10.7.2004

Almannahagur eða sérhagsmunir?

Morgunblaðið, 10. júlí, 2004.

Íslenskt þjóðfélag hefur tekið stakkaskiptum á undraskömmum tíma. Eftir að Davíð Oddsson varð forsætisráðherra 30. apríl 1991 urðu breytingar örari og stærri en áður.

Oft hefur verið tekist hart á um stefnu við úrlausn mála. Þótt átök í stjórnmálum séu með öðrum hætti nú en á þeim tíma, þegar enn voru starfandi stjórnmálamenn, sem töldu best, að ríkið hefði alla þræði í hendi sér undir merkjum sósíalisma, er enn deilt um meginleiðir að því marki að treysta hag almennings og innviði þjóðfélagsins í því skyni, að lög og réttur ráði á öllum sviðum.

Hið sérkennilega er, að í tímans rás undanfarin 13 ár hafa sömu eða svipuð stjórnmálaöfl alltaf verið andvíg öllum breytingum, hvers eðlis sem þær eru. Vinstri sinnaðir stjórnmálamenn beittu sér til dæmis gegn aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu á fyrsta kjörtímabili alþingis eftir 1991.

Síðan 1995 hefur ekki aðeins orðið breyting á öllu starfsumhverfi einstaklinga og fyrirtækja heldur einnig á stjórnmálakerfinu. Þrír flokkar, sem buðu fram til þings 1995, Kvennalisti, Alþýðubandalag og Alþýðuflokkur, eru horfnir. Arftakar þessara flokka í stjórnmálum, Samfylking og vinstri/grænir, hafa nú verið tæp tíu ár í stjórnarandstöðu.

Vinstri flokkarnir, hvort sem þeir eru gamlir eða nýir, hafa annaðhvort snúist gegn viðleitni til að auka frjálsræði í íslensku viðskiptalífi eða haft miklar efasemdir um aðferðir við frjálsræðisskrefin. Flokkarnir hafa hamrað á eftirlitsskyldu ríkisvaldsins með allri fjármála- og atvinnustarfsemi og haft mikla trú á opinberu fjármála- og samkeppniseftirliti. Þeir hafa verið talsmenn skattheimtu og skattrannsókna. Þeir hafa sagst vera að verja almannahagsmuni gegn sérhagsmunum.

Við, talsmenn frjálsræðis og aukins svigrúms einstaklinga og fyrirtækja þeirra til að láta að sér kveða í fjármála- og atvinnulífi, höfum um árabil setið undir ámæli fyrir að vera of undanlátssamir við sérhagsmuni og stórfyrirtæki.

Þegar rætt er um fjölmiðlalögin svonefndu, sem hafa að markmiði að setja almennar leikreglur á fjölmiðlamarkaði til að útiloka völd og áhrif í krafti sérhagsmuna, fjármagns og samþjappaðs eignarhalds, kemur allt í einu annað hljóð í vinstri strokkinn.

Þegar ríkisstjórnin flytur fjölmiðlafrumvarp í þágu almannahags undir þinglok á grundvelli ítarlegrar skýrslu, gengur hin vinstri sinnaða stjórnarandstaða berserksgang gegn tillögunum. Hún stofnar til lengstu umræðna á þingi um eitt einstakt mál síðan samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var til umræðu. Baugsmiðlarnir svonefndu, fjölmiðlar Norðurljósa, ýta undir andstöðu við lögin vegna sérhagsmuna eigenda sinna. Stjórnarandstaðan gerir þessa sérhagsmuni að sínum í málflutningi á þingi.

Starfsmenn Norðurljósa setja af stað tölvusöfnun á kennitölum, sem aldrei hafa verið birtar, og senda þær til forseta Íslands með áskorun um að synja lögunum. Ólafur Ragnar Grímsson efnir til blaðamannafundar á Bessastöðum 2. júní 2004 og tilkynnir, að hann ætli að synja lögum um nýjar leikreglur varðandi eignarhald á fjölmiðlum. Þetta er hinn sami Ólafur Ragnar Grímsson, sem hvatti til þess snemma árs 1995, að alþingi setti slíkar leikreglur í þágu almannahags. Nú telur hann þær ígildi stjórnarskrárákvæða og þess vegna þurfi að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um þær.

Þegar tekið er til við með aðstoð sérfræðinga að undirbúa lög um þjóðaratkvæðagreiðslu, fer allt á annan endann út af hugmyndum um tilhögun atkvæðagreiðslunnar. Þá ákveður ríkisstjórnin að afturkalla lögin, sem forseti synjaði 2. júní, og leggja nýtt og breytt frumvarp fyrir alþingi. Verði frumvarpið að lögum taka þau ekki gildi, fyrr en að loknum næstu þingkosningum. Þá kynnu kjósendur að hafa veitt andstæðingum frumvarpsins, talsmönnum sérhagsmunanna, meirihluta á þingi. Ákvörðun um gildistöku laganna svipar til reglna um breytingar á stjórnarskránni.

Baugsmiðlarnir og stjórnarandstaðan sætta sig ekki heldur við þetta. Eitt er með miðlana og sérhagsmuni eigenda þeirra, annað með hina vinstri sinnuðu stjórnarandstöðu. Hvers vegna er henni svona mikið í mun að útiloka, að leikreglur byggðar á almannahag verði settar á fjölmiðlamarkaði? Hvað er það, sem gerir slíkar samkeppnisráðstafanir ósamrýmanlegar stjórnarskrá en ekki á öðrum sviðum atvinnulífsins?

Stjórnarandstaðan hleypur jafnan frá því að ræða efni fjölmiðlamálsins. Málflutningur hennar hefur frá fyrsta degi snúist um aðferð, form og umgjörð. Hún vill ekki, að athygli sé beint að eindregnum stuðningi hennar við sérhagsmuni en ekki almannahag.