23.1.1995

Öflugur Sjálfstæðisflokkur tryggir trausta stjórn

Morgunblaðið, 26. október, 1994.


 


Þetta er fyrsta greinin, sem birt er á vefsíðu minni. Sendi ég Gunnari Grímssyni hjá Miðheimum hana en síðan mín var sett upp til prufu um miðjan janúar 1995. Hún var fyrst einskonar leynisíða en um miðjan febrúar 1995 sagði ég fjölmiðlum frá henni og hinn 19. febrúar 1995 birtist fyrsti pistillinn. Greinin var ekki með þegar síðan var uppfærð haustið 2002 í eplica-kerfinu og setti ég hana að nýju inn á síðuna 27. júlí, 2004.

Ef árangur í landstjórninni á þessu kjörtímabili er borinn saman
við það, sem gerðist á hinu síðasta, sést, að ótrúlegur árangur
hefur náðst. Þetta má ekki síst rekja til þess, að tveggja flokka
stjórn hefur setið við völd og Sjálfstæðisflokkurinn verið í
forystu.

Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins eru ekki mikils trausts verðir
um þessar mundir. Alþýðuflokkurinn er nýklofinn eftir brottför
Jóhönnu Sigurðardóttur. Eftirmaður hennar á varaformannsstóli,
Guðmundur Árni Stefánsson, tekst á við mikinn vanda;
embættisfærsla hans sem ráðherra er í athugun Ríkisendurskoðunar og fjárreiður Hafnarfjarðar í bæjarstjóratíð hans til skoðunar hjál ögfræðingum. Alþýðubandalagið er í raun tveir flokkar, þar sem Ólafur Ragnar Grímsson og Svavar Gestsson mynda sinn hvor pólinn. Framsóknarflokkurinn hefur ekki skipað forystumálum sínum eftir brotthvarf Steingríms Hermannssonar í Seðlabankann. Kvennalistinn er í kreppu eftir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir braut gegn þeirri stefnu hans, að eiga ekki samstarf við aðra, aðeins til að ná völdum.


Veikleiki andstæðinga Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík kom best fram í borgarstjórnarkosningunum vorið 1994, þegar þeir treystu
sér ekki til að bjóða fram eigin lista. Nú er borgarstjórinn hins
vegar í herkví þessara flokka, ef marka má grein Egils Helgasonar,
stuðningsmanns R-listans, í Alþýðublaðinu. Flokkarnir bítast á um
það, sem þeir álíta sín prívatlén, í þeim slag er ekki hugsað um
hagsmuni borgarbúa.


Stjórnarsamstarf




Hin furðulega tillaga stjórnarandstöðunnar um vantraust á
ríkisstjórnina síðastliðið haust vakti umræður í fjölmiðlum um
stjórnarsamstarf að loknum kosningum. Málatilbúnaður andstæðinga ríkisstjórnarinnar á Alþingi er ekki til þess fallinn að vekja á þeim traust. Stjórnarandstaðan hefur stundað niðurrif, hún hefur ekki boðið annan kost.

Það má kenna við pólitíska helgisiði hér á landi, að fyrir
kosningar láti vinstri flokkarnir eins og þeir eigi einhverjar
hugsjónir sameiginlegar. Nú flokka þeir þær undir glamuryrðið
félagshyggja, sem er gjörsamlega marklaust sem stjórnmálahugtak.


Framsóknarmenn eru einnig þeirrar skoðunar, að þeim beri forysta
meðal vinstri flokkanna. Þess vegna talar Halldór Ásgrímsson á
þann veg, að í hans hlut komi að mynda ríkisstjórn að kosningum
loknum. Hann gefur þó jafnframt til kynna, að myndun vinstri
stjórnar eftir kosningar verði erfið vegna framgöngu Jóhönnu.
Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Alþýðubandalagsins, segir þessa afstöðu Halldórs aðeins til marks, um að hann meini ekkert með vinstristjórnartalinu.


Vinstra talið um samstarf flokkanna gegn Sjálfstæðisflokknum
byggist á hugmyndum um sameiningu flokkanna, sem eru orðnar
hlægilegar. Þrír stjórnmálamenn gera nú kröfu til eignarréttar á
jafnaðarmennskunni, Jón Baldvin Hannibalsson, Ólafur Ragnar
Grímsson og Jóhanna Sigurðardóttir. Ræða Jóns Baldvins í
vantraustsumræðunum í haust snerist um þjófnað þeirra Ólafs
Ragnars og Jóhönnu á jafnaðarmennskunni, en þó segir Jón Baldvin það sögulegt pólitískt hlutverk sitt að sameina vinstri menn.


Sjálfstæðismenn fylgjast með þessum sviptingum á vinstri kantinum. Þeir eru reiðubúnir til samstarfs á málefnalegum forsendum, enda sé póltískur styrkur flokks þeirra viðurkenndur. Það eru kjósendur, sem ráða því, hvernig valdahlutföll eru á Alþingi. Öflugur Sjálfstæðisflokkur tryggir trausta stjórn.