8.9.2000

Háskólahátíð 2000

Háskólahátíð,
8. september, 2000.


Árið 2001 verða nítíu ár liðin frá því að Háskóli Íslands var stofnaður og enginn, sem lítur yfir sögu skólans og hið mikilvæga framlag hans til þróunar íslenska þjóðfélagsins, dregur í efa, að það var mikið heillaspor að fá háskólamenntun inn í landið. Háskóli Íslands skipar nú á tímum ótvíræðan forystusess og er meðal helstu tákna sjálfstæðis þjóðarinnar. Er það sameiginlegt markmið allra Íslendinga að efla skólann og styrkja til enn frekari sóknar.

Því má velta endalaust fyrir sér, hvar við stæðum, ef Háskóli Íslands hefði ekki komið til sögunnar svo snemma eftir að þjóðin fékk heimastjórn og lagði grunn að mörgu, sem vel hefur reynst í tímans rás. Slíkar vangaveltur þykja þó líklega ekki mjög spennandi nú á tímum, þegar öllu, sem vel er gert, er tekið sem sjálfsögðum hlut en athyglinni frekar beint að hinu, þar sem enn má gera betur.

Við Páll Skúlason rektor ræddum afstöðu manna til menntunar á einum funda okkar fyrr í sumar. Ég var þá að búa mig undir að flytja ávarp í Stekkjargjá á Þingvöllum, þegar þar var opnuð myndlistarsýning um dyggðirnar. Til að kanna viðhorf Íslendinga til dyggðanna nú á tímum var leitað til Gallups og eru svörin forvitnileg í mörgu tilliti, ekki síst þegar litið er til afstöðunnar til menntunar.

Jón Proppé ritar grein um könnunina í Tímarit Máls og menningar og segir meðal annars: _Nokkuð undarlegra er hve lítils fólk virðir menntun og þekkingu, sér í lagi ef horft er til þess að Íslendingar hafa gegnum aldirnar einkum státað sig af því að vera fræðimenn og rithöfundar, varðveita gamlar sagnir og vera menntaðri og fróðari en aðrar þjóðir. Þegar spurt var hvaða eiginleika fólk mæti mest í fari annarra nefndu innan við eitt prósent menntun eða þekkingu. Nær sex prósent svarenda töldu þó menntun og gáfur vera það sem þeir væru ánægðastir með í eigin lífsstefnu og nær sjö prósent nefndu menntun þegar spurt var hvaða eiginleikum þeir vildu helst vera búnir, en þessi hlutföll eru lág þegar litið er til annarra svara. Þessi niðurstaða skýrist nokkuð þegar skoðuð er[u] svör við nákvæmari spurningum. Þá kemur í ljós að sjötíu prósent telja menntun ekki eins mikilvæga og viljann til að gera það sem maður á að gera og sextíu og fimm prósent telja að sá sem hefur sjálfmenntað sig sé jafn góður og sá sem hefur langa skólagöngu að baki. Þetta bendir eindregið til þess að Íslendingum þyki almennt lítið um formlegt nám og menntun og kjósi fremur að treysta á eigið hyggjuvit og innsæi en bókleg fræði."

Svo mörg voru þau orð og þegar við rektor ræddum málið benti Páll á, að ástæðulaust væri fyrir menntafrömuði að örvænta, því að í könnuninni mætti einnig finna þá tvöfeldni, að menn teldu sig sjálfa ekki þurfa að leggja mikið á sig til að menntast en vildu hins vegar búa í menntuðu þjóðfélagi. Vakti ég máls á því í ræðu minni í Stekkjargjá, að í þessari tvöfeldni væri ef til vill meðal annars að finna skýringuna á miklu brottfalli nemenda úr framhaldsskólum og háskólum hér á landi. Menn gerðu einfaldlega meiri kröfur til annarra en sjálfra sín, en eins og allir vita skilar það sjaldan miklum árangri, hvorki í námi né starfi.

Brottfall úr skóla snýr ekki aðeins að þeim, sem ákveður að hverfa af menntabrautinni, heldur einnig skólanum hans, þegar samið hefur verið um fjárveitingar á þann veg, að fé fylgir þeim nemendum, sem gangast undir próf. Kröfur um að árangur í skólastarfi tengist fjárveitingum kalla á ný vinnubrögð á mörgum sviðum. Líklegt er til dæmis, að skólar leggi meiri rækt við nemendur sína en ella væri, athyglin beinist frekar að fjölda nemenda við skólann en þeim, sem við hann starfa. Fyrir einstakar deildir kann þessi áherslubreyting að vera erfið á umþóttunartímanum og sjáum við það í háskólum um heim allan. Mikilvægt er að tryggja æskilega fjölbreytni og er það auðveldara eftir því sem skólarnir eru stærri, því að fjölmenni á einni braut veitir skjól á annarri, ef rétt er á málum haldið.

Við þessar nýju aðstæður er brýnt, að háskólar móti sér skýra stefnu í kennslu og rannsóknum og setji það í fyrirrúm, sem þeir vilja efla með sérstökum hætti eða telja sér einkum skylt að sinna. Ég er til dæmis þeirrar skoðunar, að Háskóla Íslands beri að skipa íslensku, íslenskum bókmenntum og sögu sérstakan sess. Í viðræðum við fulltrúa skólans um fé til rannsókna hafa fulltrúar menntamálaráðuneytisins sérstaklega óskað eftir því, að hugað verði að auknu samstarfi rannsóknastofnana á sviði íslenskra fræða.

Samhliða því sem Háskóli Íslands leggur áherslu á aukna dýpt í kennslu og rannsóknum er ekki síður mikilvægt, að skólinn miðli sem mestri þekkingu til fróðleiksfúsra Íslendinga utan dyra sinna og stuðli að því að fræðimenn við skólann riti á íslensku um viðfangsefni sín. Ætti rannsóknastefna skólans að taka mið af þessu, því að þar með styrkir skólinn stöðu sína enn frekar í íslensku samfélagi.

Fyrr í dag var öðrum hluta Sókrates-áætlunar Evrópusambandsins hleypt af stokkunum við athöfn í hátíðarsal Háskóla Íslands. Íslendingar hafa tekið þátt í þessu samstarfi frá upphafi þess og Háskóli Íslands hefur verið þar virkur og stofnað til tengsla við 140 erlenda háskóla undir merkjum þess. Þátttaka Íslendinga í verkefninu bendir síður en svo til þess, að við stöndum ekki undir þeim kröfum, sem þar eru gerðar, þvert á móti er mun meiri áhugi á samstarfi við íslenska skóla en vænst var, þegar samstarfinu var hleypt af stokkunum.

Háskóli Íslands hefur verið þungamiðja íslenskra grunnrannsókna en ný úttekt á stöðu þeirra leiddi í ljós, að í alþjóðlegum samanburði stöndum við Íslendingar þar vel að vígi. Sömu sögu er að segja um þátttöku Íslendinga í evrópskum rannsóknaáætlunum, þar erum við í fremstu röð, þegar litið er til fjölda verkefna eða forystu fyrir einstökum verkefnum. Ég lít á þetta sem mikla alþjóðlega viðurkenningu á því starfi, sem hefur verið unnið undir vísindalegri leiðsögn Háskóla Íslands.

Tvöfeldnin í umræðum um íslensk menntamál byggist ekki aðeins á afstöðu einstaklinga til eigin menntunar og annarra. Hitt er ekki síður sérkennilegt, hve margir leggja sig fram um að draga upp sem versta mynd af skólakerfinu en þykjast í sömu andrá vera sérstakir talsmenn þess. Þetta fólk getur seint eða aldrei viðurkennt neitt, sem vel er gert. Árangurinn á rannsóknasviðinu í alþjóðlegum samanburði segir sína sögu og einnig góð staða íslenska þjóðfélagsins.

Nefna má tvö nýleg dæmi um fullyrðingar um menntamál, sem standast ekki gagnrýni. Sagt er, að færri hafi lokið háskólanámi hér en í nágrannalöndunum, þessi staðhæfing stangast á við tölur sem sýna, að við erum í öðru sæti meðal Norðurlandanna, þegar litið er á fjölda nemenda, sem lýkur háskólanámi. Fullyrt er, að það vanti þriðjung til að Íslendingar verji jafnmiklu til rannsókna og þróunar og lönd innan OECD gera að meðaltali, þessi staðhæfing stangast á við þá staðreynd, að árið 1997 vörðu Íslendingar 1,8% af vergri landsframleiðslu til rannsókna og þróunar en OECD-meðaltalið var um 2,2%. Fjárveitingar til þessa málaflokks hafa aukist hér síðan 1997 en dregist saman að meðaltali innan OECD. Í skýrslunni um grunnrannsóknir segir, að Íslendingar séu nú meðal þeirra þjóða, sem auka hvað örast hlut rannsókna og þróunarstarfs í þjóðarbúskapnum.

Góðir áheyrendur!

Við skulum halda áfram á þessari braut. Starfsumhverfi Háskóla íslands hefur sjaldan breyst meira en hin síðari ár. Háskólinn hefur sjálfur rutt brautina á mörgum sviðum. Við viljum, að hann eflist og styrkist á alla lund. Nú er brýnna en nokkru sinni fyrr að búa sem best að allri menntun en ekki síst þeim, sem eru í öndvegi.

Kröfurnar eru ekki aðeins á vísindasviðinu, því að samkeppni milli skóla snýst um fleira. Er brýnt að Háskóli Íslands tileinki sér hið besta í stjórnarháttum háskóla til að hann standist keppinautum sínum innanlands og utan snúning. Nemendum á að bjóða val á milli skóla, ríkisrekinna og einkarekinna. Aðsókn að einkareknum skólum, sem hafa heimild til að innheimta skólagjöld, er mun meiri en þeir geta sinnt. Þessi kostur á að sjálfsögðu að vera fyrir hendi.

Nú er unnið að því að semja um rannsóknafé til Háskóla Íslands. Er mikilvægt að ná þar jafngóðu samkomulagi og tókst um fé til kennslu í skólanum. Ég hef lagt áherslu á, að hlutverk ríkisvaldsins á sviði rannsókna verði skilgreint með skýrum hætti, og miðist einkum við grunnrannsóknir og menntun ungra vísindamanna, þeim fjölgi, sem fari í meistara- og doktorsnám. Eru meginþættir efnislegs samkomulags um þessi mál nú á lokastigi, en með því yrði forystuhlurverk Háskóla Íslands enn styrkt.

Háskóli Íslands hefur brátt starfað í nítíu ár en hann eldist ekki heldur gengur í endurnýjun lífdaganna á hverju hausti með nýjum nemendum. Háskóli Íslands er því síungur og spennandi vettvangur nýrra hugmynda og tækifæra. Ég óska nemendum, kennurum og öðru starfsfólki velgengni á því skólaári, sem nú er að hefjast. Ég vil einnig færa þeim, sem hér hljóta doktorsnafnbót í dag innilega til hamingju með heiðurinn.