3.9.1995

Ávarp á 70 ára afmæli skólahalds á Laugum

Ávarp á Laugum í tilefni af 70 ára afmælis samfellds skólastarfs á Laugum
3. september 1995

Góðir áheyrendur.

Í upphafi máls míns vil ég óska þeim, sem staðið hafa að samfelldu skólastarfi á Laugum í sjötíu ár innilega til hamingju með daginn.

Skólarnir á Laugum hafa komið mörgum til góðs þroska. Héðan hafa legið straumar mennta og menningar um allt þjóðlífið.

Kunningi minn, sem kom hingað fyrir sextíu og fimm árum hafði orð á því við mig, að enn væri í huga sér mynd af þeirri reisn sem hér var þá og einlægum áhuga skólastjóra og heimamanna á því, að skólastarfið dafnaði. Skólinn er sprottinn úr umhverfi sínu en á ekki upphaf í opinberri forsögn. Enn er hann ekki aðeins þungamiðja í byggð og mannlífi hér heldur hefur hann skotið sjötíu ára rótum sem teygja sig um land allt.

Kröfur hafa breyst á þessum sjötíu árum. Þær snúa nú í ríkara mæli en áður að ríkisvaldinu, þegar rætt er um fjármál. Að því er innra starf í skólum varðar, eiga nemendur kröfu til þess, að þeir séu ekki leiddir inn á blindgötur heldur falli nám þeirra að skólakerfinu í heild.

Nú ber svo við, að menntamálaráðuneytinu hafa borist óskir bæði héðan frá Laugum og Framhaldsskólanum á Húsavík um úttekt á skólastarfi. Hér er hvorki staður né stund til að svara þeim beiðnum. Ég vil þó leyfa mér að minna á, að athugun, sem hefur verið gerð fyrir mig í menntamálaráðu-neytinu, leiðir í ljós, að framhaldsskólarnir hér og á Húsavík hafa nokkra sérstöðu í stjórnkerfinu að því leyti, að sveitarfélög hafa ekki tekið höndum saman um rekstur þeirra með sama hætti og í öðrum kjördæmum. Við úttekt á skólunum báðum hlýtur að verða hugað að rökunum fyrir þessari sérstöðu.

Af hálfu menntamálaráðuneytisins er Framhaldsskólinn á Laugum nú skilgreindur sem 2ja ára skóli með heimild fyrir 3ja ára ferðamálabraut og íþróttabraut samkvæmt sérstakri námsskrá. Hefur verið við það miðað af ráðuneytinu, að nemendur, sem lykju námi við skólann annað hvort 2ja ára almennu bóknámi eða námi á annarri hvorri áðurnefndra sérbrauta gætu haldið áfram námi til stúdentsprófs á Akureyri eða Húsavík. Starf í skólanum hefur þróast á nokkurn annan veg, raunar án formlegs samþykkis ráðuneytisins.

Mín skoðun er sú, að ekki hafi verið nægilega vel um hnúta búið, þegar breyting varð á skólahaldi hér við brotthvarf Héraðsskólans og Húsmæðraskólans og framhalds-skólinn kom til sögunnar 1988. Allar götur síðan hafi menn rekið skóla hér frá ári til árs, ef ég má orða það svo, og reynt að bjarga sér eftir bestu getu, án þess að hafa nokkra vissu um annað en að starfsemi skólans væri í stöðugri endurskoðun. Eru það óneitanlega stundum óljósar forsendur og má segja, að það beri enn mikilli þrautseigju og sönnum áhuga heimamanna á velferð skólans vitni, að hann skuli hafa haldið áfram að dafna við þessar aðstæður.

Ég vil á þessari hátíðarstundu lýsa yfir vilja til að koma til móts við óskir Hjalta Jóns Sveinssonar skólameistara um að hugað verði að breytingum á skólastarfinu með það að leiðarljósi að gera það markvissara og hagkvæmara. Ég tel, að framhaldsskólinn á Laugum hafi en hlutverki að gegna. Hann stuðlar að nauðsynlegri fjölbreytni í skólahaldi. Á þeim tímum, þegar kröfur eru miklar um aðhald í ríkisrekstri, er hins vegar ekki unnt að leyfa sér mikinn hugsjónalegan munað heldur verða menn einnig að geta kynnt önnur sterk rök fyrir óskum um ríkisútgjöld.

Þótt stjórnvöld menntamála hafi sitt að segja um framtíð skólahalds hér á Laugum megna þau lítils, ef heimamenn leggja málinu ekki lið. Um góðan hug þeirra er með öllu ástæðulaust að efast. Ég vil hins vegar hvetja sveitarfélögin til að huga að því að taka höndum saman um skólana báða, hér og á Húsavík. Átakið léttist eftir því sem fleiri leggja hönd á plóginn.

Ákvarðanir um framtíð skóla er ekki unnt að taka án þess að litið sé til umhverfis þeirra og aðstæðna allra. Þetta á jafnt við um skólann hér og annars staðar. Í tilefni af því að nú eru sjötíu ár liðin frá því að samfellt skólastarf hófst hér á Laugum er vel við hæfi að ítreka það markmið, að áfram geti menn leitað hingað góðrar menntunar í samræmi við almenna skólastefnu og héðan berist áfram sterkir straumar um þjóðlífið allt. Skólinn er hornsteinn samfélagsins á Laugum og mikilvægur hlekkur í þeirri keðju góðra menntastofnana, sem við viljum reka um landið allt.