8.10.2004

Samstarf í þágu aukins öryggis.

Fundur Sýslumannafélags Íslands, Vestmannaeyjum, 8. október, 2004.

Í upphafi máls míns færi ég félagi ykkar þakkir fyrir að bjóða mér hér til fundar við ykkur. Ég fagna því að fá tækifæri til að kynna ykkur viðhorf dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til ýmissa þeirra mála sem snerta bæði það og ykkar embætti, og ekki þykir mér minna um vert að gefast kostur á að fræðast um ykkar sjónarmið um hið sama. Þá vil ég þakka þær móttökur og gestrisni sem mér hefur verið sýnd á embættum ykkar, en ég hef átt þess kost að sækja mörg þeirra heim á undanförnum mánuðum. Ég hef metið mikils tækifærið til þess að hitta ykkur og starfsfólk ykkar á heimaslóð, kynna mér aðstöðu og verkefni og sjá hversu vel er að embættunum búið og hversu starfsfólk, bæði skrifstofu og lögreglu, leggur sig fram í starfi sínu. Þá hafa þessar heimsóknir fært mér skýrari sýn á þau verkefni sem sinna þarf og vonandi hjálpað mér að mynda mér skynsamlegar skoðanir á því hvað megi þar gera til bóta.

Við hittumst síðast fyrir tæpu ári og í máli mínu þá, gat ég þess meðal annars, að ég hygðist beita mér fyrir breytingum á umdæmaskipun og innra starfi lögreglunnar.  Markmiðið væri vitaskuld það, að svo yrði búið um hnúta, að löggæslan og ákæruvaldið ættu í fullu tré við þá sem gerast brotlegir við lögin - helst að þau standi þeim framar ef hægt er. Kunnátta og búnaður lögreglumanna yrði að vera í samræmi við verkefni og nauðsyn á hverjum tíma. Þjálfun þeirra yrði að miðast við það sem þeir mættu búast við í sínum mikilvægu og oft erfiðu störfum. Á fundi okkar fyrir ári kynnti ég, að ég hygðist skipa þriggja manna verkefnisstjórn til að vinna að mótun og framgangi þessa verkefnis. Sú nefnd tók skömmu síðar til starfa undir forystu Stefáns Eiríkssonar skrifstofustjóra í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, en aðrir nefndarmenn eru þau Skúli Magnússon héraðsdómari og Ragnheiður Ríkharðsdóttir bæjarstjóri í Mosfellssveit. Meginverkefni þeirra hefur verið tvíþætt: 

Í fyrsta lagi að koma með hugmyndir að nýju skipulagi sem hafi það að markmiði að styrkja og efla starfsemi lögreglu og sýslumanna auk þess að bæta nýtingu þeirra fjármuna sem til embættanna er varið. 

Í öðru lagi að móta löggæsluáætlun til næstu ára, þar sem kynnt sé forgangsröð við úrlausn verkefna og sett mælanleg markmið fyrir löggæsluna. 

Vinna nefndarinnar hófst í kjölfarið og hefur hún í störfum sínum leitað til sérfróðra aðila á þessu sviði og kallað eftir hugmyndum og útfærslum. Þá hefur nefndin reynt að leggja mat á reynsluna af því skipulagi og verkaskiptingu sem kynnt var til sögunnar með nýjum lögreglulögum og margt fleira. Á þessum tíma hefur formaður verkefnisstjórnarinnar upplýst áhugasama aðila reglulega um stöðu mála og næstu skref, og setið í því skyni fyrir svörum á fundum hjá Landssambandi lögreglumanna og fundað auk þess með formanni sýslumannafélagsins. 

Vinna verkefnisstjórnarinnar er á lokastigi og gera nefndarmenn sér vonir um að fyrstu skýrsludrög verði tilbúin síðar á þessu ári. Eins og lagt var fyrir verkefnisstjórnina hefur hún og mun hafa náið og opið samráð við forystu lögreglumanna og sýslumanna. 

Eitt atriði hefur legið skýrt fyrir af hálfu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og var einnig tekið fram í stefnuræðu þáverandi forsætisráðherra fyrir ári. Ekki er gert ráð fyrir að tillögurnar leiði til þess að sýslumönnum verði fækkað, þó vera kunni að inntak sumra embætta breytist að einhverju leyti. Það er sérstaklega tekið fram að sýslumannsembættum skuli ekki fækka. En þó sú vinna, sem nú stendur yfir, eigi ekki að leiða til þess að sýslumönnum fækki, þá er ekki þar með sagt að engar slíkar breytingar kunni að verða af öðrum ástæðum. Er þar sérstaklega að nefna, að mikil vinna stendur nú yfir og miðar að því að sameina sveitarfélög í landinu. Ég vil ekki draga dul á það að ekki er vafi á því í mínum huga, að slíkar breytingar geta leitt til fækkunar sýslumannsembætta því ekki mun nema einn sýslumaður sitja í neinu sveitarfélagi. Annað mál tengist fækkun sveitarfélaga og varðar hið forna embætti hreppstjórans. Eins og allir hér vita, kveða lög á um það að í hverju einasta sveitarfélagi, þar sem sýslumaður ekki situr, skuli starfa hreppstjóri nema þá að sýslumaður telji það óþarft. Ekki síður er öllum hér inni kunnugt að hreppstjórum hefur mjög fækkað á undanförnum árum, bæði vegna sameiningar sveitarfélaga sem og af öðrum ástæðum. Töluverð eftirsjá yrði í hinu forna starfi og það er ekki vilji dóms- og kirkjumálaráðuneytis að hreppstjórastarfið leggist af. 

Í vinnudrögum er skýrslu verkefnisstjórnar um löggæslumálefni í megindráttum skipt í þrjá kafla. Í fyrsta hluta er gerð grein fyrir núverandi skipulagi löggæslunnar og jafnframt lagt mat á það skipulag og verkaskiptingu sem komið var á fót með nýjum lögreglulögum árið 1997. Farið er yfir hvort þau markmið, sem stefnt var að með þeim breytingum sem þá voru gerðar, hafi náðst eða ekki. 

Í öðrum hluta skýrslunnar er fjallað um helstu áhersluatriði á sviði löggæslu, með hvaða hætti og hvar stefna á þessu sviði hafi verið mótuð til þessa og í kjölfarið hvaða atriði helst eigi að leggja áherslu á við stefnumótunarvinnu og hvaða markmið lögreglan eigi að setja sér í sínum störfum. 

Í þriðja hluta skýrslunnar er loks fjallað um það hverju, ef einhverju, þurfi að breyta í innra og ytra skipulagi lögreglunnar til að þeim markmiðum sem að er stefnt verði sem best náð. 

Eins og áður sagði er ekki tímabært á þessari stundu að fjalla nánar um einstaka atriði í skýrslu nefndarinnar, nefndin hefur ekki lokið störfum sínum og hefur meðal annars ekki lokið því samráði sem fyrir hana var lagt að hafa við forystu lögreglumanna og sýslumanna. 

Hitt er annað mál, frá almennu sjónarmiði, að smærri lögreglulið geta reynst illa í stakk búin til að takast á við sumt af því sem á fjörur þeirra kann að reka. Það er alls ekki sagt þeim til hnjóðs enda efast enginn um að þar eins og annars staðar er ríkur vilji og metnaður lögreglumanna að standa sig vel í sínu mikilvæga starfi. Þess eru einnig mörg dæmi að fámenn lögreglulið hafi staðið sig geysilega vel undir miklu álagi. Ég tel sérstaka ástæðu til að nefna hér svokallað líkfundarmál sem lögreglan í Suður-Múlasýslu þurfti að takast á við og vakti mikla athygli og áhuga fjölmiðlamanna sem margir hverjir fóru offari gagnvart lögreglunni. Ég leyfi mér að láta þess getið hér, að mér þótti lögreglan, jafnt yfirmenn sem lögregluþjónar, sinna skyldustörfum sínum af mikilli prýði. Þetta breytir ekki því sem áður var sagt og eðlilegt er, að smærri lið hafa ekki sömu möguleika og þau stærri til að bregðast við ýmsu sem gerast kann. Við þessu þarf að bregðast, hvort sem það er gert með sameiningu innan lögreglunnar eða þá aukinni og markvissari samvinnu embætta. Samvinna lögregluembættanna hefur vaxið undanfarið og fagna ég því. Hún þarf hins vegar að vera markviss og skýr. Án þess að ráðuneytið hafi myndað sér endanlega og óbreytanlega skoðun á því, þá þykir mér ekki ósennilegt að nauðsynlegt geti reynst, svo eðlilegur árangur náist af samstarfi embættanna, að annað hvort ráðuneytið, eða þá embætti ríkislögreglustjórans í umboði þess, komi markvissar að þeim málum. 

Breytt sektarinnheimta.

Eitt verkefni er það á verksviði sýlsumanna og lögreglustjóra, sem tekur álitlegan hlut af tíma og fjármunum hins opinbera. Eftir að mönnum hefur verið gerð sekt fyrir ýmis brot sín, þarf hið opinbera að eyða fé og fyrirhöfn í verk eins og að ítreka sektarboð og birta dóma. Í ráðuneytinu hefur undanfarið verið unnið að tillögum til að gera sektarinnheimtu skilvirkari, draga úr bréfaskriftum og birtingum vegna vararefsinga. Hugmyndirnar ganga í fyrsta lagi út á það að lögregluþjónn, sem stendur vegfaranda að umferðarbroti, geti ákvarðað sekt á vettvangi. Sektin verði þannig aðallega birt sakborningi á vettvangi brots. Einnig verði dómsáritanir aflagðar og lögreglustjórar geti ákvarðað vararefsingu vegna sekta undir 50 þúsund krónum. 

Þá verði breytt ákvæðum laga um meðferð opinberra mála um birtingu dóma þegar dómþoli er ekki viðstaddur dómsuppkvaðningu.  Einnig vil ég nefna að ég er að íhuga hvort ekki sé hagkvæmt að fela einum aðila  að standa að innheimtu sekta um landið allt. 

Síðan verði athugaðar reglur um útivistarfjárnám, og jafnvel lagt til að unnt verði að ljúka fjárnámi án árangurs á skrifstofu sýslumanns, að vissum skilyrðum uppfylltum. Um það hefur þó engin ákvörðun verið tekið, en sjálfsagt er að huga að kostum og göllum þeirrar hugmyndar. 

Ég stefni að því að leggja fyrir haustþingið frumvarp um skynsamlegri háttu á þessum sviðum. 

Efling sérsveitar. 

Öll vitið þið af því, að ríkisstjórnin hefur ákveðið að efla sérsveit ríkislögreglustjórans verulega og samhliða því að fjölga lögreglumönnum í Reykjavík. Eins og fyrir liggur í því fjárlagafrumvarpi sem kynnt var í byrjun mánaðarins er gert ráð fyrir myndarlegri fjölgun í sérsveitinni á næsta ári.  Röksemdir fyrir eflingu sveitarinnar eru ykkur vel kunnar. Í þessu felst mikil og skýr efling fyrir löggæsluna í landinu í heild sinni, enda getur enginn sagt fyrir um hvar og hvenær þörf er á kröftum sveitarinnar. Meðan hún er ekki við sérsveitarstörf nýtist sveitin ennfremur til almennra löggæslustarfa á öllu höfuðborgarsvæðinu og víðar eftir því sem styrkur hennar eflist. Með því að sveitin verður hreyfanlegri eykst öryggi lögreglumanna um land allt, því sérsveitarmenn geta komið þeim til aðstoðar við erfiðar aðstæður. 

Skipulag og yfirstjórn ráðuneytis.

Mér finnst hlýða að láta þess getið hér, að ákveðið hefur verið að gera nokkrar breytingar á skipulagi og yfirstjórn málaflokka innan dóms- og kirkjumálaráðuneytis, og munu þær breytingar taka gildi 1. nóvember næstkomandi. Breytingarnar verða kynntar með nánari hætti síðar í formi dreifibréfs til allra stofnana, en helstu atriði verða sem hér segir: 

Útlendingamál eru sett saman með öðrum einkamálum í skipulagi ráðuneytisins, þ.e. sifja-, erfða- og persónuréttarmálum. Haukur Guðmundsson, sem verið hefur fulltrúi ráðuneytisins í sendiráði Íslands í Belgíu undanfarin ár, verður settur skrifstofustjóri yfir þeirri skrifstofu. 

Flest leyfa- og afgreiðslumál ráðuneytisins verða sett á eina skrifstofu, sem jafnframt mun hafa með kirkjumálefni að gera. Undir þá skrifstofu munu falla happdrættismál, kosningar, lögmenn, fasteignasalar, dómtúlkar og skjalaþýðendur, svo og gjafsóknarmál, málefni bótanefndar og fleira.         

Fangelsismál munu flytjast til dómsmála- og löggæsluskrifstofu, og koma þar í stað útlendingamála.         

Verkefni lagaskrifstofu ráðuneytisins verða óbreytt í skipuriti, ef frá er talið að birting laga og stjórnvaldsfyrirmæla flytjast undir lagaskrifstofuna.         

Skipulag þetta verður sett á til reynslu í eitt ár, og metið undir lok þess tíma hvernig til hafi tekist.         

Breytingar á yfirstjórn ráðuneytisins í tengslum við þessar breytingar eru þær helstar sem áður greindi, þ.e. að Haukur Guðmundsson mun stýra málum á einkamála- og borgaraskrifstofu ráðuneytisins. Hjalti Zóphaníasson mun stýra kirkjumála- og leyfaskrifstofu, Ragna Árnadóttir mun áfram stýra lagaskrifstofu ráðuneytisins, Ásdís Ingibjargardóttir rekstrar- og fjármálaskrifstofu og Stefán Eiríksson dómsmála- og löggæsluskrifstofu. Drífa Pálsdóttir skrifstofustjóri mun taka við sérverkefnum á skrifstofu ráðherra er einkum tengjast löggjöf á sviði sifja- og barnaréttar. 

Einhverjar tilfærslur eru fyrirsjáanlegar og hafa þegar orðið í tengslum við þessar breytingar á starfsmönnum milli deilda, en nánar verður greint frá því síðar þegar breytingarnar eru að fullu komnar til framkvæmdar. 

Tetra-kerfið. 

Eitt er það kerfi sem mörg ykkar hafið haft af að segja og er svokallað tetra-kerfi. Eins og kunnugt er hefur fjarskiptafélagið Tetra Ísland ehf. átt í miklum fjárhags- og rekstrarerfiðleikum. Fyrirtækið rekur fjarskiptaþjónustu fyrir neyðaraðila og eru stærstu kaupendur þeirrar þjónustu ríkið og Reykjavíkurborg. Undanfarin tvö ár hafa verið í gangi viðræður milli þessara aðila vegna þess rekstrarvanda sem félagið hefur átt við að glíma, en hann hefur staðið öllum rekstri kerfisins fyrir þrifum sem og þá að sjálfsögðu allri frekari uppbyggingu og útvíkkun kerfisins. 

Í kjölfar þeirrar ákvörðunar forsvarsmanna fyrirtækisins í febrúar síðastliðnum að slökkva á nokkrum sendum í kerfinu, vegna óánægju með viðbragðaleysi ríkisins og Reykjavíkurborgar í þeim viðræðum sem verið höfðu í gangi, var ákveðið að slíta öllum viðræðum við fyrirtækið. Í framhaldinu tóku stærstu lánardrottnar þess upp viðræður við ríkið og Reykjavíkurborg með það að markmiði að finna sem hagstæðasta lausn á rekstrarmálum Tetra fyrir báða aðila. Niðurstaðan úr þeim viðræðum var sú að ríkið og Reykjavíkurborg skrifuðu í september sl. undir viðbótarsamning við fyrirtækið, sem felur í sér hærri greiðslur fyrir veitta þjónustu, en um leið var ráðist í fjárhagslega og stjórnskipulega endurskipulagningu á félaginu, svo og endurskipulagningu á dreifikerfinu. Var það mat ríkisins og Reykjavíkurborgar að þessi kostur væri sá skásti af nokkrum slæmum í stöðunni. Þessum auknu greiðslum hefur verið mætt með hækkun fjárveitinga skv. tillögum í fjárlaga- og fjáraukalagafrumvarpi og mun því ekki koma niður á einstaka embættum. 

Þær breytingar sem viðbótasamningurinn felur í sér leiða til þess að tetra svæðið verður stærra og mun á næstunni ná austur til Víkur og á Vesturland, og auk þess til Ísafjarðar og Akureyrar. Það opnar á móti möguleika á því að fleiri lögregluembætti geti nýtt sér þjónustu fjarskiptamiðstöðvar lögreglunnar. Hins vegar er ekki ráð fyrir því gert í fjárlögum að hækka fjárveitingar til fjarskiptamiðstöðvarinnar og því þarf að leita leiða til að fjármagna þær viðbótarstöður sem nauðsynlegt er að bæta þar við, til að unnt sé að taka ný embætti inn sem fyrst. Reynsla þeirra embætta sem í dag njóta þjónustu fjarskiptamiðstöðvarinnar er afar góð og sýnt þykir að þessi ráðstöfun hafi á sínum tíma eflt og aukið þjónustu við íbúa í þessum umdæmum. Sama verður eflaust uppi á teningnum í þeim embættum sem bætast munu við. 

Ráðuneytið mun á næstunni fara yfir þessi mál í samvinnu við embætti ríkislögreglustjóra og þá lögreglustjóra sem áhuga hafa því að nýta sér þjónustu fjarskiptamiðstöðvarinnar og þar með kosti tetra-kerfisins.  

Upplýsinga- og fjarskiptatækni. 

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur ákveðið að gera átak til að skapa skýran ramma um rekstur og markmið upplýsinga- og samskiptatæknimála ráðuneytisins. Til þess hefur verð ráðinn sérstakur verkefnisstjóri, tímabundið. Hann heitir Þorsteinn Helgi Steinarsson og er verkfræðingur. Þorsteinn mun eiga samstarf við ráðuneytið og stofnanir þess í umboði ráðherra og horfi ég með bjartsýni til starfa hans. Markmiðið með þessu verkefni er að móta stefnu í þeim atriðum, sem nefna mætti upplýsinga- og fjarskiptamál, til næstu fimm til tíu ára. Gert er ráð fyrir því, að horft verði til tækniþróunar eins og kostur er, en vissulega er ekki alltaf auðvelt að sjá fyrir hvert þróunin fer og í hvaða ferðir er rétt að fara með henni. Í verkefni okkar á að horfa á hagsmuni notenda sem og þeirra sem erindi eiga við þá og jafnframt hafa augun opin fyrir því hvaða þætti skynsamlegt er að fela einkaaðilum og þá eftir útboð. 

Verkefnið felur í sér stefnumótun og aðgerða- og áætlanagerð auk þess að hrinda nokkrum frumaðgerðum í framkvæmd. Meðal þess sem fjallað verður um í verkefninu eru lögreglukerfin, stöðlun búnaðar á embættum, stöðlun bréfalykla, aðlögun hugbúnaðar og margt fleira sem snertir embættin. Ég geri mér góðar vonir um árangur af þessu starfi og veit að verkefnisstjóranum og þeim sem með honum munu starfa að þessu verkefni verður alls staðar vel tekið. Gert er ráð fyrir að lokaskýrsla verkefnisins liggi fyrir á vormánuðum. 

Hættumat vegna hryðjuverka.

Síðastliðinn laugardag var sagt frá því í fréttum, að daginn áður hefði því verið lýst yfir í nafni al-qaeda hryðjuverkasamtaka Osama bin Laden, að liðsmenn samtakanna ættu að beita sér sérstaklega gegn nokkrum ríkjum á næstunni og var Noregur nefndur þar til sögunnar auk Frakklands. Hvorugt þessara ríkja var á samstarfslista við Bandaríkin og Bretland vegna innrásarinnar í Írak í mars árið 2003.

Ég nefni þessa hótun við Norðmenn hér til að árétta, að í því felst óskhyggja, ef ríki telja sig standa utan hættu á hryðjuverkaárás, af því að þau vildu ekki standa með þeim, sem lögðu til atlögu gegn Saddam Hussein. Áhættugreining af þeim toga á engan rétt á sér. 

Al-qaeda er ekki að hefna fyrir neitt heldur að berjast af harðneskju og grimmd fyrir málstað sínum. Samtökin afflytja trúarleg markmið til að réttlæta hryllingsverk, þar sem enginn er í raun óhultur. 

Hvergi hafa umræður um hættuna af þessari hryðjuverkastefnu verið meiri en í Bandaríkjunum og í forsetakosningabaráttunni,  sem nú er háð þar, deila menn ekki um þessa hættu, heldur hvernig við henni skuli brugðist. John F. Kerry heldur því fram að George W. Bush hafi brugðist í baráttunni við Osama bin Laden og hans menn með því að ráðast inn í Írak. Innrásin hafi bundið fé og herafla, sem hefði átt að nota frekar til að tryggja öryggi Bandaríkjanna gegn hryðjuverkamönnum. 

Í maí síðastliðnum fórum við nokkrir úr dómsmálaráðuneytinu og ríkislögreglustjóri til Washington til að ræða við ráðamenn þar um þessi mál og fræðast af eigin raun um stefnu Bandaríkjastjórnar. Eftir þá ferð er ég betur sannfærður en áður um þá alvöru, sem fylgir stefnubreytingu Bandaríkjanna í öryggismálum eftir árásina miklu 11. september 2001. Frá þeirri stefnu verður ekki vikið, þótt stjórnarskipti verði eftir forsetakosningarnar í nóvember næstkomandi. 

Viðbrögð lögreglu.

Bandaríkjastjórn leggur ríka áherslu á þátttöku annarra ríkisstjórna í samstilltu átaki til að sporna við hættunni af alþjóðlegum hryðjuverkum. Við sjáum merki þess hér á landi til dæmis í nýrri löggjöf um flugvernd og siglingavernd, að við erum virkir þátttakendur í þessu átaki ekki síður en aðrir og þurfum að leggja okkar af mörkum á mörgum sviðum og þar á meðal með nýjum verkefnum á sviði löggæslu. Meðal raka fyrir eflingu sérsveitar lögreglunnar er, að hún og almennir lögreglumenn verði betur í stakk búnir til að taka á þessum nýju verkefnum.

Framkvæmd hinnar nýju stefnu í öryggismálum byggist á því að beita löggæslu á nýjan hátt og leitast við að ná hættulegum andstæðingum almenns öryggis, áður en þeir láta að sér kveða. Hlutverk lögreglu er ekki bundið við að upplýsa unnin ódæðisverk, henni verður í sífellt ríkara mæli beitt til þess að koma í veg fyrir að slík verk verði unnin.

Flæði gagna um einstaklinga á milli þeirra aðila, sem sinna almennri öryggisgæslu, er meira og greiðara en áður. Safnað er upplýsingum með nýjum aðferðum og meðal annars í því skyni er í undirbúningi að breyta vegabréfum bæði í Evrópu og Bandaríkjunum og setja svonefnd lífkenni í þau. Skipaði ég nýlega starfshóp undir formennsku Georgs Lárussonar, forstöðumanns Útlendingastofnunar, til að undirbúa gerð slíkra vegabréfa fyrir Íslendinga. Hópurinn á einnig að huga að því, hvort hér verði tekin upp einfaldari kennivottorð en vegabréf, sem menn geti notað í ferðum um Schengen-svæðið.

Í Schengen-samstarfinu hef ég lagt áherslu á, að við Íslendingar skipum okkur í sveit með þeim ríkjum, sem vilja heimila sem besta og víðtækasta notkun á upplýsingum í tengslum við ferðalög á milli landa. Ég tel til dæmis ómetanlegt fyrir landamæravörslu hér á landi, að unnt sé að  áhættugreina farþegaskrár.

Vandinn við þessi störf er að öðrum þræði sá, að í lýðfrjálsum ríkjum er að sjálfsögðu lögð þung áhersla á frelsi einstaklingsins og friðhelgi einkalífs hans. Hvert skref, sem þarf að stíga inn fyrir þessa friðhelgi, verður að íhuga vandlega og rökstyðja. Hér hafa orðið nokkrar umræður um álitamál, sem snerta störf lögreglu og er skemmst að minnast umræðna á síðasta þingi um heimildir lögreglu til símahlerana. Þær umræður sýndu, að grunnt er á viðleitni til að gera allar ráðstafanir í því skyni að auka virkni lögreglunnar tortryggilegar. 

Fíkniefni – hryðjuverk.

Við leit að árangursríkum leiðum til að takast á við alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi hefur verið litið til þeirra aðferða, sem beitt hefur verið í baráttu við alþjóðlega glæpastarfsemi, eins og til dæmis smygl á fíkniefnum. 

Lengi blundaði sú skoðun meðal okkar Íslendinga, að fíknefnavandinn gæti ekki orðið alvarlegt vandamál hér á landi. Takast mætti að hindra flutning fíkniefna í stórum stíl til landsins og í fámenni okkar ætti að verða auðvelt að finna þá, sem fyrir þessari ólögmætu starfsemi stæðu. Mörg ár eru hins vegar liðin síðan menn áttuðu sig á tálsýninni í þessari skoðun.  – Við stöndum frammi fyrir miklum og vaxandi vanda á þessu sviði eins og yfirvöld hvarvetna annars staðar. 

Milli 20 og 30 lögreglumenn vinna að því hjá lögreglunni í Reykjavík að stemma stigu við ólöglegum innflutningi og dreifingu fíkniefna. Hvert einstakt mál kostar mikla  þolinmæði og yfirlegu. Finnist ein leið eða einn hópur er undir hælinn lagt, hvort takist að rekja alla þræði til enda eða sjá heildarmyndina. Íslenska lögreglan er að þessu leyti í sömu sporum og löggæslumenn um heim allan, þeir eiga fullt í fangi með að halda í við brotamennina. 

Enginn þarf að fara í grafgötur um , að við ólöglega iðju sína hér eins og annars staðar, leggja innflytjendur fíkniefna sig fram um að kynna sér aðferðir við löggæslu og leitast við að standa feti framar en lögreglan. Sé lögreglunni skylt lögum samkvæmt að skýra frá því fyrir dómi, hvaða aðferðum hún beitir til að ná þeim, sem þangað eru dregnir, auðveldar það aðeins öðrum að skjóta sér undan vörðum laganna. 

Við ólögmætan innflutning fíkniefna skiptast afbrotamenn í litla hópa án sýnilegra innbyrðis tengsla, til að lögreglan geti ekki auðveldlega rakið sig frá einum hópi til annars eða til höfuðpaursins. Þessi skipting í hópa dregur úr skaðanum, ef einhver næst; fjöldi hópanna veitir höfuðpaurnum meira svigrúm en ella væri til að fara mismunandi leiðir, ef einn hópur er undir smásjá lögreglu má auðveldlega virkja annan.

Þetta net alþjóðlegra fíkniefnasala er fyrirmynd hryðjuverkamanna og ríkisvaldið á í höggi við öfluga andstæðinga. Hér er um að ræða samtök, sem hafa stungið niður rótum í mörgum löndum og skiptast í leynilega hópa í því skyni að stunda starfsemi, sem ógnar almennu öryggi og getur leitt til fjöldamorða. Hóparnir eru skipulagðir þannig, að þeir eru minni og dreifðari en andstæðingar þeirra á vegum ríkisins, sem auðveldar þeim að miðla upplýsingum með hraði og leynd til félagsmanna sinna. Þeir laga sig fljótt að því, sem lögregla gerir til að uppræta þá, og nota þekkingu sína, tækni og reynslu til að breyta aðferðum við afbrot sín. Þeir þurfa ekki að fara að reglum laga og réttar og geta þess vegna valið allt aðrar leiðir að markmiði sínu en þær, sem lög setja lögreglu og kunna óhjákvæmilega að hægja á ferð hennar. Ríki geta komið sér saman um alþjóðlegar leikreglur í samskiptum þjóða, en alþjóðlegir glæpamenn og hryðjuverkamenn hafa þær að engu eða finna leiðir til að nýta þær sér til framdráttar. Náist höfuðpaurinn er líklegt, að það leiði aðeins til stundarhlés á afbrotunum, þar til annar hópur leysir hinn fyrri af hólmi við hið ólögmæta athæfi.

Þeir, sem sinna löggæslu og standa í baráttu gegn ólögmætum fíkniefnum munu því miður aldrei vinna fullnaðarsigur. Sú staðreynd má hins vegar alls ekki leiða til uppgjafar heldur á að verða okkur hvatning til að leita alltaf leiða til að gera betur. Góður árangur næst aðeins með samstilltu átaki margra. Forvarnarstarf miðar til dæmis að því að upplýsa ungt fólk og aðra um hættuna af því að ánetjast fíkniefnum. Hin öfluga barátta fíkniefnalögreglu rýfur skarð í flokk þeirra, sem stunda þessa ólögmætu iðju, og gerir þeim almennt dýrkeyptara en ella væri að reyna að ná árangri við hana.

Hið sama á við um hryðjuverkastarfsemi, lögregla eða her bindur ekki enda á hana. Góður árangur næst aðeins með samstilltu átaki margra og skynsamlegum ákvörðunum á stjórnmálavettvangi. 

Viðbrögð á Íslandi. 

Við erum hér og nú á þessum fundi okkar, að fjalla um, hvaða úrræði eru best við íslenskar aðstæður til að sinna því, sem er á okkar verksviði og felur í sér skyldu til að efla öryggi hins almenna borgara og ríkisins. Okkur ber í senn að líta til mannafla, tækjakosts og leikreglna. 

Ef ég vík fyrst að leikreglunum, þá er mér ljóst, að endurskoðun laga um meðferð opinberra mála hefur tekið alltof langan tíma og mér sýnist, að miðað við vinnubrögð réttarfarsnefndar sé niðurstaða hennar ekki á næsta leiti. Ég hef fullan hug á því að leita leiða til að flýta þessu starfi og tryggja, að við endurskoðunina sé tekið mið af þeim reglum, sem best hafa reynst í nágrannalöndum okkar. Sérsmíðaðar íslenskar reglur í þessu efni geta, ef illa tekst til, hvatt alþjóðlega glæpahringi til að leita sér skjóls hér á landi. 

Ég vék áður að því, að lítið væri fengið með því að skylda lögreglu til að upplýsa ákærða menn um leiðir hennar og tæki við að færa sönnur á afbrot. Mér er spurn: Eru of ríkar kröfur um upplýsingaskyldu um þetta í íslenskum lögum? Getur rík skylda veikt stöðu lögreglunnar og veitt alþjóðlegri brotastarfsemi meira skjól hér en annars staðar? 

Í Bandaríkjunum og Bretlandi hafa verið sett lög sem veita stjórnvöldum ríkar heimildir til að vinna að rannsókn mála. Ýmsum þykir, að með þeim sé um of gengið á friðhelgi einkalífsins. Nýlega var til dæmis haldinn í Frakklandi fundur um 200 evrópskra dómara og lögfræðinga, sem töldu mannréttindum stafa hætta af innflutningi á „öryggis-menningu” frá Bandaríkjunum. Þar var því einnig haldið fram, að „þráhyggjan gegn hryðjuverkum” í Evrópu væri tekin að ógna lýðréttindum í álfunni. 

Sjónarmið af þessum toga eiga fullan rétt á sér í umræðum um leiðir til að tryggja öryggi borgaranna. Þau minna á, hve nauðsynlegt er að stíga varlega til jarðar andspænis friðhelgi einkalífsins. 

Alþjóðlegt samstarf í öryggismálum mótast að sjálfsögðu af lögum þeirra ríkja, sem eiga samstarf. Oft hefur verið á það bent, að hér á landi sé ekki löggjöf um starfsemi öryggislögreglu eða leyniþjónustu. Sú spurning verður áleitnari með aukinni alþjóðavæðingu á þessu sviði, hve lengi er unnt að láta undir höfuð leggjast að ræða lagafrumvarp um þetta efni á alþingi. 

Frjálsræði í viðskiptum og alþjóðavæðing þeirra kallar á, að hér á landi gildi sambærilegar reglur um eftirlit með efnahagsbrotum og annars staðar auk þess sem eftirlitskerfið sé skilvirkt. Gott og öruggt starfsumhverfi fyrirtækja fjölgar þeim, sem hér vilja reka starfsstöðvar. Svipuð sjónarmið gilda um hina neikvæðu hlið alþjóðavæðingarinnar – alþjóðlega glæpastarfsemi, henni þarf í senn að verjast með lögum og virkri framkvæmd laganna. 

Þrjú afdrifarík atvik. 

Raunsæi verður að ráða við mat á stöðu okkar. Undir lok þeirra vil ég nefna þrjá raunverulega atburði sem hafa mótað afstöðu mína til skipulags lögreglu, tækjakosts og mannafla, síðan við hittumst á sambærilegum fundi fyrir ári. 

Í fyrsta lagi rán í Bónus-verslun í Kópavogi síðla árs í fyrra.  Þá varð mér ljóst, að ekki var nægilega vel hugað að öryggisumhverfi hins almenna lögreglumanns vegna brotalamar í skipulagi sérsveitar lögreglunnar. Hinn 1. mars síðastliðinn var þessu skipulagi breytt, sveitin er nú hluti af liði ríkislögeglustjórans og viðbragðsáætlun hennar gerir ráð fyrir, að með skömmum fyrirvara megi beita sérsveitarmönnum hvar á landi sem er. 

Nýlegt atvik í Reykhólasveit, þar sem vopnaður maður skaut að íbúðarhúsum, varð til þess, að sérsveitin fór yfir viðbragðsáætlun sína, en hitt er ljóst, að viðbrögð í upphafi og ákvörðun um að kalla á sérsveitarmenn ræður úrslitum um, hvenær þeir halda á vettvang. 

Í öðru lagi sýndi líkfundurinn í Neskaupstað snemma á þessu ári og uppnámið vegna hans, hve nauðsynlegt er að fyrir hendi séu verklagsreglur um það, hvenær forræði máls flyst til þeirra, sem hafa mannafla, tæki og búnað, til að fara með stjórn þess. Í slíkum reglum fælist trygging fyrir því, að menn æfi samhæfð viðbrögð og grípi til þeirra, þegar nauðsyn krefst. 

Í þriðja lagi er nýleg aðgerð á vegum ríkislögreglustjórans til að uppræta ólögmætt efni í tölvum til marks um, hve víðtækar og samræmdar aðgerðir þarf til þess að ná til grunaðra afbrotamanna um land allt. Aðgerð af þessum toga byggist á góðu samstarfi, þar sem miðlægu boðvaldi er beitt til að ná skýru markmiði. 

Í öllum tilvikum kalla verkefni á sérstök viðbrögð þeirra, sem hafa þjálfun til að sinna þeim. Sérhæfingu og sértæka þjálfun lögreglumanna og ákæruvaldshafa verður að nýta á þann veg að styrkja og efla öryggi á öllum sviðum. Verði það best gert með skýrum reglum um miðlægt boðvald og beitingu þess, mun ég vinna að setningu slíkra reglna. 

Lokaorð. 

Ég hef hér farið yfir mörg mál sem eru í gerjun á vettvangi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og snerta embætti ykkar með ýmsum hætti. Einnig hef ég leitast við að lýsa skoðunum mínum á ýmsu því sem tengist sameiginlegum verkefnum okkar. Ég met mikils tækifærið til að ræða þessi mál hér á þessum ágæta vettvangi og kynnast sjónarmiðum ykkar. Með samstilltu átaki, þar sem hverju sinni er staðið þannig að málum að sá leiði verkið sem hefur til þess mesta og besta getu, náum við þeim árangri sem að er stefnt. Ég veit að fundur okkar verður árangursríkur og gagnlegur.