22.12.2003

Málfrelsið og skinhelgi vinstrisinna.

Gestapistill 22. desember 2003 á vefsíðu Stefáns Friðriks Stefánssonar.

 

 

 

Mér er ánægja að fá tækifæri til að skrifa gestapistil á vefsíðu Stefáns Friðriks. Gefst mér þá meðal annars tækifæri til að þakka honum gott framlag hans til umræðna á vefnum og stuðning hans við mörg góð málefni.

 

Stefán Friðrik hefur hugrekki til að koma fram undir fullu nafni og hikar ekki við að setja skoðanir sínar fram á þeim forsendum. Hann var virkur meðal innherja á Visir.is og síðan meðal málverja á Malefni.com en ákvað að hætta skrifum þar, vegna þess hve honum þótti margir í hópnum taka ómálefnalega afstöðu og kasta auri á menn og málefni úr skjóli nafnleysis.

 

Ég skil vel þá ákvörðun Stefáns Friðriks, að vilja ekki skiptast á skoðunum við menn, sem þora ekki að standa við skoðun sína með nafni sínu. Hef ég oftar en einu sinni vakið máls á því á opinberum vettvangi, að huga verði að ábyrgð þeirra, sem að slíkum síðum standa, þegar þær eru notaðar að til að bera rangar sakir á menn eða úthúða þeim með skömmum og svívirðingum.

 

Í ljósi þess hvernig nú er fullyrt af ýmsum, að ekkert sé sjálfsagðara og eðlilegra en Jón Ólafsson, kaupsýslumaður kenndur við Skífuna, skuli fara í meiðyrðamál við Davíð Oddsson, er skrýtið, að enginn rithöfundur gangi fram og telji þessa málshöfðun ganga of nærri málfrelsinu. Þvert á móti hlustaði ég að morgni laugardagsins 20. desember á tvo rithöfunda í þætti Þorfinns Ómarssonar á rás 1, hljóðvarps ríkisins, bera blak af Jóni og hallmæla Davíð.

 

Þar fóru þau Guðrún Helgadóttir, fyrrverandi þingmaður Alþýðubandalagsins, og Einar Kárason, einn af hvatamönnum þess, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lét að sér kveða í  borgar- og síðar að nýju landsmálapólitíkinni.

 

Sérstaklega kom mér á óvart, að hlusta á Einar Kárason, því að í febrúar árið 1995 stóð hann að því með Thor Vilhjálmssyni og fleiri rithöfundum auk Lúðvíks Geirssonar, þáverandi formanns Blaðamannafélags Íslands og núverandi bæjarstjóra í Hafnarfirði, að stofna Málfrelsissjóð og rita undir ávarp, þar sem skorað var á alþingi að setja prentfrelsislöggjöf og ný meiðyrðalög. Var markmið hópsins að rýmka tjáningarfrelsið og milda meiðyrðalöggjöfina til að auðvelda fólki að segja skoðun sína á mönnum og málefnum.

 

Í þættinum með Þorfinni Ómarssyni 20. desember var Einar Kárason þeirrar skoðunar, að málfrelsi Davíðs Oddssonar væri of mikið, ef hann mætti segja eftirfarandi orð refsilaust, þegar hann ræddi um viðskipti Kaupþings/Búnaðarbanka og Jóns Ólafssonar í hádegisfréttum hljóðvarps ríkisins 21. nóvember 2003:

 

„Og maður hefur þá tilfinningu að þar með sé auðvelt að skjóta undan fjármunum þannig að ríkisvaldið eigi miklu erfiðara ef að skattaálagning verður í samræmi við skattrannsókn að ná til sín þeim fjármunum sem þarna eru á ferðinni. Þetta hafði allt þann brag að þarna væri verið að kaupa og selja þýfi í mínum huga.“

 

Raunar kemur mér ekki á óvart, að Einar Kárason telji, að málfrelsi eigi að takmarka, þegar vikið er að þeim, sem njóta samúðar hans. Hann gagnrýndi mig til dæmis í Morgunblaðinu 7. apríl 1994, þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir bauð sig fyrst fram sem borgarstjóri með stuðningi hans. Gaf hann til kynna, að ég hefði farið út á ystu nöf málfrelsisins , ef ekki fram af brúninni. Taldi hann mig hafa unnið það til sakar, að dylgja um það, sem hann kallaði mikilmennskubrjálæði Ingibjargar Sólrúnar. Væri ég að ráðast gegn persónu hennar með því að nefna þá Martein Lúther og Loðvík fjórtanda í grein um skjólstæðing hans. Kallaði hann þetta „persónusvívirðingar“ enda væri Ingibjörgu Sólrúnu lýst sem „valdasjúkum hrokagikk“ og ég byrjaður „að kasta tertubotnum.“

 

Í tilefni greinar Einars, sem þá var formaður Rithöfundasambands Íslands, kvaddi Ásgeir Jakobsson rithöfundur sér hljóðs í Morgunblaðinu 20. apríl 1994 og sagði meðal annars:

„Einar Kárason vill ekki, að umræðan um borgarstjóraefnin nú snúist um karakter þeirra, sjálfa manngerðina. Þetta sýnir mikinn ókunnugleika skáldsins á kosningabaráttu. Hún snýst ævinlega að stórum hluta um manngerð frambjóðendanna. Kjósandinn spyr sjálfan sig: Get ég treyst þessum manni um framkvæmdina á því, sem hann boðar? …..

Við Sólrún erum bæði til hægri við íhaldið. Ég er sammála Sólrúnu í nær öllum málum, sem hún hefur beitt sér gegn í borgarstjórn: Byggð í Grafarvogi, Kringluóláninu, Skúlagötuhrúgaldinu, Ráðhúsbragganum, Perlupottlokinu (manni getur ekki þótt vænt um hús, sem maður hefur ekki efni á að skoða að innan).

Bæði erum við almennt á móti gatnagerð, bæði útskeif og létt uppá fótinn. Þá erum við og innilega sammála um að stöðva þennan fjáraustur í íþróttir, hvort tveggja af því að þær reynast vafasöm heilsubót, eins og síhrakandi heilsufar þjóðarinnar sýnir, og við Íslendingar langt umfram skyldu okkar búnir að sjá heiminum fyrir síðustu mönnum í keppni og mál að hætta.“

Ásgeir Jakobsson er nú látinn en sonur hans Jakob F. Ásgeirsson rithöfundur er meðal þeirra, sem tilnefndur er til íslensku bókmenntaverðlaunanna í ár fyrir ævisögu um Valtý Stefánsson, ritstjóra Morgunblaðsins. Ingibjörg Sólrún er í hópi þeirra þriggja, sem eiga síðasta orðið um það, hver fær bókmenntaverðlaunin að þessu sinni.

Jakob vakti máls á því í grein í Viðskiptablaðinu 10. desember síðastliðinn, hvort líklegt væri að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir yrði hrifin af bókum þeirra Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar. „Er ekki líklegra að Ingibjörg Sólrún sjái fleira gott við bók Guðjóns Friðrikssonar en bækur okkar Hannesar? Guðjón hefur, rétt eins og Einar Kárason í fagurbókmenntaflokknum, skrifað hástemmt lof um Ingibjörgu Sólrúnu í blöðin.

En svona er vinstri slagsíðan hressileg í íslenskri fjölmiðlaumræðu að á þetta bendir ekki nokkur maður. Ætli hefði ekki verið rekið upp ramakveim ef Davíð Oddsson eða Björn Bjarnason hefðu verið í nefndinni og bækur okkar Hannesar tilnefndar? Þá hefði nú aldeilis verið fjallað um málið aftur á bak og áfram í Speglinum og Víðsjá - hinum "hlutlausu" menningar- og fréttaskýringaþáttum ríkisútvarpsins - og allir dálkahöfundar Fréttablaðsins hefðu látið ljós sitt skína, að ógleymdum ritstjóranum."

Þegar Stefán Friðrik bauð mér að rita gestapistil á síðuna sína, þótti mér vel við hæfi að vekja máls á því, hvernig vinstrisinnar umgangast málfrelsið, auk þess að minna á, að þeim finnst ekkert athugavert við að sitja í dómnefndum, þótt vinir þeirra og stuðningsmenn séu meðal hinna tilnefndu við hlið alkunnra andstæðinga.

Hin vinstrisinnaða skinhelgi tekur á sig ýmsar myndir og full ástæða til að hvetja til árvekni gagnvart henni. Þess vegna vona ég, að Stefán Friðrik  láti ekki deigan síga í skrifum sínum!