18.5.1995

Alþingi 18. maí 1995 í umræðum um stefnuræðu forstætisráðherra

Ræða á Alþingi í umræðum um stefnuræðu forstætisráðherra.
18. maí 1995

Herra forseti, góðir Íslendingar.

Annað ráðuneyti Davíðs Oddssonar er myndað til að tryggja traust, öryggi og festu á öllum sviðum þjóðlífsins. Að baki ríkisstjórninni stendur mikill meirihluti þingmanna og hið sama má segja um stuðning hennar meðal þjóðarinnar, hann er ótvíræður.

Hér á Alþingi standa stjórnarflokkarnir tveir, stærstu flokkar þjóðarinnar, frammi fyrir stjórnarandstöðu, sem er sundruð og sundurleit. Þó er það í raun yfirlýst markmið allra forystumanna hennar að sameinast undir einu merki og helst í einum flokki. Umræðurnar hér í kvöld hafa enn sýnt okkur, að þessir flokkar hafa lítið tíl mála að leggja, þegar hagsmunir þjóðarinnar eru í húfi. Þeir eru nú eins og svo oft áður með hugann við vandræði flokka sinna, baráttu innan þeirra og veika stöðu.

Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Alþýðubandalagið, verður á næstu mánuðum bundinn við innbyrðis átök vegna formannskjörs. Í málgagni flokksins, Vikublaðinu, birtist í síðustu viku grein eftir ritstjóra þess, þar sem segir meðal annars: "Íslenskir sósíalistar eiga í erfiðleikum með fortíðina vegna þess að þeir höfðu ekki döngun í sér til að horfast í augu við eðli hugmyndafræðinnar sem elstu flokksfélagarnir ánetjuðust á þriðja áratugnum." Í þessum orðum felst mikilvæg viðurkenning á nauðsyn þess, að Alþýðubandalagið geri upp við hina sósíalísku fortíð. Innan flokksins fer ekki einungis fram barátta um nýjan formann heldur einnig við pólitískan fortíðarvanda.

Vegna klofnings er Alþýðuflokkurinn í sárum og Kvennalistinn virðist hafa tapað hugmyndafræðilegri fótfestu.

Nauðsynlegt er að hafa þessa mynd af stjórnmálastöðunni í huga, þegar rætt er um stefnu ríkisstjórnarinnar. Í henni felst andstæða þeirrar upplausnar, sem einkennir stjórnarandstöðuna. Þegar þetta er sagt, er nauðsynlegt að árétta mikilvægi málefnalegrar stjórnarandstöðu í lýðræðisþjóðfélagi. Það er áhyggjuefni, ef svo er komið hér, að þessi andstaða er í raun ekki fyrir hendi á Alþingi.

Í ræðu sinni komst hæstvirtur forsætisráðherra þannig að orði: "Fjárfesting í menntun og þekkingu er líklegri til að skila arði en fjáresting í sumum öðrum þáttum hefbundinnar framleiðslu og þjónustu." Undir þessi orð tek ég heilshugar. Þegar þau eru skoðuð, vaknar sú spurning, hvort við nálgumst ekki umræður um mennta- og skólamál, vísindi, rannsóknir og menningu á röngum forsendum með því að kenna ráðuneyti þessara mála við útgjöld. Í þeirri skilgreiningu felst, að við séum að verja skattfé almennings með frekar neikvæðum hætti. Mörk eru dregin á milli atvinnuvegaráðuneyta, sem kennd eru við sjávarúntveg, iðnað, landbúnað og viðskipti, og útgjaldaráðuneyta en undir það heiti er menntamálaráðuneytið meðal annars flokkað. Oft má skilja umræðurnar þannig að í fyrri flokknum séu ráðuneyti, sem skapa tekjur og atvinnu, en hinum síðari þau, sem eyða opinberum fjármunum.

Í hinum tilvitnuðu orðum talar hæstvirtur forsætisráðherra réttilega um útgjöld til menntunar og þekkingar sem fjárfestingu. Hér er ekki um eyðslu eða óþörf útgjöld að ræða. Ég er raunar þeirrar skoðunar, að menntamálaráðuneytið sé eitt helsta atvinnuvegaráðuneyti okkar, þegar grannt er skoðað. Þar vísa ég ekki aðeins til þeirra þúsunda að tugþúsunda, sem starfa í skólunum, heldur til hins mikla gildis, sem menntun og þekking hefur fyrir atvinnu hér og hvarvetna annars staðar.

Ferðaþjónusta er vaxandi atvinnugrein. Í Viðskiptablaðinu í gær birtist úttekt á ferðaþjónustunni. Í forystugrein blaðsins segir meðal annars af því tilefni: "Íslensk ferðaþjónusta er þversagnakennd starfsgrein. Í aðra röndina er hún talin aðal vaxtarbroddur íslensks atvinnulífs, á hinn bóginn einkennist hún af ónógum upplýsingum og vankunnáttu. Öll upplýsinga- og rannsóknarvinna er í molum, nánast engin tölfræði er til, ekkert er vitað um þá ferðamenn sem hingað koma. Upplýsingar eru þó undirstaða alls, markaðssetningar, áætlunargerðar, skipulagninar og fjárfestingar."

Ekki er vitnað til þessara orða hér til að taka undir dóminn, sem í þeim er felldur. Á hinu er vert að vekja rækilega athygli, að lausnin á vandanum felst að mati blaðsins í auknum rannsóknum og þekkingu. Þetta á ekki aðeins við um ferðaþjónustuna heldur alla atvinnustarfsemi. Hún fær ekki þrifist sem skyldi nema hugað sé að þessu grundvallarþáttum.

Við blasir að taka stefnumarkandi ákvarðanir varðandi menntun, rannsóknir og þróun í sjávarútvegsfræðum. Undir það hugtak fellur allt, sem lýtur að sjálfri undirstöðu íslenska hagkerfisins, útgerð, fiskvinnslu og sölu afurðanna. Matvælarannsóknir verða æ mikilvægari til að nýta takmarkað sjávarfang vel og í því skyni að selja það fyrir sem hæst verð. Rígur milli byggðarlaga eða stofnana má ekki standa í vegi fyrir því, að hagkvæmustu leiða sé leitað, þegar þessar stefnumarkandi ákvarðanir eru teknar. Í þessu efni á að hafa að leiðarljósi, að Íslendingar verði í forystu á heimsmælikvarða og með hliðsjón af því hlýtur að koma til álita að stofna hér sjávarútvegsskóla í samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar.

Menntunin er að verða sífellt alþjóðlegri. Samstarf milli þjóða í menntamálum er ekki lengur bundið við háskólanám. Það nær til fleiri skólastiga. Nýlega hófst þátttaka okkar Íslendinga í samstarfi aðildarríkja Evrópusambandsins um starfsmenntun, sem nær til framhaldsskóla. Með aðildinni að evrópska efnahagssvæðinu hafa okkur opnast nýjar dyr í menntamálum og nú verður einnig farið að fikra sig inn að svið menningarmála á þeim vettvangi.