1.1.2000

Menningarárið 2000, Perlan, gamlárskvöld

Menningarárið 2000
gamlárskvöld í Perlunni 1999.

Öll eigum við sterkar minningar tengdar gamlárskvöldi. Ár eftir ár erum við vön að hitta fjölskyldu og vini, fara að brennum og sjá síðan himininn fyllast af flugeldum, þegar gamla árið er kvatt og nýju fagnað. Fá kvöld ársins mótast af meiri vanafestu.

Að þessu sinni höfum við hins vegar ákveðið að breyta út af vananum og hittast á góðri hátíð hér í Perlunni. Öll vitum við hvers vegna, Reykjavík er að taka við hinum virðulega titli: Menningarborg Evrópu. Margir hafa lagt á sig lengra ferðalag en við Reykvíkingar til að taka þátt í hátíðinni. Við fögnum 80 ungmennum frá átta menningarborgum Evrópu, sem leggja leið sína á þessum tímamótum til Íslands og mynda kórinn Raddir Evrópu, það verkefni menningarársins 2000, sem lyftir merki Reykjavíkur og Íslands hvað hæst og hefur þegar hlotið mikla alþjóðlega viðurkenningu.

Sigurður Nordal prófessor komst þannig að orði, að vaninn myndaði að mörgu leyti máttarviðina í lífi einstaklings og þjóðfélags, sem alls ekki yrði án verið. Og hann sagði einnig, að með vanans hjálp gæti hinn veiklyndi orðið svo sterkur, að enginn sjái veikleik hans. Af þessum orðum gætum við dregið þá ályktun, að með því að bregða út af vana okkar í kvöld værum við bæði að vega að máttarviðunum og afhjúpa eigin veikleika.

Í raun gerum við þó hvorugt. Við komum saman vegna óvenjulega merks atburðar og til að staðfesta þann styrk, sem felst í máttarviðum íslensks þjóðfélags, þegar aldamótaárið 2000 gengur í garð, árið, sem tengir þar að auki tvö árþúsund. Einstakt merkisár í Íslandssögunni, þegar minnst er kristnitöku, landafunda og síðast en ekki síst efnt til mestu menningarhátíðar, sem nokkru sinni hefur verið til stofnað af Íslendingum.

Sumir spyrja, til hvers allt þetta umstang. Hverju skilar það mér eða þjóðinni í aðra hönd? Hvers vegna þessi áhersla á listir, sögu og menningu?

Þegar að er gáð eru svörin einföld. Án sögu og menningar værum við sundurleitur hópur í leit að uppruna og sameiningartákni. Fagrar listir snerta tilfinningar okkar, sköpunarmátt, skilning, vellíðan og innri þrótt. Án fagurra lista er andinn fátækari og við stæðum verr að vígi gagnvart öllum viðfangsefnum daglegs lífs.

Góðir áheyrendur!

Gefum okkur tóm til að lyfta andanum, gleðjast og njóta þess, sem er fagurt og mótast af listrænum skapandi krafti. Í hátíðarskapi er gott að búast til sóknar á nýrri öld og árþúsundi, full atorku, bjartsýni og gleði. Hátíð er til heilla best, þess vegna komum við saman hér í kvöld og göngum inn í árið 2000.

Gleðilegt menningarár - gleðilega hátíð - farsæld á 21. öldinni.