4.9.2003

Háskólinn í Reykjavík, fimm ára.

Salurinn, 4. september, 2003.

 

 

Háskólinn í Reykjavík er glæsilegur vitnisburður um hugsjón, sem verður að veruleika.

 

Sé vel að verki staðið og góður árangur næst, finnst okkur gjarnan, að niðurstaðan sé sjálfsögð og liggi jafnvel einfaldlega í hlutarins eðli. Eftir fimm ára gott starf Háskólans í Reykjavík eru umræður um hann oft á þennan veg. Honum er tekið eins og sjálfsögðum hlut.

 

En ekkert er sjálfsagt, góðir áheyrendur, og síst af öllu, að ríkisvaldið, svo að ekki sé talað um sveitarfélög, semji við einkaaðila um skólarekstur.

 

Í borgarstjórn Reykjavíkur er eindregin andstaða hjá meirihlutanum við að fjölga einkareknum grunnskólum. Í Hafnarfirði lagði nýr meirihluti í bæjarstjórn til atlögu við einkarekinn grunnskóla. Í Garðabæ fann minnihluti bæjarstjórnar tillögu um einkarekinn grunnskóla flest til foráttu.

 

Þá er ekki heldur sjálfsagt, að einkarekinn háskóli nái á fimm árum sama góða árangri og Háskólinn í Reykjavík.

 

Til að háskóli þróist á þann veg, sem við þekkjum héðan, þarf hann skýr markmið, viðunandi starfsumhverfi og góða stjórnendur. Vil ég óska háskólaráði, Guðfinnu Bjarnadóttur rektor og samstarfsfólki hennar til hamingju með að hafa skapað þessar aðstæður innan Háskólans í Reykjavík.

 

*

 

Þegar Þorvarður Elíasson skólastjóri ræddi fyrst við mig um, að færa út nám á háskólastigi innan vébanda Verslunarskólans, taldi ég lagaheimild skorta til að verða við ósk hans. Óskin varð á hinn bóginn til að knýja á um setningu fyrstu almennu háskólalöggjafarinnar, en hún tók gildi 1. janúar 1998.

 

Vissulega var ekki sjálfsagt að taka erindi Þorvarðar á þann veg að hefja undirbúning að því að gjörbreyta öllu lagaumhverfi háskóla í landinu. Það tókst hins vegar á tiltölulega skömmum tíma meðal annars í góðri samvinnu við stjórnendur ríkisháskólanna og nefni ég þar sérstaklega Pál Skúlason, rektor Háskóla Íslands.

 

Samkvæmt hinum nýju lögum fengu einkaaðilar heimild til að stofna háskóla að fengnu samþykki menntamálaráðherra, veitir hann slíkum skóla starfsleyfi og hefur ráðherrann einnig heimild til að gera við skólann samning um að hann annist tiltekna menntun á háskólastigi gegn því að ríkissjóður greiði ákveðna fjárhæð fyrir þjónustuna. 

 

Var mikils virði að vita af Verslunarráði Íslands að baki hins nýja háskóla og rituðum við Friðrik Sophusson, þáverandi fjármálaráðherra, undir háskólasamning við Árna Árnason, þáverandi formann skólanefndar Verslunarskóla Íslands, hinn 12. desember 1997 og fyrir 5 árum, hinn 4. september 1998, gaf ég út starfsleyfi fyrir hinn nýja háskóla.

 

Á vefsíðu minni sagði ég frá því, þegar skólinn var settur í fyrsta sinn og komst meðal annars svo að orði:

 

„Er undravert að sjá á hve skömmum tíma þessari hugmynd um nýjan háskóla hefur verið hrundið í framkvæmd, eftir að hún komst af umræðustiginu. Aðbúnaður hans í nýju skólahúsi er eins og best verður á kosið. Voru mikil og góð hvatningarorð flutt við skólasetninguna. Miklar kröfur eru gerðar til nemenda og kennara. Er ég ekki í nokkrum vafa um, að þessi nýi skóli hefur góð áhrif á allt háskólastigið.“

 

Í sömu andrá sagði ég á vefsíðunni frá hátíð í Háskóla Íslands og bar viðhorf nemenda í skólunum saman á þennan hátt:

 

„Þar [það er í Háskólanum í Reykjavík] talaði fulltrúi nemenda einnig á þann veg, að til þess að ná árangri yrði hver og einn að leggja sig fram og þeim mun meira, eftir því sem áfram miðaði í náminu og kröfur ykjust, nýnemar skyldu átta sig á því, að það gæti verið vont fyrst en það ætti eftir að versna! Formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands var frekar á þeim nótum, að hið opinbera gerði ekki nóg fyrir námsmenn, námslánin væru ekki nógu há og ekki væri þess að vænta, að þeir nytu sín sem skyldi, ef ekki yrði betur við þá gert af opinberri hálfu, meira að segja væri ljóst, að fjárveitingum til Lánasjóðs íslenskra námsmanna væri þannig háttað, að gert væri ráð fyrir að námsmenn ynnu með námi.“

 

Góðir áheyrendur!

 

Nú fimm árum síðar hefur spáin um góð áhrif Háskólans í Reykjavík á allt háskólastigið ræst. Raunar hefur breytingin orðið meiri en nokkurn grunaði.

 

Viðhorfin um að ríkið geri ekki nóg fyrir ríkisháskóla eða nemendur þeirra eru enn við lýði og verða jafnlengi og fjárhagslegt sjálfstæði þeirra er ekki aukið enn frekar. Hnígur allt til þeirrar áttar á alþjóðavísu, að háskólar í ríkisviðjum telji sér farsælast að losna við þær.

 

Ef ekki hefði tekist, að skjóta lögmætum stoðum undir starfsemi einkarekinna háskóla á Íslandi, væri ríkisrekið háskólanám í landinu rislægra en það er um þessar mundir. Á því er enginn vafi og þarf ég ekki annað en líta á mína gömlu deild, lagadeild Háskóla Íslands, til að sjá þess merki.

 

Samkeppni milli skóla á að hafa að markmiði að bæta kennslu, auka menntun og færni og búa nemendur sífellt betur undir að takast á við ögrandi verkefni í krafti þekkingar sinnar.

 

Ég stefni að því að endurflytja nú á komandi þingi frumvarp forvera míns um réttindi laganema við aðra háskóla en Háskóla Íslands. Deilan um það mál er ljóslifandi í hugum okkar og minnir enn á, að ekkert er sjálfsagt, jafnvel ekki að nemendur í góðum háskóla fái nám sitt viðurkennt til réttinda að lögum.

 

Góðir áheyerendur!

 

Háskólinn í Reykjavík hefur slitið barnskónum, en hann er þó alltaf síungur, því að á hverju hausti fagnar hann nýjum nemendum til að takast á við ögrandi viðfangsefni á skapandi forsendum.

 

Hin gleðilega þróun hefur orðið á fimm ára ferli skólans, að fjölgun nemenda í öllum háskólum landsins hefur farið langt fram úr áætlunum.  Í stuttu máli hefur orðið vakning í þágu menntunar, rannsókna og vísinda.

 

Ég óska okkur öllum til hamingju með Háskólann í Reykjavík. Megi hann lengi lifa!