8.3.2004

Skemmtilegur og góður tími

Fyrsta heimilið í fasteignablaði Morgunblaðsins 8. mars 2004.

Skemmtilegur og góður tími - mynd 1  Skemmtilegur og góður tími - mynd 2  Skemmtilegur og góður tími - mynd 3 
Skemmtilegur og góður tími - mynd 4  Skemmtilegur og góður tími - mynd 5  Skemmtilegur og góður tími - mynd 6 


Rut Ingólfsdóttir fiðluleikari og Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, hófu búskap sinn í Þingholtunum. Guðlaug Sigurðardóttir ræddi við þau um fyrstu búskaparárin.


 

Markús Örn Antonsson, frændi Björns, var heimagangur á heimili mínu, hjá móður minni, Ingu Þorgeirsdóttur, og systrum mínum. Einn góðan veðurdag kom Björn með honum í heimsókn og þannig kynntumst við," segir Rut Ingólfsdóttir fiðluleikari þegar hún er spurð um hvernig hún hafi kynnst eiginmanni sínum, Birni Bjarnasyni, dóms- og kirkjumálaráðherra. Þá voru þau bæði í MR, hún utanskóla í fjórða bekk og hann á skólabekk í fimmta. Eftir stúdentspróf fór Rut til Svíþjóðar og nam þar tónlist í eitt ár en að því loknu lá leiðin til Brussel þar sem hún dvaldist þrjú ár við frekara tónlistarnám. Á meðan las Björn lög við Háskóla Íslands og var að auki þá þegar orðinn virkur í félagsmálum stúdenta og á vettvangi stjórnmálanna.

Þau fjögur ár sem Rut var í námi erlendis héldu þau Björn sambandinu við með samskiptamáta þess tíma, bréfaskriftum, en Rut hafði það fyrir reglu að skrifa Birni einu sinni í viku og hann skrifaði á móti. Einstaka símtal átti sér stað en þau voru ekki mörg. Rut kom heim í fríum og Björn heimsótti hana nokkrum sinnum á námsárum hennar.

Viðburðaríkt ár

Árið 1969 dró til tíðinda í lífi þeirra Rutar og Björns. Þá um sumarið lauk Rut fjögurra ára framhaldsnámi sínu og fluttist aftur heim. Nokkrum vikum síðar, eða 21. september, giftu þau Björn sig. Þá höfðu þau verið opinberlega trúlofuð í tvö ár. Deginum áður, á laugardagsmorgni fyrir brúðkaupið, byrjaði Rut í fastri stöðu í Sinfóníuhljómsveit Íslands og mætti þar á sína fyrstu æfingu. "Það var mikið að gerast á þessum tíma," segir Rut. "Ég var búin að undirbúa brúðkaupið í nokkurn tíma úti í Brussel áður en ég kom heim. Þá, rétt eins og nú, þurfti maður að spá og spekúlera fyrir brúðkaupið og ég notaði allan frítíma sem gafst til að undirbúa allt sem best. Ég var til dæmis alveg búin að ákveða hvað ég vildi hafa heima hjá okkur og keypti ýmislegt til heimilisins úti í Brussel sem passaði akkúrat fyrir okkur tvö. Síðan setti ég dótið í gám og lét flytja hann hingað heim. Ég kynntist nýjum siðum í nýju landi og mér fannst margt mjög skemmtilegt og öðruvísi þarna úti í Brussel og brúðkaupsundirbúningurinn bar nokkurn keim af því. Ég keypti efnið í brúðarkjólinn í Brussel og við mamma saumuðum hann. Einnig keypti ég brúðarslör úr hinum frægu belgísku kniplingum og tvær systur mínar notuðu kjólinn og slörið þegar þær giftu sig og einnig dóttir okkar, Sigríður Sól. Brúðkaup okkar Björns fór síðan fram með fallegri athöfn í Dómkirkjunni en það var fámennt," segir Rut. "Síðan var veisla heima hjá föður mínum, Ingólfi Guðbrandssyni, eftir athöfnina."

Yndislegur tími

Á brúðkaupsdaginn fluttu Rut og Björn inn í íbúð sem þau höfðu tekið á leigu. "Við leigðum efri hæð á Bergstaðastræti 71 hjá Lovísu og Þórði, afskaplega elskulegum eldri hjónum, sem áttu húsið. Þetta var yndislegur tími. Við Björn höfðum aldrei búið saman í eiginlegri merkingu þótt við hefðum eytt einhverjum tíma saman síðasta árið sem ég var í námi úti í Brussel. Tíðarandinn var annar þá en núna. Við vorum ekkert að prófa okkur áfram í sambúð, heldur giftum við okkur og fórum síðan að búa," segir Rut. "Íbúðin var björt og skemmtileg með fallegu útsýni yfir Vatnsmýrina og til Keilis og staðsetningin hentaði okkur báðum mjög vel. Sambúðin við gömlu hjónin var eins og best verður á kosið, ég fékk að nota þvottavélina þeirra og þau voru okkur hjálpleg á ýmsan máta. Við Björn áttum engan bíl en það gerði ekkert til því við vorum nánast í göngufæri við helstu staði. Björn var í Háskólanum og ég í Sinfóníunni í Háskólabíói og í Þjóðleikhúsinu þegar hljómsveitin spilaði við leiksýningar. Þá var ég einnig að kenna í Tónlistarskólanum í Kópavogi og tók Kópavogsstrætó þangað."

Á þessum tíma hélt Rut debút-tónleika sína og þurfti að æfa mikið fyrir þá. "Undirleikarinn var Gísli Magnússon, píanóleikari og mágur móður minnar, en hann bjó á Bergstaðastræti 65," segir Rut. "Við vorum á Bergstaðastræti 71 en áttum ekki píanó. Það var því skemmtilegt að vera þarna í næsta húsi við Gísla og geta hlaupið til þeirra Stellu, konu hans, og æft með honum á milli þess sem ég æfði heima fyrir þessa fyrstu stórtónleika mína. Tónleikarnir voru síðan haldnir í Austurbæjarbíói á vegum Tónlistarfélagsins í Reykjavík en að þeim loknum héldum við svo veislu heima á Bergstaðastræti."

Fastheldin á góða hluti

Margir þeirra hluta sem Rut og Björn hófu búskap með hafa fylgt þeim alla tíð. "Ég hafði keypt vissa hluti úti í Brussel en einnig fengum við ýmislegt í viðbót í brúðargjöf og frá foreldrum okkar," segir Rut. "Við fengum t.d. stól og gamalt skrifborð sem faðir Björns átti og móðir mín saumaði stofugardínurnar sem við notum ennþá. Fyrsta sófasettið okkar er núna í húsinu okkar í Fljótshlíðinni. Þetta eru hlutir sem okkur líkar vel við og þykir vænt um og því finnst mér engin ástæða til að skipta þeim út fyrir eitthvað annað," segir Rut hlæjandi. "Ætli ég sé ekki svona íhaldssöm."

Það er þó Björn sem oftar hefur verið orðaður við íhaldssemi en til marks um íhaldssemi hans má nefna að hann hefur alltaf haldið tryggð við hverfið sem hann ólst upp í, ef frá er talið árið sem þau Rut bjuggu á Bergstaðastrætinu. "Ég hef verið á þessu svæði frá árinu 1949," segir Björn. "Fyrst bjó ég efst í Blönduhlíðinni, en fluttist svo með foreldrum mínum hingað í Háuhlíð árið 1955, þar sem ég bý enn."

Árið 1970 létust foreldrar Björns, dr. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Sigríður Björnsdóttir, og Benedikt Vilmundarson systursonur hans á sviplegan hátt í eldsvoða á Þingvöllum. Þá fluttust Rut og Björn aftur heim á æskuheimili Björns í Háuhlíð 14. "Það voru mikil og óvænt viðbrigði að flytjast úr okkar litla heimili á Bergstaðastrætinu inn í þetta stóra hús," segir Rut. "Við vorum ekki bara að flytja inn í stærra hús með okkar litlu búslóð, heldur vorum við að flytja inn á annað heimili."

Engin töfralausn til

Það má velta því fyrir sér, nú á tímum umræðu um aukna tíðni hjónaskilnaða, hvað það er sem gerir hjónaband farsælt. Rut og Björn segja að þau þekki ekki neina töfralausn sem tryggir farsælt hjónaband en Rut er þó þeirrar skoðunar að aðskilnaður þeirra Björns í upphafi hafi frekar treyst sambandið en veikt. "Fyrst sambandið þoldi þann aðskilnað þá ætti það að þola hvað sem er," segir hún. "Fólk má hins vegar ekki gera ráð fyrir því að lífið sé alltaf dans á rósum, það getur tekið ýmsar dýfur sem fólk þarf að vinna sig upp úr í sameiningu." Björn segir að engar töfraformúlur dugi í þessum efnum. "Ég hef enga skýringu á því hvað veldur auknum hjónaskilnuðum. Eru það fjárhagsleg atriði þegar fólk reisir sér hurðarás um öxl, er það tilfinningalegs eðlis, eða er það spenna í þjóðfélaginu sem kallar á þetta? Það er enginn fullkominn og fólk verður að vinna úr lífinu á sínum eigin forsendum."

Það er bjart yfir minningum Rutar og Björns frá fyrsta búskaparárinu. "Þetta var skemmtilegur og góður tími," segir Björn. "Fyrir mér, sem hafði búið í Hlíðunum næstum alla mína ævi, var Bergstaðastrætið og Þingholtin nýtt umhverfi og það var því einstakt að fá tækifæri til að kynnast hverfinu og fólkinu sem bjó þar."

gudlaug@mbl.is