14.1.1999

Lagt til kosningabaráttu - Stykkishólmi

Lagt til kosningabaráttu
Stykkishólmi
14. febrúar 1999

Í upphafi máls míns vil ég þakka fyrir boðið um að koma hingað í Stykkishólm og taka þátt í fundi kjördæmisráðsins, þegar framboðslistinn fyrir kosningarnar í vor er ákveðinn. Óska ég ykkur innilega til hamingju með hve vel hefur til tekist við val á mönnum á listann.

Mér er sérstök ánægja að taka þátt í þessum fundi vegna hins góða samstarfs, sem ég hef átt við þingmenn sjálfstæðismanna úr Vesturlandskjördæmi, þá Sturlu Böðvarsson og Guðjón Guðmundsson.

Fyrir utan ánægjulega samvinnu á vettvangi þingflokks okkar og við Sturlu sérstaklega vegna forystu hans í fjárlaganefnd hafa þeir báðir veitt mér ómetanlegt lið í störfum sem menntamálaráðherra. Þeir hafa ekki aðeins lagt á ráðin um margt, sem varðar málefni kjördæmisins heldur einnig tekið að sér ábyrgðarmikil verkefni á verksviði menntamálaráðuneytisins. Sturla hefur verið formaður Þjóðminjaráðs og átt hlut að mikilvægum ákvörðunum um Þjóðminjasafnið og margvísleg menningarleg verkefni víða um land. Guðjón hefur staðið í fremstu röð þingmanna, þegar íþróttamál hafa verið til umræðu. Hann var fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu, sem leiddi til heildarúttektar á stöðu íþróttamála og var meðal annars forsenda þess, að ríkisstjórnin ákvað að gerast aðili að Afreksmannasjóði ÍSÍ með 10 milljón króna fjárstyrk á ári í ár og næstu fjögur ár. Gegnir Guðjón nú formennsku í Íþróttanefnd ríkisins.

Störf þingmanna eru fleiri en þau að sitja í þingsalnum. Þeir axla margvíslega aðra ábyrgð en þá, sem felst í því að greiða atkvæði, flytja frumvörp og ræður. Á þetta ekki síst við þá, sem eru fulltrúar kjördæma utan höfuðborgarsvæðisins. Get ég fullvissað þá, sem hér eru, um að hagsmuna þeirra er vel gætt af þeim Sturlu og Guðjóni. Staðan fyrir kjördæmið yrði enn betri, ef fyrsti þingmaður þess kæmi úr Sjálfstæðisflokknum.

Þeir eiga eins og allur þingflokkur sjálfstæðismanna skilið að ná endurkjöri, ef litið er til þess árangurs, sem náðst hefur á þessu kjörtímabili.

Sjálfstæðisflokkurinn gengur nú til kosninga í annað sinn á þessum áratug, eftir að hafa haft forystu í ríkisstjórn í heilt kjörtímabil. Um þessar mundir eru einnig um átta ár liðin frá því, að Davíð Oddsson var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins. Með kjöri hans, góðum árangri í þingkosningunum vorið 1991 og öruggri forystu í ríkisstjórninni, sem þá var mynduð, hófst einstakt tímabil í stjórnmálasögu þjóðarinnar. Er ástæða fyrir sjálfstæðismenn að vekja rækilega athygli á hinum glæsilega árangri, sem hefur náðst.

Þetta framfaratímabil er ekki á enda runnið. Markmið okkar sjálfstæðismanna í komandi kosningum er að fá endurnýjað umboð til að leiða ríkisstjórn, alþingi og þjóðina til enn frekari framfara. Saga þessa áratugar staðfestir, að einörð stjórnmálaleg forysta og samheldni innan Sjálfstæðisflokksins er besta forsenda fyrir velgengni Íslendinga.

Enginn þarf að fara í grafgötur um undir hvaða merkjum við sjálfstæðismenn munum berjast á næstu vikum. Hiklaust leggjum við verk okkar í dóm kjósenda og óskum eftir endurnýjuðu umboði til að leiða þjóðina með glæsibrag inn í nýtt árþúsund.

Undanfarna daga höfum við fundið smjörþefinn af því, hvernig barist verður gegn okkur á komandi vikum. Þar vekur sérstaka athygli mína, hvernig fjölmiðlum er purkunarlaust beitt til að draga upp sem versta mynd af okkur, sem stöndum í fremstu röð fyrir flokkinn.

Athyglin er markvisst dregin frá því, sem við erum að segja og gera. Þess í stað velta menn fyrir sér, hvaða orð við notum eða hvernig við áréttum mál okkar með sögulegum dæmum. Þetta er aðferð, sem hentar vel fyrir hina mál- og ritglöðu talsmenn vinstrisinna, þeir vilja í lengstu lög forðast að ræða málefni.

Þegar forsætisráðherra notar alkunnugt orðtak um minnk í hæsnabúi til að lýsa því, hvernig samfylkingarmenn mundu haga sér, ef þeir fengju lykla að ríkiskassanum, fara fjölmiðlamenn á stjá til að kanna, hvort vinstrisinnum sárni ekki samlíkingin. Þeir spyrja hins vegar ekki, hvernig vinstrisinnar ætli að afla fjármagns til að framkvæma stefnu, sem talið er að kosti hið minnsta 40 milljarði króna ef ekki 60 milljarða.

Öllum er ljóst, að þessir peningar hljóta að koma úr vösum skattgreiðenda. Um þetta vilja fjölmiðlamenn ekki ræða heldur spyrja þeir Rannveigu Guðmundsdóttur hvernig henni líði, þegar henni er líkt við mink!

Að mér hefur verið vegið undanfarna daga á þeirri forsendu, að ég telji Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fjöldamorðingja á borð við Pol Pot í Kambódíu, hvorki meira né minna. Er þá snúið út úr pistli, sem ég ritaði á heimasíðu mína á netinu. Hafa vinstrisinnar löngum reynt að hefta frelsi mitt til að segja skoðun mína á mönnum og málefnum í þessum nýja miðli. Auðvitað er ekkert fjær mér en að lýsa borgarstjóranum í Reykjavík sem fjöldamorðingja. Að draga þá ályktun af skrifum mínum, að ég sé að gera það, segir meira um hugarafar þeirra, sem ástunda slíkan áróður, en mitt.

Niðurstaðan á umrótinu á vinstri kantinum, er hins vegar sú, að það er einungis Kvennalistinn sem leggur upp laupana. Eftir standa fjórir flokkar, þar af eru áfram tveir vinstra megin við Framsóknarflokkinn. Við göngum til kosninga á þessum forsendum og þurfum í sjálfu sér ekki að undrast, að innan samfylkingarinnar óttist menn að ræða málefni.

Í fyrsta lagi vita forystumenn hennar sem er, að sjálfstæðisstefnan hefur sigrað í hinni hugmyndafræðilegu samkeppni. Í öðru lagi standa þeir frammi fyrir þeirri hættu, að innbyrðis sundurlyndi þeirra sjálfra birtist um leið og málefnalegar umræður hefjast. Hitt hefur svo gengið eftir, sem við sjálfstæðismenn sögðum strax að loknu prófkjöri samfylkingarinnar í Reykjavík, að Jóhanna Sigurðardóttir er hinn pólitíski leiðtogi þessa stjórnmálaafls. Var það greinileg afstaða þeirra, sem svöruðu spurningunni um foringja í nýlegri skoðanakönnun, en eins og kunnugt er leggja samfylkingarmenn mest upp úr slíkum könnunum, þegar þeir taka ákvarðanir sínar.

Í síðustu alþingiskosningum var Jóhanna í forystu fyrir Þjóðvaka, sem þá hafði klofnað úr Alþýðuflokknum. Átti sá klofningur meðal annars þátt í því, að ekki var unnt að halda áfram stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks. Vegna framboðs Jóhönnu tapaði Alþýðuflokkurinn fylgi auk þess sem flokkurinn gekk þá til kosninga undir þeim merkjum að reyna að höggva inn í raðir okkar sjálfstæðismanna með áróðri sínum og málflutningi meðal annars um viðskiptafrelsi og aðild að Evrópusambandinu.

Samfylkingarleiðin hefur legið til vinstri. Á sama tíma og jafnaðarmenn um alla Evrópu hafa verið að fikra sig til hægri og inn á miðjuna gerist það hér, að þeir taka stórt skref til vinstri. Ekki er nóg með að þeir boði aðgerðir, sem jafngilda stórauknum ríkisafskiptum og útgjöldum með skattaálögum, heldur vekja þeir að nýju umræður um öryggismál þjóðarinnar á úreltum forsendum Alþýðubandalagsins. Í anda kalda stríðsins er Atlantshafsbandalaginu hallmælt og réttmæti aðildar að því dregið í efa auk þess sem dustað er rykið af gamla slagorðinu um herinn burt. Í mínum huga eru gælur samfylkingarinnar við breytta stefnu í öryggis- og varnarmálum skýrasta dæmið um það, hve mikið ábyrgðarleysi og óraunsæi ræður þar ferðinni.

Sagan kennir að saman fari, að Sjálfstæðisflokkurinn sé öflugur og einhuga og að árangur náist í landstjórninni. Margflokka stjórnir vinstrisinna einkennast af yfirboðum og óráðsíu. Þegar þær komast til valda, er helsta áhyggjuefnið, hve mikill skaði verði af verkum þeirra, áður en kallað er á sjálfstæðismenn til að koma þjóðarskútunni aftur á réttan kjöl. Nú virðist jafnframt stefna í að vinstri stjórn mundi raska stöðu þjóðarinnar í utanríkis- og varnarmálum.

Í aðdraganda þingkosninganna 8. maí næstkomandi hafa ýmsir sjálfstæðismenn, jafnvel þeir, sem gegndu ráðherraembættum á áttunda og níunda áratugnum, vegið að gamla flokknum, sem sýndi þeim traust og virðingu. Segja þeir án þess að færa fyrir því haldbær rök, að flokkurinn hafi hrakist af braut og stjórnist af ójöfnuði ef ekki beinlínis mannvonsku. Fullyrt er í þessum áróðri, að hér búi borgarar við ólíkari kjör en víða annars staðar, bilið milli ríkra og fátækra sé óbærilega mikið. Hlúð sé að sérhagsmunaöflum í stað þess að taka mið af hagsmunum alls almennings.

Auðvelt er að hrekja öfundarpólitík af þessu tagi. Hún var á sínum tíma aðalsmerki kommúnista og sósíalista. Leggst lítið fyrir þá kappa, sem fara í smiðju þeirra til að ná sér í vopn til nýrra stjórnmálaátaka við fyrrverandi samherja sína. Staðreynd er, að menn verða að leita með logandi ljósi um heimsbyggðina alla til að finna þjóðfélag, þar sem jafnmikill jöfnuður ríkir og hér hjá okkur Íslendingum.

Í komandi kosningum leggjum við sjálfstæðismenn störf okkar í ríkisstjórn óhikað undir dóm kjósenda. Leggi menn hlutlægt mat á þau þurfum við ekki að óttast úrslitin. Mikill árangur blasir við á öllum sviðum. Í mennta- og menningarmálum hefur markvisst verið unnið að margvíslegum umbótum.

Ný skólastefna birtist í nýjum aðalnámskrám fyrir grunnskóla og framhaldsskóla. Stefnuna kynnti ég rækilega á síðasta vetri bæði með riti, sem sent var á hvert heimili, og fundum um allt land. Fyrstu námskrárnar sjá dagsins ljós næstu daga. Vinnunni við að rita þær er lokið. Einnig er ný aðalnámskrá fyrir leikskóla á næsta leiti. Verður útdráttur úr henni kynntur öllum foreldrum barna á leikskólaaldri innan skamms. Við erum með öðrum orðum að skapa samfellu í skólastarfi fyrir þá, sem fara í gegnum þessi þrjú skólastig.

Nýja skólastefnan skapar forsendur fyrir öflugu og markvissu skólastarfi á nýrri öld. Í þessu átaki, sem unnið hefur verið með mikilli þátttöku kennara og í góðri samvinnu við þá, felst viðleitni til að auka sveigjanleika innan skólakerfisins. Markmiðið er að koma betur til móts við þarfir sérhvers einstaklings, auka frelsi nemenda til að velja nám við sitt hæfi en rækta um leið með þeim námsaga og góð vinnubrögð, heilbrigðan metnað og ábyrgð á eigin námi, árangri og lífi.

Nýrri skólastefnu verður ekki hrundið í framkvæmd á viðunandi hátt án þess að tekið sé til hendi á mörgum sviðum. Í fjárlögum fyrir árið 1999 er gert ráð fyrir allt að 260 milljón króna fjárveitingu til að standa að verkefnum, sem tengjast framkvæmd stefnunnar.

Námsgagnastofnun hefur verið falið að fylgja eftir átaki í námsefnisgerð í kjölfar nýrrar aðalnámskrár grunnskóla. Veittar verða 40 milljónir króna til stofnunarinnar sérstaklega í þessu skyni. Átakið beinist að því að sjá skólum sem fyrst fyrir námsefni og námsgögnum, sem standast kröfur nýrrar aðalnámskrár. Einkum verður lögð áhersla á að útvega skólum námsgögn í lífsleikni, upplýsinga- og tæknimennt, náttúrufræði og stærðfræði og erlendum málum. Jafnframt hafa verið teknar ákvarðanir um að láta Námsgagnastofnun í té fjármuni til að efla útgáfu á kennsluhugbúnaði fyrir tölvur.

Þá hefur verið tekin ákvörðun um að koma á fót endurmenntunarsjóði fyrir grunnskólakennara með þátttöku ráðuneytis, kennara og sveitarfélaga. Hafa verið settar reglur um sjóðinn, sem koma til móts við sjónarmið kennara og sveitarfélaga. Endurmenntun kennara verður boðin út, ef þannig má orða það.

Gjörbreyting er að verða í skipulagi á öllu starfsnámi. Menntamálaráðuneytið hefur samið við fjórtán starfsgreinaráð um stuðning við mikilvæg verkefni þeirra. Á næstu mánuðum munum við sjá hverju þau fá áorkað hvert á sínu sviði.

Framkvæmd nýju skólastefnunnar er stærsta verkefni þeirra, sem vinna að menntamálum um þessar mundir. Má fullyrða, að ekki hafi áður verið staðið með svo samræmdum og skipulegum hætti að því að skapa nýjar forsendur í íslensku skólakerfi. Er því fyrir öllu, að það takist að ná þeim háleitu markmiðum, sem við höfum sett. Framtíð íslenskrar æsku er í húfi og þar með framtíð þjóðarinnar og styrkur hennar í vaxandi samkeppni, þar sem menntun, þekking og miðlun upplýsinga ræður úrslitum.

Miklar framfarir hafa orðið innan skólakerfisins með nýtingu nýju upplýsingatækninnar í þágu skólastarfs. Þar hafa orðið þáttaskil á skömmum tíma og við sjáum alls ekki enn fyrir endann á þeim framförum, sem nýja tæknin veldur. Margar þjóðir líta til okkar öfundaraugum vegna þess, hvernig okkur hefur tekist að nýta tæknina í þágu skólastarfs.

Mikilvægur áfangi við skynsamlega nýtingu upplýsingartækninnar innan skólakerfisins náðist hinn 20. janúar síðastliðinn, þegar ritað var undir samning við risafyrirtækið Microsoft um íslenskun á hugbúnaði þess.

Raunar er sá samningur ekki aðeins mikilvægur vegna skólastarfs heldur felst í honum ómetanleg viðurkenning á íslenskri tungu. Hún verður nú 31. tungumálið, sem verður staðfært í hugbúnaðakerfi Microsoft, en eins og kunnugt er skipta tungumálin í heiminum þúsundunum og íslenskan er í hópi þeirra, sem fáir tala. Er eðlilegt að skoða samninginn við Microsoft í þessu ljósi.

Fjarkennsla eykst dag frá degi, ekki síst til hagsbóta fyrir nemendur í dreifbýli. Hvarvetna eru skólar og atvinnulíf að taka höndum saman í því skyni að nýta tæknina til að efla menntun og endurmenntun. Svonefnd byggðabrú Byggðastofnunar, sem tengir saman skóla með fjarkennslubúnaði, hefur við hlið tölvunnar gjörbreytt tækifærum til að bjóða öllum nám án tillits til búsetu. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1999 samþykkti alþingi auknar fjárveitingar til fjarkennslu, símenntunar og endurmenntar um landið allt. Er nú unnið að því á vettvangi menntamálaráðuneytisins að móta reglur um nýtingu á þessum fjármunum. Verður í því efni haft samstarf við samtök, sem hafa verið stofnuð víða um land til að sinna þessu verkefni.

Hér í Vesturlandskjördæmi hefur komið fram mikill áhugi á því að nýta fjarkennslu. Fyrir fáeinum dögum var ákveðið á fundi í menntamálaráðuneytinu með fulltrúum sveitarstjórnarinnar í Grundarfirði að undirbúa þar tilraun til fjarkennslu fyrir nemendur á framhaldsskólaaldri með skipulegum hætti. Er ætlunin, að fyrir miðjan mars liggi fyrir, hvort til þessa samstarfsverkefnis verður gengið og á hvaða forsendum. Frumkvæði að þessu samstarfi kom frá Grundarfirði, þar sem menn hafa sett sér skýr markmið við nýtingu upplýsingatækninnar í skólastarfi.

Eftir fáeina daga verður Símenntunarmiðstöð Vesturlands stofnuð. Hafa Bændaskólinn á Hvanneyri, Fjölbrautaskóli Vesturlands, Samvinnuháskólinn á Bifröst og Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi ákveðið að stofna þessa miðstöð. Er um að ræða sjálfseignarstofnun með stærri fyrirtækjum á Vesturlandi, opinberum aðilum og samtökum launafólks.

Þetta framtak staðfestir þá fjölbreytni, sem er í skólastarfi hér á Vesturlandi. Sameiginlegur nemendafjöldi skólanna, sem að stofnuninni standa, er á annað þúsund. Menntamálaráðuneytið stendur á bakvið fjölbrautaskólann og Samvinnháskólinn starfar með fjárhagslegum stuðningi ráðuneytisins.

Unnið hefur verið að því að semja nýja löggjöf um búnaðarfræðslu. Í þeim umræðum hef ég lagt áherslu á, að háskólanám á því sviði verði að taka mið af nýsamþykktum lögum um háskólastigið og tel ég raunar, að búnaðarfræðslan sé best komin sem hluti af hinu almenna skólakerfi, en hún fellur nú undir landbúnaðarráðuneyti. Vænti ég þess, að menn finni sameiginlega leið að því markmiði, að nám á Hvanneyri njóti viðurkenningar sem háskólanám.

Ég fagna því, að ný símenntunarmiðstöð Vesturlands tekur til starfa. Ríkisstjórnin ákvað á síðasta sumri að fela menntamálaráðuneytinu yfirstjórn símenntunar. Ráðuneytið mun veita hinni nýju miðstöð það lið, sem lög og fjármagn leyfa.

Alþingi samþykkti nýlega frumvarp mitt um breytingu á lögum um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði. Þessi lög fjalla um svonefnda dreifbýlisstyrki til þeirra, sem stunda nám í framhaldsskóla fjarri heimabyggð sinni og fjölskyldu, enda sé ekki unnt að stunda sambærilegt nám frá lögheimili. Lagabreytingin fólst í því, að skapa samræmi milli þessara styrkveitinga og úthlutunarreglna Lánsjóðs íslenskra námsmanna (LÍN).

Fyrir lagabreytinguna nutu þeir ekki dreifbýlisstyrks, sem áttu rétt á láni úr LÍN, en þar er um nemendur í sérnámi til starfsréttinda að ræða. Eftir að breytingin hefur verið samþykkt geta nemendur í þessu námi á framhaldsskólastigi hins vegar valið á milli þess að sækja um lán frá LÍN eða um styrkinn. Hér er um brýnt mál að ræða, sem snertir allt að 400 nemendur. Var samþykkt að auka útgjöld á fjárlögum um 25 milljónir króna af þessu tilefni. Þar að auki samþykkti alþingi að hækka almenna fjárveitingu til að jafna námskostnað um 40 milljónir króna. Ber að skoða þá hækkun sem mikilvægan lið í viðleitni þingmanna til að styrkja forsendur búsetu um land allt.

Nýlegar ákvarðanir alþingis leiða til þess, að námsstyrkjanefnd, sem úthlutar dreifbýlisstyrkjum til framhaldsskólanema, hefur 67,9 milljónum króna meira fé til ráðstöfunar á árinu 1999 en 1998. Fjárveitingar til að jafna námskostnað og til skipulegs skólaaksturs á framhaldsskólastigi voru 191 milljón króna í fjárlögum 1998 en eru 258,9 milljónir á árinu 1999. Til samanburðar má geta þess að árið 1996 nam þessi fjárhæð 111,5 milljónum króna, nemur hækkunin því um 130% á þremur árum.

Menning þróast ekki án góðrar menntunar. Menningunni þarf að skapa viðunandi aðstæður. Er óhjákvæmilegt, að opinberir aðilar komi þar að málum.

Á sömu dögum og ég tók við störfum menntamálaráðherra vorið 1995 var óvissa um framtíð skólastarfs í Reykholti í Borgarfirði. Var það eitt af fyrstu embættisverkum mínum að taka ákvarðanir í því efni. Lagði ég ríka áherslu á góða samvinnu við heimamenn um allar ákvarðanir varðandi skólahald í Reykholti og starfsemi þar. Skólastarfið var fellt undir stjórn Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi í tilraunaskyni en í ljós kom, að nemendafjöldi dugði ekki til að halda úti framhaldsskóla á staðnum og lauk starfi hans vorið 1997.

Síðan hefur markvisst verið unnið að því að koma upp menningar- og fræðasetri í Reykholti. Snorrastofa tók þar til starfa haustið 1995. Áttu heimamenn frumkvæði að stofunni og hún hefur dafnað vel síðan og auðveldað allar ákvarðanir um framtíðarstarfsemi á staðnum. Ný kirkja var vígð og tekin í notkun á staðnum sumarið 1996. Með henni skapaðist stórbætt aðstaða í Reykholti, sem hefur meðal annars kallað á tónlistarhátíð þar á sumrin.

Nú er unnið að því að breyta gamla skólahúsinu og á að nýta það í þágu Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns. Hef ég auk þess heimilað að Snorrastofa fái tímabundin afnot af hluta skólahússins fyrir skrifstofustarfsemi, fundi og fleira. Innan Snorrastofu er áhugi á því að þegar fram líða stundir verði innréttaður fundasalur í húsinu, sem nýst gæti báðum stofnununum, Landsbókasafni og Snorrastofu.

Í árslok 1997 samdi menntamálaráðuneytið um leigu á heimavistarhúsunum í Reykholti til fimm ára við hjónin Óla Jón Ólason og Steinunni Hansdóttur, sem síðan hafa rekið hótel á staðnum við vaxandi vinsældir og eru alls fimmtán starfsmenn við hótelið, þegar mest er að gera.

Á vegum Þjóðminjasafns hófust sumarið 1998 fornleifarannsóknir í Reykholti og er búist við að þær muni taka mörg ár og eiga eftir að draga að sér erlenda og innlenda vísindamenn.

Sumarið 1998 skipaði ég síðan nefnd til að kanna og gera tillögur um hvernig komið verði á laggirnar í Reykholti rannskóknarstarfsemi í íslenskum og evrópskum miðaldafræðum. Nefndin skilaði áiliti sínu til mín síðastliðinn föstudag. Þar er lagt á ráðin um það, hvernig skynsamlegast sé að efla Snorrastofu, svo að hún hafi afl til að takast á hendur það hlutverk að reka fræðasetur á sviði miðaldafræða í Reykholti. Hef ég fullan hug á að fylgja tillögum nefndarinnar eftir að lokinni nánari athugun á þeim og að höfðu samráði við samstarfsmenn ráðuneytisins um eflingu Reykholts.

Góðir fundarmenn!

Ég fer svo mörgum orðum um Reykholt vegna þess að virðing og velferð staðarins er mér ofarlega í huga en einnig til að skýra sem best í hve mörg horn er að líta, þegar hugað er að nýju hlutverki sögustaða. Á Vesturlandi eru margir slíkir staðir, ekki síst í Dölunum. Er mikilvægt, að með skipulegum hætti sé staðið að öllum ákvörðunum um framtíð þeirra og nýtingu. Áhugi á því að nota menningararfinn sem auðlind í ferðaþjónustu er mikill og vaxandi. Er ég sannfærður um, að í þessum áhuga felast mörg sóknarfæri fyrir byggðarlögin hér á Vesturlandi.

Við náum þó skammt við úrlausn slíkra mála, ef ekki ríkja góðar og skapandi aðstæður í efnahags- og atvinnumálum.

Þegar hugað er að komandi kosningum og ágreiningsefnum vegna þeirra staldra menn einkum við þrjá málaflokka: stjórn fiskveiða, svonefnd hálendismál og byggðamál.

Stjórnmálabaráttan snýst ekki um það, hvort sinna beri þessum málaflokkum, heldur hitt hvaða aðferðum er beitt til að takast á við þá. Fullyrði ég, að sjálfstæðisstefnan, vinnubrögð og viðhorf þeirra, sem henni fylgja, duga best til að tryggja góða úrlausn og farsæla niðurstöðu. Á þessari öld höfum við rækilega kynnst hörmulegum afleiðingum þess að beita aðferðum sósíalismans. Sjálfstæðismenn geta hins vegar vísað með stolti til þess, að stefna þeirra hefur sigrað hina hugmyndafræðilegu keppni.

Sjálfstæðisstefnan reynist ekki einungis best þegar glímt er við innri mál þjóðarinnar. Hið sama gildir, þegar rætt er um stöðu Íslands í alþjóðlegu samstarfi. Innan Sjálfstæðisflokksins ríkir sá metnaður fyrir hönd þjóðarinnar, sem reynist henni helst til heilla í samskiptum við aðra. Forystumenn flokksins hafa ekki heldur verið hræddir við að taka af skarið í utanríkismálum, telji þeir hagsmuni þjóðarinnar krefjast erfiðra ákvarðana. Þeir hafa hins vegar aldrei alið á óskhyggju eða látið stjórnast af henni, þegar þjóðarhagsmuna er gætt.

Finnst mér óskhyggjan setja nokkurn svip á málflutning þeirra, sem gera því núna skóna, að Íslendingar kynnu eða geta fengið varanlega undanþágu frá sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, ef við sæktum um aðild að því. Þegar við ræðum um tengsl Íslands og Evrópusambandsins, ber einnig að hafa hugfast, að það mun ekki opna aðildardyr sínar á næsta kjörtímabili alþingis.

Góðir fundarmenn!

Við sjálfstæðismenn náum ekki góðum árangri í komandi kosningum nema við leggjum okkur alla fram um að kynna stefnu okkar og störf. Við eigum hiklaust að svara, þegar að okkur er vegið. Brýnt er að menn liggi ekki á liði sínu við að koma hinum góða málstað á framfæri.

Miklu skiptir, að við komum sterkir frá landsfundi okkar, sem haldinn verður í mars, þegar aðeins eru tveir mánuðir til kosninga. Þar er með öllu ástæðulaust að stofna til óvinafagnaðar. Hitt er brýnna að við mótum sigursæla kosningastefnu og tökum höndum saman um menn og málefni.

Fyrir tveimur vikum kynnti ég hugmynd um breytingu á skipulagi Sjálfstæðisflokksins. Í henni felst hvatning um að efla innra starf í flokki okkar og búa hann sem best undir breytingar á kjördæmaskipan og flokkakerfi. Hugmyndin kemur einnig til móts við sjónarmið þeirra, sem átta sig á því, að leiðtogar flokksins geta ekki sinnt flokksstarfi sem skyldi á meðan þeir sinna forystu í ríkisstjórn og á alþingi.

Umræðurnar hafa þegar leitt í ljós, að mönnum finnst of bratt að leggja niður embætti varaformanns flokksins. Hitt er jafnframt ljóst, að skipulagsnefnd landsfundar mun leggja á ráðin um breytingar á innri skipan flokksins með hliðsjón af nýjum kröfum.

Ég gerði mér fyllilega grein fyrir því, þegar ég kynnti þessar hugmyndir, að mörgum þættu þær of róttækar og stórar í sniðum. Menn þurfa ekki að vera vel að sér í sögu Sjálfstæðisflokksins til að átta sig á því, að innan hans ríkir mikil íhaldssemi, þegar rætt er um breytingar á skipulagi. Má segja, að á tíu ára fresti undanfarna áratugi hafi verið settar fram hugmyndir og tillögur um misjafnlega róttækar skipulagsbreytingar án þess að mikið annað hafi gerst.

Mál þokast ekki áfram nema þau séu rædd. Við viljum ekki starfa í flokki, sem er í þagnarbindindi um innri mál sín. Ég tel mig hafa lagt mitt af mörkum til að skapa nauðsynlegar og tímabærar umræður. Við kaflaskil í sögu varaformannsembættisins var rétt að staldra við og meta stöðu þess.

Góðir fundarmenn!

Í upphafi máls míns sagði ég, að enginn þyrfti að fara í grafgötur um undir hvaða merkjum við sjálfstæðismenn mundum berjast á næstu vikum. Hiklaust leggjum við verk okkar í dóm kjósenda og óskum eftir endurnýjuðu umboði til að leiða þjóðina með glæsibrag inn í nýtt árþúsund.

Sjálfstæðisstefnan hefur reynst Íslendingum einstaklega farsæl í þau tæpu sjötíu ár, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur starfað. Hún verður það áfram næstu sjötíu ár, ef við höldum rétt á málum flokks okkar og sækjum fram til sigurs.