3.4.2000

Fjármögnun háskólastigisins - norræn ráðstefna

Fjármögnun háskólastigsins, norræn ráðstefna, 3. apríl 2000.


Við lifum ekki lengur á þeim gömlu og gleymdu tímum þegar enn var nokkur rómantískur ljómi yfir því að fara í háskóla og því fylgdu ýmis hlunnindi að vera stúdent og ungir háskólaborgarar nutu víðtækra forréttinda fram yfir aðra jafnaldra sína. Háskólar voru flestir stofnaðir á miðöldum, á þeim tíma þegar tæplega var litið á það sem starfsgrein að leggja fyrir sig vísindastörf, og því nauðsynlegt að veita stéttinni einhver forréttindi til að laða unga menn að námi.

Sá tími er sannarlega liðinn, að veita þurfi forréttindi til að laða ungt fólk að námi. Hitt er að verða sönnu nær, að það séu víða að verða forréttindi að komast að í því háskólanámi, sem menn hafa hug á að stunda. Hvarvetna standa stjórnendur háskóla frammi fyrir því gleðilega viðfangsefni, að þeim fjölgar sífellt, sem vilja komast að í skólunum. Vandi skólastjórnenda felst í því að tryggja nægilegt fjármagn, nota fjármuni vel og stjórna skólastarfi þannig, að góðir kennarar veljist til starfa og staðið sé að kennslu og rannsóknum af metnaði.

Til þessarar ráðstefnu um fjármögnun háskólastigsins er boðað til að ræða þennan mikilvæga þátt menntamála með hliðsjón af þessum nýju aðstæðum. Á alþjóðlegum vettvangi hefur mikið verið fjallað um málefnið síðustu ár. Innan UNESCO, OECD og Evrópusambandsins hefur verið efnt til ráðstefna um málið og nú tökum við það upp á norrænum forsendum með þátttöku sérfræðinga frá öðrum löndum. Vil ég bjóða hina erlendu gesti og sérfræðinga velkomna til Íslands og vona, að allir hafi gagn og ánægju af komu sinni hingað.

Í umræðum um fjármögnun háskólastigsins í ólíkum heimshlutum standa stjórnendur menntamála andspænis sömu spurningunum: Hvað er til ráða, þegar spurn eftir háskólamenntun heldur stöðugt áfram að aukast samtímis því sem lagt er að stjórnvöldum að sýna verulegt aðhald í útgjöldum sínum? Hvernig er unnt að ná endum saman með sívaxandi nemendafjölda og tregðu til að auka opinber útgjöld? Hver á að brúa bilið og hvernig?

Þegar rætt er um fjármögnun háskólastigsins, standa menn nú í þeim sporum að þeir þurfa að vega og meta allar leiðir. Í sumum löndum er því ákaflega illa tekið á pólitískum vettvangi, þegar vakið er máls á skólagjöldum. Annars staðar líta menn á það, sem eðlilegan og sjálfsagðan hlut, að háskólanemar standi undir verulegum hluta af kostnaði við nám sitt. Hvaða áhrif hafa þessi mismunandi viðhorf á samkeppnisstöðu skóla og þjóðfélaga? Eru þeir skólar betur settir, sem hafa heimild til innheimtu skólagjalda?

Tilgangur þessarar ráðstefnu er að leita svara við spurningum af þessu tagi. Er brýnt að ræða þær í alþjóðlegu samhengi, því að einangrun í menntamálum er algjörlega úr sögunni, hafi hún einhvern tíma verið við lýði. Hér gefst tækifæri til að fá nýjustu upplýsingar um þróun þessa máls á alþjóðavettvangi, miðla reynslu og skiptast á skoðunum. Sjónarhorn okkar er mismunandi og misjafnt hvaða leiðir stjórnvöld í hverju landi velja, en viðfangsefnið er hið sama, hvert sem litið er.

Þróun háskólastigsins á Íslandi hefur verið með svipuðum hætti og í öðrum löndum Evrópu. Lagalegu umhverfi háskóla var breytt með setningu heildarlöggjafar árið 1997, en fyrir þann tíma höfðu einungis gilt sérlög um hvern skóla á háskólastigi. Í nýju lögunum er hugtakið &háskóli 8 í fyrsta skipti skilgreint í lögum. Stofnun getur talist til háskóla án þess að sinna rannsóknum.

Af átta háskólum á Íslandi eru fimm ríkisreknir og þrír einkaskólar, en þeir hafa heimild til að innheimta skólagjöld. Samkvæmt háskólalöggjöfinni geta einkaaðilar stofnað háskóla að fengnu samþykki menntamálaráðherra, sem veitir þeim starfsleyfi. Um ríkisrekna háskóla eru sett sérstök lög, sem taka mið af stærð og starfsemi hvers þeirra. Skólarnir hafa mikið sjálfstæði í eigin málum en allir starfsmenn þeirra eru ráðnir af rektorum skólanna og menntamálaráðherra skipar fulltrúa sína í háskólaráð. Jafnt ríkisreknir skólar sem einkaskólar njóta opinberra fjárveitinga á grundvelli þjónustusamninga.

Í háskólalöggjöfinni er kveðið á um að skólarnir njóti sjálfstæðrar fjárveitingar á fjárlögum og að ráðherra geri tillögur um þær á grundvelli fjárhags- og starfsáætlana hvers skóla. Hafa þegar verið gerðir samningar til þriggja ára um greiðslu kennsluskostnaðar við tvo fjölmennustu háskólana. Með samningunum er sett það markmið, að rekstrargrundvöllur háskólanna skuli á næstu árum tryggður þannig að hann sé svipaður og hjá norrænum háskólum með sambærilegt hlutverk, enda fullnægi skólarnir þeim kröfum sem gerðar eru í samskonar námi í viðmiðunarskólunum.

Samningurinn er byggður á reiknilíkani, þar sem miðað er við mismunandi kostnað við kennslu eftir námsgreinum innan skólans og á grundvelli þreyttra eininga á hverju ári. Kostnaður við rannsóknir er nú reiknaður sem ákveðið hlutfall kennslukostnaðar, en unnið er að gerð samnings á milli ríkis og háskóla um þennan þátt í starfsemi skólanna. Markmiðið er að öll starfsemi háskóla verði bundin með sérstökum þjónustusamningum á milli ríkis og stofnunar.

Í íslenska háskólakerfinu greiða nemendur í ríkisháskólum ekki skólagjöld en nemendur þar greiða tiltölulega lág skráningargjöld, eða 25.000 íslenskar krónur. Í sérlögum og skipulagsskrám hvers háskóla eru settar reglur um gjaldtöku af nemendum. Í sérlögum ríkisháskóla kemur fram að háskólum sé einungis heimilt að taka gjöld fyrir þjónustu sem telst utan þeirrar þjónustu sem skólanum er skylt að veita. Nemendur í einkareknum háskólum borga skólagjöld eins og áður sagði. Háskólum er heimilt að taka gjöld fyrir endurmenntun og fullorðinsfræðslu, og er sú þjónusta að stórum hluta fjármögnuð með gjaldtöku af nemendum.

Háskólar hafa tök á að afla sér tekna með öðrum hætti en á grundvelli samnings um opinberar fjárveitingar og má til dæmis nefna, að í Háskóla Íslands eru sértekjur um 38% af rekstrartekjum skólans. Stærstu sértekjuliðir hans eru af happdrætti sem skólinn rekur og erlendir og innlendir styrkir, mest rannsóknarstyrkir.

Á Íslandi eins og annars staðar verðum við að taka tillit til þess, að háskólar keppa innbyrðis án tillits til þjóðernis en þeir standa misvel að vígi vegna hinna almennu leikreglna, sem gilda og eru mismunandi eftir löndum. Sumir skólar eru reknir eins og fyrirtæki, aðrir eins og ríkisstofnanir. Þá eru fyrirtæki einnig farin að starfrækja eigin háskóla og loks eru menn víða hættir að tala um skóla og vilja frekar ræða um menntunarfyrirtæki.

Íslenskum háskólum hafa verið sköpuð nútímaleg starfsskilyrði með nýjum lögum, auknu sjálfstæði og markvissum árangursstýrðum aðferðum við fjárveitingar. Sjóndeildarhringurinn spannar heiminn allan, því að fjarlægðir eru orðnar að engu. Sérhver þjóð verður þó að móta menntastefnu í samræmi við stöðu sína og markmið. Öll verðum við að átta okkur á því, hvernig háskólar geta best sinnt óskum og væntingum nemenda, miðlað þeim þekkingu og þjálfað í vísindalegum vinnubrögðum við úrvinnslu fjölbreyttra verkefna.

Góðir áheyrendur!

Þegar Íslendingar fóru með forystu í norrænu samstarfi á síðasta ári, var ákveðið að halda þrjár ráðstefnur um menntamál. Í fyrsta lagi um meginlínur í símenntun á norrænum og alþjóðlegum vettvangi og var hún í Kaupmannahöfn í júní 1999. Í öðru lagi um mat á skólastarfi sem var í Reykjavík í nóvember 1999. Þriðja ráðstefnan skyldi fjalla um fjármögnun háskóla og hefst hún hér í dag.

Stjórnar- og ráðgjafanefnd norrænu ráðherranefndarinnar um háskólamál, HÖGUT hafði frumkvæði að þessari ráðstefnu en Norræna ráðherranefndin og menntamálaráðuneytið hafa undirbúið hana. Vil ég þakka það starf allt. Við höfum fengið fyrirlesara frá Englandi, Hollandi og Kanada til að fræða okkur og stækka sjóndeildarhringinn, býð ég þá sérstaklega velkomna og fagna áhuga þeirra á því að koma hingað.

Það er von mín að ráðstefnan verði árangursrík og leggi grunn að frekara samstarfi Norðurlandanna um þróun háskólastigsins til næstu ára. Ég segi hana setta.