14.10.1995

Sýning á grafíkverkum eftir Dieter Roth

Ávarp við upphaf sýningar Dieter Roth í Gerðarsafni, Kópavogi
14. október 1995

Mér er ánægja að fá tækifæri til að ávarpa ykkur hér í dag. Ánægjan er af tvennum toga. Í fyrsta lagi að vera hér í þessu glæsilega safni, sem er kennt við Gerði Helgadóttur. Og í öðru lagi að opna þá sýningu sem hér er nú að hefjast.

Gróskan í myndlistarlífinu fer ekki fram hjá neinum. Umgjörðin, sem hér hefur verið sköpuð um myndverk og listviðburði er til fyrirmyndar. Engum blandast hugur um að Dieter Roth á mikinn þátt í þróun íslenskrar myndlistar, frá því að hann kom hingað fyrst fyrir um það bil 40 árum. Hann hefur markað skýr spor í íslenskri listasögu og jafnvel þáttaskil. Dieter Roth hefur kynnt hér ný listviðhorf og veitt nýjum og ferskum straumum inn í íslenskt listalíf á sjöunda áratugnum og einnig opnað með verkum sínum augu ungu kynslóðarinnar fyrir nýjum leiðum og aðferðum í list sinni.

Listamanninum hefur verið lýst með þessum hætti: ljóðskáld og rithöfundur, gerninga- og kvikmyndagerðarmaður, dansari, hönnuður og þrykkmeistari, myndhöggvari, tónsmiður, kennari, útgefandi bóka, tímarita, myndbanda og hljómplatna. Er augljóst af þessu, að Dieter Roth er margt til lista lagt og áhrifa hans gætir á mörgum sviðum.

Í tilefni 100 ára afmælis Seyðisfjarðar var á síðasta sumri efnt til mikillar listsýningar þar. Var ævintýri líkast að fara úr einu húsi í annað og skoða það, sem þar var að sjá. Hvað eftirminnilegast var að koma í neðri hluta Engros, hús netagerðarinnar að Hafnargötu 37 og ganga þar inn frá bryggjunni á sýningu Dieter Roth.

Þar mátti sjá tvö litskyggnuverk í tveimur hlutum. Annars vegar 2 myndir af öllum húsum á Seyðisfirði, teknar að vetri og sumri og hins vegar myndir teknar af öllum sjoppum og bensínsölustöðvum við hringveginn líka að vetri og sumri. Seinna verkið var ófullgert, þegar ég sá það, eða hluta þess á Seyðisfirði. Gafst ekki tími til að staldra við, á meðan allar litskyggnurnar runnu í gegnum sýningarvélarnar.

Dieter Roth rekur áhuga sinn á því að ljósmynda íslensk hús til þess, að á sínum tíma vildi hann festa Múlakampinn í Reykjavík á filmu til að sýna það arkitektúrundur öðrum áhugamönnum um húsagerðarlist. Hann hafði hins vegar ekki efni á því þá að kaupa sér filmur til að mynda kampinn, þegar fjárhagurinn hafði batnað voru braggarnir hins vegar horfnir. Árið 1970 hóf hann að taka myndir af húsum í Reykjavík með sonum sínum og fleirum og eru þær nú 30.000, tvö litskyggnuverk, í eigu Nýlistasafnsins eins og þær grafíkmyndir sem eru hér á þessari sýningu.

Ég dreg athygli að þessum litskyggnuverkum eftir Dieter Roth og samstarfsmenn hans, til að lýsa aðdáun á ótrúlegri hugmyndaauðgi, þar hefur hlutum, húsum og sjoppum, sem við höfum alltaf fyrir augum, verið breytt í nýstárlegt listaverk.

Þótt ég sé ekki sérfróður um listasöguna, leyfi ég mér að fullyrða, að með þessu verki hafi Dieter Roth brotið í blað. Hann sýnir með því, að honum er einstaklega lagið að nýta þá hluti til listrænnar sköpunar, sem við lítum alls ekki þeim augum. Mér finnst því að segja megi, að hann hafi ekki aðeins haft mótandi áhrif á íslenska listamenn. Honum hefur ekki síður tekist að opna augu og skynjun okkar áhorfendanna, gera okkur ljóst, að við getum skoðað hversdagslega hluti frá nýjum sjónarhóli og notið þeirra með nýjum hætti. Þetta er ekki lítill hæfileiki og ástæða til að þakka fyrir að hafa fengið að njóta hans.

Þessi sýning hér, byggist á annars konar verkum en þeim, sem ég hef lýst. Við sjáum hér meira en 200 grafíkmyndir. Þar er að finna meginstofninn í höfðinglegri gjöf listamannsins til Nýlistasafnsins á undanförnum 13 árum. Verkin tala sínu máli en gjöfin sýnir hlýhug listamannsins í garð íslenskrar myndlistar og þeirra, sem þar hafa ótrauðir fetað inn á nýjar brautir.

Með þessum orðum opna ég sýninguna og óska Nýlistasafninu og Listasafni Kópavogs til hamingju með hana. Jafnframt vil ég óska okkur Íslendingum til hamingju með að Dieter Roth skuli hafa gefið okkur svo mikið af list sinni.