15.5.1995

Aðalfundur SAMFOKS 15. maí 1995

Góðir áheyrendur!

Ég þakka fyrir að vera boðinn hingað í kvöld til að ræða við ykkur um skólamál og hlut foreldra. Er þetta raunar fyrsta opinbera tækifærið, sem ég fæ til að ræða sérstaklega um menntamál, eftir að ég tók við ráðherraembætti fyrir þremur vikum.

Sá tími hefur liðið fljótt, enda eru verkefnin mörg. Mér hefur þó gefist tækifæri til að hitta forystumenn Foreldrasamtakanna og Heimilis og skóla. Voru þeir fundir fróðlegir fyrir mig og er það einlæg von mín, að það takist að þróa gott samstarf milli ráðuneytis menntamála, foreldra og kennara. Aðeins með þeim hætti er skólastarfi búið það umhverfi, sem er nemendum við hæfi og gerir þeim kleift að ná mikilvægum markmiðum sínum og okkar allra, að hér á Íslandi búi vel menntuð þjóð. Án menntunar og háleitra markmiða í skólamálum, rannsóknum og vísindum mega þjóðir sín lítils í vaxandi alþjóðlegri samkeppni.

Ég er ekki kominn hingað á þessari stundu til að boða nýja menntastefnu. Þessi yfirlýsing þýðir ekki, að ég telji okkur Íslendinga hafa komist á lokastig í þróun og mótun slíkrar stefnu, heldur hitt, að innan þess ramma, sem mótaður hefur verið á undanförnum árum, sýnist mér, að ná megi þeim árangri, sem að er stefnt. Það tekst hins vegar ekki með fyrirmælum frá stjórnvöldum eða stjórnmálamönnum heldur með samstilltu átaki, þar sem foreldrar gegna mikilvægu hlutverki.

Þegar ég starfaði sem blaðamaður, vakti ég stundum máls á því á þeim ágæta vinnustað, að mér þætti næsta lítið fjallað um skóla- og menntamál í almennum fréttum. Athyglin beindist frekar að öðrum atvinnugreinum, sjávarútvegi, landbúnaði, iðnaði, verslun- og viðskiptum, en skólarnir sætu á hakanum. Um þá væri helst ekki fjallað nema þegar um vandamál væri að ræða, sem oft eru mjög persónubundin, þegar litið er til þessara fjölmennustu vinnustaða landsins.

Ég er enn sömu skoðunar. Mér finnst, að umræður um íslensk skólamál séu of litlar og of neikvæðar. Starfsemi skóla er ekkert einkamál kennara eða sérfræðinga í uppeldis- og kennslufræðum. Hún snertir alla landsmenn og árangur í skólastarfi ræður mestu um það, hvernig þjóðin stendur sig í samfélagi þjóðanna. Ég held, að sú ímynd, sem menn fá af menntamálum vegna of lítilla umræðna um hið mikla og jákvæða skólastarf á Íslandi, ýti undir þann hættulega misskilning, að opinbert fé, skattfé almennings, til mennta og menningar renni í botnlausa hít. Hér er að mínu mati ekki um eyðslu eða sóun á takmörkuðum fjármunum að ræða heldur fjárfestingu í þeirri auðlind, sem er mikilvægari en auðæfi lands og sjávar, þegar grannt er skoðað.

Í þessu efni tel ég mikið verk að vinna. Er ég þeirrar skoðunar, að með virku samstarfi skólayfirvalda, foreldra og kennara sé unnt að breyta forsendum umræðna um skóla- og menntamál. Við þurfum að nálgast viðfangsefnið með jákvæðu hugarfari og með þá einföldu staðreynd í huga, að öll stefnum við í raun að sama markmiði, þótt okkur greini ef til vill á um leiðir. Sé ágreiningur eru viðræður og skoðanaskipti besta aðferðin til að jafna hann og mun ég beita mér fyrir því, að foreldrar eigi fulltrúa í slíku samráði á vettvangi menntamálaráðuneytisins, þegar því verður við komið. Með það í huga vil ég leggja áherslu á nauðsyn þess, að foreldrar skipuleggi samstarf sitt með þeim hætti, að ráðuneytið geti leitað til formlegra samtaka þeirra, þar sem forystumenn hafa ótvírætt umboð á grundvelli eðlilegra starfsreglna.

Skömmu áður en fundum Alþingis lauk og kosningabaráttan hófst, voru samþykkt ný lög um grunnskóla (nr. 66/1995). Þar er mælt fyrir um það, að sveitarfélögin taki að sér að halda skóla fyrir öll börn og unglinga á aldrinum 6 til 16 ára. Með öðrum orðum flyst grunnskólinn frá ríki til sveitarfélaga og er ráðgert, að það gerist frá og með 1. ágúst 1996. Þetta viðamikla verkefni mun setja mikinn svip á umræður um skólamál næstu mánuði. Innan menntamálaráðuneytisins er unnið að framkvæmd laganna í samvinnu við alla, sem koma að þessum viðamikla flutningi. Er þar í mörg horn að líta og nauðsynlegt að taka á mörgum viðkvæmum málum, sem snerta ekki aðeins skólastarfið heldur einnig kjara- og réttindamál kennara og samskipti ríkis og sveitarfélaga. Á ég von á því, að næstu daga verði kynnt verkáætlun um þetta mál og hvernig skipulagi starfsins verður háttað.

Í 2. grein hinna nýsamþykktu laga um grunnskóla segir meðal annars: "Hlutverk grunnskólans, í samvinnu við heimilin, er að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Starfshættir skólans skulu því mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi. Skólinn skal temja nemendum víðsýni og efla skilning þeirra á kjörum fólks og umhverfi, á íslensku þjóðfélagi, sögu þess og sérkennum og á skyldum einstaklingsins við samfélagið."

Þetta háleita markmið er hið sama og í grunnskólalögunum frá 1991. Ástæða er þó til að minna á það, ekki síst, að lögum samkvæmt ber grunnskólanum að gegna þessu hlutverki sínu í samvinnu við heimilin. Þar er beinlínis skírskotað til samvinnu við foreldra. Það er því sameiginlegt hlutverk kennara og foreldra að búa nemendur í grunnskóla undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi, sem er í sífelldri þróun.

Í nýju lögunum eru óbreytt ákvæði, um að sveitarstjórnir kjósi skólanefndir í upphafi hvers kjörtímabils. Fulltrúi foreldra á rétt til setu á skólanefndarfundum með málfrelsi og tillögurétti. Er það foreldrafélag eða samtök foreldra í skólahverfinu, sem kýs úr sínum hópi einn fulltrúa til að starfa með skólanefnd og einn varamann.

Nýju lögin auka hins vegar hlutdeild foreldra í skólastarfi. Þar er mælt fyrir um það nýmæli, að við hvern grunnskóla starfi foreldraráð (16. gr). Er skólastjóri ábyrgur fyrir stofnun þess, en í ráðinu sitja til tveggja ára í senn þrír foreldrar sem ekki eru starfsmenn skólans og velja foreldrar við grunnskóla þessa fulltrúa sína.

Foreldraráð fjallar um og gefur umsögn til skólans og skólanefndar um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða skólahaldið, fylgist með að áætlanir séu kynntar foreldrum, svo og með framkvæmd þeirra. Skólastjóri starfar með foreldraráði og veitir því upplýsingar um starfið í skólanum. Þetta nýmæli er í samræmi við þróunina á undanförnum árum, því að það er greinilegt að foreldrar eru almennt að vakna til vitundar um rétt sinn og skyldu til afskipta af skólamálum. Ekki skal dregið úr mikilvægi starfs foreldrafélaga fram til þessa. Þau hafa verið vettvangur fyrir foreldra til að ræða málefni skólans og barna sinna og til að vinna að ýmsum hagsmunamálum skólans. Foreldrafélög hafa sinnt fjáröflun, umferðarmálum, leikvöllum, félagslífi nemenda og fleiru, oft með frábærum árangri. Smám saman hefur frumkvæði foreldra varðandi skólastarfið sjálft verið að aukast. Er greinilegt, að þeir vilja eiga mun meiri þátt í umfjöllun um mál eins og stundaskrár, námsefni, fjölda nemenda í bekk, fjölda kennslustunda, kennslutæki og markmið náms og kennslu.

Ljóst er, að heildarsamtök foreldra hafa hleypt nýju blóði í skólamálaumræður. Landsamtökin Heimili og skóli og Foreldrasamtökin hafa styrkt enn frekar rödd foreldra og komið óskum þeirra og sjónarmiðum á framfæri. Segja má að SAMFOK hafi brotið ísinn í þessum efnum og eiga samtök foreldra í Reykjavík þakkir skyldar fyrir sinn hlut í að láta rödd foreldra heyrast

Ekki er unnt að framfylgja grunnskólalögunum án náinnar samvinnu við foreldra. Þeir hljóta, næst á eftir börnum, að teljast stærsti hagsmunahópur sem skólakerfið þjónar. Þeim ber í rauninni skylda til að láta sig skólamál varða. Í þessum anda er ákvæðið um foreldraráð sett í lög.

Er afar þýðingarmikið að vel takist til um framkvæmd ákvæðisins um foreldraráð. Vinna verður skipulega að því að koma reglu á vinnubrögð og tryggja að foreldrar noti þennan rétt. Þar duga alls ekki einhliða aðgerðir ráðuneytis eða annarra stjórnvalda. Hér reynir enn á þá samvinnu, sem ég gat í upphafi máls míns. Með samstarfi foreldra og skóla, miðlun upplýsinga og gagnkvæmum skilningi er stuðlað að tengslum tveggja mikilvægustu heima barnsins, heimilis og skóla.