamanna kirkjunnar bæði á staðnum og í biskupsstofu.

Endurreisn og ræktarsemi við einstaka staði byggist að sjálfsögðu á því, að eignarhald þeirra sé ljóst og hver fer þar með staðarforystu.

 

Eignarréttarstaða – samningaviðræður.

 

Frá því að við hittumst hér á kirkjuþingi síðast hefur lítið miðað í átt að niðurstöðu í samningaviðræðum um eignarréttarstöðu kirkjujarða og prestssetra. Nokkrar umræður hafa verið um þetta mál nú í aðdraganda kirkjuþings og af því tilefni vil ég fara nokkrum orðum um stöðu þess frá mínum sjónarhóli.

Í samningi ríkis og kirkju frá því í janúar 1997 um kirkjujarðir og aðrar kirkjueignir en prestssetrin segir, að kirkjujarðir og aðrar kirkjueignir sem þeim fylgja, að frátöldum prestssetrum og því sem þeim fylgir, séu eign íslenska ríkisins. Andvirði seldra jarða renni í ríkissjóð, umsýsla og ráðstöfun umræddra eigna fari eftir gildandi lögum á hverjum tíma.

Í stað jarðanna skuldbatt ríkið sig til þess, eins og kunnugt er, að greiða laun tiltekins fjölda presta þjóðkirkjunnar og starfsmanna biskupsembættanna. Var á þennan veg lagður grunnur að meira sjálfstæði þjóðkirkjunnar en víða annars staðar og tel ég, að fáir vilji hverfa til hinnar fyrri skipunar, þar sem unnt var að líta á kirkjuna sem einskonar ríkiskirkju.

Á grundvelli samningsins frá 1997, en ákvæði hans voru síðan staðfest með lögum, hófust viðræður milli ríkis og kirkju um eignarréttarstöðu prestssetranna. Samningamenn ríkisins lögðu snemma árs 2002 fram drög að samkomulagi um þetta mál, þar sem gengið var að því sem vísu, að árið 1997 hefði tekist að semja um allt nema prestssetur í skilningi laga nr. 137/1993 um prestssetur.

Í tilboðinu fólst, að þjóðkirkjan tæki formlega til fullrar eignar og yfirráða um það bil 87 jarðir og íbúðarhús samkvæmt lögunum um prestssetur. Þá greiddi ríkið kirkjumálasjóði þjóðkirkjunnar um 150 milljónir króna og skyldi fjárhæðin greidd á þremur árum. Með þessu yrði um að ræða fullnaðaruppgjör ríkis og kirkju vegna prestssetranna hverju nafni sem nefnast. Í drögunum var gert ráð fyrir, að Þingvellir yrðu ríkiseign.

Prestssetranefnd þjóðkirkjunnar sætti sig ekki við þessi drög og lýsti þeirri skoðun, að þessi skilgreining á samningsandlagi væri of þröng, því að í raun væri ekki um 87 jarðir og íbúðarhús að ræða heldur allar jarðir, sem einhvern tíma hefðu verið prestssetur allt frá árinu 1907, auk landsspildna, nýbýla, hjáleigna og réttinda, sem einhvern tíma hefði verið hluti af þeim prestssetrum.

Lagt var fjárhagslegt mat á þessar kröfur prestssetranefndar og voru þær taldar nema um 3 milljörðum króna og var lagt til við ríkið, að í stað eingreiðslu á þeirri fjárhæð myndi ríkið greiða kirkjunni árlega um alla framtíð framlag á svipuðum forsendum og samkvæmt samkomulaginu frá 1997.

Á síðasta formlega viðræðufundi samráðsnefndar ríkis og kirkju, sem haldinn var í október 2002, höfnuðu fulltrúar ríkisins þessum sjónarmiðum prestssetranefndar. Ríkið væri ekki til þess búið að semja á ný um ótímabundnar árlegar greiðslur heldur ætti að stefna að fullnaðaruppgjöri með einni fjárhæð og voru að nýju nefndar 150 milljónir króna af því tilefni.

Ég nefni þetta hér til að árétta, að málið er enn óleyst. Ég tel, að afstaða ríkisins hafi verið skýr allt frá því að samningurinn var gerður árið 1997 og felist í orðalagi þess um það hvað felst í hugtakinu prestssetur. Við undirritun samningsins var alveg ljóst, að ósamið var um prestssetrin, sem voru í umsjá og umsýslu Prestssetrasjóðs á grundvelli laga um prestssetur frá 1993. Í lögunum er það skýrt á ótvíræðan hátt hvað fellur undir prestssetur. Enginn ágreiningur hefur verið um það milli ríkis og kirkju hvaða prestssetur og prestsbústaðir fluttust frá ríkinu til Pretssetrasjóðs árið 1997.

Þegar ég kynni mér þetta mál, undrast ég að sú gjá skuli hafa myndast á milli ríkis og kirkju, sem lýsir sér í muninum á 150 milljónum króna annars vegar og þremur milljörðum hins vegar. Minnist ég þess ekki, að við gerð samningsins 1997 hafi nokkru sinni verið gefið til kynna, að svo stórt bil væri óbrúað milli ríkis og kirkju, um leið og kirkjunni var tryggt fjárhagslegt sjálfstæði.

Ríkisvaldið hefur verið sjálfu sér samkvæmt við framkvæmd samningsins frá 1997 og túlkun hans, þar á meðal með vísan til hinna óleystu ágreiningsmála. Í tímans rás hefur ágreiningur um þetta mál orðið til þess að spilla fyrir ráðstöfun á ýmsum eignum, sem væru sannarlega vel komnar í höndum þeirra, sem vilja kaupa þær í samræmi við heimildir í fjárlögum hverju sinni. Þegar samþykki alþingis liggur fyrir, er erfitt að sjá málefnaleg rök fyrir því, að ekki sé gengið til sölu á þessum eignum – að minnsta kosti er engum til gagns, að þær séu teknar í einskonar gislingu vegna hins ógerða samkomulags um prestssetrin.

Á síðasta kirkjuþingi ræddi ég háværari kröfur á þeim tíma en nú um algjöran aðskilnað ríkis og kirkju og lagði þeim ekki lið. Síðan hafa fulltrúar ýmissa safnaða látið í ljós þá skoðun, að fjárhagsleg hlið samningsins frá 1997 væri ekki sanngjörn frá jafnræðisreglum og jafnvel gefið til kynna, að á gildi samningsins yrði látið reyna fyrir dómstólum.

 

Afstaða mín til algers aðskilnaðar ríkis og kirkju hefur á enga grein breyst frá því við hittumst síðast. Ég hafna algerlega þeirri skoðun, að með núverandi fyrirkomulagi mála sé á nokkurn hátt skert trúfrelsi landsmanna eða jafnræðisregla stjórnarskrárinnar brotin. Kirkjuskipan okkar er byggð á stjórnarskránni, þar sem sérstaklega er tekið fram, að hin evangelíska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og ríkisvaldið að því leyti styðja hana og styrkja. Trúfrelsi landsmanna er að sjálfsögðu ekki skert með þessu, enda hverjum og einum frjálst að trúa hverju sem hann vill, sér að óþægindalausu af hálfu íslenska ríkisins.

Það er hins vegar ljóst að mjög náið er fylgst með öllum fjárhagslegum samskiptum ríkis og kirkju með jafnræðissjónarmið stjórnarskrárinnar að leiðarljósi. Ekki víkjumst við undan því kastljósi. Þessu tengt get ég nefnt það, að umboðsmaður alþingis hefur nú nýverið beint sjónum sínum að gjaldskrá fyrir aukaverk presta og veltir meðal annars fyrir sér lagagrunni hennar. Það mál er á algeru frumstigi og í sjálfu sér ekkert um að segja hér og nú, en minnir á, að menn hyggja að mörgu í fjármálum.

Kirkjugarðsgjald.

 

Fyrir ári lagði ég fyrir kirkjuþing til umsagnar og samþykktar ef því yrði að skipta, tillögur um nýjan grundvöll að ákvörðun kirkjugarðsgjalds og skiptingu þess. Að loknum umræðum og umfjöllun um málið heimilaði kirkjuþingið fyrir sitt leyti flutning lagabreytingar þar að lútandi.

Með það veganesti frá kirkjuþingi ákvað ég að setja á fót starfshóp til þess að semja lagafrumvarp. Í hópnum hafa setið fulltrúar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins og Kirkjugarðasambands Íslands. Hópurinn vann vel að málinu, en mestur tími hans fór í að útfæra gjaldalíkan um greiðslur til einstakra kirkjugarða.

 

Ég legg í næstu viku fyrir alþingi frumvarp um breytingar á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu. Í frumvarpinu er fjallað um nýjan grundvöll að ákvörðun kirkjugarðsgjalds og gert ráð fyrir að fjárhæð þess verði ákvörðuð í reiknilíkani sem taki mið af raunverulegum kostnaði við greftanir og rekstur garðanna. Þar með verði horfið frá því að gjaldið miðist við fjölda sóknarbarna, sextán ára eða eldri, í hverri sókn um sig, en gert er ráð fyrir að við útreikning framlags til rekstrar kirkjugarðanna verði litið til fjölda látinna árið á undan, sem og stærðar grafarsvæða. Ætlunin er að dóms- og kirkjumálaráðuneytið og Kirkjugarðasambandið komist að samkomulagi þar sem nánar verði kveðið á um greiðslur samkvæmt reiknilíkaninu. Jafnframt er stefnt að auknu fjárhagslegu svigrúmi Kirkjugarðasambandsins frá því sem nú er.

Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir því, að heimilt verði að sameina kirkjugarðsstjórnir eftir því sem hentast þykir og þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að Kirkjugarðaráð geti, samþykki biskup, ákveðið að hætt skuli greftran í tilteknun görðum og þá án þess að sú ákvörðun heyri undir safnaðarfund. Er slíkur háttur hugsaður til nota í því strjálbýli að erfitt þyki að efna til lögmæts safnaðarfundar til ákvörðunartöku.

 

Heldidagafriður og verslun.

 

Vorið 2003 lét lögregla að sér kveða vegna verslunarstarfsemi hér í höfuðborginni á hvítasunnudag og var hún með því að framfylgja lögunum um helgidagafrið. Vegna þess atviks óskuðu Samtök verslunar og þjónustu eftir viðræðum við dóms- og kirkjumálaráðuneytið um framkvæmd laganna og bentu á misræmi í henni eftir heimilisfangi þjónustumiðstöðva, þannig hefðu bensínstöðvar til dæmis að nokkru þróast í matvöruverslanir. Voru færð rök fyrir því, að lögin um helgidagafrið hefðu ekki haldið í við öra þróun í verslunarrekstri.

 

Í því skyni að ræða þetta mál skipaði ég hinn 1. júní síðastliðinn nefnd með fulltrúum þjóðkirkjunnar, Samtaka verslunar og þjónustu og ráðuneytisins. Hún hefur starfað síðan og komist að þeirri niðurstöðu, að breyta eigi lögum á þann veg, að nýr  flokkur verslana skuli tekinn inn í þann hóp þjónustufyrirtækja, sem hafi heimild til að sinna viðskiptavinum sínum föstudaginn langa, páskadag og hvítasunnudag.

 

Við skilgreiningu á þessum fyrirtækjum hefur verið vísað til matvöruverslana með sex til átta hundruð fermetra sölurými, þar sem að minnsta kosti 2/3 veltunnar sé sala á matvælum, drykkjarvöru og tóbaki.

 

Hugmynd um þessa lausn hefur verið að fæðast undanfarna daga og því hef ég ekki haft tök á að leggja hana formlega fyrir kirkjuþing. Á hinn bóginn yrði fengur að því og mundi greiða fyrir endanlegri niðurstöðu um þetta álitamál, ef þingið eða nefnd á þess vegum myndi ræða málið og segja mér skoðun sína, áður en frekari skref yrðu stigin.

 

Neyðarskipulag kirkjunnar.

 

Síðast þegar leið mín lá hingað í Grensáskirkju hinn 25. september síðastliðinn og var það við mikla æfingu vegna flugslyss á Reykjavíkurflugvelli. Þá komum við hingað til að kynnast því, hvernig kirkjan, prestar og aðstoðarmenn þeirra, stóðu að neyðar- eða áfallahjálp og vorum frædd um hvernig staðið væri að þeirri þjónustu allri.

 

Fyrir kirkjuþingi liggur nú tillaga til þingsályktunar um Neyðarskipulag kirkjunnar vegna stórslysa. Ég fagna þessu framtaki og veit, að það er mikils metið af þeim, sem koma að skipulagi almannavarna og aðgerða vegna stórslysa.

 

Lokaorð.

 

Í upphafi máls míns minnti ég á gildi hinna fornu biskupsstóla og hve miklu blómlegt starf þar og á öðrum sögufrægum stöðum skiptir þjóðlífið allt á líðandi stundu. Með góða og trausta fótfestu er auðvelt að takast á við verkefni framtíðar. Hlutverk kirkjuþings er einmitt að marka kirkjunni stefnu til framtíðar. Það var gert með myndarlegum hætti á síðasta ári, þegar þingið samþykkti stefnuskjalið, Stefna og starfsáherslur Þjóðkirkjunnar 2004 til 2010.

 

Samkvæmt skjalinu skal höfuðáhersla kirkjustarfsins á komandi mánuðum vera á samfélag – í trú og gleði. Ég vona, að vel takist til við þetta starf, því að sameinist trú og gleði í krafti kirkjunnar færir það birtu yfir allt líf þjóðarinnar og verður henni styrkur til góðra verka.

 

Á líðandi stundu, þegar veraldleg gæði og fjárhagsleg umbrot eru meiri og stærri en íslenska þjóðin hefur nokkru sinni kynnst, er brýnt að slíta ekki tengsl við hinn forna arf og styrk þjóðarinnar í trú og menningu og jafnframt er líklega brýnna en áður vekja sem flesta til vitundar um, að sönn gleði fæst með óbilandi trú að hið góða, sem er að finna í lífi og boðskap Jesú Krists.

 

Megi blessun fylgja störfum Kirkjuþings!