27.3.1999

Starfsnám í upplýsinga- og fjölmiðlagreinum

Starfsnám í upplýsinga- og fjölmiðlagreinum
Ráðstefna á vegum Prenttæknistofnunar
27. mars 1999


Í gær kynnti ég gildistöku nýrrar aðalnámskrár fyrir grunnskólann. Með henni er stigið fyrsta skrefið til að breyta innra starfi á öllum skólastigum. Áherslur eru nýjar í mörgu tilliti.

Hér vil ég nefna einn þátt sérstaklega, það er mikilvægi tölvu- og upplýsingatækni. Markmiðið er, að enginn útskrifist úr grunnskóla án þess að hafa full tök á lyklaborðinu og kunni að nýta sér tölvur við nám og störf. Einnig ber að nýta hina nýju tækni við kennslu í öllum námsgreinum eftir því sem kostur er. Samhliða því sem þessi nýja skólastefna kemur til framkvæmda er auknum fjármunum veitt til að framleiða kennsluhugbúnað, svo að unnt sé að nýta tölvutæknina með markvissari hætti í öllu skólastarfi.

Innan skamms verður kynnt ný aðalnámskrá fyrir framhaldsskólann. Í almenna hluta hennar er tekið á málum, sem snerta allt framhaldsskólanám, hvort heldur starfsnám eða bóknám. Þar eru réttindi nemenda skilgreind og sett almenn ákvæði um próf og aðra þætti, sem eru sameiginlegar fyrir allar námsgreinar.

Þá verða kynntar námskrár fyrir einstakar bóknámsgreinar á þeim brautum, sem eru skilgreindar í framhaldsskólunum. Þær eru núna þrjár, málabraut, félagsfræðibraut og náttúrfærðibraut, þar að auki eru þriggja ára listnámsbraut og almenn námsbraut. Um nám á öllum þessum brautum hefur verið fjallað undanfarna mánuði og verða námskrárnar fyrir þær kynntar. Auk þess hefur ráðuneytið beitt sér fyrir því við endurskoðun námskránna að hrundið verði í framkvæmd hugmyndum um fjórðu bóknámsbrautina, sem er kennd við upplýsingar og tæknimennt. Þessi nýja bóknámsbraut verður hins vegar ekki fest í sessi innan framhaldsskólanna nema lögum um þetta skólastig verði breytt.

Við komum hins vegar saman hér í dag til að ræða nýja starfsnámsbraut í framhaldsskólum, sem byggist á tillögum starfsgreinaráðs upplýsinga- og fjölmiðlagreina. Hefur ráðið unnið mjög gott starf á undanförnum mánuðum við að móta ramma utan um þessa nýju braut.

Aðrar leikreglur gilda um námskrár fyrir starfsnám en bóknám. Unnið hefur verið að námskrárgerð í starfsnámi undanfarin ár óháð heildarendurskoðun aðalnámskrár. Frá 1990 þegar aðalnámskrá framhaldsskóla kom seinast út hafa verið samþykktar og gefnar út fjölmargar námskrár í starfsnámi til dæmis í bókiðngreinum, hótel- og matvælagreinum, hársnyrtiiðn og fyrrihluta náms í málmiðngreinum. Einnig hefur heildarnámskrá iðnmeistaranáms verið samþykkt.

Með ákvæðum nýju framhaldsskólaganna, sem tóku gildi 1. ágúst 1996, hafa áhrif og ábyrgð aðila atvinnulífsins á mótun og framkvæmd starfsmenntastefnu aukist stórlega og þar með er undirstrikað að starfsmenntun er samstarfsverkefni þessara aðila og ríkisvaldsins. Er nauðsynlegt að hafa þetta í huga, þegar rætt er um námskrár á framhaldsskólastiginu. Menntamálaráðuneytinu ber að hafa frumkvæði við gerð námskráa fyrir bóknám. Frumkvæðið í starfsnámi kemur frá starfsgreinaráðum.

SAMSTARF, samstarfsnefnd um starfsnám á framhaldsskólastigi var skipuð í árslok 1996, þar sem fulltrúar launþega og atvinnurekenda eiga 12 af 18 fulltrúum. Hlutverk nefndarinnar er fyrst og fremst að vera menntamálaráðherra til ráðuneytis um almenna stefnumörkun í starfsnámi og stuðla að bættum tengslum skóla og atvinnulífs.

Fyrir um það bil einu ári voru 14 starfsgreinaráð skipuð. Hefur öllu atvinnulífinu verið skipt á milli þessara ráða með hliðsjón af tillögum SAMSTARFS um flokkun starfsgreina og stærð starfsgreinaráða. Í hverju starfsgreinaráði sitja 7 manns, 3 fulltrúar launþega, 3 fulltrúar atvinnurekenda og 1 fulltrúi ráðherra.

Hlutverk starfsgreinaráða er að skilgreina þarfir starfsgreina á sínu sviði fyrir kunnáttu og hæfni starfsmanna og gera tillögur um námskrá. Ráðin gera sem sagt tillögur um markmið og uppbyggingu starfsnáms. Starfsgreinaráð skal hafa frumkvæði að tillögugerð um breytta skipan náms og vera stjórnvöldum til ráðuneytis í málum er varða menntun í starfsgreinum er undir ráðið heyra.

Á sviði starfsgreinaráðs upplýsinga- og fjölmiðlagreina eru störf í öllu ferlinu frá hönnun og miðlun upplýsinga til lokafrágangs að meðtöldum störfum við sjálf upplýsingakerfin. Undir ráðið fellur upplýsingahönnun: m.a. prentsmíð, margmiðlun, grafísk hönnun, myndbandagerð - upplýsingamiðlun: m.a. blaðamennska, ljósvakamiðlun, internetmiðlun, ljósmyndun - upplýsingakerfi: eins og forritun, gagnaflutningur, netstjórn og þjónusta - vinnslugreinar: bókband, prentun, umbúðagerð. Meðal þessara starfsgreina eru 4 löggiltar iðngreinar, bókiðngreinarnar prentsmíð, prentun og bókband ásamt ljósmyndun. Þetta eru einu starfsgreinarnar á sviði upplýsinga- og fjölmiðlagreina sem notið hafa skipulagðrar starfsmenntunar á framhaldsskólastigi ef undan er skilin menntun í upplýsingatækni í einum framhaldsskóla og er þar átt við þriggja ára tölvubraut Iðnskólans í Reykjavík.

Störf í upplýsinga- og fjölmiðlagreinum einkennast framar öðru af afar hraðri þróun í tækni og skipulagi framleiðslu- og vinnuferla. Störf og einstakir verkþættir breytast, nánast dag frá degi, eldri störf hverfa og ný verða til. Einn megin vandi starfsmenntunar er fólginn í hraða tæknibreytinganna, hvernig hægt er að byggja upp starfsmenntun sem svarar kröfum síbreytilegs atvinnulífs og vinnumarkaðar fyrir þekkingu og hæfni starfsmanna á hverjum tíma í umhverfi harðnandi samkeppni á innlendum og alþjóðlegum markaði. Þetta á ekki síður við bókiðngreinarnar en aðrar greinar á þessu sviði.

Á rúmum áratug hefur tvisvar verið lagt í gagngera endurskoðun á námi þessara greina. Árin 1987 og 1993 voru samþykktar nýjar námskrár í bókiðngreinum og á árunum 1993-97 fór fram markvisst tilrauna- og þróunarstarf í samstarfi menntamálaráðuneytis, Iðnskólans í Reykjavík og aðila atvinnulífs í bókiðngreinum. Þetta tilraunastarf skilaði notadrjúgri reynslu og bættum tengslum skóla og atvinnulífs. Árangurinn var þó ekki allskostar í samræmi við upphafleg markmið og niðurstaðan sú að umtalsverðra breytinga væri þörf í skipulagi og framkvæmd bókiðnanáms, einkum væri nauðsynlegt að byggja inn meiri sveigjanleika í skipulag námsins. Við þessu verkefni tók starfsgreinaráð upplýsinga- og fjölmiðlagreina þegar það var skipað 11. febrúar 1998 ásamt því að móta tillögur um nýtt starfsnám á öðrum sviðum starfsgreinaflokksins sem til þessa hafa ekki notið skipulagðrar menntunar á framhaldsskólastigi.

Starfsgreinaráðið hefur nú lagt fram tillögur að ramma um nýskipan starfsnáms fyrir starfsgreinaflokkinn í heild.

Meginatriði tillagnanna er að allt starfsnám í upplýsinga- og fjölmiðlagreinum byggi á sama grunni og fylgi sama skipulagsformi hvort sem um er að ræða löggiltar iðngeinar eða ekki og er það nýmæli. Gert er ráð fyrir að námið taki 3 ár, 2 ár í skóla og 1 ár í starfsþjálfun á vinnustað. Skipulagsramminn miðast við undirstöðunám á nokkuð breiðum grunni, stutt sérhæft nám í skóla sem lýkur með skilgreindum hætti, starfsþjálfun í atvinnulífinu og lokamat sem endar með sveinsprófi í löggiltri iðngrein eða einskonar fagprófi í öðrum starfsgreinum sem viðurkennt er af aðilum atvinnulífsins. Augljóst er einnig að símenntun í samræmi við þarfir starfsfólks og fyrirtækja hlýtur að gegna stóru hlutverki í framhaldi af starfsnámi í upplýsinga- og fjölmiðlagreinum.

Þessar tillögur lofa góðu jafnt með tilliti til nemenda, atvinnulífsins og skólanna vegna þess sveigjanleika sem þær bera með sér. Með breiðu sameiginlegu undirstöðunámi gefst nemendum kostur á fleiri leiðum til náms- og starfsvals við hæfi og trúlegt er að slíkir starfsmenn geti nýst fyrirtækjunum vel með tilliti til hinna öru breytinga. Líklegt er einnig að margir eða flestir framhaldsskólar geti boðið fram slíkt grunnnám og rekið það með sæmilega hagkvæmum hætti. Sérhæfingin kallar síðan á að verkaskiptingu milli skóla.

Stutt sérnám í skóla ætti að vera auðvelt að laga að tæknibreytingum og breyttum hæfnikröfum auk þess sem fólk ætti auðveldara með að endurmennta sig eða bæta við sig sérgreinum eftir áhuga og þörfum. Tengsl sérnáms á 4. önn og símenntunar fyrir starfsfólk á vinnumarkaði eru einnig augljós og er ekki ólíklegt að framhaldsskólar leitist við að marka sér sérstöðu með því að þróa og bjóða fram nám á tilteknum sérsviðum bæði í dagskóla og á símenntunarnámskeiðum. Aukin samkeppni milli framhaldsskóla krefst þess, að þeir skilgreini og kynni sérstöðu sína til að keppa um nemendur á grundvelli góðrar og vandaðrar þjónustu. Frá mínum bæjardyrum er landið allt eitt námssvæði á framhaldsskólastigi.

Tillögurnar eru einnig raunsæjar á þeirri forsendu, að verði nemendur of fáir á tilteknu sérsviði á 4. önn til að mynda rekstrarbæran námshóp getur 6 mánaða starfsþjálfun í fyrirtæki komið í stað 20 ein. sérnáms í skóla og starfsþjálfun í heild þá orðið 18 mánuðir í stað 12. Er gert ráð fyrir að námskröfur í vinnustaðanámi verði skilgreindar og markvissu gæðaeftirliti beitt. Áherslan á vinnustaðanám eða starfsþjálfun í fyrirtækjum sýnir að atvinnulífið ætlar að taka á sig mikla ábyrgð á framkvæmd námsins og er það vel.

Góðir áheyrendur!

Tillögur starfsgreinaráðs upplýsinga- og fjölmiðlagreina fela í sér starfsmenntastefnu sem samrýmist vel menntastefnu framhaldsskólastigsins. Innan menntamálaráðuneytisins hafa tillögurnar verið metnar og er niðurstaðan sú, að ráðuneytið samþykkir þann ramma sem starfsgreinaráðið hefur mótað og hvetur það til áframhaldandi vinnu eftir þessum meginlínum. Áður en unnt er að stofna starfsnámsbraut í upplýsinga- og fjölmiðlagreinum með formlegum hætti er nauðsynlegt að vinna þessar tillögur nánar og móta einstaka þætti námsbrautarinnar með skýrari hætti.

Næsta skref er að starfsgreinaráðið leggi fram áætlun um námskrárgerð og tengd verkefni og því næst að ganga frá verksamningum á milli menntamálaráðuneytis og starfsgreinaráðsins. Ráðuneytið mun leggja fram fjármuni til að unnt sé að vinna að gerð námskrár fyrir þessa nýju starfsnámsbraut í samræmi við tillögurnar. Í því verki felst m.a. nánara mat og greining á þörfum starfsgreinanna fyrir menntun og hæfni starfsmanna ásamt nánari ákvörðun um innihald og markmið bæði í grunnámi og á sérsviðum.

Í þeirri vinnu sem framundan er þarf að huga að leiðum nemenda til frekara náms í sérskólum eða á háskólastigi að loknu námi í upplýsinga- og fjölmiðlagreinum svo og að mati á milli námsbrauta og námsleiða. Augljós tengsl eru á milli tiltekinna efnisþátta í þessu námi samkvæmt tillögum starfsgreinaráðsins annars vegar og hins vegar námsþátta á listnámsbraut, fjölmiðlakjörsviðs á félagsfræðabraut til stúdentsprófs og upplýsinga- og tæknibraut til stúdentsprófs sem ætlunin er að starfrækja í tilraunaskyni.

Ég lýk máli mínu með því að þakka starfsgreinaráðinu fyrir hið metnaðarfulla starf, sem það hefur unnið á skömmum tíma. Í mínum huga er ljóst, að við erum hér að ræða um starfsnám, sem höfðar vel til sköpunarþarfar og tækniáhuga. Í ljós hefur komið, að hvoru tveggja setur mikinn svip á íslenskt skólastarf og mótar mjög viðhorf ungs fólks á Íslandi. Ég er þess vegna ekki í nokkrum vafa um, að verði vandað til framhaldsins með sama hætti og unnið hefur verið að þeim tillögum, sem hér eru kynntar, er lagður grunnur að vinsælli starfsnámsbraut. Hún ætti því að kalla á gott og áhugasamt starfsfólk í þessum mikilvægu starfsgreinum og styrkja þær í samkeppni við aðrar greinar. Hvarvetna gera menn sér æ betur grein fyrir því, að góð menntun er forsenda þess að árangur náist.