31.5.2003

Þorskastríðin-lokaslagurinn.

Listasafn Reykjavíkur, 31. maí, 2003.

 

Fyrir rúmum 40 árum kynntist ég fyrsta þorskastríðinu af eigin raun sem háseti á Óðni undir stjórn Eiríks Kristóferssonar skipherra. Sú reynsla er ógleymanleg og hefur mótað afstöðu mína síðan til hins mikilvæga hlutverks, sem Landhelgisgæslan gegnir fyrir íslensku þjóðina.

Og einmitt þess vegna er mér sérstakt ánægjuefni, að fyrsta opinbera embættisverk mitt sem dóms- og kirkjumálaráðherra skuli tengjast Landhelgisgæslunni og sögu hennar, þegar ég opna þessa sýningu hér í dag.

Nú á tímum sækjum við Íslendingar þjóðarstoltið meðal annars til vasklegrar framgöngu Landhelgisgæslunnar í þorskastríðunum þremur. En hingað komum við að þessu sinni til að sjá ljósmyndir, sem tengjast öðru og þriðja þorskastríðinu, þegar annars vegar var barist fyrir viðurkenningu á 50 mílna fiskveiðilögsögunni og hins vegar á 200 mílunum. Átökin voru háð fyrir 30 árum og lauk með fullum sigri okkar árið 1976.

Eins og við vitum stóð stríðið á Íslandsmiðum á milli smáþjóðar, sem hafði skýran málstað, varði lífsbjörg sína en skorti allan hernaðarmátt, og stórveldis, sem á sínum tíma réð lögum og lofum á höfunum, en kaus nú að beita flota sínum í þágu þröngra hagsmuna deyjandi útgerða á grundvelli sjónarmiða, sem nutu sífellt minni stuðnings á alþjóðavettvangi.

Í hita leiksins mótuðust umræður um gang átakanna ekki af þessum meginatriðunum. Þær byggðust miklu frekar á þeim atvikum, sem sýnd eru á ljósmyndunum hér á sýningunni. Ein mynd eða frásögn varð oft til þess að kveikja mikla reiði meðal þjóðarinnar og ég minnist þess sem embættismaður í forsætisráðuneytinu í 200 mílna átökunum, að hvern dag þeirra bjuggu ráðherrar og ríkisstjórn við þann ótta, að mannslífum yrði grandað af slysni eða ásetningi, þegar spennan var mest.

Mæddi þá mikið á þeim, sem unnu að gæslustörfunum, og hugur þjóðarinnar allrar var með þeim. Á stjórnmálamönnum hvíldi annars vegar að halda málstað þjóðarinnar fram af miklum þunga og hörku og hins vegar að leita leiða til að fá viðunandi niðurstöðu með samkomulagi við andstæðinginn. Það var því ekki aðeins tekist á undir merkjum Landhelgisgæslunnar heldur einnig við samningaborðið.

Myndirnar á sýningunni endurspegla einnig hina sterku strauma í þjóðlífinu vegna þorskastríðanna á þessum árum. Efnt var til mótmæla, ekki aðeins gegn Bretum og Þjóðverjum, heldur einnig NATO og bandaríska varnarliðinu. Í anda hins öfluga almenningsálits ákvað ríkisstjórnin snemma árs 1976 að slíta stjórnmálasambandi við Breta og hvarf þá Kenneth East, sendiherra þeirra, úr landi í nokkra mánuði, eða þar til samningar tókust á fundi í Ósló um þetta leyti árs 1976. Síðan hefur ríkt friður á Íslandsmiðum.

Við lögbrot sín þorðu bresku togararnir ekki að sýna sitt rétta nafn og númer heldur breiddu yfir þau kennileiti til að útiloka, að unnt væri sækja þá til sakar. Gæslan svaraði með leynivopni sínu, togvíraklippunum, sem hér eru einnig til sýnis. Þær láta í sjálfu sér ekki mikið yfir sér en reyndust öflugar gegn ofureflinu og spilltu verulega fyrir áformum lögbrjótanna.

Klippurnar reyndust vissulega vel en um þessar mundir þarf Landhelgisgæslan annan búnað en þær til að sinna mikilvægum verkefnum sínum með góðum árangri. Á teikniborðinu liggja til dæmis fyrir hugmyndir um nýtt og öflugt varðskip og verður það eitt af verkefnum mínum, þegar ég stend nú í sporum dómsmálaráðherra að vinna að því, að ráðist verði í smíði skipsins. Einnig þarf að gera áætlanir um, hvernig á að þróa og styrkja flugdeild Landhelgisgæslunnar í samræmi við breyttar kröfur.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að tímabært sé að skilgreina hlutverk og viðfangsefni Landhelgisgæslunnar við nýjar aðstæður. Þær eru vissulega gjörbreyttar frá þeim tíma, sem lýst er hér á þessari sýningu. Þótt við þurfum vonandi ekki að búa okkur undir, að þorskastríð verði háð að nýju vegna löglausrar ásóknar í lífsbjörg þjóðarinnar í hafinu, er jafnnauðsynlegt og áður að tryggja Landhelgisgæslunni þá starfsumgjörð og þann tækjakost, sem er í samræmi við kröfur á hverjum tíma.

Björgunarhlutverk gæslunnar verður aldrei of metið og auk þess gegnir Landhelgisgæslan lykilhlutverki ásamt lögreglunni og almannavörnum, þegar hugað er að úrræðum til að tryggja öryggi þjóðarinnar sem best í víðtækari skilningi nú á tímum. Gæslan er til dæmis eðlilegur og mikilvægur tengiliður við varnarliðið á Keflavíkurflugvelli og við þróun starfs hennar er nauðsynlegt að taka ríkt tillit til þess á hvern hátt starfsemi varnarliðsins breytist.

Góðir áheyrendur!

Framtíðarhlutverk Landhelgisgæslunnar er mér ofarlega í huga, þegar við komum saman hér í dag, til að kynnast merkum viðburðum úr sögu hennar. Í krafti sögunnar og þess mikla árangurs, sem náðst hefur við að friða Íslandsmið, er vissulega auðveldara en ella að vinna góðum málstað gæslunnar brautargengi.

Þessa glæsilegu sögu á að kynna og þá, sem að henni komu. Er vel við hæfi að gera það í tengslum við hátíð hafsins og sjómannadaginn, því að hvergi á Landhelgisgæslan sér traustari málsvara en meðal sjómanna og fjölskyldna þeirra. Þar efast enginn um gildi þess, að allt sé gert, svo að öryggi sjófarenda sé sem mest.

Ég vil þakka þeim, sem beittu sér fyrir því, að til sýningarinnar var stofnað og

lýsi sýninguna Þorskastríðin – lokaslagurinn opna með hamingjuóskum til þeirra, sem að henni standa.