16.3.2004

Kostir rafrænnar stjórnsýslu.

Ráðstefna að hótel Nordica,16. mars, 2004.

 

 

 

 

Í upphafi máls míns fagna ég því, að ParX, viðskiptaráðgjöf IBM, forsætisráðuneytið og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála skuli boða til þessarar ráðstefnu um efnið: Frá málaflokkasýn til samþættingar þjónustu og möguleika rafrænnar stjórnsýslu fyrir lýðræðið og hagkvæmni.

 

Ég tel eðlilegt og gagnlegt að nálgast þetta spennandi viðfangsefni og skipulega úrlausn þess í samvinnu einkaaðila, stjórnvalda og fræðimanna.

 

Stjórnvöld hafa búið í haginn fyrir þá framtíð, sem hér er lýst, því að undir forystu forsætisráðuneytisins hafa undanfarin ár verið stigin markviss skref til að leggja grunn að rafrænni stjórnsýslu.

 

Í júní 2002 gaf ráðuneytið út skýrslu sérfróðra manna um málið og þar var einnig að finna frumvarp til laga um breytingar á stjórnsýslulögunum, svo að fyrir hendi yrðu lögheimildir til að sinna stjórnsýsluverkefnum á rafrænan hátt. Alþingi samþykkti frumvarpið fyrir ári og varð það að lögum 7. apríl 2003.

 

Þessi lagaákvæði um rafræna stjórnsýslu byggjast á stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið, sem var upphaflega mótuð árið 1996. Hún hefur nú verið endurnýjuð og var kynnt opinberlega í síðustu viku undir heitinu: Auðlindir í allra þágu – stefna ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið 2004 – 2007.

 

Fyrstu áhersluatriði þessarar stefnu eru einmitt lýðræði og stjórnsýsla. Markmiðið er að opinberar stofnanir veiti rafræna þjónustu hvarvetna þar sem hún leiðir til hagræðingar og bættrar þjónustu við almenning og atvinnulíf.

 

Í stefnunni er gert ráð fyrir, að opnuð verði rafræn þjónustuveita og gegni hún lykilhlutverki í miðlun upplýsinga og rafrænnar stjórnsýslu. Veitan verði opin alla daga ársins, allan sólarhringinn.

 

Ég ætla ekki að rekja efni hinnar nýju stefnu frekar, því að hér á ráðstefnunni flytur Guðbjörg Sigurðadóttir, verkefnisstjóri forsætisráðuneytisins í upplýsingatækni, erindi um þá þætti hennar, sem falla undir heiti ráðstefnunnar.

 

Fyrir um það bil áratug beitti Guðbjörg sér fyrir því ásamt öðrum að ýta undir áhuga okkar stjórnmálamannanna á að tileinka okkur upplýsingatæknina og síðan að taka pólitískar ákvarðanir um inntak og framkvæmd stefnu á þessu sviði. Ég er viss um, að oft þótti þessu ágæta fólki róðurinn þungur og lítil framsýni einkenna viðbrögð viðmælenda þeirra.

 

Á þessari stundu geta Guðbjörg og aðrir áhugamenn um hlut hins opinbera á sviði upplýsingatækni á hinn bóginn litið af nokkru stolti yfir farinn veg, því að margt hefur áunnist.

 

Eitt er víst, að áhugi Íslendinga á því að nýta sér þessa tækni til samskipta, öflunar og miðlunar upplýsinga er meiri en nokkurn gat grunað, þegar af stað var farið. Af þessum áhuga má draga þá ályktun, að það sé þakklátt starf að auðvelda öllum almenningi að eiga samskipti við opinbera aðila á netinu og spara sér þannig ferðir, fyrirhöfn og tíma.

 

Við erum öll sammála um, að nauðsynlegt sé að auka hagnýtt og gagnlegt íslenskt efni á netinu, jafnt frá opinberum aðilum og öðrum. Til að ná því markmiði skiptir oft mestu að sýna frumleika og stórhug við tillögusmíði og leitast síðan við að virkja rétta aðila til samstarfs.

 

Ég hafði til dæmis ekki hugmynd um til hvers það myndi leiða, þegar ég á sínum tíma samþykkti tillögu um svonefndan landsaðgang Íslendinga að Encyclopaediu Britannicu – en vegna þess hve hann gaf góða raun varð síðan til hugmyndin um að semja um landsaðgang Íslendinga að alþjóðlegum gagnagrunnum. Þetta hefur ekki aðeins auðveldað allt mennta-, rannsókna- og vísindastarf hvar sem er á landinu heldur einnig brúað þekkingarbilið milli okkar og allra annarra þjóða.

 

Við úrlausn þessa verkefnis voru þarfir notenda hafðir að leiðarljósi. Viðfangsefnið var að ná því sambandi við framleiðendur, að eðlilegt traust skapaðist, svo að unnt væri að nýta tæknina á hinn besta og skynsamlegasta hátt fyrir alla Íslendinga. Þegar grunnurinn hafði verið lagður var framkvæmdin færð í hendur Landsbókasafns Íslands- háskólabókasafns.

 

Annað verkefni ekki ósvipað þessu er Landskerfi bókasafna hf., það er hlutafélag ríkisins og um fjörutíu sveitarfélaga, sem rekur Gegni, upplýsinga- og skráningakerfi á netinu, sem á að ná til tæplega 300 bókasafna í landinu. Þegar þetta nýja kerfi var tekið í notkun fyrir tæpu ári var sagt, að netvæðing þess tryggði, að menn gætu flett upp í Gegni, hvort sem þeir væru staddir í Alexandríu eða á Bíldudal.

Mér sýnist viðfangsefnið og markmiðið hið sama, þegar rætt er um rafræna stjórnsýslu. Við viljum tryggja góða, alhliða þjónustu á sem flestum sviðum. Lausnin getur byggst á því að fela einni opinberri stofnun að bæta við sig nýrri alþjóðlegri vídd eða ákveðið er að stofna hlutafélag til að sameina krafta ríkis og sveitarfélaga.

 

Á ráðstefnunni gefst tækifæri til að kynnast því, hvernig einstök sveitarfélög taka á verkefnum sínum, en í huga þeirra, sem æskja opinberrar þjónustu er verkaskipting ríkis og sveitarfélaga ekki endilega leiðarljósið. Þess vegna ættu þessir aðilar að huga að því að stofna hlutafélög um rafræna úrlausn fleiri verkefna en lýtur að netvæddum aðgangi almennings að bókasöfnum.

Arnar Jónsson, ráðgjafi á stjórnsýslusviði ParX, sem hefur annast undirbúning og kynningu ráðstefnunnar, komst þannig að orði í Morgunblaðinu, að hér ætti að gefast tækifæri til að ræða hvernig nota mætti rafræna samskiptamáta eins og Netið til að einfalda þjónustuferla, draga úr tvíverknaði, auðvelda almenningi að nálgast stjórnmálamenn og embættismenn, minnka biðraðir og auðvelda samsetningu þjónustu þannig að menn fái heildarafgreiðslu á einum punkti.

Takist að finna leiðir til að slá allar þessar flugur í einu höggi hér á þessari ráðstefnu er svo sannarlega þess virði að halda hana.

Netið getur vissulega verið kröfuhart við okkur stjórnmálamennina, sem notum það til daglegra starfa. Þeir eru orðnir margir klukkutímarnir, sem ég hef varið fyrir framan tölvuskjáinn hvar sem er í heiminum til að svara stórum og smáum erindum nægilega tímanlega til að fyrirspyrjandinn sé ekki farinn að efast um áhuga minn á því, sem ég hef boðið mig fram til að sinna.

Góðir áheyrendur!

Öflug, gagnkvæm rafræn samskipti í þágu góðrar og vandaðrar stjórnsýslu og þjónustu hins opinbera við borgarana er verðugt takmark, sem við höfum ekki enn náð. Við höfum tæknilega burði til að ná því og þjóna þar með betur borgurum landsins. Ef við viljum halda forystu í rafrænni alþjóðlegri samkeppni, verðum við að taka okkur á í þessu efni. Í því einu felst mikil áskorun.

Að lokum varnaðarorð frá dómsmálaráðherra: Í þessu efni eins og öðrum er nauðsynlegt að hyggja að öryggi og varrúðaráðstöfunum til að óheiðarlegir menn spilli ekki hinum rafrænu samskiptum. Í netheimum er ekki síður þörf á löggæslu en annars staðar. Þar eiga menn einnig að umgangast höfundarrétt og eignir annarra af sömu virðingu og endranær.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns snýst þessi ráðstefna um spennandi viðfangsefni, þar sem tækifærin eru ótæmandi fyrir hugmyndaríka einstaklinga. Megi ykkur takast sem best að sameina kraftana til að ná sem mestum árangri.